27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við lifum á öld mikils hraða og mikillar fjölbreytni. Og við höfum orðið þess áskynja hér í kvöld, að það gerast oft ný fyrirbrigði. Eitt af því er það, að hv. 1, þm. Reykv. kom hingað með góða ljóðabók og tók að lesa upp ljóð eftir eitt af þjóðskáldum okkar. Þetta hefðu nú raunar flestir þingmenn getað gert án þess að hafa með sér ljóðabók, en þetta ljóð er auðvitað mjög gott. Yfirleitt er það svo með okkur, þó að við leggjum meira og minna gott til mála, þá jafnast það naumast að djúpri hugsun á við það, sem víða kemur fram hjá Einari Benediktssyni, enda er það sannast sagna, að ljóðið var það langbezta, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði.

Hv. 1. þm. Reykv. ræddi hér nokkuð um íslenzka menningu í sambandi við þetta mál, öðrum þræði að mér virtist til þess að svara því, sem kom fram í dag hjá hv. 1. þm. Skagf. Mér finnst nú raunar það ekki beinlínis snerta þetta mál, sem hér liggur fyrir, að ræða um, íslenzka menningu og skal nú ekki fara langt út í það, enda er það svo, að þó að okkur greini á um þetta mál, sem hér liggur fyrir, þá erum við nú allir Íslendingar og viljum veg íslenzkrar menningar sem mestan. En við megum ekki gleyma því, ef á þetta er litið á annað borð, að menning hverrar þjóðar er af tveimur þáttum: annars vegar er sá efniviður, sem þjóðin hefur mótað og myndað, og hins vegar þau áhrif, sem til. þjóðarinnar berast, m.a. frá menntastofnunum erlendis.

Nú er það kunnara, en frá þurfi að segja, að samhengi íslenzkrar menningar hefur reynzt svo mikið sem raun er á vegna þess, hve furðulega vel hefur tekizt að halda jafnvægi milli beggja þessara þátta, og það er sveitamenningin, sem fyrst og fremst og öldum saman átti drjúgan þátt í því. Við könnumst við það úr sögu þjóðarinnar, að einn embættismaður, lögmaður, ráðlagði beinlínis að leggja niður íslenzkuna og við ættum að „„dependera“ af þeim dönsku“, eins og hann komst að orði. En einmitt á þeim tíma, sem hv. 1. þm. Skagf. vitnaði til, að íslenzk tunga var á miklu undanhaldi í kaupstöðunum; sem þá voru að myndast, þá átti sér stað uppi í sveitunum menningarstarfsemi af því tagi, að t.d. kennimaðurinn, sem sagði sjötugur, að fátæktin hefði verið sín fylgikona, frá því hann kom í þennan heim, hann gat þrátt fyrir það snarað á íslenzku jafnvirði beztu verka erlendra höfuðskálda eins og Miltons og glímt við Byron Bretatröll og haslað sjálfum Shakespeare völl. Þessu megum við ekki gleyma, þegar athugaður er þáttur íslenzkrar menningar.

Nú er það svo um íslenzka menningu, að við óskum þess sjálfsagt öll, að Reykjavík geti ávallt sannað þau orð þjóðskáldsins, sem 1. þm. Reykv. las hér upp, að bylgjan brotnar hér. En við megum ekki heldur gleyma því, að það þarf að vera jafnvægi milli þessara tveggja þátta íslenzkrar menningar, og vegna þeirra breytinga, sem orðið hafa á skipulagi byggðarinnar í landinu, má sízt veikja þann þáttinn, sem á rætur úti um byggðir landsins, — þann þátt íslenzkrar menningar, sem á rætur úti um byggðir landsins. Og ég hygg, að það hafi verið þetta, sem hv. 1. þm. Skagf. vildi benda á.

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. um þungamiðju valdsins, — það var nú raunar víst fyrst orðað svona af fyrrv. formanni Sjálfstfl., Jóni Þorlákssyni, — og hv. 1. þm. Reykv. lagði á það nokkra áherzlu, að þungamiðja valdsins hlyti að færast til eftir því, hvar fólkið hefði búsetu. Þetta má til sanns vegar færa. En þegar talað er um þungamiðju valdsins í þjóðfélaginu, verður að gæta þess, að valdið greinist í fleiri þætti, en löggjafarvaldið eitt, og nú er það yfirleitt svo, að höfuðborgirnar, bæði hér og í öðrum ríkjum, hafa forgangsrétt og réttindi fram yfir aðra landshluta að því er snertir framkvæmdavaldið, þar sem stjórnaraðsetrið er, og í kjölfar þess kemur það, að fjármagn þjóðfélaganna safnast þangað í ríkum mæli, og ýmsar ríkisstofnanir eru að jafnaði öflugastar í höfuðborgunum. Þetta er almennt viðurkennt í lýðræðisríkjum. Og af því sprettur þar sú skoðun, að til mótvægis gegn þessu, ef litið er á valdaskiptinguna í þjóðfélögunum í heild, þá sé það eðlilegt, að réttur höfuðborganna til fulltrúavals á löggjafarþingin sé eitthvað minni, en annarra landshluta, að höfuðborgirnar hafi ekki fyllilega sömu fulltrúatölu miðað við kjósendur eins og þeir landshlutar, sem í fjarlægð eru og ekki hafa í sínum höndum framkvæmdavaldið. Það, sem á milli ber í þessu, er því fyrst og fremst það, hvað langt eigi að ganga til þess að færa til þungamiðju valdsins, einn vill ganga lengra og annar eitthvað skemmra, og það, sem á milli ber, er kannske þó ekki sízt það, hvaða aðferð er beitt eða með hverjum hætti þetta er gert, hvort það eigi að halda við grundvelli hinnar gömlu kjördæmaskipunar eða gera þá byltingu í því efni, sem hér er stofnað til.

Á dagskrá þessa fundar, sem hófst eftir hádegi í dag, eru þrjú mál. Eitt af þeim er frv. um sýsluvegasjóði. Það er ekki stórt mál, það fjallar í raun og veru um það, í hvaða hlutföllum eigi að skipta 3 millj. kr. framlagi ríkisins milli sýslufélaganna í landinu. En þessu máli, sem ekki er stærra í sniðum en frv. um sýsluvegasjóði, fylgir ýtarleg grg. og töflur yfir það, hvaða áhrif frv. hafi frá því, sem verið hefur, og hvaða áhrif á hag hverrar sýslu um sig. Hér erum við að ræða frv., sem blað sjálfs forsrh. hefur lýst þannig, að það feli í sér mestu breyt. á þingræðisskipulagi Íslendinga, sem gerð hefur verið, síðan Alþingi var endurreist, og þessu frv. fylgja aðeins fáar línur sem grg., — fáar línur, sem í raun og veru lýsa engu um áhrif þessa máls. Þetta, hvernig málið er lagt fyrir, hve litlar skýringar fylgja því, það eitt út af fyrir sig mun lengi í minnum haft. En m.a. vegna þess, hve litlar skýringar fylgja þessu máli, þá er ýmislegt í sambandi við það mjög óljóst, og mér er eiginlega nær að halda, að þeir, sem flytja þetta mál og ætla að knýja það fram, hafi alls ekki í öllum atriðum gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar það hefur í sambandi við kosningalögin og framkvæmd kosninga hér á landi. Það kemur a.m.k. ekki fram, hvorki í grg. né í þeim umræðum, sem fram hafa farið um málið.

Ég skal nú ekki tefja tímann með því að fara að nefna dæmi um þetta, þannig að ég dragi fram mörg atriði. En ég vil aðeins minna á eitt atriði í þessu sambandi.

Það hefur komið fram bæði í stjskrn. og eins í umr. hér í deildinni um málið, að ráðgert væri, að úthlutun uppbótarsæta milli flokkanna færi eftir sömu reglum og nú eru í gildi samkvæmt kosningalögunum. Ég er nú ekki viss um, ef litið er á þetta atriði eitt út af fyrir sig, að það fái að öllu leyti staðizt í framkvæmd eftir þá breyt., sem stofnað er til með frv., sem hér er til umr. Þegar litið er á þetta með uppbótarsætin, verður það ljóst, sem raunar hafa verið færð skýr rök fyrir í þessum umr., að með þessu frv. er horfið frá hinni persónulegu kosningu í landinu, en allt miðað við flokka. Þetta verður ljóst, þegar kemur að því ákvæði kosningal. að úthluta uppbótarsætum. Nú er það svo, að þegar ákveðið er, hvaða maður af flokki eigi að hljóta uppbótarsæti í einmenningskjördæmi, þá er eingöngu miðað við persónuleg atkv. mannsins. En þau atkv., sem hann hefur fengið á landslista, koma ekki til greina í því sambandi. Þetta er byggt á þeim grunni, sem núgildandi stjórnarskrá leggur og kosningalögin, að hafa hér hið persónulega kjör að megingrundvelli. Nú verður ekki hægt að fara öðruvísi að, en þannig að reikna út og skammta manninum, sem á að fá uppbótarsæti, vissan hluta af fylgi flokksins, sem fellur til í kjördæminu. Manni, sem er í fjórða sæti, á þá væntanlega að skammta fjórða part af atkv. og miða aðstöðu hans til þess að hljóta uppbótarsæti eftir því. Manni, sem er í fimmta sæti, á þá væntanlega að skammta fimmta part o.s.frv. Hér verður strax að grípa til reikningsaðferða og skömmtunar í stað þess grundvallar, sem persónuleg atkv. mannsins skapa samkv. núgildandi kosningalögum. En meginreglan um, hvernig uppbótarsætum er úthlutað, er sú, að fyrsti uppbótarmaður hvers flokks er sá, sem hefur hæsta atkvæðatölu á bak við sig af þeim, sem ekki hafa verið kjörnir í kjördæmi, annar uppbótarmaður hvers flokks er sá, sem hefur hæsta hlutfallstölu af þeim frambjóðendum, sem ekki hafa náð kosningu í kjördæmi, og þannig koll af kolli. Þó er önnur regla, sem þessar í raun og veru víkja fyrir. Það er sú meginregla kosningal., að af einum og sama flokki skuli aldrei vera nema einn uppbótarmaður úr hverju kjördæmi. Þetta er sú meginregla kosningal., að hinar víkja fyrir henni, og það hefur aldrei komið fyrir, frá því að þetta skipulag var tekið upp 1933, svo að ég muni til, að af einum og sama flokki hafi setið samtímis tveir uppbótarmenn úr sama kjördæmi. Það, að einn uppbótarmaður sé úr hverju kjördæmi um sig, er meginreglan, sem hinar víkja fyrir. T.d. er það svo í framkvæmd, að raunverulega hafa fleiri, en einn þm. í Reykjavík haft hærri atkvæðatölu, en menn, sem hafa hlotið uppbótarsæti á atkvæðatölu, að kallað er, utan af landsbyggðinni.

Nú hefur þetta allt farið eðlilega, þegar kjördæmin hafa verið 28. Þá hefur skapazt nægilegt svigrúm til þess að koma þessum ákvæðum öllum við. En þegar kjördæmin eru orðin ein átta, ja, hvernig fer þá? Nú er gert ráð fyrir því framvegis, eins og verið hefur, að á bak við hvern uppbótarmann sé varamaður, það séu jafnmargir varamenn og aðalmenn eru kjörnir, og samkv. þessu er það þá þannig, að ef einn flokkur fær fjóra uppbótarmenn sem aðalmenn, þá fær hann auðvitað fjóra varamenn jafnframt, og þeir eiga þá að dreifast í öll kjördæmin, þannig að hann hefur aðalmann og varamann einn úr hverju kjördæmi landsins. En hvernig fer, ef einn flokkur fær nú fleiri ,en fjóra uppbótarmenn, sem vel getur komið fyrir? Hvað á þá að gera? Á þá að fara eftir reglunni, að það sé aðeins einn maður úr hverju kjördæmi fyrir hvern flokk, og á þá að láta vanta varamenn, ef ekki verður þá hægt að fylla töluna, eða á þá að byrja á nýjan leik og fara aftur í það kjördæmi, sem varamaður hefur verið valinn frá? Mér sýnist, þó að ekki sé farið lengra út í málið en þetta, að það, sem fram hefur komið frá fylgismönnum málsins um þetta atriði, sé þannig, að þetta sé alls ekki brotið til mergjar, og þannig virðist mér vera um allmörg fleiri atriði, sem algerlega hafa legið milli hluta í þessum umr., en ég skal ekki víkja nánar að.

Ég held sem sé, að það hefði verið öllum hollt að athuga þetta stjórnarskrármál allt saman ofurlítið betur, en að gripa til þess að taka eina grein stjórnarskrárinnar og gerbylta henni án samhengis við önnur efni og án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvaða breytingum það veldur í framkvæmd. [Fundarhlé].

Lýðræði og þingræði byggist á því, að fólkið sjálft, hinir almennu kjósendur, taki þátt í félagsmálastarfi. Það myndar félagsheildir, sem eru þáttur í sjálfu þjóðskipulaginu. Sýslurnar íslenzku eru forn og veigamikill þáttur í þessari byggingu þjóðskipulagsins, og það er nokkur vottur þess, hve stórvægileg sú breyting er, sem hér á að gera, að þeir, sem mæla fyrir þessu frv., leggja sig sérstaklega fram um að gera lítið úr gildi sýslnanna sem sérstakra félagsheilda. Þeir kalla þær hin gömlu skatthéruð konunganna og að það sé skipan, sem sé vaxin upp af því sæði, sem erlendir konungar sáðu hér á landi.

Ræða hv. 5. þm. Reykv. gefur sérstakt tilefni til að víkja nokkuð að því, hver þróun þessara mála hefur verið með þjóðinni um breytingar á félagsheildum, sem fólkið hefur myndað, og hvaða áhrif það hefur haft, þegar stjórnarvöldin hafa farið að taka í taumana og ætlað með valdboði ofan frá að stofna slíkar félagsheildir. Hv. 5. þm. Reykv. lýsti hér till., sem bornar voru fram á Alþingi skömmu eftir aldamótin, og las upp gömul ummæli máli sínu til stuðnings. Þetta eru veigalítil rök, einkum þegar á það er litið, að þessar till., sem hv. þm. var að lýsa, voru felldar með miklum atkvæðamun og hafa aldrei síðan átt nokkurt brautargengi með þjóðinni. Þá minntist hv. 5. þm. Reykv. á ummæli Jónasar Jónssonar, sem hann ritaði í bók sína „Komandi ár“. Það var líka nokkur galli á þessari röksemdafærslu hv. þm. Þessi orð ritaði Jónas Jónsson, áður en hann varð alþm. Ég hygg, að bókin hafi verið gefin út sama árið og Jónas Jónsson var kosinn á þing. En Jónas Jónsson átti síðan sæti á Alþingi um það bil aldarfjórðung, og það er miklu nær að líta á verk hans sem forustumanns Framsfl. allan þann tíma og draga ályktanir af þeim, heldur en færa fram sem rök þessi ummæli, sem hv. 5. þm. Reykv, vitnaði til. Og hver var þá afstaða Jónasar Jónssonar í reynd, þegar hann hafði aðstöðu til að beita sér hér á hæstv. Alþingi, til stórra kjördæma og hlutfallskosninga? Ja, allir hv. þingmenn munu kannast við, hver afstaða Jónasar Jónssonar var gagnvart kjördæmabreyt. 1931–33, sem þá var barizt um, og aftur 1942. Það hefur því harla lítið gildi í sambandi við þetta mál að vitna til þessara ummæla Jónasar Jónssonar.

Þá skal ég víkja að því, hver þróun mála hefur verið hjá þessari þjóð gagnvart myndun félagsheilda og hvaða skipan fólkið sjálft hefur viljað hafa á, í þeim efnum. Það má greinilega sjá mun á því, hvort þróunin kemur neðan frá, eins og við orðum í nál. okkar minni hl. stjskrn., eða hvort það hefur átt að þvinga upp á fólkið með valdboði ofan frá vissri skipan. Meðan einokunarverzlun Dana var í algleymingi hér á landi, var landinu skipt með valdboði ofan frá eftir fyrirmælum stjórnarinnar í sérstök verzlunarumdæmi. Sú skipting er einhver hin illræmdasta, sem saga þjóðarinnar greinir frá. Þegar slakað var á einokunarverzluninni 1787 fyrir sérstaka baráttu Skúla fógeta og Jóns Eiríkssonar, þótti stjórninni hlýða að veita kaupstaðarréttindi nokkrum stöðum á Íslandi. Það var Reykjavík, Grundarfjörður, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. En þetta gerðist með valdboði ofan frá, og þetta hafði ekkert gildi gagnvart þessum stöðum nema Reykjavík, og 1836 var svo komið, að þessi réttindi, sem stjórnin ætlaði að veita, voru afnumin nema gagnvart Reykjavík. En þegar verzlunin var gefin frjáls að fullu 1854, m.a. vegna baráttu Jóns Sigurðssonar, var farin allt önnur leið um þróun kaupstaðanna hér á landi. Eftir því sem byggðin þéttist og kaupstöðunum vex fiskur um hrygg, eru þeim smám saman veitt kaupstaðarréttindi: Akureyri 1862, Ísafirði 1868, Seyðisfirði 1894 og þannig koll af kolli. Þessi þróun hefur orðið til vegna áhrifa fólksins á þessum stöðum og vaxið upp alveg eðlilega í samræmi við þjóðskipulagið sjálft. Og síðan hefur Alþingi smám saman veitt kaupstaðarréttindi, eftir því sem fólkið hefur óskað eftir. En það hefur aldrei komið fyrir, svo að mér sé kunnugt, að Alþingi hafi með valdboði gripið í taumana og sett lög um að skipta kaupstað út úr sýslufélagi, án þess að málið ætti upptök heima fyrir og óskir úr héraðinu og frá þeim stað, sem í hlut átti, hafi verið fram bornar á Alþingi. Eina dæmið, sem kynni að vera hægt að finna til stuðnings hinu gagnstæða, kann að vera það, sem gerðist nú fyrir örfáum árum, að sumum þótti ríkisstj. hafa of mikil afskipti af því að veita Kópavogi kaupstaðarréttindi, og sumir þeir, sem nú standa að þessu frv., héldu þá um það langar ræður hér á hæstv. Alþ., að slík framtakssemi væri algerlega að ófyrirsynju, það vantaði þá undirbyggingu, sem eðlileg væri heiman að. Þannig hefur þróunin verið með kaupstaðina á Íslandi.

Hið sama er að segja um sýslufélögin. Þau eru gamlar félagsheildir, sem tóku við af þinghánum fornu, eins og áður hefur verið rakið, og breyt. á sýsluskipuninni hefur því aðeins verið gerð á Alþ., að óskir um það hafi komið heiman að. Málin hafa verið undirbúin af fólkinu sjálfu heima, og sýslunum hefur þannig verið skipt með löggjöf, þar sem skipting hefur farið fram, smátt og smátt. 1877 er Þingeyjarsýslu skipt og Skaftafellssýslu um sama leyti. 1887 er Barðastrandarsýslu skipt, skömmu fyrir aldamótin Ísafjarðarsýslu og nú á þessari öld Gullbringu- og Kjósarsýslu og síðast Húnavatnssýslu. Það er alveg hið sama að segja um þessar breytingar og um kaupstaðarréttindin, að allar hafa þær verið gerðar eftir óskum heiman að, úr héruðunum.

En ríkisvaldið hefur stundum ætlað með valdboði ofan frá að koma upp sérstökum félagsheildum. Á tímabili var Íslandi skipt í ömt. Það, sem þá gerðist, var ekki vegna áhrifa fólksins í fjórðungunum, heldur kom ofan frá með valdboði stjórnarinnar. Stiftamtmaðurinn og síðan amtmennirnir voru embættismenn dönsku stjórnarinnar og með tilskipun frá stjórninni 1872, er reynt að styrkja þessar félagsheildir, ömtin, með því að setja upp amtsráð. Og hvernig átti að stofna til þessara amtsráða? Jú, þannig að amtmaðurinn var sjálfkjörinn formaður í ráðið, en sýslurnar innan hvers amts áttu að kjósa í sameiningu tvo amtsráðsmenn. Það átti að þvinga sýslurnar til samstarfs í félagsmálum innan hvers amts. Og 1890 er þessu enn þá breytt og reynt að koma í fastara form á þann hátt, að þá er svo ákveðið, að hver sýsla kjósi einn amtsráðsmann, og er fjölgað í amtsráðinu sem því nemur. En þessar félagsheildir, sem þannig var stofnað til, urðu aldrei rótfastar í íslenzku þjóðskipulagi og á árunum 1904–05 voru ömtin og amtsráðin lögð niður.

En sýsluskipanin hefur staðið þessar breyt. af sér. Hún er rótföst, þáttur í sjálfu þjóðskipulagi Íslendinga. Þess vegna missa algerlega marks öll þau ummæli, sem viðhöfð eru nú af fylgismönnum þessa máls um það, hve sýslurnar séu lítilvægar félagsheildir og eigi sér ekki sögulega þróun, heldur séu þær sprottnar upp af því sæði, sem erlendir einvaldskonungar sáðu hér á landi, eins og komizt er að orði í nál. meiri hl. Þessi rök missa algerlega marks, þegar málið er skoðað í réttu ljósi.

Þá hefur verið í þessu máli vitnað til búnaðarþings og hvaða afstöðu bændastéttin hefur haft um kjör til búnaðarþings og stærð kjördæmanna í því sambandi. Þá er rétt að minna á það, að fyrst, þegar stofnað var til búnaðarþings, var reynt að hafa kjördæmin stór og tengja kjör til búnaðarþings við ömtin, þessar félagsheildir, sem stjórnvöldin voru að koma upp. Þá var í fyrstu þannig kosið til búnaðarþings, að það voru tólf fulltrúar, sem þar áttu sæti. Búnaðarfélag Íslands eða aðalfundur þess kaus fjóra fulltrúana, en tveir voru kosnir í hverju amti eða átta samtals, og kjördæmin til búnaðarþings voru þá raunverulega fjögur. En síðan hefur þróunin í þessu efni verið sú, að kjördæmunum til búnaðarþings hefur sífellt verið að fjölga. Og 1932 gerðist sú breyt. í þessu efni, að Norðurlandi, sem hafði um tíma verið eitt kjördæmi til búnaðarþings, var skipt í fjögur búnaðarsambönd, eins og sýslumörkin segja til um, og þar með í fjögur kjördæmi. Breyt., sem gerð var 1937 í þessu efni og gerð hefur verið að umtalsefni í þessum umr., miðaði að því að fjölga búnaðarþingsfulltrúum nokkuð frá því, sem áður hafði verið, og kjósa þá beinum kosningum. En kjördæmin, búnaðarsamböndin, eru að mestu leyti miðuð við sýsluskiptinguna, þannig að eins og þessu er nú háttað, eru átta einmenningskjördæmi við búnaðarþingskosningar og þrjú tvímenningskjördæmi og aðeins fjögur, sem kjósa fleiri menn, en tvo saman. Þróunin í þessu efni, þar sem bændastéttin ræður sjálf, fer því greinilega í þá stefnu að smækka kjördæmin, en stækka þau ekki. Og af því að mér er sérstaklega kunnugt um síðustu skiptinguna, sem átti sér stað, þ.e. þegar Búnaðarsambandi Austurlands var skipt, þá vil ég víkja að því nokkrum orðum.

Austur-Skaftfellingar höfðu lengi verið í Búnaðarsambandi Austurlands, og það tók yfir nákvæmlega sama svæði og Austurlandskjördæmið á að ná yfir samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, svæðið frá Skeiðarársandi að Langanesi. Ég tel mig mega segja það hér á þessum stað, að Austur-Skaftfellingar og þá sérstaklega þeir forustumenn í hverjum hreppi, sem sinna mest félagsmálum, eru fremur félagslyndir menn og hafa hvergi reynzt þrándur í götu í félagsmálum, hvorki innan sýslu né utan. Og þegar ég segi þetta, geri ég ekki upp á milli manna eftir því, hvaða stjórnmálaflokki þeir fylgja. Það var því vissulega svo, að Múlasýslumenn vildu gjarnan halda búnaðarsambandinu óskiptu og hafa Austur-Skaftfellinga með í sínum félagsskap. En óskirnar um það að smækka kjördæmin komu frá Austur-Skaftfellingum og áttu mjög góðum skilningi að mæta í Múlasýslunum, og þess vegna var í það ráðizt nú eftir 1950 að kljúfa sambandið og þar með kjördæmið í sambandi við kosningar til búnaðarþings og gera eignaskiptingu og full skil, sem af því leiddi. En atkvæðatölurnar, hvernig eru þær, á bak við fulltrúana til búnaðarþings? Austur-Skaftfellingar hafa fengið með ágætu samkomulagi að kjósa einn mann til búnaðarþings. Bak við hann standa 160 atkv. í búnaðarsambandinu, því að kosningarréttur er bundinn við jarðeign og er ekki hinn sami og til alþingiskosninga. En bak við tvo fulltrúa, sem Múlasýslumenn kjósa, standa 849 kjósendur, þ.e.a.s. 424 atkv. á bak við hvorn búnaðarþingsfulltrúa. Þrátt fyrir þennan atkvæðamun hefur á svæðinu verið hið allra bezta samkomulag um þessa skiptingu, bæði fulltrúaskiptinguna og skil á milli búnaðarsambandanna. Og ég vil taka það fram vegna þeirra, sem alla hluti virðast sjá gegnum flokksgleraugu, sem ljóst kemur fram í sambandi við þetta mál, að Austur-Skaftfellingar hafa ekki gengið þessa braut vegna pólitískra ástæðna og þeir hafa ekki í sambandi við kjör til búnaðarþings sýnt flokkslega ósanngirni, það hefur ekki verið sýnd flokksleg ósanngirni af hálfu þess flokks, sem raunverulega hefur í sínum höndum meirihlutavald í sýslunni. Hér er allt annað, sem liggur til grundvallar óskum þeirra um að starfa einir sér að sínum félagsmálum. Það er reynslan af því, hve erfitt það er að vera virkur þátttakandi í félagsmálum á svo stóru svæði eins og svæðið er, sem nú á að verða Austurlandskjördæmi.

Þegar bændurnir fara að stofna sín ræktunarsambönd, er enn sama stefnan uppi að kljúfa búnaðarsamböndin í enn smærri heildir, af því að það þykir leiða til sterkara persónulegs sambands og reynast betur, þegar framkvæma á þau verk, sem verður þó að vinna með félagslegu átaki. Þannig er farið að, þegar fólkið sjálft fær að ráða án valdboðs ofan að.

Af þessu má sjá, að sýslurnar eru félagsheildir, sem eru rótfastar í sjálfu þjóðskipulaginu og eru eðlilegur grundvöllur undir kjördæmaskiptinguna. Af þessu má sjá, að fólkið vill fremur smækka félagsheildirnar, en stækka þær. Og af þessu má einnig sjá, að það hefur ekki gefizt vel, þegar með valdboði ofan að hefur átt að þvinga fólkið til þess að starfa saman í sérstökum félagsheildum.

Hér kemur fleira til, þegar athuga á um gildi sýslnanna og hvaða viðhorf þegnar þjóðfélagsins bera til þeirra og héraðanna hvers út af fyrir sig. Fólkið, sem hefur flutzt í þéttbýlið, hefur á undanförnum árum verið að stofna sérstök félög, átthagafélög, án alls valdboðs. Það hefur gert þetta með eigin framtaki og til þess að vinna sínu héraði gagn á ýmsan hátt og halda við gamalli kynningu. Og hvernig er þá stofnað til þessa frjálsa félagsskapar? Er það Norðlendingafélag, sem starfar hér? Nei, það er Skagfirðingafélag, Eyfirðingafélag, Þingeyingafélag o.s.frv. Það eru sýslurnar, héruðin sjálf, sem fólkið finnur að eru hinar sérstöku félagsheildir, sem það vill minnast og mynda samband til þess að styrkja. Og þessi átthagafélög, sem þannig eru byggð upp með frjálsu framtaki fólksins, starfa að ýmsum menningarmálum hvert fyrir sína sýslu. Þegar á þetta er litið, styrkir það enn þau rök, að sýsluskiptingin og héruðin eru svo rótfastar félagsheildir, að það er varhugavert spor að slíta kjördæmaskipunina frá þeim. En þeir, sem að þessu frv. standa, horfa á málið frá allt öðrum sjónarhól. Þeir horfa á málið gegnum flokksgleraugu. Þeir líta á aðstöðu flokkanna, og í miðstöðvum þeirra hugsa þeir sér að koma upp þeirri Hliðskjálf, sem þeir geti horft frá og talið höfðafjöldann hver innan sinnar flokksgirðingar, og líta þess á milli á reikningsstokkinn, sem þeir hafa með höndum. Þetta er hugsjón þeirra, sem standa fyrir þessu máli um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Þá er það eitt í þessu máli, að því er haldið mjög á loft, að sýslurnar séu hin gömlu skatthéruð konunganna. Ja, Ísland var lengi skattland. Það var skattskylt Noregskonungi og Danakonungi. En þjóðin hefur samt sem áður lagt í það að stofna hér lýðveldi, og þó að við eigum heima á landi, sem einu sinni var skattland erlendra konunga, þá unnum við þessu landi og ætlum okkur að halda hér uppi sjálfstæðu lýðveldi, og fulltrúar hins íslenzka lýðveldis, sem starfa á erlendri grund, horfa djarft á hvern sem er, þó að þeir séu frá gömlu skattlandi, enda mun þá hinu íslenzka lýðveldi bezt farnast, að svo sé gert. Sannleikurinn er sá, að saga þjóðarinnar og saga landsins er tvinnuð saman. Og þrátt fyrir alla þá áfellisdóma, sem Alþingi fær, er samt horft til þessarar stofnunar hvarvetna af landinu, vegna þess að á Alþingi eru ráðin þau ráð og unnin þau verk, sem miða að því að efla byggðir landsins og búa í haginn fyrir fólkið, sem landið byggir. Þess vegna er hugsun þjóðarinnar svo bundin við landið sjálft, og þegar því hafði verið lýst af Lögbergi 1944, að á Íslandi væri stofnað lýðveldi, þá jafnvel samstundis brauzt fram eins og frá hjartarótum allrar þjóðarinnar spurningin, sem hefur síðan lifað á vörum hennar: Hver á sér fegra föðurland?

Það var að sönnu innheimtur skattur í sýslunum, en einungis vegna þess eins, að þær eru hver um sig lítill hluti af gömlu skattlandi. En þeir, sem búa úti í héruðunum, og þeir, sem jafnvel eru fluttir þaðan, en standa í tengslum við héruðin, líta allt öðruvísi á heldur en sýslurnar séu fyrst og fremst hin gömlu skatthéruð konunganna. Þeir eiga sína söngva, eins og þjóðin í heild á sína. Skín við sólu Skagafjörður, — Eyjafjörður finnst oss er, — Fljótsdalshérað friðarblíða, — Ó, Rangárgrundin glaða — og margt og margt fleira af sama tagi. Halda þessir menn, sem standa að þessu máli og vilja veg héraðanna sem minnstan, að þegar fólkið hefur um hönd þessa söngva, þá sé það hugsunin og minningin um gömul skatthéruð konunganna, sem liggur þar til grundvallar, eða halda þeir, að það sé eitthvað annað, sem stendur dýpri rótum í hugum fólksins?

Ég ætlast ekki til, að flm. þessa máls svari þessum spurningum. Þeir ganga með reikningsstokkinn sinn og líta á hann, og milli þess hugsa þeir sér að telja höfuðin hver í sinni flokksgirðingu. En ég ætlast til þess, að sumir aðrir, sem sýnilega greiða þessu frv. atkv., geri sér grein fyrir því, hvernig þessu er háttað með samband fólksins við héruðin. Og þeir, sem horfa á reikningsstokkinn og hafa það að hugsjón í sambandi við setningu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, kunna að verða þess varir, þó að síðar verði, að úti í héruðunum búa menn, sem vilja veg héraðs síns sem mestan, sem vilja ekki afsala sér réttindum, fornum réttindum, þó að þeir unni þéttbýlinu alls góðs. Það eru menn, sem ætla sér að byggja héruð sín og bæta land sitt til hags fyrir vaxandi þjóð.