25.04.1959
Neðri deild: 116. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónason:

Hv. 5. þm. Reykv. hélt áfram að gefa í skyn, að Sjálfstfl. hefði slysazt inn á þessa leið í kjördæmamálinu, vegna þess að Framsfl. hefði ekki gætt hans nógu vel, ekki verið nógu vel á verði um að hnippa í hann um, að það ætti að fara aðra leið. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði um þetta hér áðan. Ég hygg, að það hafi verið alveg nægilega skýrt til þess að skýra viðhorfið að þessu leyti.

En að lokum vil ég aðeins segja þetta út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. tók fram: Hann sagði, að það væri ástæðulaust að vera að tala hér nokkuð um það, að það ætti að leggja sýslurnar niður eða nokkur hefði slíkt í huga, það væru engin ákvæði um það í þessu frv. Ég held, að þeir, sem hafa hlustað á þær umræður, sem hér hafa átt sér stað, og heyrt þann tón, sem talað er í um sýslurnar, séu ekki í miklum vafa um það, hvað forráðamenn fyrir þessari áætlun álíta um sýslurnar. Það er rétt, að það er ekkert ákvæði um það í þessu frv., að það skuli leggja sýslurnar niður. Það var heldur ekkert ákvæði um það í stjórnarskrárbreytingunni, þegar uppbótarþingsætin voru lögleidd, að það skyldi leggja niður kjördæmin. Og það var ekkert ákvæði um það í síðustu stjórnarskrárbreytingu, sem gerð var varðandi kjördæmaskipunina um hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, að það skyldi leggja niður gömlu kjördæmin. Þvert á móti, það var svarið og sárt við lagt, að það kæmi aldrei til greina að leggja héraðakjördæmin niður. Og þegar þá var bent á það í deilunum um málið, að það ætti að vera aðeins áfangi á leiðinni að því marki að leggja héraðakjördæmin niður, vegna þess að tvímenningskjördæmin væru þröskuldur í vegi þess, sem forráðamenn þessara mála raunverulega vildu, þá voru það kallaðar getsakir einar og því var mætt með þessum svardögum. En hver hefur reynslan orðið? Hver er reynslan að verða þrátt fyrir þessa svardaga? Þeir, sem hafa þessa reynslu fyrir sér, annars vegar um svardagana þá og heitstrengingarnar út af héraðakjördæmunum, og bera það saman við það, sem núna er sagt um sýsluskipunina og héraðaskipunina í landinu, þeir eru áreiðanlega ekki í miklum vafa um það, hvert verið er að fara.