27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan nú við 3. umr. ræða ofurlítið almennt um þetta mál, sem er eitt hið stærsta, sem komið hefur fyrir á hæstv. Alþ. nú um alllanga hríð, bæði um meðferð þess og nokkuð almennt um efni þess.

Eins og eðlilegt er, hefur verið rætt allmikið í þessum umr. fram að þessu um stefnu Framsfl. og tillögur hans í kjördæmamálinu, og því hefur verið haldið fram, að það væri ekki fullt samræmi í afstöðu Framsfl., eins og hún var mótuð nú á síðasta flokksþingi, og þeim brtt. og till., sem flokksmenn eða þingflokkur framsóknarmanna flytur eða beitir sér fyrir nú á hæstv. Alþingi.

Eins og augljóst má verða af samþykktum síðasta flokksþings framsóknarmanna, er meginstefna Framsfl. sú að byggja kjördæmaskipunina á héraðaskiptingunni í landinu í meginatriðum, hafa hana sem leiðarljós, eins og raunar hefur verið frá öndverðu. Þetta er grundvallarstefnan í málinu, og annar meginþátturinn í grundvallarstefnunni er líka sá að hafa einmenningskjördæmi sem aðalreglu, en breyta því aðeins út frá þeirri aðalreglu um einmenningskjördæmin, að í hlut eigi mjög svo fjölmenn héruð eða byggðarlög, sem þá mundu vitaskuld vera kaupstaðir, — því aðeins breyta út frá þeirri meginreglu, að í þeim allra fjölmennustu byggðarlögum, sem ættu rétt á fleiri en einum þm., yrði viðhöfð hlutfallskosning. Þetta er byggt á því, hversu mjög miklum erfiðleikum það er bundið, að skipta kaupstöðunum niður í einmenningskjördæmi, og veit hver maður, sem er kunnugur t.d. í höfuðborginni, að þannig er þessu varið. Það er mjög miklum erfiðleikum bundið að skipta borg eins og Reykjavík og búta hana niður í einmenningskjördæmi. Og ef slíkt væri gert, mundi það líka brjóta í bága við þá meginstefnu að hafa héraðaskipunina sem aðalgrundvöll að kjördæmaskipuninni. Það er hægt að brjóta þá stefnu með tvennu móti: annars vegar með því að setja saman af handahófi í eitt kjördæmi fjölmörg héruð og hins vegar einnig með hinu mótinu, að búta einstök héruð niður í mjög mörg kjördæmi, þar sem þó engar landfræðilegar ástæður eða aðrar slíkar ástæður væru fyrir slíkri skiptingu. Þessi er meginstefnan í málinu. Það nægir í viðbót við þetta að gera sér grein fyrir því, hversu erfitt væri að finna eðlileg kjördæmamörk í borg eins og Reykjavík, sem er ein fjárhagsleg heild og ein heild, hvernig sem á byggðarlagið er litið. Gefur auga leið, hversu gífurlegum erfiðleikum það er bundið að búta slíkt byggðarlag niður í fjöldamörg einmenningskjördæmi.

Nú má segja, að þegar þessi undantekning er hugsuð frá einmenningskjördæmareglunni, þá sé á því sá ágalli frá sjónarmiði þeirra, sem aðhyllast eintóm einmenningskjördæmi, að í þeim kaupstöðum, þar sem hlutfallskosningar væru, gætu gallar hlutfallskosninganna vitanlega komið fram. En þeir eru m.a. hættan á því, að flokkum fjölgi, og ýmislegt fleira í þá átt, sem hefur verið greinilega tekið fram í umr. En þess ber að gæta, að það stafar miklu minni hætta af slíkum ágöllum, þegar þeir geta ekki komið fram nema máske í einu eða tveimur byggðarlögum á landinu, stafar miklu minni hætta af fyrir þróun þjóðmálanna í landinu yfirleitt, heldur en ef slíkt er meginreglan og hefur ekki neitt svipuð áhrif á uppbyggingu flokkanna í landinu eins og hitt, ef teknar eru upp hlutfallskosningar um gervallt landið í örfáum stórum kjördæmum. Það mun valda gerbreytingu í þessu efni. En þótt hlutfallskosning sé í einu eða tveimur byggðarlögum af þeim ástæðum, sem ég hef lýst, þá er það ekkert sambærilegt við það, ef hlutfallskosning er tekin upp sem meginregla.

Varðandi hitt atriðið, að það sé hugsaður minni réttur fyrir fólk í þeim byggðarlögum, þar sem hlutfallskosning væri viðhöfð undir þessum kringumstæðum, þá er það að segja, að ein höfuðástæðan til þess, að einmenningskjördæmi eru æskileg og heppileg í einstökum héruðum úti um landið, er einmitt sú, hversu náið samband verður í þeim á milli þm. og kjósendanna og hversu óviðráðanlegt það verður að halda uppi slíku sambandi, ef kjördæmin eru höfð stór. En þessi hætta á því, að sambandið slitni á millí þingmanna og kjósenda, er alls ekki til staðar í kaupstöðunum, t.d. eins og í Reykjavík, þótt þar væri áfram um hlutfallskosningar að ræða. Hún er alls ekki til staðar, vegna þess að það er mjög auðvelt að halda uppi sambandi við kjósendurna í slíkum kaupstað, þótt þar séu viðhafðar hlutfallskosningar. Það er sem sé alls ekki á nokkurn hátt sams konar þörf fyrir einmenningskjördæmi í slíku kaupstaðarbyggðarlagi eins og í héruðunum úti um land. Þetta ætla ég að hver sanngjarn maður geri sér fullkomlega ljóst. Og þegar þetta er skoðað, sem ég hef nú verið að taka fram, þá kemur það greinilega í ljós, að stefna Framsfl. í þessu máli er mjög skýrt mótuð og glögg. Aðalgrundvöllurinn er, að kjördæmaskipunin skuli byggjast á héraðaskipuninni í landinu í höfuðdráttum. Það er ekki þar með sagt, að það verði ævinlega nákvæmlega þannig, að hver sýsla sé kjördæmi, en það yrði höfuðstefnan.

Eins og tekið er fram í ályktun flokksþingsins, álítur Framsfl., að þessu skipulagi ættu ekki að fylgja nein uppbótarþingsæti. Nú segja menn: Framsfl. hefur ekki flutt till. um þetta á Alþingi þessa dagana eða brtt. um þetta, sem ræðumaðurinn er að lýsa, heldur um önnur efni.

Till. flokksins nú á Alþingi er í fyrsta lagi sú, að málinu sé frestað til næsta árs með það fyrir augum, að stjórnlagaþing fjalli um málið, en stjórnarskrárnefndin taki allt stjórnarskrármálið til íhugunar til næsta árs, — þar næst til vara, ef þessu er hafnað, að breyta þessu stjórnarskrárfrv., sem hér liggur fyrir, þannig að láta héraðakjördæmin halda sér, eins og þau hafa verið, hætta við að leggja þau niður, en bæta þingmönnum við á þeim svæðum í landinu, sumpart með því að stofna ný kjördæmi, sumpart með því að bæta þingmönnum við í eldri kjördæmum, þar sem fólkinu hefur fjölgað mest. Þetta eru brtt. þær, sem fyrir liggja.

Hvers vegna flytur flokkurinn þessar till., en ekki brtt. við frv. um að setja það í þann búning, sem hann vildi sjálfur helzt hafa stjórnarskrána? Fyrir þessu eru ósköp einföld rök, sem hvert mannsbarn getur skilið, sem nokkra æfingu hefur í því að átta sig á meðferð mála. Ástæðan er augljóslega sú, að við höfum enga von um, að neinn hinna flokkanna vilji, eins og nú standa sakir, fallast á okkar sjónarmið, okkar stefnu í þessu máli, sem sé þá stefnu að byggja algerlega á héraðaskipuninni og hafa einmenningskjördæmi alls staðar nema í fjölmennustu kaupstöðunum og afnema uppbótarsætin. Við höfum enga von um það og vitum upp á hár, að hinir flokkarnir vilja alls ekki ljá máls á þessu. Og okkur er það algerlega ljóst, að ef við legðum við þessar ástæður fram þessar till. og ekki neinar aðrar till., þá yrði það bara til þess, að þríflokkarnir mundu segja: Þarna sjáið þið, Framsfl. er ekki viðmælanlegur um neitt það í kjördæmamálinu, sem nokkur annar flokkur vill líta við. Hann einangrar sig þess vegna algerlega í þessu máli, og hinir flokkarnir eru tilneyddir að taka það algerlega í sínar hendur. Flokkurinn vill ekki á neitt hlusta nema sína eigin stefnu, og hún nálgast ekki það, sem hinir vilja fallast á. — Þessu mundi verða haldið fram, enda vantaði það ekki, að þegar flokksþingið hafði mótað stefnu Framsfl., þá heyrðist strax þessi söngur úr herbúðum þríflokkanna. Þetta er okkur vel ljóst. Þegar svo þess er gætt til viðbótar við þetta, að Framsfl. hefur undanfarið verið að reyna að vinna að þeirri málamiðlun í kjördæmamálinu, að það væri hætt við að leggja niður héraðakjördæmin og farin í staðinn sú málamiðlunarleið, sem Framsfl. stingur nú upp á í sínum brtt., þegar það bætist við, að flokkurinn hefur undanfarið einmitt verið að reyna að vinna að þessu, og það vita hinir flokkarnir, þá fannst okkur það alveg einsýnt að láta hér á hæstv. Alþ. koma fram einmitt málamiðlunartill. okkar, að flytja hér þá lausn, sem við erum reiðubúnir að fallast á til samkomulags við hina flokkana. Þá getur enginn sagt, að við höfum ekki viljað taka neitt tillit til annarra. Okkar till., sem við flytjum hér, þýða það, að þó að við vildum hafa stjórnarskrána öðruvísi, eins og við höfum greint þjóðinni frá, þá mundum við vilja vinna það til þess að bjarga héraðakjördæmunum, af því að við álítum þau stórfelldan þátt og grundvallarþátt í allri stjórnskipuninni, — þá mundum við vilja til þess að bjarga héraðakjördæmunum fallast á, að uppbótarsætin héldust áfram 10 talsins, eins og þau yrðu eftir okkar tillögum. Og við mundum líka vilja falla frá því að halda því til streitu, að alls staðar utan Reykjavíkur og stærstu kaupstaðanna yrðu sett upp einmenningskjördæmi. Í þessu tvennu erum við, eins og tillögurnar bera vott um, alveg reiðubúnir að slaka til, enda yrði þá á það fallizt, að héraðakjördæmin héldu áfram að vera til. Við lítum á það sem stórfellda undirstöðu í öllu málinu, einmitt þetta, að þau verði ekki lögð niður. Og við viljum með þessu móti líka ganga það langt að sætta okkur við það til samkomulags, að þingmenn yrðu 60, eins og þríflokkarnir hér hafa lagt til, þó að við teldum ekki ástæðu til eftir okkar skipulagi, að þingmenn yrðu svo margir.

En þessi undarlegi tónn hjá hv. formælendum þessa máls, að stefna Framsfl. sé óglögg í þessu efni og að þessar till., sem við nú leggjum hér fram, séu ekki í beinu samræmi við stefnu flokksins, sem flokksþingið markaði, þetta einkennilega tal þeirra um þetta kemur af því, að þeim þykir það miklu verra, að við skulum hafa boðið upp á þessa málamiðlun, því að það, sem þá virðist hafa vantað í þetta mál, var að geta talið fólki trú um, að þeir hefðu eiginlega verið neyddir til þess að fara út á þessa braut og semja við hina af þessum þremur um það, sem þeim hefði í raun og veru verið alveg á móti skapi, vegna þess að Framsfl. hefði ekki viljað ljá máls á neinu nema stefnu flokksins sjálfs, eins og hún var mótuð á flokksþinginu. Með þessu hefðu þeir viljað hver um sig afsaka sig, og það sýnir eðli þessa máls, að það þarf afsökunar við. Með því móti vildu þeir afsaka sig, að þeir hefðu orðið að leggja út í þetta fremur en eitthvað annað betra, sem þeir hefðu kannske getað, ef Framsfl. hefði ekki verið, eins og þeir mundu túlka það, of staður í málinu.

En með þessari afstöðu sýnir Framsfl, það alveg glöggt, að þetta er gersamlega ástæðulaust tiltæki — alveg gersamlega ástæðulaust tiltæki — og árás af hendi Sjálfstfl. t.d., sem hefur af og til verið að telja sig vilja viðhalda byggðavaldinu í landinu og hafði sterkar yfirlýsingar um það áður, eins og hv. síðasti ræðumaður rækilega sýndi fram á. Þessi afstaða framsóknarmanna núna og tillöguflutningur þeirra sýnir, að sjálfstæðismenn hafa enga afsökun fyrir því að svíkja sínar fyrri yfirlýsingar um þetta efni og ganga gersamlega þeim á bak, því að það lá opin fyrir lausn á kjördæmamálinu, sem gerði þeim mögulegt að standa við það, sem þeir höfðu lofað. En þeir bara vildu ekki standa við það, sem þeir höfðu lofað, þó að þeir gætu það. Þeir vildu heldur ganga algerlega á bak sínum fyrri yfirlýsingum, en að standa við þær, þó að það væri alveg á borðinu þingmeirihluti til þess að leysa málið á þann hátt, að þeir gátu staðið við þær. Og þess vegna kemur það sér dálítið illa pólitískt séð fyrir sjálfstæðismenn og kannske fleiri í þessu máli, Alþýðubandalagsmenn sennilega að sumu leyti líka, því að þeir leika tveim skjöldum í þessu máli á dálítið svipaðan hátt, þeir þykjast halda þessi ósköp upp á byggðavaldið, en stinga rýting í bak þess á sama hátt, — það kemur sér illa fyrir þessa aðila, að Framsfl. kemur fram í þessu efni alveg fyrir opnum tjöldum og hreinskilnislega og lætur koma fram bæði sína aðalstefnu á sínu flokksþingi og svo, hvað hann er reiðubúinn að fallast á til þess að bjarga héraðakjördæmunum, lætur það koma greinilega fram einmitt á hæstv. Alþingi.

Það hefur komið fram úr herbúðum sjálfstæðismanna, að það hafi í raun og veru staðið á Framsóknarflokksmönnum að leysa málið á hagfelldari máta, að því er mönnum skilst, fyrir byggðirnar, t.d. eftir einmenningskjördæmaleiðinni. Ég hef áður lýst því og skal ekki endurtaka það, að því fer fjarri, að Sjálfstfl. hafi nokkru sinni snúið sér til Framsfl. og sagzt vera reiðubúinn til þess að leysa þetta mál á þeim grundvelli. Fram að þessu hafa þeir ekkert gert annað en að tvístíga í málinu, og þeir töluðu ekki einu sinni við Framsóknarflokksmenn til þess að kynna sér, hvaða leið þeir vildu, áður en þeir bundu sig í því, sem hér liggur fyrir, enda var það ekkert einkennilegt, þegar þess er gætt, að þetta er framhald af þeirri áætlun, sem Sjálfstfl. hefur alltaf haft uppi í erminni um það að leggja héraðakjördæmin niður, þegar hann þyrði að fleyta því máli.

Framsfl. stakk upp á því í vetur, þegar þáttaskil urðu í málefnum landsins, að mynduð yrði þjóðstjórn til þess að standa fyrir efnahagsmálunum og deilunni við Breta í landhelgismálinu og vinna að því að reyna að koma á samkomulagi um lausn stjórnarskrármálsins. En á það var ekki hlustað, því að þá var verið í óða önn að koma á þessu samsæri gegn héraðakjördæmunum, sem nú er komið í dagsins ljós. Og Sjálfstfl. ætlaði sér að nota Alþfl. í það, því að Alþfl. var orðinn skelfingu lostinn vegna fylgistaps, sem fram hafði komið í bæjarstjórnarkosningunum, og miður sín út af því, að þeir héldu, að þeir mundu hvergi koma manni að til frambúðar, nema þeir fengju alveg gerbreytingar á sjálfri stjórnarskránni. Og þetta vandræðaástand og þessa örvinglun Alþfl. notfærði Sjálfstfl. sér svo á mjög óviðurkvæmilegan hátt til þess að fá þá út í þetta tilræði við héruðin og héraðakjördæmin, sem nú á að reyna að koma fram. Um það er svo ekkert hugsað, þótt öll efnahagsmál landsins verði færð gersamlega í hnút á því tímabili, sem það tekur að koma þessu fram, en slíkt hlýtur að verða niðurstaðan, eins og nú horfir, augljóslega. Það eru samþykktar hreinar blekkiráðstafanir í efnahagsmálum, sem eru við það eitt miðaðar að leyna því fram yfir síðari kosningarnar, ef unnt væri, hvernig raunverulega er ástatt. Það er gert með því að leggja hundruð millj. kr. af fé þjóðarinnar til þess að greiða niður verðlag á vörum, lækka kaupgjald stórlega og afurðaverð til landbúnaðarins, taka síðan framkvæmdafé til þess að greiða niður nokkurn hluta af þessum gífurlega háu niðurgreiðslum, en byggja afgreiðsluna þó að mestu leyti á þann hátt að dragnast með þessar niðurgreiðslur sem stórfelldan halla, sem verður kominn síðast á þessu ári í efnahagskerfið. Síðan eiga menn eftir kosningarnar að glíma við að jafna þennan gífurlega halla, bæði að því er framtíðina varðar og líka að greiða upp þá stórkostlegu súpu, sem þá verður safnað. Þetta eru áætlanir þessara flokka um að láta reka á reiðanum í efnahagsmálunum þann tíma, sem það tekur að koma héraðakjördæmunum fyrir kattarnef. Síðan á, á eftir að notfæra sér það nýja viðhorf, sem orðið er í landinu, til þess að ganga enn þá lengra á þeirri braut að skera niður fjárframlög til framkvæmda víðs vegar um landið og kasta því í dýrtíðarsvelginn og reyna þannig að hjálpa sér til að kaupa einhvers konar stundargrið eftir skipulagsbreytinguna og tvennar kosningar.

Ætli það hefði ekki verið farsælla fyrir þjóðina og fyrir landið, að hv. þríflokkar hefðu fallizt á tillögur framsóknarmanna um þjóðstjórnarmyndun, sem hefði reynt að ná víðtæku samkomulagi um raunhæfar ráðstafanir í efnahagsmálunum, víðtæku samkomulagi um stjórnarskrármálið og kjördæmabreytinguna og haldið fast á málstað þjóðarinnar gagnvart ofsóknum og ofbeldi Breta í landhelgismálinu, en að efna til þess, sem nú er verið að gera, og á þann hátt, sem það er gert? Og hver missti nokkurs í við, að þessi háttur væri á hafður? Hvaða tækifæri gátu þríflokkarnir t.d. tapað með því að fallast á þessa lausn, að gera þessa tilraun? Hverju gátu þeir tapað? Ef þeir voru ekki til viðtals við Framsfl. um neina skynsamlega lausn á stjórnarskrármálinu, þá gátu þeir alveg eins næsta vor tekið upp þennan þokkaleik, sem nú er leikinn með héraðakjördæmin, eins og að gera það núna. Sannleikurinn er sá, að það vantar alla heila brú í afstöðu þríflokkanna og þeirra, sem fyrir þessu standa, og hér er ofstopinn einn að verki og ofurkappið.

Ég hef gert með örfáum orðum grein fyrir stefnu Framsfl. í kjördæmamálinu. Ég hef undirstrikað sumt af því nokkru nánar, sem ég áður hef sagt um brtt. þær, sem flokkurinn flytur eða fluttar eru af flokksins hendi í kjördæmamálinu, og hvers vegna þær eru einmitt svona, eins og þær eru, en ekki öðruvísi. Ég hef rifjað hér upp till. framsóknarmanna um það, hvernig á málum skyldi haldið yfirleitt í stað þeirrar framkvæmdaráætlunar, sem nú er í gildi, og sýnt fram á það með rökum, sem aldrei hefur verið gerð tilraun til þess að hnekkja, að það lá ekkert á að hlaupa í þetta á þessa lund, og það gat ekki skaðað neinn að fara að eins og Framsfl. stakk upp á.

Ég vil þá í framhaldi af þessu fara nokkrum orðum um málið sjálft almennt, sem fyrir liggur, og aðdraganda þess.

Kjördæmamálið hefur nú verið til meðferðar alltaf af og til síðustu áratugina, eins og öllum er kunnugt. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér neitt ýtarlega, þó að það gæti verið full ástæða til þess, því að það er á margan hátt merkileg saga. En ég ætla bara að minna á það, sem aðeins hefur verið drepið á áður í sambandi við þessar umræður, að það, sem nú er að ske, er í raun og veru þetta: Það er verið að taka upp aftur í höfuðdráttum þá áætlun um gerbyltingu í stjórnskipulagi landsins, sem þau sömu öfl, þó að það séu ekki nákvæmlega þeir sömu flokkar, — þau sömu öfl, sem að þessu standa núna, ætluðu sér að gera 1931. Þá var búið að gera samning á milli, — ég man nú ekki, hvort flokkurinn hét þá Íhaldsflokkur eða Sjálfstæðisflokkur, það skiptir nú ekki máli, það er alveg sama tóbakið, — samning á milli Íhaldsflokksins eða Sjálfstæðisflokksins, sem þá var, og Alþýðuflokksins um það að lögleiða fá og stór kjördæmi í landinu með hlutfallskosningum. Og það stóð til, að þessir aðilar sameinuðust um ríkisstj. til þess að hrinda þessu í framkvæmd. En þá var þannig háttað, að Framsfl. hafði stjórn landsins með hlutleysi Alþfl., og sú stjórn hafði þingrofsvaldið í sínum höndum, og þá skaut þáv. ríkisstj. málinu til þjóðarinnar með þingrofi 1931, áður en andstæðingar hennar höfðu getað sameinazt um nokkuð á Alþingi eða gert nokkra nýja löggjöf um þetta efni. Það fóru fram mikil átök þá um þetta mál víðs vegar um landið í kosningunum, og niðurstaðan varð sú í þeim kosningum, að meiri hluti þeirra þingmanna, sem kosnir voru, var á móti því að gera þessa skipun, svo að þetta tilræði fór út um þúfur, ekki fyrir það, að forráðamenn Alþfl. eða forráðamenn Sjálfstfl. sæju að sér, heldur fyrir það, að fólkið tók í taumana í kjördæmunum sjálfum og neitaði að kjósa þá á þing til þess að leggja kjördæmin niður. Síðan varð sá háttur á, þegar til Alþingis kom, að þeir gátu ekki komið þessari fyrirætlun fram og urðu að semja um málið. Og þá var samið um málamiðlun, þannig að innleidd voru uppbótarsæti, en héraðakjördæmin urðu áfram, var samþykkt, að þau skyldu standa áfram. Og það var sá stórkostlegi sigur, sem vannst 1931, að þetta lið, sem ætlaði sér þá strax að gerbylta héraðaskipuninni og afnema héraðakjördæmin, varð algerlega undir í kosningunum. Þjóðin tók í taumana og neyddi þetta líð til undanhalds á þennan hátt í samningum á Alþingi.

Ég veit ekki, hvort menn vilja reyna að leiða nokkrum getum að því, hvernig ástatt væri núna á Íslandi, ef þau öfl, sem núna vilja leggja héraðakjördæmin niður, hefðu fengið vilja sinn fram strax 1931. Það er máske erfitt að segja um slíkt. Ég held, að það sé þó ekki vandasamt að gera sér grein fyrir því fyrir þá, sem eitthvað hafa komið nálægt þjóðmálastarfi og þjóðmálabaráttu, að öll atburðanna rás í landinu hefði orðið allt önnur, en hún hefur orðið undanfarið, ef þeir hefðu komið þessu fram. Það er alveg óhugsandi, að áhrif byggðanna og áhrif héraðanna á fjármálastefnuna, á efnahagsmálastefnuna, á löggjafarstarfið á Alþingi yfirleitt, hefðu orðið nokkuð í líkingu við það, sem verið hefur undanfarna áratugi, ef þetta hefði komizt fram þá. Og það er af ástæðum, sem ég skal koma að ofur lítið síðar, þegar ég rifja upp örlítið þá hættu, sem í þessari breytingu felst fyrir héruðin og fólkið, sem þar á heima.

Næsti stórviðburðurinn varðandi kjördæmaskipun landsins er svo sá, að 1942 er rokið til og tekin upp krafan um hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Og sú krafa er þá tekin upp, eins og raunar oft áður hefur verið haft á oddi, til þess að jafna metin á milli flokkanna. Það er alltaf sagt: Flokkarnir fá ekki þingsæti í hlutfalli við atkvæðatöluna, og þess vegna þarf að jafna þarna metin. En þeir, sem voru kunnugir þessum málum og vissu, hvernig þræðirnir lágu, vissu alveg, hvað á bak við bjó þessa baráttu 1942 um hlutfallskosningarnar í tvímenningskjördæmunum. Það, sem var að gerast, var ekkert annað en einfaldlega þetta, að þau öfl, sem allan tímann hafa stefnt að því að framkvæma áætlunina frá 1931 um að leggja héraðakjördæmin niður, voru að stíga eitt skref áfram á þeirri braut með því að reyna að fá nýja liðsmenn við þá stefnu inn á þing, kosna minnihlutakosningu í tvímenningskjördæmunum. Þar var verið að reyna að ná í nokkra nýja liðsmenn, sem gætu orðið líðtækir, þegar lokahöggið yrði greitt í málinu. Þetta var mjög rækilega bent á, þegar þetta mál var þá til meðferðar, þessi stjórnarskrárbreyting. Var mjög rækilega bent á hér á hv. Alþingi þá einmitt, að það væri þetta, sem væri að ske. En því var mjög illa tekið af formælendum málsins, eins og því hefur ævinlega verið illa tekið, að það væru gefnar réttar upplýsingar um það, hvert verið væri að fara. Það var sagt, að þetta væru getsakir einar, og einmitt í því sambandi var gefinn út hinn sterki svardagi, sem hv. 1. þm. Skagf. vitnaði hér til í dag, af hendi aðalforustumanns Sjálfstfl., Ólafs Thors, að þetta væru svo auvirðilegar getsakir og svo fjarri öllum sanni, að hann vildi lýsa því yfir hátíðlega, að Sjálfstfl. gengi aldrei inn á það að innleiða fá stór kjördæmi í landinu með hlutfallskosningu. Og þannig setti hann málið upp þá, að ef bara Framsfl. stæði sig og gengi ekki inn á þetta, þá þyrftu menn ekkert að óttast. Þetta yrði þá aldrei gert. Þetta kom fram í tilefni af því, að á það var bent í umræðum þá, að hér væri aðeins um áfanga að ræða í áætlun; sem stefndi að því að leggja héraðakjördæmin niður. Og það er eftirtektarvert, að þá var ekki talað um það eins og tiltækilegt úrræði, sem við væri hlítandi af hendi fólks úti um land, að leggja þessi kjördæmi niður, það var ekki þá búið að finna upp kenninguna um „giftinguna“ eða kenninguna þessa hérna: „Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum við“ o.s.frv., o.s.frv. Það var ekki búið að finna þá upp neitt af þessu. Nei, það var talað um þetta þá eins og hreint ódæði, sem bara þeir allra illkvittnustu úr liði framsóknarmanna hefðu hugmyndaflug til þess að láta sér detta í hug að foringjar Sjálfstfl. hefðu í hyggju. Það var þá talið fullkomið ódæði. En nú aftur á móti á að bjóða mönnum upp á hitt, eins og ég var að lýsa hér áðan, að í raun og veru sé þetta allt aðeins til styrktar fólki víðs vegar úti um landið og byggðarlögunum, að leggja kjördæmin niður. Það sé bezt fyrir menn, að það sé sem allra mest í einum „bunka“, og þá náttúrlega langbezt að hafa allt í einum haug, sem sé landið eitt kjördæmi, því að þessi „röksemdafærsla“, ef menn skyldu leyfa sér að kalla þetta rök, það mætti setja það í gæsalappir, hún leiðir auðvitað beint til þess, enda vitum við náttúrlega nokkurn veginn, hvað á bak við þetta allt saman liggur. Hér var sem sagt 1942 stigið fram eitt skref í málinu, og því fylgdu svo þessir svardagar, sem ég hef verið að lýsa, og allir sjá, hvernig stefnir um þá.

Í beinu framhaldi af þessu vil ég ræða ofur lítið um þær yfirlýsingar, sem málinu fylgja núna, og það, sem nú er borið á borð, sem einna helzt mætti teljast hliðstætt við þessa svardaga frá 1942. Hvað er það? Það eru yfirlýsingarnar um, að því fari svo alls fjarri, að með þessu sé verið að útþynna allan hinn sérstaka rétt byggðanna, að hann sé þvert á móti algerlega í heiðri hafður. Að vísu er nú alltaf látið fylgja þar með, að frá margra sjónarmiði mætti náttúrlega helzt gagnrýna þetta á þeim grundvelli, að það væri í þessu gert ráð fyrir því, að fólk fjarlægt höfuðborginni hefði fleiri þingmenn, en aðrir tiltölulega samanborið við fólksfjölda. Það mætti náttúrlega að þessu finna. En menn skyldu ekki fara langt út í það, þetta væri öðlingsbragð þeirra, sem stæðu fyrir þessu máli, þetta væri hin þýðingarmikla viðurkenning yfirherranna í málinu og vottur þess, hversu þeir skildu vel sérstöðu fólksins, sem gæti ekki daglega haft samband við Alþingi. Þetta er þá það, sem nú á að vera tryggingin. Það er þessi öðlingsþáttur í málinu. Það er enn þá gerður þarna þessi munur og gefið í skyn, — það eru engir svardagar núna, og það er kannske vegna þess, að brennt barn forðast eldinn. En það er með allsterkum orðum lýst sem stefnu, að þannig eigi þetta að vera.

En á þessu er eitt „nóta bene“, sem full ástæða er til þess að gefa gaum og sýnir mjög vel, hvað á bak við þetta býr og hversu mikið upp úr þessu er að leggja, þegar búið er að taka þær hömlur frá, sem núna felast í héraðakjördæmunum. Og það eru þessar margendurteknu yfirlýsingar hv. stuðningsmanna málsins um, að það, sem umfram allt verði að eiga sér stað og vera aðalsjónarmið, sé að skapa hið flokkslega réttlæti. Með öðrum orðum: ef það kemur fram í einhverjum kosningaúrslitum á Íslandi, að flokkarnir hafi ekki nákvæmlega jafnmarga þingmenn hver um sig samanborið við kjósendatölu hvers um sig, þá er kjördæmaskipunin byggð á óverjandi ranglæti, og þessir menn lýsa því yfir æ ofan í æ, að það sé hið flokkslega réttlæti, sem þurfi að ná, og það verði ekki staðar numið fyrr en því er náð.

En hvað þýðir þetta? Hvað þýðir þetta „nóta bene“, sem fylgir þessum öðlingslegu yfirlýsingum um sérstöðu byggðanna enn sem fyrr, þær verði að hafa þann sérstaka rétt, að það séu færri kjósendur bak við hvern þm. þaðan en úr því stóra plássi, sem næst liggur Alþingi? Hvað þýðir þetta „nóta bene“? Það er yfirlýsing um það frá forráðamönnum þessa máls, að ef fólkið úti um landið kýs flokkana í nákvæmlega sömu hlutföllum og fólkið í Reykjavík, þá skal það hafa þennan rétt, en annars skal hann af því tekinn. Þessi yfirlýsing þýðir þetta. Fólkið skal hafa þennan rétt úti um landið, á meðan það kýs flokkana þar nákvæmlega í sömu hlutföllum og gert er t.d. í Reykjavík, en ef það leyfir sér að styðja einn flokkinn öðrum fremur hlutfallslega úti um land, en gert er í höfuðborginni, þá er komið flokkslegt ranglæti í úrslit kosninganna, og þá þarf að breyta stjórnarskipuninni til þess að leiðrétta það. Þetta er lokamarkið, sem keppt er að, og þetta er það „nóta bene“, sem er á hinni öðlingslegu yfirlýsingu Sjálfstfl. um skilning hans í þessu efni.

Menn mega hafa þennan rétt, ef þeir t.d. kjósa hlutfallslega eins mikið Sjálfstfl. úti á landi og þeir gera í Reykjavík, þar sem fleiri kjósendur eru á bak við hvern þingmann. En ef það er ekki gert og það mikil „skekkjan“, að uppbótarsætin nái ekki að „jafna“, þá verður að breyta stjórnarskránni. Og þannig verður haldið áfram, þangað til hinar öðlingslegu yfirlýsingar um þetta efni eru vitanlega orðnar að hreinni markleysu, alveg á sinn hátt eins og yfirlýsingarnar frá 1942 um það, að aldrei skyldu lögð niður héraðakjördæmin.

Hvernig í ósköpunum dettur þessum hv. forráðamönnum málsins í hug, að það sé hægt að sameina það tvennt að ætla fólki víðs vegar um landið að vera færra að baki hvers þm., en t.d. í höfuðborginni, en tryggja jafnframt undir öllum kringumstæðum flokkslegt réttlæti, eins og þeir kalla það, í úrslitum kosninga? Slíkt getur vitanlega með engu móti samrýmzt. Og yfirlýsingar um, að lokamarkið sé, að tryggt sé að fullu flokkslegt „réttlæti“, eru hreinlega yfirlýsingar um, að landið skuli í reynd, hvort sem það verður formlega eða ekki, gert að einu kjördæmi. Og þá, þegar við athugum þetta, förum við betur að skilja, hvílíkt ofurkapp er lagt á að berja niður héraðaskiptinguna, eins og hún er núna, því að hún er óneitanlega verulegur þröskuldur í því að koma því endanlega skipulagi á að útþynna þetta allt í eitt. En ef héraðaskipunin er slegin niður og búið að setja þessi stóru kjördæmi svona, sem eiga sér ekki nein eðlileg söguleg tengsl og engin eðlileg héraðaleg mörk, þá er ekkert lengur í veginum fyrir því að valta og skalta með þetta, eins og mönnum sýnist. Og það er vitanlega því miður meiningin, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði skýrt og greinilega. Og það er það ömurlega við þetta, að margir af þeim, sem standa að þessu máli, finna þetta og sjá, en hafa einhvern veginn dregizt inn í þetta og hafa sig ekki í að gera uppreisn í móti þessu.

Það hefur í sambandi við þetta mál verið talað mikið um réttlæti og ranglæti og mismunandi áhuga manna fyrir hvoru tveggju, og Sjálfstfl. hefur m.a. mjög lagt áherzlu á áhuga sinn fyrir réttlætinu. Í því sambandi er fullkomin ástæða til þess að minna á það, að 1953 hafði Sjálfstfl. í bili tapað áhuga sínum fyrir kjördæmamálinu. Og fyrir hvað var það? Það hefur sjálfsagt ekki verið fyrir það, að þeir væru sofnaðir á réttlætisverðinum. Það má vist ekki bera þeim slíkt á brýn. En fyrir hvað var það? Það var samt bara fyrir það, að þeir þóttust sjá hilla undir, að þeir mundu geta marið hreinan meiri hluta á Alþingi samkv. kjördæmaskipuninni, eins og hún var. Og þá var reiknað út og sá boðskapur látinn út ganga rétt fyrir kosningarnar 1953, að ef örfáir menn í örfáum héruðum létu af sinum þráa og styddu Sjálfstfl., þá mundi fást hreinn meiri hl. Sjálfstfl. í þeim kosningum, sem þá áttu að fara fram. Og það var mikil áherzla lögð á, að þá mundi skapast heilbrigður, þingræðislegur meiri hl. í kosningunum og renna upp ólíkt betri öld, þegar einn flokkur gæti þannig haft hreinan meiri hluta og framkvæmt sína flokksstefnu. M.ö.o.: þeir voru alveg reiðubúnir til þess að taka við og hafa allt eftir sínu höfði með um 37% atkvæða að baki. Þá var ekkert talað um réttlæti né ranglæti, og þá klígjaði ekki við neinu slíku. En aftur á móti 1956 lá við borð, að umbótabandalagið fengi hreinan meiri hl. á þingi með samstarfi í kosningunum og að vísu nokkru lægri atkvæðatölu í heild, en engu, sem máli skipti í „prinsipinu“. En þá var ofur lítið annað hljóð í strokknum. Það var nánast túlkað eins og það ætti að vinna ofbeldisverk, ef umbótabandalagið leyfði sér að hugsa til þess að stjórna landinu á meiri hluta, sem þannig væri fenginn á löglegan hátt eftir stjórnskipunarlögum landsins. Það var sem sagt svolítið annað mál, þegar aðrir áttu í hlut en Sjálfstfl. Og það var ekkert meira eða minna en það, að þá skilst manni að Sjálfstfl. hafi á nýjan leik öðlazt réttlætisáhugann og áhugann fyrir því að taka upp réttlætismálið á nýjan leik. En sannleikurinn í þessu er auðvitað sá, að þegar Sjálfstfl. taldi sig sjá hilla undir, að hann gæti fengið hreinan meiri hl. með óbreyttri kjördæmaskipun, þá sá hann ekki neinar knýjandi ástæður til þess að berja fram gömlu áætlunina um að leggja héraðakjördæmin niður. En þegar Sjálfstfl. var alveg vonlaus um þetta, þá sá hann, að það varð að halda áfram miskunnarlaust og knýja sig í að framfylgja gömlu áætluninni um að leggja héraðakjördæmin niður. — [Fundarhlé].

Herra forseti. Ég vil segja, að það sé ákaflega hæpið að halda umr. um svona stórmál áfram, nema helztu forráðamenn málsins, þ.e.a.s. aðalflm. og einhver hluti hæstv. ríkisstj., séu viðstaddir í deildinni. Ég man ekki eftir því og hef þó verið alllengi á hv. Alþingi, að það hafi yfirleitt tíðkazt að hafa umr. um stærstu málin án þess, að einhverjir þeirra, sem fyrir málunum standa, séu viðstaddir. Ég vil því spyrja hæstv. forseta, hvort honum fyndist nokkuð óeðlilegt, að það væri tekið fundarhlé og ég gerði þá hlé á ræðu minni, þangað til einhverjir af þeim mönnum, sem standa fyrir þessu máli, mættu á deildarfundl. (Forseti: Já, ég skil þetta. Ég hef beðið starfsmenn þingsins að bera þessi tilmæli frá mér til forsvarsmanna málsins.) Ætli það væri þá ekki rétt, að ég biði og gerði hlé á ræðu minni á meðan. (Forseti: Jú.) Mér er þá óhætt að fara í sætið án þess að það verði skoðað sem ræðulok. (Forseti: Já.) — [Hlé].

Ég ætlaði þessu næst að minnast ofur litið á upptöku málsins.

Þegar lýðveldið var stofnað á Íslandi 1944, var ákveðið, að stjórnarskráin skyldi tekin til sérstakrar endurskoðunar með það fyrir augum að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá, en til bráðabirgða var henni breytt aðeins í þeim atriðum, sem snertu breytingu úr konungdæmi í lýðveldi. Í þessu sambandi voru settar á laggirnar nefndir til þess að skoða stjórnarskrána. Ég hef ekki tíma til að rekja þá sögu hér að neinu ráði, þó að hún sé út af fyrir sig merkileg og væri að réttu lagi efni í sögulegan kafla í sambandi við þetta mál allt saman og upptöku þess. En til þess að gera langa sögu örstutta vil ég aðeins minna á, að 1947 var sett fjölmenn nefnd í þetta mál, sem sumpart var þingkjörin og sumpart stjórnskipuð. Henni var ætlað að skoða stjórnarskrármálið í heild. Störfum þessarar nefndar miðaði mjög hægt áfram, eins og kunnugt er, og olli því vafalaust, að einstakir menn og einstakir flokkar höfðu ekki gert upp að fullu hug sinn um stjórnarskrármálið, hvorki kjördæmaþáttinn né heldur aðra veigamikla þætti, sem til álita áttu að koma. Setti þetta að sjálfsögðu svipmót sitt á störf nefndarinnar. Það var ekkert undarlegt, þó að orðið gæti nokkuð langur starfstími slíkrar n., við því var ekki nema eðlilegt að búast. Það er örðugt mál viðfangs, stjórnskipun landanna, og margt, sem kemur til greina, og ekki við því að búast, að hægt sé að afgreiða slík mál á örstuttum tíma, enda varð raunin sú, að n. sat ár eftir ár, án þess að nokkur endanleg niðurstaða yrði í henni. Það voru lagðar fram, sem mætti kalla bollaleggingar af hendi sjálfstæðismanna um kjördæmamálið í n., eins og lýst hefur verið í þessum umr. En það var eingöngu um bollaleggingar að ræða, sem jafngiltu því, að nokkur hluti flokksins vildi halda í austur í þessu máli, en annar hluti flokksins í vestur. Var ekkert á slíku hægt að sjá, hvert þessi flokkur var að fara, því síður að með þessum bollaleggingum væri nokkur grundvöllur lagður að úrslitum málsins í stjórnarskrárnefndinni né annars staðar.

Á hinn bóginn kom fram ein alveg ákveðin till. í n. um það frá fulltrúa framsóknarmanna, að sú breyting ein væri gerð á stjórnarskránni, að stjórnarskrármálið yrði leyst á stjórnlagaþingi, til þess að leysa stjórnskipunarmálið út úr öðrum málum þjóðarinnar og reyna að greiða það úr þeim málum, sem flokkar myndast um í landinu, prófa, hvort með því móti mætti ekki takast að fá fram þann raunverulega þjóðarvilja um stjórnskipunina og kjördæmamálið ekki sízt. Fyrir þessu voru færð rök þá og hafa verið færð rök hér nú í þessum umr., og skal ég alls ekki endurtaka þau, en ég vildi aðeins minnast á þetta núna og rifja það upp enn einu sinni, að um þetta kom fram till. af hendi fulltrúa Framsfl. í n., sem fékk ekki neinar undirtektir þar. Og þannig stóðu þessi mál í n. æði lengi, að niðurstaða varð engin.

Formaður þessarar n. var hv. 1. þm. Reykv. (BBen), annar af aðalforráðamönnum Sjálfstfl. Honum hefur verið legið á hálsi nú í þeim umr., sem orðið hafa um stjórnarskrármálið og kjördæmamálið, að hann hafi ekki haldið störfum þessarar n. áfram, þegar hann sá, að hreyfing var að komast á stjórnarskrármálið. En hv. 1. þm. Reykv. vill hafa sig undan ámæli í þessu og vill halda því fram, að n. hafi í raun og veru verið dauð fyrir löngu, þannig að honum hafi þar af leiðandi ekki borið nein skylda til þess að sjá um, að stjórnarskrármálið fengi þann stjórnskipulega undirbúning, sem áður hafði verið ákveðinn af Alþingi, vill halda því fram, að hann hafi ekki í þessu tilliti neinn trúnað brotið. Hann víkur að þessu, hv. þm., í nál. meiri hl. stjskrn. og heldur því þar fram í öðru orðinu, að það hafi verið samkomulag í n. um það, að áframhaldandi starf n. þýddi ekkert, meðan ekkert samkomulag fengist um þetta grundvallaratriði, þ.e. kjördæmaskipunarmálið, og að þetta hafi orðið niðurstaða í n. í samráði við ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar. Það er eiginlega verið að læða inn þeirri skoðun hjá mönnum, að ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar hafi lagt niður stjórnarskrárnefndina, sem sett var á laggirnar af Alþingi.

Þetta er auðvitað hreint yfirklór hjá hv. 1. þm. Reykv. Í fyrsta lagi gat náttúrlega engin ríkisstj. lagt niður n., sem skylt var að hafa samkvæmt ályktun Alþ. Það var skylda n. að skila starfi af sér, eins og Alþ. hafði fyrir sett, og gat engin ríkisstj. gripið fram fyrir hendur Alþ. í því. Í annan stað var þessu alls ekki til að dreifa, eins og sést á ummælum hv. 1. þm. Reykv. sjálfs í sama nál., því að hann segir, að þegar nm. skildu, sem allfrægt er orðið, fyrir nokkrum árum, þá ákváðu þeir, að n. skyldi koma saman til fundar jafnskjótt og einhver einn nm. óskaði. Þetta er sem sagt næg sönnun fyrir því, að þrátt fyrir tal hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann vill láta líta svo út annað veifið, að n. hafi í raun og veru verið úr sögunni, var nm. það vel ljóst, að n. var með fullu lífi og hún átti að koma saman, ef nokkur einn nm. óskaði þess.

Nú er það alveg augljóst mál, að þegar hv. formanni n., hv. 1. þm. Reykv., varð ljóst, að veruleg hreyfing var komin á stjórnarskrármálið, var honum skylt að verða til þess að kalla saman fund í þeirri n., sem hann stjórnaði og bar ábyrgð á gagnvart Alþ., láta taka málið þar fyrir og knýja þar til úrslita um málið á stjórnskipulegan hátt. En í stað þess viðhefur hv. 1. þm. Reykv. þau furðulegu vinnubrögð, sjálfur formaður n., sem hafði verið falið þetta trúnaðarstarf samkvæmt ályktun Alþ. um nefndarskipunina, að hann lét eins og n., sem hann sjálfur stýrði, væri ekki til og það trúnaðarstarf, sem hann hafði verið settur í, væri ekki til, en samdi í þess stað á klíkufundum um einn mikilsverðasta þátt stjórnarskipunarmálsins. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög, að hv. 1. þm. Reykv. skyldi fara þannig að, og er full ástæða til þess að gera það og setja undir þá gagnrýni feitt strik, því að hér hefur honum orðið á mjög alvarlegt trúnaðarbrot, að leiða þennan þátt málsins til lykta á þessa lund, í staðinn fyrir að halda áfram endurskoðunarstarfinu, eins og honum var skylt.

Vitanlega eru það ekkert annað, en tyllirök í þessu sambandi að bera það fyrir sig, að enginn maður hafi á löngu tímabili verið skipaður í stað Ólafs prófessors Jóhannessonar, sem sagði sig úr n., því að augljóst var, að jafnskjótt sem n. var kölluð saman aftur að einhvers tilhlutan, eins og hv. 1. þm. Reykv. var skylt að sjá um, mundi verða skipaður maður samstundis í stað Ólafs Jóhannessonar, til þess að n. væri fullskipuð og fær um að halda áfram því starfi, sem hún átti að vinna.

Einmitt þessi málsmeðferð sýnir, hversu því fer alls fjarri að, að þessu veigamikla og þýðingarmikla máli hafi verið unnið á eðlilegan hátt og eftir þeirri áætlun, sem Alþ. lagði. Hér er unnið að með óeðlilegu móti og þetta mál er gert að pólitísku hrossakaupamáli á milli flokkanna, í staðinn fyrir að það átti að vera yfir það hafið og vera til sameiginlegrar skoðunar, eins og Alþ. hafði lagt áætlun um. Og þó að margir beri hér þunga ábyrgð í sambandi við það, að svona hefur verið á haldið, þá er þó ábyrgð hv. 1. þm. Reykv. þyngst, vegna þess að honum var mestur trúnaður sýndur.

Að bera það fyrir sig í þessu tilliti sem afsökun fyrir því, að málið var ekki knúið til úrslita í stjórnarskrárnefndinni, að fyrrverandi stjórnarflokkar hafi ákveðið að reyna að semja um málið sín á milli, er engin afsökun af þeirri einföldu ástæðu, að þá þegar var það einmitt sýnilegt, að sú hreyfing var á málið komin, að formanni stjórnarskrárnefndar hefði verið skylt að kalla saman fund í n. til þess að fá það fram þar, hvað þessir flokkar hefðu í hyggju. Því hefði farið fjarri, að nokkuð hefði verið hægt að slíku að finna. Þvert á móti hefðu það verið algerlega eðlileg og raunar sjálfsögð vinnubrögð af hálfu nefndarformanns.

Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlunin að setja á fót sjö ný kjördæmi og leggja öll núverandi kjördæmi niður nema Reykjavik, eins og áður hefur verið drepið á, og innleiða allsherjar hlutfallskosningar. Ég hef að nokkru rætt hér um hlutfallskosningarnar og gerði það, þegar ég ræddi um meginstefnu Framsfl. í þessu efni, eins og hún er mótuð af flokksþinginu. En ég vil fara hér nokkrum orðum til viðbótar um það, sem ég tel meginkjarnann í þessu máli og það skaðlegasta, og það er áætlunin um að leggja öll kjördæmin niður.

Það dylst engum, að með þessu er alveg raskað því grundvallaratriði, sem áður hefur gilt, að byggja kjördæmaskipunina á héraðaskipuninni. Nú er ætlunin að setja kjördæmin hreinlega af handahófi og slíta þau úr öllum tengslum við héraðaskipunina og slíta þannig í sundur öll hin sögulegu tengsl, eins og hér hefur verið mjög greinilega sýnt fram á og þarf ekki að endurtaka. En það, sem er mest einkennandi fyrir þennan hugsunarhátt, sem stendur að baki öllu þessu, er þetta, að það þurfi ekki að taka neitt tillit til nokkurs skapaðs hlutar í sambandi við kjördæmamál eða kjördæmaskipun annars, en höfðatölunnar, það þurfi ekkert tillit að taka til staðháttanna eða héraðanna, aðeins til höfðatölunnar, þess vegna megi rífa upp öll þau gömlu, eðlilegu mörk í þessu efni og bara reikna út holt og bolt, að svo og svo stórir landshlutar, sem ákveðnir eru af hreinu handahófi, eigi eftir höfðatölunni að hafa svona og svona marga þingmenn. Fyrir þvílíku standa tæpast aðrir en þeir, sem í raun og veru eru alveg slitnir úr sambandi við landið sjálft og hugsa ekkert út frá þeirri grundvallarskipan í byggðir, sem frá öndverðu hefur þó verið undirstaðan hér að öllu þjóðskipulagi. Þetta er einmitt það háskalegasta í öllu þessu máli og alveg augljóst á því, hvernig hv. forráðamenn málsins tala hér, hvað þeir tala hér af mikilli fyrirlitningu um núverandi sýsluskiptingu, að þeir gera sér það ljóst, að þetta á að vera áfangi í því, að sýsluskiptingin fari sömu leiðina og kjördæmin. Þetta er alveg augljóst, því að þeir eiga ekki til nógu sterk orð til þess að lýsa því, að sýsluskiptingin eigi sér engar rætur í félagslegu starfi þjóðarinnar, hún sé nánast hjákátleg, eins og málum er háttað, og neydd upp á þjóðina af erlendu kúgunarvaldi. Þetta eru þeir þokkalegu orðaleppar, sem sú héraðaskipan fær hjá forráðamönnum þessa máls, sem hefur verið í raun réttri aðalundirstaða allra þeirra stórkostlegu framfara, sem hér hafa orðið á síðustu áratugum, og undirstaða viðreisnar þjóðarinnar, þ.e.a.s. þeirrar alhliða viðreisnar, sem orðið hefur um allt landið. Og ég held því fram, eins og ég hef áður gert í sambandi við þetta mál, að þegar búið er að rifa upp þessi mörk, þá er ekki lengur við neitt að styðjast til þess að koma í veg fyrir, að allt verði útþynnt eftir því, sem ég kalla reikningsstokksleiðina í stjórnarskrármálinu, þ.e.a.s. að höfuðstefnan um höfðatölu og flokkslegt réttlæti verði útfærð alveg út í æsar. Þá er ekki um annað að ræða, en annaðhvort landið eitt kjördæmi eða þá örfá stór kjördæmi með svo mörgum uppbótarsætum, að hinu flokkslega réttlæti og útþynningunni sé fullkomlega komið í kring, eins og þessir hv. þm. fara ekkert dult með að fyrir þeim vakir.

Það mega vera blindir menn, sem ekki sjá, hvert verið er að fara með þessu, þegar þetta er skoðað og byggt á — ekki málflutningi okkar framsóknarmanna, heldur málflutningi þeirra, sem tala fyrir þessu máli. Ef við tökum málflutning þeirra hv. manna, sem standa fyrir þessu, byggjum á honum, þá sjáum við mætavel, hvert stefnir. Það þarf ekki að fara í málflutning okkar, andstæðinga þessa máls.

Það hefur verið talað hér um í sambandi við þetta, þegar reynt er að tína fram ýmsa kosti, sem þessi nýi háttur hafi umfram þann gamla að hafa héraðakjördæmi, — eitt af þeim hálmstráum, sem útbýtt hefur verið, ég kalla þetta að útbýta hálmstráum til þeirra, sem af flokkslegum ástæðum eiga að vera með, en eiga mjög erfitt með að fallast á þessa stefnu, — eitt af þessum hálmstráum, sem verið er að útbýta til manna, er, að það sé miklu minni ástæða til að halda, að í þessum stóru hlutfallskjördæmum sé hægt að hafa óeðlileg áhrif á kosningarnar, t.d. með fyrirtækjavaldi eða fjármagni eða atvinnuvaldi, en í kjördæmum núna, það sé miklu meiri ástæða til að halda, að slíku verði við komið í héraðakjördæmunum, eins og þau eru núna, heldur en þegar búið væri að steypa þessu í örfá stór hlutfallskjördæmi.

Ég get ekki stillt mig um að rifja það upp, sem ég benti á um þetta hér við 2. umr., og sýna, hvað þetta er mikil fjarstæða. Hugsum okkur t.d. Reykjavík og reynslu okkar hér af kosningabaráttu í þessu stærsta, langfjölmennasta hlutfallskjördæmi landsins. Hvergi nokkurs staðar er fyrirtækjavaldi eða fjármagni eða atvinnuvaldi beitt í nokkuð líkum mæli og hér í Reykjavík í sambandi við kosningar. Það fer svo langt fram úr því, sem mönnum nokkurs staðar annars staðar dettur í hug, að engum, sem til þekkir, kemur í hug að draga það í efa. Það er víst áreiðanlega ekkert ofsagt, að stærsti flokkur borgarinnar byggir jafnvel að mestu leyti fylgi sitt og afl í borginni á kosningavinnu nokkur hundruð fyrirtækja, sem styðja flokkinn að málum með atvinnuvaldi, með fjármagni og með öllum þeim ráðum, sem upphugsanleg eru á vegum fjölmargra af þessum fyrirtækjum. Þetta er gert með slíkri nákvæmni, að með fádæmum má telja, og slíkri atorku á allar lundir. Þetta kannast allir við, sem hafa komið nokkuð nálægt þjóðmálavinnu í höfuðstað Íslands. (Gripið fram í.) Segja nokkur dæmi um þetta? Þetta vita allir. Ég veit sjálfur, eins og ég sagði hér um daginn, — ég veit sjálfur um dæmi þess, að það hafa mörg dagsverk verið lögð í að fá einn kjósanda — bara einn kjósanda til þess að fylgja þessum flokki að málum, mörg dagsverk. Og að reyna að vefengja þetta er hreint út í bláinn. Menn þekkja þetta „apparat“ allt of vel til þess. Margir af stuðningsmönnum þessa máls eru sjálfsagt allt of kunnugir þessu til þess að bera brigður á, að svona sé þetta. Að bera sér það í munn, að það að steypa kjördæmunum saman sé eins konar vernd fyrir fólkið gegn afskiptum fyrirtækja og fjármagns, það er of mikið til þess, að hægt sé að taka því þegjandi af hendi þeirra manna, sem þekkja dálitíð til, hvernig þessu er háttað.

Eða þá atriði eins og það, sem raunar hefur ekki verið borið fram í þessu sambandi, eins og ósannindaáróður, sem er náttúrlega ákaflega hættulegt vopn í þjóðmálabaráttunni. Hvort mundu menn t.d. fremur vera verndaðir gegn ósannindaáróðri í stórum hlutfallskjördæmum eða héraðakjördæmunum, eins og þau eru núna? Hvað halda menn?

Ég er alveg sannfærður um, að eins og farið er að hafa þetta núna, álíta sumir sér óhætt að búa til sögur, sem eiga sér ekki nokkra stoð í veruleikanum, um afstöðu flokka og manna til þýðingarmestu þjóðmála og skeyta ekkert um, hvort farið er nokkuð nærri sannleikanum eða honum víðs fjarri, slá þessu síðan upp í sterkum blaðakosti, láta hundruð launaðra áróðursmanna halda þessu sama fram í múgæsingum, — allt í því trausti, að það sé ekki hægt að leiðrétta, ef gengið sé í svona áróður af nægilega mikilli atorku, m.ö.o.: að það sé eiginlega bara spursmál um vinnu, hvort hægt sé fremur að fá menn til að trúa því, sem er ósatt, en hinu, sem satt er.

Hvort halda menn, að svona nýtízku tækni, sem menn þekkja nú nokkur dæmi um upp á síðkastið í þjóðmálabaráttu okkar, hvort halda menn, að hún sé líklegri til þess að bera árangur í mjög stórum hlutfallskjördæmum, elns og t.d. yrði eftir þessa breytingu, eða í héraðakjördæmunum? Ég hygg, að það mundi vera nokkru erfiðara að koma við svona óþokkalegum áróðri einmitt í héraðakjördæmunum, þar sem fólkið þekkir frambjóðendurna og þeir hafa möguleika til þess að koma sínum málflutningi á framfæri við fólkið til þess að vega upp á móti þessum vinnubrögðum, sem farið er að tíðka hér í landsmálabaráttunni. En bezt er að koma þessu við, þar sem fjarlægð er meiri á milli fólksins og frambjóðendanna. Þar er helzt hægt að koma slíkri múgæsingu að. Ég hygg, að það sé einmitt í héraðakjördæmunum erfiðara að notfæra sér svona vinnuaðferðir með árangri, en í stóru kjördæmunum, þar sem persónusambandið er slitið í sundur, og þar sem frambjóðendurnir gætu ekki komið því við með nokkru móti að koma því sanna á framfæri, ef svona vél, svona „maskínu“ væri beitt annars vegar, eins og við höfum dæmin um. Það má kannske kalla það getsakir, en það má mikið vera, ef ekki einmitt þetta atriði, sem sé þessar nýtízku vinnuaðferðir og þær tilraunir, sem með þær hafa verið gerðar einmitt í Reykjavík, á ekki einhvern verulegan þátt í þeim ofsalega áhuga, sem gripið hefur suma upp á síðkastið um að koma einmitt þessari skipan á, — að tæta niður héraðakjördæmin og koma á stærri kjördæmum, þar sem hægara er að koma svona löguðum vinnubrögðum við og þar sem yfirburðir mikils „apparats“ eða mikillar vélar af þessu tagi gætu fengið að njóta sín. En yfirburðir slíkra véla, sem smurðar eru með peningum, geta ekki notið sín algerlega til fulls í héraðakjördæmunum, eins og þau eru. Það má mikið vera, ef það vakir ekki fyrir ýmsum, að það mundi geta orðið betri árangur af slíkri véltækni um landið allt með því að breyta til, eins og hér er fyrirhugað.

Þá er það eitt af hálmstráunum, sem að mönnum hafa verið rétt, — þetta um hin „sameiginlegu mál“ og „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“ o.s.frv. Því hafa nú verið gerð svo rækileg skil, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í það. Þessi rök eru hreinlega rök fyrir framhaldinu, sem á að verða, því að slá niður sýsluskiptinguna, því að væntanlega eru þar líka sömu rökin: „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“, og eiga á sínum tíma að verða rök fyrir enn þá frekari útþynningu í þessu sambandi og enn þá stærri og færri kjördæmum, eða í reynd, að landið verði eitt kjördæmi. Þá verða þessi rök notuð áfram, ef rök skyldi kalla, á nákvæmlega sama hátt og reynt er að nota þau núna. Allir, sem eitthvað hafa komið nálægt þjóðmálum, vita vel, að hinn stórfelldi háski, sem búinn er í sambandi við þetta mál, er einmitt sá, að með þessu verður persónulega sambandið slitið að verulegu leyti, því að enginn þm. hefur möguleika til þess að standa í neitt líku sambandi við fólkið, eftir að búið er að gera kjördæmin svo stór. Hvað sem öllum samgöngum líður og slíku, þá er slíkt með öllu óhugsandi, og þingmenn fyrir þessi héruð í þeim skilningi, sem þingmenn eru nú, verða ekki til lengur, ef þessari skipan verður á komið. Sambandið verður gerólíkt. Þingmenn í hinum gamla skilningi þess orðs verða ekki lengur til.

Það sýnir einnig, hversu gersamlega þessi fyrirhugaða skipun er slitin úr tengslum við allt það, sem eðlilegt er, að það verður ekki einu sinni hægt að finna leið til að kenna þessa nýju þingmenn, ef þetta verður samþykkt, við kjördæmi sín með sameiginlegu móti. Eða hvernig hugsa forráðamenn þessa máls sér það? Það verður ekki mjög leiðinlegt, þegar menn fara að staglast hér á hv. Alþingi á hv. 5. þm. vestra Norðurlandskjördæmis o.s.frv., o.s.frv. Þetta er einn vottur enn um það, hversu gersamlega þetta, sem nú á að gera, er slitið úr öllum tengslum við eðlilega skipan og eðlilegt líf þjóðarinnar.

Hin hreinu reikningsskil, sem kjósendur hafa fengið af hendi héraðaþingmanna, hverfa, og í staðinn koma undanbrögð hinna mörgu sundurleitu þingmanna og tilraunir til þess að kenna hinum um, að ekkert var gert í þessu eða hinu málinu. Það verður það, sem menn fá í staðinn fyrir hreint uppgjör við sinn þm., þar sem ekki er við neinn annan að vélast um það, hversu ágengt hefur orðiðið um málefni héraðsins. Forráðamenn byggðarlaga og aðrir eiga svo að þeytast á milli allra þessara manna með hvert eitt einstakt mál byggðarlaganna, í stað þess að eins og nú er, eiga þeir einn eða í mesta lagi tvo ákveðna talsmenn, sem þeir fela málið. Að halda því fram, að þetta þurfi að gera, til þess að samvinna sé um málefni margra héraða, er fjarstæða, vegna þess að slík samvinna á sér stað nú þegar í mörgum málum, sem héruðin eiga sameiginleg, eins og eðlilegt er, og mundi verða þannig áfram. En aftur á móti eru þessi rök, ef rök skyldi kalla, að það þurfi að leggja héraðakjördæmin niður, til þess að slík samvinna geti átt sér stað, rök fyrir því að ganga síðar enn lengra, fella niður héraðaskipunina sjálfa og loks að gera allt að einu kjördæmi.

Þá kemur spurningin: Hvað er það, sem liggur raunverulega á bak við þetta ofurkapp um að leggja öll héraðakjördæmin niður? Á bak við þetta ofurkapp liggur sú sannfæring þeirra, sem ráða í þríflokkunum, að Íslendingar hafi ekki ráð á því að byggja upp landið allt eða notfæra sér landið allt, þ.e.a.s. öll byggileg héruð landsins, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði hér í dag í sinni glæsilegu ræðu. Þeir eru haldnir þeirri minnimáttarkennd, að hin mikla uppbygging, sem átt hefur sér stað víðs vegar um Ísland á undanförnum áratugum, sé eins konar byrði á þjóðinni að verulegu leyti, í stað þess að hún er undirstaða þeirrar allsherjarviðreisnar, sem hér hefur átt sér stað.

Og það, sem vakir fyrir þeim, er að draga úr þessari uppbyggingu víðs vegar um landið og spara, eins og þeir orða það, með því fjármagn og nota til þess að glíma við dýrtíðardrauginn. Á þessu örlar nú þegar í þeim úrlausnum, ef úrlausnir skyldi kalla, sem bólað hefur á í efnahagsmálunum. En hér eru alveg vatnaskil í þessum efnum, því að Framsfl. álítur, að það sé einmitt þessi alhliða uppbygging um landið allt, sem hafi orðið þýðingarmesta undirstaða að alhliða viðreisn íslenzku þjóðarinnar, og að þeirri uppbyggingu eigi að halda áfram og hafa í henni jafnvægi. Og við teljum, að það hafi verulega unnizt í rétta átt, nú síðustu árin um það að draga úr því stórfellda ójafnvægi, sem var að verða stórhættulegt. Við erum sannfærðir um, að ef þríflokkarnir koma fram þessu máli: að leggja niður héraðakjördæmin, þá muni aftur fara að halla á ógæfuhlið í þessu efni. Það sýna þær tillögur, sem þegar eru komnar fram af þeirra hendi í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, og þó er það ekki nema örlítill vottur þess, sem koma skal, ef þeim verða fengin ráðin í þessum málum og þeir koma þessu fram.

Þetta hefur komið ákaflega greinilega fram stundum hér á hv. Alþ., ekki sízt hjá einum af flm. þessa máls hv. 3. þm. Reykv. (EOl), þar sem hann hefur lýst því, hversu lagt hafi verið í óarðbæra fjárfestingu víðs vegar í kauptúnum og sveitum landsins, sem hafi orðið baggi á þjóðarbúinu. Og eftir að hafa lýst þessu með mjög sterkum orðum, hefur þessi einn af aðalflutningsmönnum málsins sagt, það hafa verið hans ályktunarorð: „Má vera, að þetta lagist, ef kjördæmunum verður breytt.“ Og hann hefur ekki átt nægilega sterk orð til þess að lýsa því, hvernig hið óeðlilega kapphlaup, eins og hann hefur kallað það, um kjördæmin hafi verið mikil undirrót undir þessari óheillaþróun, sem orðið hefur að hans áliti, þessari óheillaþróun, sem hann vill breyta einmitt með nýju kjördæmaskipuninni, með því, sem hann kallar að minnka kapphlaupið um kjördæmin.

En hvað er kapphlaupið um kjördæmin, sem á að minnka með þessu nýja kerfi? Kapphlaupið um kjördæmin er áhugi þingmannanna fyrir því að leysa áhugamál fólksins heima í héruðunum. Það er það, sem heitir þessu þokkalega nafni á máli hv. 3. þm. Reykv. Hann hefur haft hreinskilni til þess áð segja þetta opinberlega, en þetta er það sama, sem hinir hugsa og segja með öðrum orðum. Þeir eru bara ofur lítið óhreinskilnari en hv. 3. þm. Reykv. Og sannleikurinn er sá, að þetta, að héruðin hafa sína eigin fulltrúa á Alþ. til að gera þeim reikningsskil, — hv. 3. þm. Reykv. sér það algerlega rétt, — það er undirrót þess, að ekki er hægt að hunza málefni byggðanna á Alþingi. Það er einmitt vegna þess, hversu þingmennirnir eru bundnir sterkum böndum, bæði persónulega og öðruvísi, við héruðin með þeirri skipan, sem verið hefur og við teljum eðlilegt að verði áfram.

En þegar búið verður að skera á þessi sterku bönd og setja í staðinn þau teygjubönd, ef svo mætti að orði komast, — þau teygjubönd, sem stjórnarliðið vill efna til með þessari nýju breytingu, þá gera þeir sér vonir um, að þetta kapphlaup muni minnka. Það má draga fram margar líkingar af þessu máli. Og ein af þeim líkingum, sem nota má, er einmitt þessi um sterku böndin annars vegar og teygjuböndin hins vegar, því að þessi skipan, sem við höfum búið við, tengir héruðin sterkum böndum við hv. Alþ. og þjóðarstofnanir ýmsar í gegnum hina persónulegu kosningu og hið nána samband þingmannanna og héraðsbúanna. Það eru hin sterku bönd, sem nú á að slíta. En það, sem koma á í staðinn, mun líkjast teygjubandi, sem gefur eftir og er einskis nýtt til nokkurra átaka eða til þess að tryggja öruggt samband eða haldgott. Að hnýta með teygjubandi jafngildir því að slíta. Það er í raun og veru þetta, sem á að ske. Það á að vera band að nafninu til í þessari nýju skipan, en í raun og veru ekkert band, það er bara teygjuband.

Ég býst við því, að hv. þm., sem standa að þessu máli, telji sig báðum fótum í jötu standa, ef þannig mætti að orði komast, þeir telji sig nokkuð örugga með þetta mál, og þetta allt saman jafngildi eiginlega því, að þrír menn setji Íslandi stjórnarskrá, þrír menn. Það eru 3 menn, sem semja fyrir flokkana, og svo er bara allt klappað og klárt. Stjórnarskráin er komin. Það eru þessir liðsoddar, sem eru flutningsmenn að þessu máli og um það hafa samið.

En það hafa áður, — og það verða mín síðustu orð um þetta, — það hafa áður verið gerðir svona „liðsodda“-samningar um stjórnarskrána og stjórnskipunarlög. Og ég býst við, að þeir, sem fyrir því stóðu, hafi talið þá samninga jafngilda stjórnarskrá, — og má segja í því sambandi, að „miklir menn erum við, Hrólfur minn“, þegar svo er komið, að menn geta sett landinu stjórnarskrá við annan eða þriðja mann. Ég býst við því, að 1931 t.d. hafi þeir, sem samninginn gerðu, talið, að þar væri komin stjórnarskrá fyrir Ísland. En það varð bara ekki. Málinu var skotið til þjóðarinnar, og hún stöðvaði það. Hún tók í taumana, og hún kaus nægilega marga þm. á næsta Alþ., sem vildu ekki leggja héraðakjördæmin niður, til þess að það varð að stöðva málið og semja um aðra lausn. Og það er þetta sama, sem nú mun verða barizt fyrir, ef þetta frv. verður samþ. hér á hv. Alþ. og ekki tekið tillit til þeirrar málamiðlunar, sem Framsfl. hefur boðið fram í málinu. Það verður barizt fyrir því, að þjóðin fari eins að og hún gerði 1931.