04.05.1959
Efri deild: 112. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég mun líta nokkuð öðrum augum á þetta mál, en margir aðrir, og vildi ég þess vegna fá tækifæri til þess að segja nokkur orð, áður en málið færi til nefndar.

Þegar alþingiskjósendur eiga að velja sér þm., þá gera þeir það a.m.k. í sveitinni, en sveitamenningin hefur það fram yfir hina eiginlegu borgarmenningu, sem óvíða er komin á hér í bæjum enn, nema að nokkru leyti, að hún gerhugsar málin, og þar skapa Íslendingarnir sér sjálfir sjálfstæða skoðun á því, sem um er að ræða í hvert skipti. Þegar komin er á eiginleg bæjamenning, þá kemur hópsálin, sem verður fyrir áhrifum frá fjöldanum, og menn verða já-bræður án þess að hugsa málin sjálfir. Þegar þessir menn, sem eru sveitamenningarmenn, reyna að gerhugsa málin með afstöðu til heildarinnar og frambjóðenda, þá er það fyrst að athuga: hvaða mál eru það nú, sem ég er sammála þingmannsefnunum um, sem í boði eru, eða þm.? Og ég hygg, að það sé varla einn einasti kjósandi um allt land, sem er fullkomlega jábróðir þingmannsefnanna, sem í kjöri eru. Hann gerir hvert mál upp fyrir sig og finnur, að hann er sammála þessum manni í þessu máli, hinum frambjóðandanum í öðru máli o.s.frv. Og þegar hann er búinn að fara þannig gegnum málin, sem fyrir liggur að leysa á næstu árum, og hann veit, að sá þm., sem hann kýs, kemur til með að fjalla um, þá reynir hann að finna út úr því samnefnara, finna út úr því, með hverjum hann hefur mesta samstöðu. Þegar hann er í þessum vandræðum, þá er honum ákaflega mikils virði og það ríður oft baggamuninn, ef hann þekkir þingmannsefnið, og ef þeir þekkjast vel, þá kemur það fram, að hann hefur misjafnt traust á mönnunum sjálfum, eftir að hann kynnist þeim, og þá getur hann frekar sætt sig við að kjósa mann, sem ekki er honum sammála að öllu leyti. Ég þekki tvo bændur á landi hér, sem hafa ekki kosið yfir 20 ár, af því að þeir hafa aldrei fengið frambjóðanda, sem þeir hafa að öllu leyti getað sætt sig við, að öllu leyti verið sammála, og ekki komizt í tengsl við þá hins vegar, að þeir hafi getað kynnzt þeim það persónulega, að þeir hafi getað borið traust til þeirra, þegar þeir ekki fyrir fram voru sammála þeim í öllum málum.

Þetta sjónarmið gerir það að verkum, að ég tel glapræði og nærri því glæp gagnvart því, sem við erum að reyna að gera með því að láta sem allra flesta menn í landinu fá þá menntun og fá þá undirstöðu, að þeir geti myndað sér sjálfstæða skoðun um málin, að rjúfa þessi tengsl milli þingmannanna eða frambjóðendanna annars vegar og kjósendanna hins vegar. Ég hef í 25 ár verið frambjóðandi og þm. í Norður-Múlasýslu. Ég hef á hverju ári haldið fund í hverjum einasta hreppi. Ég þekki mennina, sem búa þar, persónulega og veit þeirra skoðanir allar saman mætavel, og margir af þeim hafa traust á mér, og það menn, sem eru ekki einu sinni það sem kallað er mínir flokksmenn, því að flokkarnir eru með stefnuskrár, sem eru svo loðnar, að það er venjulega hægt að túlka þær á ýmsa vegu, a.m.k. margar af þeim. En með því að verja svona hálfum mánuði eða þremur vikum í að finna þá á hverju ári, tala við þá um málin, sem fyrir liggja, heyra þeirra álit á þeim, og svo eins fyrir framboð, þá hafa myndazt milli okkar sæmilega góð persónuleg kynni. En hvernig á ég að gera það, þegar ég á að mæta á 35 fundum í stóra kjördæminu? Ef ég vildi halda áfram og vera þm. áfram, þá yrði ég að mæta á 35 fundum árlega til þess að geta haldið persónulegum kynnum við kjósendur. Ég hygg, að það verði með öllu ómögulegt. Sá maður, sem á að gera það, má a.m.k. ekki hafa mjög mikið að gera, ef hann á að reyna að halda þeim tengslum við. Ég tel, að honum sé það ómögulegt. Ég skal ekki segja kannske með sjálfan mig, ég var duglegur að ferðast á mínum yngri árum, þetta hefði ég getað gert, þegar ég var svona um þrítugt, fertugt, — hvort ég hefði þá getað verið á ferðinni liðugan mánuð til þess að kynnast þeim og lofa þeim að kynnast mér, ég skal ekki segja það, en ég efa það, og ég efa, að það verði gert. Þar að auki er svæðið það stórt og víðáttumikið, ég tek þetta svæði aðeins sem dæmi, en sama gildir um fleiri kjördæmi, að það er hér um bil útilokað, að kjósendur geti komið saman á fund til að ákveða, hverjir eigi að vera í framboði í hinum stóru kjördæmum. Það hlýtur óhjákvæmilega að færast, a.m.k. þegar lengra líður, yfir á miðstjórnirnar, og það er það, sem stefnt er að með þessu frv. Það er að auka vald flokksstjórnanna, rýra vald héraðanna og reyna að þurrka sem mest út þeirra sjónarmið eða skoðanir einstakra manna á þeim málum, sem fyrir liggja á hverjum tíma, neyða þá til þess að kjósa menn eftír flokkum, en ekki eftir því, hvernig kjósendurnir líta á þingmenn sem menn, þegar þeir eru búnir að meta sjálfstætt málin, sem fyrir liggja, og hver afstaða hvers og eins er til þeirra.

Það er þetta fyrst og fremst, sem mér þykir algerlega óhæfa í þessum stóru kjördæmum. Það er aukið flokksræðið og reynt að þurrka út, eins og skáldið Dal sagði, sveitamenninguna, með því að reyna að gera sveitafólkið að múgmennum, sem verða bara að gera svo vel að játa þær heildarskoðanir, sem flokkurinn hefur, og kjósa eftir því, án þess að geta komið að neinu sjálfstæðu frá sjálfum sér.

En einmitt þetta sama er svo orsök til þess, að ég tel hreint glapræði og glæpi næst að ætla sér að ákveða stjórnarskrá saman með öllum öðrum málum. Það er mælt svo fyrir í stjórnarskránni, að það eigi að ganga til atkvæða um hana sérstaklega, eftir að búið er að samþykkja hana á Alþ. En hvernig má það verða? Þá bætist þar við eitt málið enn, sem kjósandi verður að taka afstöðu til, þegar hann reynir að finna samnefnara skoðunum sínum, með hvaða þm. hann á helzt samstöðu. Og þá getur vel farið svo, við skulum segja sem dæmi, það getur vel farið svo, að ég sem kjósandi einhvers staðar væri alveg sammála t.d. Ólafi Thors um það, hvernig hann vildi hafa breytingu á stjórnarskránni. Hvernig í lifandis ósköpunum ætti ég að kjósa svo lítið alvörugefinn mann og með þá fjármálastefnu, sem hann hefur? Ja, hvað ætti ég að gera? Eða Einar Olgeirsson? Við skulum hugsa okkur, að ég og hann værum alveg sammála, hvernig stjórnarskráin ætti að vera, alveg sammála, bæri ekkert á milli. En ætti ég þá að kjósa hann til að vinna á móti framgangi fjölda mála, sem ég teldi nauðsynleg, þó að ég væri sammála honum um þetta eina? Það er alveg útilokað, að kjósandi, sem hugsar málin, geti kosið um stjórnarskrána eina út af fyrir sig, þegar hann á að taka um leið afstöðu til fjöldamargra annarra mála. Þess vegna verður og á stjórnarskrá, sem talin er öðrum lögum æðri og undirstaða undir annarri lagasetningu þjóðarinnar, að afgreiðast alveg sér, kjósandinn á að greiða atkv. um hana eina og ekki taka tillit til neinna annarra mála, sem fyrir liggja, hvorki dægurmála, sem yrði að taka tillit til vegna alveg næstu ára, eða mála, sem hafa sjónarmið lengra fram í tímann.

Þessa skoðun hef ég látið í ljós fyrr á Alþingi. Og einmitt af því, að ég tel, að það eigi að kjósa um stjórnarskrána eina, þá á núna í þetta skipti ekki að gera neina aðra breyt. á stjórnarskránni, en þá að skapa grundvöll fyrir því, að henni verði framvegis breytt á sérstöku stjórnlagaþingi, og þá breytingu á að setja inn í staðinn fyrir breyt., sem núna er á dagskrá, enda er ekki hróflað við nema einu atriði, kjördæmaskipuninni, af mýmörgum, sem þarf að breyta í stjórnarskránni. Þrátt fyrir langan umhugsunartíma hafa mennirnir, sem að því hafa unnið, ekki séð ástæðu til að hrófla við neinu öðru í henni, þó að líklega flestallir eða allir viðurkenni, að það sé margt í henni fleira, sem þurfi að bæta. Það á aldrei að geyma til morguns, sem hægt er að gera í dag, og það áttu þeir að gera og ekki hliðra sér hjá því að koma með þær breytingar, sem þeir fundu réttmætar á henni, úr því að þeir fóru að gera breytinguna á annað borð.

Ég legg þess vegna alveg ákveðið til, að n., sem fær þetta mál hér til meðferðar, breyti því frv., sem fyrir liggur, og færi í það horf eitt, að það sé hægt að breyta og eigi að breyta stjórnarskránni framvegis á sérstöku stjórnlagaþingi. Þegar búið er að ákveða það, þurfa að koma till. um það frá einhverjum og einhverjum, — það getur verið frá hverjum sem vera skal, — hvernig þeir vilji láta breyta henni. Og þegar þjóðin er búin að átta sig á því á einu til tveimur árum, þá á að kjósa á þetta sérstaka stjórnlagaþing. Það má gerast í einu lagi um allt land, með hlutfallskosningu um allt land. Það er bara eitt einasta mál, sem um er kosið. Það þarf ekki að hafa sjónarmið af neinum kjördæmamálum eða neinu öðru, en því eina máli, og þá kemur vilji þjóðarinnar skýrt fram, og þá hefur stjórnarskrárfrv. verið dregið út úr dægurþrasinu, en ekki haft inni í því eins og nú.

Þetta sjónarmið vildi ég láta koma fram, áður en málið færi í n., svo að það væri alveg eftir vilja nefndarinnar, hvort hún ekki vildi sinna því neitt, hvort stjórnarskrá landsins væri ekki meira virði, en venjuleg lög, um það, hvort ætti að baða á hverju ári eða öðru hvoru ári, eða hvort það ætti að leyfa að veiða kola inni á fjörðum eða ekki o.s.frv., o.s.frv. Með því sýnir hún stjórnarskránni þann sóma, sem hún á að hafa, að hún sé rædd alveg sérstaklega og þjóðin fái sérstaklega að segja sitt álit um hana.

Þetta var það, sem ég vildi segja sérstaklega, áður en málið færi til nefndar. En úr því að ég stend hér í stólnum, þá langaði mig líka til að fá upplýsingar um annað. Ég skal ekkert vera að tala hér neitt mikið um gallana á þessu fyrirkomulagi, en ég hef þegar sagt, að það slítur tengslin milli þingmannanna og kjósendanna, og það tel ég til mikillar óþurftar, bæði beint og enn þá meira óbeint, þar sem það beinlínis hvetur menn til þess að hætta að hugsa sjálfstætt um málin og lausnina hverju sinni, heldur ætlast til, að þeir segi já og amen og verði bara málpípa einhverra annarra, sem leggja þeim orðin í munn.

En þetta hefur verið talið ákaflega mikið réttlætismál, að setja stór kjördæmi, og hefur þm. N-Ísf. (SB) rakið sögu málsins og lagt ákaflega mikið upp úr því, hvað nú stæðu misjafnlega mörg atkvæði bak við hvern þingmann. Því mótmælir enginn. En þegar við lítum á vald Alþingis og gerðir Alþingis, þá eru að sumu leyti störf Alþingis ósköp áþekk starfi sýslunefndar. Það úthlutar fé í kjördæmi, vegi, brýr o.s.frv., eins og sýslunefndirnar úthluta fé, hreppavegafé o.s.frv. í þennan og þennan hrepp. Þær setja reglugerðir, sem eru hreppunum lög, alveg eins og Alþingi setur lög, sem eru kjördæmunum og landinu öllu lög. Og ég ætla að spyrja þm. N-Ísf. að því, — ég held, að í stærsta hreppnum hjá honum hafi verið eitthvað liðugir 400 kjósendur við síðustu kosningar, líklega kringum 420–430 kannske, eitthvað svoleiðis, en í minnsta hreppnum hjá honum munu hafa verið um það bil 30, skelfing er þetta ranglátt gagnvart þessum 400, það er enn þá ranglátara, en í stóru og litlu kjördæmunum, — mig langar til að spyrja þessa menn, sem halda þessu réttlæti svona ákaflega fast á lofti og ég er ekkert að mótmæla, hvernig þeir ætli sér að breyta kosningunum í sýslunefndirnar, svo að réttlætið komi fram. Á að fjölga í sýslunefnd Norður-Ísfirðinga, svo að Hólshreppurinn t.d. fái að kjósa nokkurn veginn þeim mun fleiri menn á sýslufund, en Snæfjallahreppurinn, sem kýs einn núna, alveg jafnt og Hólshreppurinn, — ég held 19 kjósendur hafi verið í Snæfjallahreppi 1953, ég hef ekki gáð að því 1959, — eða Grunnavíkurhreppurinn, sem hafði eitthvað svipað? Á hvern hátt vill hann breyta því, svo að réttlætið komi fram þarna? Ég veit það ekki. En ég efast ekkert um, að þeir menn, sem hafa legið undir húðfeldi a.m.k. suma dagana og ekki sýnt sig hér í deildinni tímunum saman, þeir hafa hugsað þetta alveg til enda, hvernig þetta réttlæti eigi að færast út. Þm. Ak. hér í deildinni er oddviti sýslunefndar í einu kjördæmi hér á landi, og hann kannast við það sama, að það standa ólíkt margir kjósendur á bak við t.d. fulltrúa úr Svarfaðardal eða fulltrúa úr Öxnadal eða fulltrúa úr Grímsey. Hvernig er hægt að breyta fyrirkomulaginu, svo að réttlætið komi þarna fram? Ég spyr. Ef það er lífsnauðsyn að ná réttlætinu í alþingiskosningunum, þá er ekki síður lífsnauðsyn að ná því í sýslunefndinni, það er alveg eins.

Ég hef heyrt það hér, sérstaklega hjá þm. Vestm. (JJós) nokkuð oft, er hann hefur verið með fjárbeiðnir fyrir sitt kjördæmi, að þetta væri ekki mikið og það væri sjálfsagt að vera með því, því að þetta kjördæmi, sem í hlut ætti, framleiddi svo mikið og greiddi svo mikið í ríkissjóðinn. Og ég hef orðið var við þetta hluthafasjónarmið víðar, en hjá honum. Kannske þeir vilji láta sýslunefndirnar fara að nota sér það við úthlutun fjár í hreppana. Það gengi þá seint að koma Grunnavíkurhreppi í samband við þjóðveginn, ef það væri notað. Þess vegna vil ég gjarnan fá svar.

Ég skal að öðru leyti ekki ræða mikið um málið meira. En ég legg áherzlu á, að það sé ekki bætt við kjósendurna einu atriði enn, sem þeir þurfi að taka tillit til og reyna að finna samnefnara að saman við öll hin, sem fyrir eru, þegar þeir eru að glöggva sig á, hvaða frambjóðandi það er, sem hefur mesta samstöðu við þá í lausn málanna, heldur sé það málið, sem er ofar hinum málunum, breytingin á stjórnarskránni, tekið út úr og menn látnir kjósa um það mál eitt og afgreiða það á sérstöku þingi, sem til þess er kosið, og um það má kjósa hlutfallskosningu um allt land, til þess koma engin sérsjónarmið kjördæma til greina eða annað þess háttar, sem annars vill oft verða í kosningum til Alþingis.

Loks vil ég segja það, að ég kann heldur illa við það, þegar þingmenn bæði í ræðu og riti þykjast vera að hæla sér af því, hvað þeir eru duglegir fyrir þessi og þessi kjördæmi. Morgunblaðið var rétt nýlega að hæla þm. N-Ísf. fyrir dugnað fyrir kjördæmið. Hvað er það, sem þeir kalla dugnað fyrir kjördæmið? Ja, honum var hælt fyrir það, að hann væri duglegur að afla fjár í vegi og ýmislegt í þessu kjördæmi. Ég hef hálfgerða andstyggð á þessu. Ef þm. hefur ekki yfirsjón yfir allt landið og sér og veit, hvar þörfin er mest á vegum, þá er hann enginn maður til að vera þingmaður. Ef hann er það ranglátur að vera að reyna að útvega fé í sitt kjördæmi til að framkvæma þetta og þetta, þó að hann viti, að þörfin sé miklu meiri í öðrum kjördæmum, þá er hann beinlínis illa hæfur til að vera þingmaður, og á engum manni að hæla fyrir það. Ef þm. er ekki vaxinn yfir það músarholusjónarmið að sjá ekkert nema sitt kjördæmi og reyna að teygja fé þangað, þá er því ekki hælandi, það ætti að skamma hann fyrir það.

Þetta vildi ég líka láta koma fram. Og ég vildi óska, að íslenzkir kjósendur yxu upp úr því, og þeir gera það því betur margir, að vera með slík músarholusjónarmið og sjá ekkert út yfir sitt eigið kjördæmi. Ég hef staðið í mínu kjördæmi á fundi, þar sem ég var frambjóðandi. Þar voru óbrúaðar tvær ár, sem öllum kom saman um að þyrfti að brúa. Einn frambjóðandinn sagði: Ég skal sjá um, að þær verði brúaðar strax, bara strax næsta ár, ef því er að skipta. — Ég sagði: Ég ætla ekki að beita neinu ranglæti til að koma fram því, sem þið viljið, ég vil brúa líka. Ég hef yfirsýn yfir, hvaða ár þarf að brúa á landinu öllu, og verði ekki veitt meira fé til brúagerða, en verið hefur, þá er það ekki fyrr en 1951, þó að ykkur þyki langt að bíða eftir því, að þessar ár verða brúaðar. — Þeir komu til mín margir á eftir og sögðu: Heldurðu, að þetta geti virkilega verið rétt? — Ja, ég sagðist vera búinn að leggja það niður fyrir mér og þetta væri mín skoðun. Ég missti ekkert af atkvæðunum. Brúin var byggð 1951. En hefði ég farið að berjast fyrir því á þingi að heimta hana áður og gera þar með öðrum mönnum rangt til, þá hefði það verið svívirðing af mér að gera það, hrein svívirðing. Og þess vegna er það alrangt að vera að hæla mönnum fyrir, að þeir séu duglegir fyrir sitt kjördæmi á þennan og þennan hátt með því að gera öðrum mönnum rangt til og ota sínum tota fram yfir það, sem réttlátt er í hvert sinn.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri, en ég endurtek það, að ég bið n., sem fær þetta mál hér til meðferðar, að gerbreyta brtt. við stjórnarskrá landsins, sem fyrir liggja í frv., sem hér er nú verið að ræða, breyta þeim í það horf, að það verði ákveðið, að stjórnarskránni verði breytt á sérstæku stjórnlagaþingi, þar sem kosnir séu menn til þess eins, svo að þar fáist hreint fram vilji kjósendanna til málsins, en þeir þurfi ekki að hafa það með ótal öðrum málum, þegar þeir taka tillit til þess, hvaða þingmann þeir eigi að kjósa.