25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svarið við spurningu hv. þm. V-Húnv. (SkG) er mjög einfalt. Það er nauðsynlegt að gera þessa breytingu til þess, að vilji íslenzku þjóðarinnar fái notið sín um skipun Alþingis. Eftir þeim reglum, sem nú gilda, er þjóðarviljinn svo skekktur hér á Alþingi, að það er stórhættulegt fyrir lýðræði og góða stjórnarhætti með þessari þjóð.

Í till. andstæðinga þessa máls er gert ráð fyrir því, að Íslendingar séu misgóðir eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu, að það sé betri og verri hluti Íslendinga til, þannig að það eigi að vera annars flokks lýður meiri hluti þess fólks, sem þetta land byggir. Sú stjórnskipun, sem hefur þetta að undirstöðu, fær ekki til lengdar staðizt með neinu móti.

Við játum, að það er eðlilegt, að fólkið í þéttbýlinu viðurkenni aðra aðstöðu sína með því að hafa að víssu marki hlutfallslega færri þm. en aðrir, ef allir þm. eru kosnir eftir sömu aðferð, þannig að hið staðarlega misrétti leiði ekki til algers flokkslegs ranglætis og ofræðis eins tiltekins flokks. Og það var mjög eftirtektarverð yfirlýsing hv. frsm. minni hl., þm. A-Sk. (PÞ), að hann lýsti því hér yfir, að afleiðing þessa frv. yrði, að héðan í frá mundu, svo langt sem við sjáum, flokkarnir njóta jafnréttis. Þetta er meginkjarni málsins, og baráttan, sem háð er gegn þessu máli, er einmitt vegna þess, að það er verið að standa á móti því, að þetta flokkslega jafnrétti geti átt sér stað.

Svo kemur hið einkennilega, að í öðru orðinu segja þessir hv. þm., að Framsfl. geri þetta frv. ekkert til, hann verði jafnsterkur eftir sem áður. Þetta var í prédikunum þeirra í gær, þetta er í forustugrein Tímans, þeirra aðalmálgagns, í morgun. En þeir segja einnig: Það er verið að halla á dreifbýlið, það er alls ekki verið að halla á okkur. — En þykjast þeir ekki einmitt koma hér fram sem málsvarar og vera hinir einu sönnu málsvarar fólksins, sem í strjálbýlinu býr? Ef þeim gerir þetta ekkert til og þeirra flokkur verður jafnsterkur eftir sem áður, þá fær það ekki staðizt, að þeir séu þeir einu sönnu málsvarar fólksins í strjálbýlinu og að þess hlutur verði skertur á þann veg, sem þeir segja. Þannig stangast allt í þeirra rökfærslu, sem von er, því að hún er tilbúin og á ekki stoð í staðreyndunum eða hinum stjórnmálalegu sannindum, sem hvert þjóðfélag verður að vera byggt upp á, ef vel á að fara.

Hv. þm. A-Sk. sagði í dag: Hið staðarlega misrétti er úr sögunni með þessu, af því að flokkarnir fá jafnrétti. — Það er svo, að það er að vísu, að flokkunum verður tryggt, svo langt sem við sjáum, jafnrétti. En í þeirri skipan, sem upp er tekin, er jafntryggt, að fulltrúarnir verða ekki kosnir af fólkinu í mesta þéttbýlinu nema tiltölulega lítill hluti, heldur eiga þeir það eftir sem áður undir fylgi í strjálbýlinu, hverjir þeirra ná kosningu, ekki síður en undir flokksfylginu.

Því er haldið hér fram, að það sé ekki verið að skapa neinar nýjar einingar. Hv. 5. landsk. þm. (BG) gerði grein fyrir því í sínum orðum áðan, að hér er víssulega verið að skapa eða réttara sagt staðfesta mjög mikilsverðar pólitískar einingar frá því, sem verið hefur, og þess vegna er talið um það, að litlu kjördæmunum, þeim fámennustu, sem verið hafi, sé rangt gert til og þau muni missa sína fulltrúa, — það tal fær með engu móti staðizt, vegna þess að þessi héruð verða hluti af þeirri stærri einingu, sem er verið að mynda. Og ef sérstakir skörungar, eins og ég tilnefndi hér í gær, eru úr þessum litlu kjördæmum, sem verið hafa, þá verða þeir að sjálfsögðu þm. fyrir hið stærra kjördæmi eftir því sem mat flokksfólksins, kjósendanna, sem ákveða framboðið, segir til um. Þá er það ekki búseta hvers þm. innan kjördæmisins eða í kjördæminu, sem ræður, heldur það mat, sem þessi nýja eining hefur á hans hæfileikum. Og það tjáir ekki að miða hér við búsetu. Við vitum, að mikill hluti þm. er búsettur utan þeirra kjördæma, sem þeir eru kosnir úr, og það hefur verið talið, að ef lögskipuð væri búsetuskylda, væri það réttarskerðing gagnvart kjósendum, en ekki réttaraukning.

Varðandi talið um hina gömlu sýsluskipan, þá er með því verið að reyna að skipta þessari fámennustu af öllum sjálfstæðum þjóðum upp í sundurleita hópa, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Ég fullyrði, að sú skipting eftir sýslum, sem hér er talað um og verið að setja svokallaða sjálfstæðisbaráttu sýslnanna til jafns við sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar, að þessi hugsunarháttur á sér enga stoð með þjóðinni. Eins og hér hefur verið bent á hvað eftir annað í umr., er fólkið í þessum sýslum sjálft búið að brjóta af sér, eftir að staðhættir breyttust og atvik öll, hinar fyrri hömlur, ef þær nokkurn tíma hafa verið. Þess samtök ná langt út yfir sýslurnar, hagsmunir og margs konar áhugamál verða ekki lengur með neinu móti bundin við þessi gömlu skatthéruð konunganna.

Veikleiki sjálfrar röksemdafærslu andstæðinga þessa máls birtist bezt í því, að nú, þegar þeir loksins bera fram tillögu um, hvað þeir sjálfir vilji, og gera þó þann fyrirvara á, að þetta sé alls ekki sín meining, svo að við í raun og veru vitum enn þá ekkert, hvað það er, sem þessir menn í raun og veru eru að berjast fyrir, þá sleppa þeir að láta öll þessi blessuð sýslufélög fá sinn fulltrúa. Af hverju leggið þið ekki til, að Barðastrandarsýslu sé skipt eftir sýslufélögum alveg eins og Gullbringu- og Kjósarsýslu er skipt? Barðastrandarsýsla hefur a.m.k. um hálfa öld skipzt í tvö sýslufélög, fjárhagslegar heildir, menningarlegar og allt hvað þeir telja nú upp, að hvert sýslufélag mundi vera. Hitt er svo annað mál, að enginn nema einstaka, ja, ég vil segja fræðimaður, veit, að Barðastrandarsýsla er í raun og veru tvö sýslufélög, utan þessa héraðs sjálfs, og það er enginn skilsmunur á fólkinu eftir því, í hvorri sýslunni hvort um sig er. Og ég vil spyrja hv. þingheim: Hve margir ykkar vitið sýslutakmörkin milli Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem þó eru hér í okkar næsta nágrenni? Og hverjum dettur í hug, að sérstakt sýslureikningshald þessara tveggja héraða hafi nokkur áhrif á menningu, fjárhag eða líf fólksins í þessum héruðum? Við vitum, að sú rökfærsla, sem á öðru eins byggist, er tilbúin og á sér enga stoð í veruleikanum, eins og einnig kemur fram í því, að hv. andstæðingar sleppa ekki aðeins Barðastrandarsýslu, þeir sleppa einnig Bolungavík, sem nú er sérstakt sjálfstjórnarfélag með sinn sérstaka lögreglustjóra og sveitarstjórn. Þeir sleppa Sauðárkrókskaupstað, þeir sleppa Ólafsfirði, þeir sleppa Húsavík, þeir sleppa Neskaupstað, sem a.m.k. mörg eru ámóta mannmörg og t.d. Kjósarsýsla og Borgarfjarðarsýsla. Ef þeir vildu fara eftir þessari skiptingu, sem þeir segjast vilja fara eftir og vilja allt byggja á, þegar þeir segja, að ekki sé hægt að skipta Reykjavík niður í fleiri kjördæmi, þá yrðu þeir vitanlega að láta hvert af þessum sveitarfélögum fá sinn sérstaka þingmann.

En það er vissulega tími til þess kominn, að Framsfl. láti sér ekki nægja að gagnrýna það, sem aðrir koma fram með í þessu máli, heldur segi hreinlega, hvað það er, sem þið sjálfir viljið. Við erum hér allir þm. búnir að leita eftir samkomulagi við ykkur um þetta mál. Sá flokkur, sem ég tilheyri, við höfum tjáð okkur fúsa til þess að semja, hvort heldur um einmenningskjördæmi á öllu landinu eða um nokkur stór kjördæmi. Við hvoru tveggja kom blábert nei. Í dag heyrum við, að hv. frsm. segir: Það má alls ekki marka okkar brtt. um það, að það sé okkar meining. Nei, það er nú eitthvað annað. — Hvenær á leyndardómurinn að birtast?