02.05.1959
Efri deild: 111. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Bjarnason:

Ég vil mjög mótmæla þeirri ákvörðun forseta að taka málið út af dagskrá nú og fresta umr. Það vita allir hv. þm., að Alþingi hefur setið meginhluta vetrar svo til auðum höndum, og þó að nú yrði haldinn eftirmiðdagsfundur hér í þessari hv. þd., þá væri vissulega ekki þröngvað kosti hv. deildarmanna. Þar sem nú hæstv. forseti ber það fyrir sig í þessari ákvörðun sinni, að ég hafi kvatt mér hljóðs, þá vil ég þó gera tilraun til þess, að hv. d. geti lokið umr. um þetta mál nú á þessum fundi, og býð því hæstv. forseta að falla frá orðinu við þessa umr., ef hann þá treysti sér til þess að ljúka umr., en að sjálfsögðu gegn því þá, að aðrir tali ekki.