06.05.1959
Efri deild: 113. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (karl Kristjánsson):

Herra forsetl. Hún var löng, þessi yfirborðshógværa ræða hv. 6. þm. Reykv., og vegna þess, hve hún var löng, en ekki vegna þess, hvað hann sagði, þá hvarflaði mér í hug jafnvel skilningur á því, hvers vegna hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) hafa gefizt upp á því að halda fram skoðunum sínum á móti hv. 6. þm. Reykv., sem þeir héldu fram í stjórnarskrárnefndinni, þegar við vorum þar saman, því að satt að segja þykir mér það ákaflega undarlegt, að þeir skuli hafa týnt niður þeim skörpu meðmælum, sem þeir héldu þá fram vegna einmenningskjördæmafyrirkomulags. Og hér í þessum umræðum hefur verið minnzt á mjög sterk rök Bjarna Benediktssonar einmitt gegn því, sem hv. 6. þm. Reykv. var að halda fram. Hann sagði, að hann væri hræddur um, að ekki yrði hægt að endurskoða stjórnarskrána í heild, en nefndi hins vegar ákaflega mörg atriði og mörg þeirra mjög réttilega um það, sem breyta þyrfti. Hann sagðist vera hræddur um, að það yrði ekki hægt að endurskoða stjórnarskrána þrátt fyrir þetta í heild, nema ljúka fyrst kjördæmamálinu, sem væri mjög mikið hitamál. Hann kvað ekki sterkara að orði en þetta, að hann væri hræddur um það. Hins vegar er frv., sem hann stendur að og mælir með, allmörgum gráðum harðara, en þetta. Ég hygg, að honum hafi þótt praktískt í rökræðum að beita þessari hógværð, að hann væri aðeins hræddur um.

Án þess að kappræða um þetta vil ég benda á, að það er alls ekki viðkunnanlegt að breyta stjórnskipunarlögum sí og æ, og hann gaf því sjálfur það nafn að hringla með stjórnarskrána. Og til þess að komast hjá hitanum, fram hjá þessum hita, var alveg tilvalið vegna kjördæmaskipunarinnar að taka málið út af Alþingi, því að þar er hitinn, en ekki úti á meðal þjóðarinnar, eins og við framsóknarmenn höfum bent á, og fela sérstöku stjórnlagaþingi að afgreiða endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild.

Hv. 6. þm. Reykv. var svo hófsamur líka að því er stjórnlagaþing snerti, að hann vildi ekki fordæma þá hugmynd. En hann taldi, að með því væri þó verið að draga niður virðingu Alþingis, hinnar þúsund ára gömlu, virðulegu, einstæðu stofnunar, með því að vísa þessu máli til stjórnlagaþings.

Nú er fyrst á það að líta, að við verðum að taka Alþingi elns og það er, en ekki eins og hvernig það ætti að vera. Mér t.d. sýnist, að frv. það, sem hér liggur fyrir, lækki mjög hróður og virðingu Alþ. Ég tel, að það sé fyrir neðan virðingu Alþ., að þrír flokkar geri þar slíkan kaupskap sem gerður hefur verið.

Í öðru lagi er það svo þannig, að það er svo stór viðburður að setja lýðveldi stjórnarskrá, lýðveldi, sem er endurheimt eftir 7 aldir, að hann verðskuldar slíka viðhöfn, að kosið sé til þess sérstaklega. Og það er þetta, sem við framsóknarmenn höfum haldið fram, vegna þess að okkur hefur ekki fundizt, að hæstv. Alþ. ætlaði að valda því að afgreiða það mál svo virðulega sem skyldi.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði allmikið um það, hvernig ég hugsaði eftir till. minni, að kosið yrði til stjórnlagaþings, og hann taldi, að það væri fráleitt ákvæði, sem ég vildi hafa, að stjórnmálaflokkar, sem eru starfandi eða hafa haft starfsemi uppi fyrir stuttu, mættu ekki beita sér sem slíkir við kosningar til stjórnlagaþings. Og hann fór um þetta dálítið háðulegum orðum. Það, sem ég segi um þetta í grg. fyrir till. minni, er á þessa leið, það er 4.liður í gr.:

„Lagt er til, að þeir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi eða haft hafa menn í kjöri við alþingiskosningar, megi ekki bjóða fram til stjórnlagaþings. Er það ákvæði réttmætt og nauðsynlegt, til þess að þjóðin fái tækifæri til þess að losa stjórnarskrármálið úr fléttu við önnur málefni, sem flokkarnir hafa með höndum, en ekki koma stjórnarskrá sérstaklega við.“

Flokkaskiptingu þjóðarinnar um kosningar til Alþ. er alls ekki þar með raskað. Það er aðeins stefnan, sem þessi till. er byggð á, að leysa stjórnarskrármálið úr fléttu dagskrármálanna, sem flokkarnir hafa með höndum og hafa verið myndaðir til að hafa með höndum, hefja það yfir dægurþrasið og dægurmálin, fá um það flokka, sem aðeins eru myndaðir til þess að leysa það. Hv. 6. þm. Reykv, gerði nú dálítið gaman að því, hvernig þau samtök mundu verða, sem mynduðust um stjórnarskrármálið. Hann taldi upp sambönd nokkur, sem honum fannst að mundu þá taka stjórnarskrármálið að sér, þ. á m. nefndi hann t.d. Skreiðarsamlagið. Ég veit ekki, hvort það var af því, að honum hafi orðið litið til hv. þm. Vestm., sem er víst í stjórn þess fyrirtækis, en ég fyrir mitt leyti er víss um það, að hv. þm. Vestm. blandar ekki harðfiski og verzlun saman við stjórnarskrármálið.

Hv. 6. þm. Reykv. benti á, að Norðurlöndin öll hefðu um langan aldur haft hlutfallskosningar í stórum kjördæmum, og í nál. segir hann og meiri hl., að þessum þjóðum hafi vegnað vel undir þessu skipulagi. Út af fyrir sig hefur þetta ekki fullkomið sönnunargildi, því að vel gæti þeim hafa vegnað betur t.d. undir einmenningskjördæmafyrirkomulaginu. Og hv. þm. gat þess, að stjórnmálin væru róleg, ef ég man rétt, róleg, þjóðir þessar væru stjórnmálalega styrkar, skildist mér, og friðsamar, og má vera, að úr því að þær eru það, þá geti þær búið undir þessu skipulagi. En ég held, að þó að margt gott megi segja um okkur Íslendinga, þá séum við ekki pólitískt friðsamir og okkur veiti ekki af því að hafa það fyrirkomulag, sem sameinar meira en sundrar. Og satt að segja, þá man ég ekki betur en maður hafi frétt um mikla stjórnmálalega erfiðleika, sem Finnar hafa átt við að búa, sífelldar og endurteknar stjórnarkreppur hafi valdið þar erfiðleikum fjármálalega, öfugþróun, verðbólgustríði o.s.frv. Ég held þess vegna, að það sé ofmælt, að hlutfallskosningar í Finnlandi, sem voru víst teknar upp, meðan Finnar lutu Rússum, hafi sannað það þar, að fyrirkomulagið sé æskilegt. Þvert á móti væri þar hægt að finna sönnun fyrir of mikilli flokkaþróun. Ég veit ekki betur, en að þar séu átta stjórnmálaflokkar og það sé einmitt þessi flokkafjöldi, sem valdi þar mestu um erfiðleikana með að mynda stjórnir.

Ég var að hugsa um það lengi undir ræðunni, hvers vegna ræðumaðurinn skyldi ekki nefna lýðræðisríki eins og Bandaríkin og Bretland. En þar kom, að hann aðeins nefndi Bandaríkin og talaði dálítið um Bretland. En fyrst og fremst virtist mér ræða hans, að því er snerti Breta, ætti að gera okkur fráhverfa því að hugsa okkur til fyrirmyndar kosningafyrirkomulag þeirra, af því að það hefði komið fyrir, að Bretar beittu harðræði og kæmu fram við okkur t.d. nú þannig, að við hljótum að telja mikil rangindi. En ég sé ekki, að þetta eigi nokkurt erindi í umr., þegar verið er að ræða um kosningafyrirkomulag, og víst er það almennt álitið og viðurkennt, að lýðræði standi einna traustustum fótum hjá Bandaríkjamönnum og Bretum. Við vitum það allir, að hlutfallskosningar bjóða upp á flokkaskiptingu, en einmenningskjördæmafyrirkomulagið er grundvöllur tveggja flokka kerfis. Það eru lögmál hlutfallskosninga að bjóða upp á flokkaskiptingu. Stærðfræðileg staðreynd er það, að þær efla til flokkadrátta. Þær eru í raun og veru það, sem kalla mætti deilingaraðferð. Einmenningskjördæmin eða meirihlutakosningarnar eru aftur á móti undirstaða tveggja flokka kerfis. Þær eru sameiningaraðferðin, gagnstæðar deilingunni, ef maður notar þá líkingu í þessum efnum. Og þó að það væri trú manna, þegar hlutfallskosningarnar komu til sögunnar, að þar væri fundin sanngjörn lausn, heppileg regla fyrir hið fullkomna lýðræði, sem gæfi lýðræði tækifæri til þess að greinast eftir skoðun, þá vitum við það nú orðið, reynslan hefur sýnt það, að það er annað, sem helgar lýðræðið, heldur en það, að það greini sig upp í sem smæstar einingar. Mennirnir eru þannig gerðir, að þeir þurfa á því að halda, að reglur þær, sem þeir fara eftir, knýi þá frekar til samstöðu, en til sundrungar. Þess vegna er það, að einmenningskjördæmafyrirkomulagið reynist, þegar allt kemur til alls, lýðræðinu betur, en hlutfallskosningarnar, sem menn um aldamótin héldu að væri einföld lausn fyrir hugsjón lýðræðisins um frjálshyggju.

Hv. 6. þm. Reykv. taldi það sönnun fyrir því, að hlutfallskosningar fjölguðu ekki flokkum, að flokkar hefðu ekki orðið margir í Reykjavík þrátt fyrir hlutfallskosningar þar. En hvers hefur Reykjavík notið? Hvað hefur hjálpað henni til þess að komast hjá vandræðum þeim, sem hlutfallskosningar valda sums staðar fyrir fjöldaþróun flokka? Það getur ýmislegt verið. Hún hefur t.d. um alllangt skeið notið þess að hafa hv. 6. þm. sinn fyrir borgarstjóra, og eftir kynnum mínum af honum, þá get ég vel hugsað mér, að það hafi haft nokkra þýðingu. En hún hefur notið annars líka, sem ég tel að sé stærra, því að þrátt fyrir ágæti hv. 6. þm. Reykv., sem ég tala um í fullri alvöru, þá býst ég ekki við, að það geti hrokkið til að halda niðri flokkaþróuninni, ef ekki hefði annað og meira komið til. Hún hefur notið þess, að landsmálaflokkar hafa ekki verið fleiri í landinu, en raun hefur á orðið, vegna þess að framboðin hér í Reykjavík hafa nær eingöngu verið af hálfu landsmálaflokkanna. Og hvers vegna hafa ekki landsmálaflokkarnir verið fleiri hingað til? Höfuðástæðan til þess hefur verið sú, að einmenningskjördæmafyrirkomulagið hefur verið úti um landið. Það hefur staðið í vegi fyrir því, að margir flokkar hafi getað þróazt, þegar pólitískum forustumönnum hefur sýnzt vænlegt að stofna til flokkamyndunar oftar, en gert hefur verið.

Þarna kemur fram, að það er ekki sérlega háskalegt að hafa hlutfallskosningar í Reykjavík, ef landinu er að öðru leyti skipt í einmenningskjördæmi. Þess vegna eru till. okkar einmitt mjög hagfelldar fyrir Reykjavík. Þær bjarga henni frá því að eyðileggja afstöðu sína með flokkadrætti. Og við teljum, að það rjúfi ekkert samræmi til skaða, þó að Reykjavík sé ekki skipt upp í einmenningskjördæmi, sem ég persónulega hefði samt getað hugsað mér, teljum, að það þurfi ekki að vera til neins skaða og rjúfi ekkert samræmi vegna þess að Reykjavík, er ein félagsleg heild, og gagnvart Alþingi hefur þessi heild samstöðu. Það er aftur á móti miklu frekar rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það gæti verið, að Reykjavík gæti talið sér einhverja sérstöðu eftir bæjarhlutum miðað við bæjarstjórnarkosningar. En gagnvart Alþingi kemur það ekki til greina.

Hv. 6. þm. Reykv. leitaði sér aðallega stuðnings fyrir skoðunum sínum og fyrir frv. sitt í áliti manna, sem voru uppi fyrir löngu. Hann nefndi Stuart Mill. Já, en tímar hafa breytzt nokkuð mikið síðan. Hann nefndi menn á Íslandi, sem voru uppi um aldamót eða rétt þegar hlutfallskosningarnar voru að byrja að koma fram. Mér skilst, að hlutfallskosningafyrirkomulagið hafi fyrst verið tekið upp í Belgíu 1899, og það var rétt eftir aldamótin, sem mest var talað um hlutfallskosningar sem æskilegar hér á Íslandi. Og hann gekk svo langt meðal Íslendinga, dáinna og þá um leið meðal dauðra skoðana, að hann leitaði til Jóns heitins Ólafssonar 1887. Það kom náttúrlega fyrir þann ágæta gáfumann, að hann hélt fram og var hrifinn af skoðunum, sem stóðust ekki, og Þorsteinn Erlingsson miðaði við það, þegar hann kvað vísuna:

Jón minn liggur lengi á;

leiðast mundi kríu

að vera að unga út eggjum frá

'89.

Ég hygg, að þessi egg, sem hv. 6. þm. Reykv. var að tína fram frá Jóni ólafssyni, séu nú orðin fullkomin fúlegg. Og hann sagði, að hann hefði talið, Jón Ólafsson, að ef einn tólfti kjósenda væri með sérskoðun, ætti sá hópur rétt á tólfta hverjum fulltrúa. Þarna benti hann rækilega, hv. 6. þm. Reykv., á eðli hlutfallskosninga. Nú vil ég spyrja hann: Vill hann í raun og veru stofna til kosningafyrirkomulags, er leiddi til tólf flokka myndunar? Teldi hann það lýðræði á Íslandi æskilegt? Nei, ég held, að megi segja, að þarna hafi hv. 6. þm. Reykv. dottið um rökfærslur sínar í málinu.

Það væri nú ekki vit í því, að ég færi að taka upp öll atriði þau úr ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem eru ámóta gild og þau, sem ég hef nefnt. Þá mundi þessi dagur ekki endast, þó að kvöldinu væri bætt við hann, og ég sleppi því að gera það. En eitt vil ég nefna. Hann sagði, að við, allir framsóknarmennirnir hér í þessari hv. d., værum búsettir í þéttbýli, og hann vildi draga þess vegna í efa, að við værum eðlilegir og réttir fulltrúar dreifbýlis og bændastéttar. Allir erum við samt, þessir þm., aldir upp í sveit og höfum sumir okkar lifað þar mikinn hluta ævinnar. Og eitt er víst, að það hefur komið í ljós, að við skiljum þarfir sveitanna og bændastéttarinnar betur, en hv. 6. þm. Reykv. og hans flokkur. Og ég spyr hv. 6. þm. Reykv., sem las upp falleg orð, sem hann hafði haft fyrir löngu um það, að það þyrfti að láta alla landsmenn búa við svo góð kjör, að tæki fyrir flutningana, þjóðflutningana, sem ægt hafa þjóðlífi okkar, — þá vil ég spyrja í því sambandi, af því að hann las upp þau fallegu orð: Finnst honum of mikið hafa verið gert fyrir sveitirnar? Heldur hann, að úti í dreifbýlinu sé lifað betra lífi, auðveldara og öruggara, en í þéttbýlinu? Finnst honum, að höfuðborgin hans hafi borið skarðan hlut frá borði á síðustu árum? Ef svo er ekki, hvað er hann þá að tala um rangindi af hálfu Framsfl. í þjóðfélagsmálum, tala um, að þeir berjist fyrir ofrétti handa sveitunum?

Stjórnarskrárnefndin klofnaði í tvennt. Ekki virtist vera nokkur grundvöllur til málamiðlunar eða tilhliðrunar af hálfu meiri hl. í n., þ.e. fulltrúa Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. Af ræðu hv. 6. þm. Reykv. munu hv. dm. hafa heyrt, að hér er ekki rangt frá sagt. Fulltrúar þessara þriggja flokka, sem ég nefndi, vilja samþykkja frv., eins og það liggur fyrir og óbreytt. Þó að við framsóknarmennirnir byðum þeim upp á þær málamiðlunartillögur, sem við flytjum í nál. okkar á þskj. 474, þá hafnaði meiri hl. þeim hiklaust án þess að depla auga. Þó að við bentum hv. meðnm. okkar á galla á frv., sem þeir sumir a.m.k. viðurkenndu eða virtust viðurkenna, gat ekki komið til mála að fá þá til að nema þá galla brott, þeir urðu að samþykkjast, úr því sem komið var. Ekki varð samt um neina viðurkenningu að ræða á því, sem í höfuðatriðum ber á milli, en það er afnám núverandi kjördæma utan Reykjavíkur. Þá væri rangt frá skýrt, ef ég segði það, enda eru hinir horsku menn meiri hl. ekki líklegir til að láta í skyndi nefnd, eins og stjskrn. hérna er, rannsaka hjörtu sín og nýru.

Ég leyfði mér að benda á það í n., að ef ég setti mig í spor þeirra, er stæðu að frv. og hefðu samið það, og mældi það með þeirra mæli, sem ég að vísu viðurkenndi ekki réttan mælikvarða, þá væri auðsætt, að Norðausturlandskjördæmi, þar sem heimili mitt er, hefði fleiri kjósendur á bak við sína 6 þm. en samræmi væri í, þegar tekið er tillit til fjarlægðar þess frá miðstöð ríkisvaldsins. Þetta viðurkenndu tveir meirihlutamennirnir að væri rétt, en yrði ekki breytt. Hv. 6. þm. Reykv. minntist á þetta atriði í ræðu sinni um daginn sem dæmi um það, hve örðugt væri að ná fyllsta réttlæti, en hann taldi hér ekki miklu skakka, vegna þess að í þessu kjördæmi væri höfuðborg Norðurlands. Nú er það svo, að menn geta ekki rekið þar þau erindi, sem menn þurfa yfirleitt að reka við ríkisvaldið, og þar er ekki Alþingi, svo að hægt sé að fylgjast með störfum þess og beita áhrifum sínum um málefni daglega, eins og Reykjavík gerir gagnvart Alþingi. Og ég fyrir mitt leyti tel, að þetta kjördæmi sé að ýmsu leyti ósamræmismeira, en önnur kjördæmi, af því að höfuðstaður Norðurlands er þar, ekki vegna stofnananna, sem þar eru og hægt er að reka erindi við sér til þæginda og spara sér ferðir til Reykjavíkur, því að það er ekki um þetta að ræða, heldur vegna þess, að það er svo stór þéttbýlisstaður, sem ber, strax og kjördæmið verður sett á laggirnar, ef frv. verður að lögum, þá ber það strax ofurliði sveitirnar í kring, og þar myndast ástand, sem gerir jöðrum sveitanna mjög örðugt að neyta þess réttar, sem hver landsbyggð þarf að geta neytt gagnvart löggjafarsamkomunni í gegnum umboðsmennsku þingmannanna. En sem sagt, hv. 6. þm. Reykv. leggur ekki mikið upp úr þessu misræmi, og hinir tveir töldu, að ekki yrði um breytt. Kaupsamningurinn er nefnilega frágenginn.

Þá bentum við minnihlutamennirnir á, að gert er ráð fyrir í frv., að allir þeir menn, sem verða á kjörlista, auk þeirra, sem ná kosningu sem aðalmenn, eigi að vera löglegir varamenn, svo margir sem til endist á listanum, stendur þar. Þetta þýðir það, að allir, sem eru á lista, sem fær mann kjörinn, komast að með víssum hætti og nægilega til þess að eiga rétt á því áð fá kjörbréf. Samkvæmt gildandi lögum er það regla, að hver listi kemur að jafnmörgum varamönnum og aðalmönnum, og virðist það vera nægilegt. Til þess var vitnað í nál., að þessi regla gilti um sveitarstjórnir og bæjarstjórnir. En það er dálítið annað, þó að fulltrúar þar hafi langan hala varamanna, heldur en að setja upp þær hersingar gagnvart Alþingi. Og þetta fyrirkomulag í sveitarstjórnar- og bæjarstjórnarmálum er ekkert heppilegt, eftir því sem mér hefur reynzt. Ég sem oddviti og bæjarstjóri þekki það nokkuð, hve það er óþægilegt, að menn koma ókunnugir málum inn á fundi og taka þátt í afgreiðslum, þegar hægt er að kalla hvaða mann sem á lista hefur verið, sem komið hefur að manni, til starfa í staðinn fyrir sig. Ég hef reynt það að mæta á slíkum fundi með eintómum varamönnum og þurfa að afgreiða með þeim mál, sem var verið að vinna að, aðalfulltrúarnir voru búnir að kynna sér vel og þekktu, en varamennirnir komu að eins og álfar úr hól. Þess vegna er það alls ekki til fyrirmyndar á nokkurn hátt að taka upp sömu reglu gagnvart Alþ. og sveitarstjórnum og mjög óviðurkvæmilegt í raun og veru, þegar litið er á stigmuninn á Alþingi og sveitarstjórnum.

Ég var að gamni mínu að athuga það, hve margir gætu orðið kjörnir eftir þessari reglu til Alþingis sem aðalmenn og varamenn, og mér virtist fræðilegi möguleikinn vera sá, að þetta gætu orðið 682 menn. En ég skal játa, að það eru ekki miklar líkur fyrir því, að þeir verði svo margir, því að ég reiknaði með því, að þá kæmi hver listi að einum manni. En mikill er nú hópurinn samt.

Ég reiknaði svo líka að gamni mínu, hve þeir mundu verða margir, hinir kjörnu menn, aðalmenn og varamenn, eftir því sem ég hef séð í blöðum þeirra, sem standa að kjördæmabreytingunni, gizkað á, að út úr næstu kosningum, eftir hinum nýju reglum, komi fyrir flokkana, og mér virtist, að eftir þeim útreikningum, sem þar hafa aðallega verið lagðir til grundvallar, muni hinir kjörnu geta orðið 304, — 304 þm. Í Reykjavík er þetta eðlilegt og alls staðar í raun og veru eðlilegt að hafa jafnmarga menn á hverjum lista og kjósa á í kjördæminu, miðað við aðalmenn og varamenn, og í Reykjavík yrðu þá á lista, eftir því sem frv. gerir ráð fyrir, 24 menn. Þegar listi kemur að einum manni, þá verða 23 varamenn. Ef maður hugsar um þetta svona að gamni sínu, þá er það ákveðið í lögunum, að maður megi taka varamann inn fyrir sig á Alþingi í hálfan mánuð. Ef nú einn flokkur kæmi hér að einum manni, þá mundu varamennirnir endast eitt ár, ef flokkurinn vildi skipta um, og það getur verið, og það getur haft töluvert áróðursgildi fyrir flokk að láta alla þá, sem á listanum eru, skreppa inn á Alþingi, þeir mundu hafa gaman af því, og þeir mundu eflast í pólitíkinni, og honum mundi kannske ganga betur að fá frambjóðendur, ef hann byði upp á þetta. Já, liðið mundi endast í ár. En Alþingi stendur nú ekki árlangt, eða hefur ekki staðið, hvað sem verður, þegar svona kosningar verða teknar upp.

Ég veit ekki, hvað líklegt er að valdi því, að þessi regla er upp tekin, eða hver af þríflokkunum hefur komið þessari reglu inn. Það er sennilegast, að sá, sem hefur minnsta möguleika til að koma að mönnum, hafi tekið þetta upp, minnsti flokkurinn, og þetta er náttúrlega jafnaðarmennska á víssan hátt. En hvers vegna stærsti flokkurinn hefur fallizt á þetta, það veit ég ekki, nema það sé ódýr góðsemi við þann minnsta.

Í sjálfu sér, ef við lesum þetta ofan í kjölinn, brjótum það til mergjar, skoðum það í smásjá, þá er þetta ein tegund verðbólgu. Þetta er verðbólgustefna í kjördæmamálinu. Mönnum kemur yfirleitt saman um, að verðbólguþróunin í íslenzku efnahagslífi sé háskaleg og hana þurfi að stöðva. Menn greinir á um það, hvernig eigi að stöðva hana, en ekki um það, að það þurfi að stöðva hana. Hins vegar gæta menn þess ekki, að hún á margar systur, verðbólgan, sem eru líka mjög viðsjárverðar og þarf að hafa gát á, að ekki verði of mikils ráðandi. Þetta slekti allt er eins og bakteríufaraldur, sem stendur þjóðinni í ýmsum myndum fyrir fullum þrifum þrátt fyrir miklar framfarir og margháttaða verndun.

Við tölum um los í ýmsum efnum, sem færist í aukana, eyðslusemi, gálauslega meðferð tómstunda, máske of marga lögboðna frídaga, ásókn í lélegar skemmtanir og lélegar, óþjóðlegar bækur og rit, afkáratilraunir, einkum lista, minnkandi ábyrgðartilfinningu o.s.frv.

Þótt þetta tal um það, sem að er í þjóðlífi okkar og menningu, sé oft öfgafullt, þá er kjarni þess sannleikur og staðreynd, og það er mjög alvarleg staðreynd.

Frv. þetta er ein staðreynd um þetta los, sem vill gera sig gildandi og stutt er viljandi og óviljandi af mörgum. Það þarf stjórnmálalega léttúð til þess að afnema gömlu kjördæmin, eins og það gerir ráð fyrir, frv., og stofna í þeirra stað hin stóru hlutfallskosningakjördæmi. Þingmennirnir, sem hafa hver átt sinn reit til að annast fyrst og fremst og bera ábyrgð á, að því er þingmannsumboðið snertir, þeir eru settir út á víðavang fimm til sex manna kjördæmis, sem þeir hver og einn ná ekki til að kynnast eins vel og einmenningskjördæmunum og geta því ekki orðið því eins nærgætnir fulltrúar. Þetta sýndi eitt sinn hv. 1. þm. Reykv. (BBen) mjög glögglega fram á, en hv. 6. þm. Reykv. hefur engan veginn tekizt að kaffæra þau rök.

Einhver þm. þríflokkanna sagði í ræðu: Við erum að stækka félagsheildirnar með þessu. Og mig minnir, ég vil ekki fullyrða það, að hv. 6. þm. Reykv. segði eitthvað á þessa leið, þó vil ég ekki fullyrða það. En hvaða félagsheild er 5–6 manna kjördæmi? 5–6 þm. eru ekki félagsheild. Sýslu- og bæjarfélögin verða áfram félagsheildir, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði réttilega, engu stærri heildir, en áður fyrir þetta. En þær hafa ekki sinn sérstaka þm. lengur og missa mikils við það, einkum hin afskekktari sýslufélög og sveitir í þeim. Flokksstjórnarvaldið vex, því að hin stóru svæði velja sér ekki menn til framboðs. Fólk þeirra hefur ekki félagslega aðstöðu til þess, eins og nú er í einmenningskjördæmunum, og flokkabaráttan frá höfuðstöðvum flokkanna háir harða hildi á rúmu hólmgöngusviði hinna stóru kjördæma, og flokksstjórnirnar setja þar fram sína hermenn til framboðs. Þingmennirnir af ýmsum flokkum á þessum sviðum, stóru kjördæmunum, verða ekki alltaf að leggja saman krafta sína, þeir verða ekki alltaf að greiða götu hver annars, því að þeir eru sinn frá hverjum flokki, sem eru að takast á og reyna að vaxa hver yfir annan. Þeir verða ekki alltaf að keppa um það sín á milli að koma sem beztu til leiðar án þess að bregða fæti hver fyrir annan. Þannig er flokkabaráttan og keppnin um fylgi í kjördæmunum. Það er sannleikur, þó að það sé ekkert skemmtilegur sannleikur. Það er ein fylgja hinna mörgu flokka, að þessi barátta verður fyrirferðarmeiri, en ella. Þingmennirnir á þessum svæðum verða ekki alltaf eins og samherjar í knattleik. Þeir verja án efa oft markið hvor fyrir öðrum, ef svo mætti að orði komast. Samvinna þingmanna af ýmsum flokkum verður ekki eins pósitív og þríflokkarnir tala um og láta í veðri vaka. Við þekkjum, hvernig þetta hefur oft verið, þar sem uppbótarþingmaður hefur komið inn á þing með kjördæmakjörnum þingmanni. Hafa þau kjördæmi jafnan orðið miklu sterkari en hin? Ég spyr. Ég hef ekki séð þess mikil merki.

Hins vegar er og hefur oft verið góð samvinna milli manna, er á þingi hafa verið frá nágrannakjördæmum, þó að þeir hafi ekki verið af sama flokki. Þeir hafa sem sé ekki verið á sama leikvelli heima og því ekki átt þar í beinu höggi hvor við annan heima fyrir og ekki verið að búa sig undir slíka leiki, sín á milli, á þingi. Sú samvinna hefur oft verið minni stöðum mikils virði, það veit ég. Ég skal nefna persónulegt dæmi. Fyrir nokkrum árum var ég í fjvn., eins og ég raunar er nú, ásamt þm. frá Akureyri. Við vorum ekki samflokksmenn, en við vorum nágrannaþingmenn og þekktum dálítið til hvor hjá öðrum. Við höfðum hvor um sig sérstakan reit að annast. Við höfðum oft beina samvinnu við að koma málum fram í n. vegna þessara reita okkar. Ég man, að ég t.d. studdi hann í því að fá víssa fjárveitingu til Akureyrarhafnar, en hann mig í staðinn til þess að fá fjárveitingu til hafnar í Flatey á Skjálfanda. Hvort tveggja var bráðnauðsynlegt og réttmætt, og þetta gerðist samt af því, að Akureyri og Suður-Þingeyjarsýsla eru tvö kjördæmi. Ég fullyrði það. Ég gat gert fámennisstaðinn Flatey jafnsterkan og fjölmennisstaðinn Akureyri, af því að þetta voru tvö kjördæmi.

Ef þessi kjördæmi verða lögð niður sem slík og tekið upp hið stóra kjördæmi, Norðausturlandskjördæmi, þá segir Akureyrarþingmaðurinn að öllum líkindum við þm., sem á heima í Suður-Þingeyjarsýslu: Þú verður alveg eins og ég að styðja Akureyrarhöfn, annars segi ég eftir þér, og það kýs enginn þig á Akureyri, þar sem þú gætir þó annars fengið flesta kjósendur, ef þú styddir Akureyri. En Flatey verður látin sitja á hakanum, af því að þar eru svo fáir kjósendur.

Seinna hnígur svo að því, að enginn þm. verður búsettur annars staðar í kjördæminu, en á Akureyri, nema þá fyrir tilviljun eina. Það verður byrjað með öðru, en lögmálin verða þau að, að þessu ber. Þar verður aðalhildin háð um kjörfylgið. Þar í kjördæminu hefur líka flokkavald allra flokka miðstöðvar sínar, að því leyti sem þær verða ekki í Reykjavík. En fyrst og fremst verða þær í Reykjavík, en umhyggjan fyrir strjálbýlinu minnkar, og það fer í auðn smátt og smátt. Þess vegna er þetta réttnefnd landeyðingarstefna, og þetta er sú stefna, sem býr í frv., hvort sem stuðningsmenn þess gera sér grein fyrir því eða ekki.

Það er bakteríufaraldur þjóðlífs okkar, sem þarna er að verki, ein systir verðbólgunnar, losið, sem ógnar menningunni, ormurinn, sem Edda segir frá, að leitist við að naga rætur meiðs Yggdrasils, lífsmeiðsins.

Skáldsnillingurinn og vitmaðurinn Tómas Guðmundsson flutti fyrir skömmu á Varðarfagnaði fyrir Sjálfstfl. ræðu. Frá henni var sagt í Morgunblaðinu, og mér finnst við hæfi að minna hv. 6. þm. Reykv. á hana, eftir þá ræðu, sem hann flutti hér áðan. Efni ræðu Tómasar Guðmundssonar var um samskipti einstaklingsins og ríkisvaldsins, eftir því sem Morgunblaðið sagði frá. Hann sagði, að þróunin miðaði í þá átt að ganga á rétt einstaklingsins, persónufrelsi hans, heimta meiri og meiri umráð handa ríkisvaldinu. Þetta kallaði hann „mannkynsfjandsamlega þróun“. Hann vitnaði í sögu eftir rússneska rithöfundinn Samjatin, og hann tók upp úr sögunni orðrétt þetta: „Við erum komnir til að færa yður hina fullkomnu hamingju, sem er stærðfræðilega gallalaus.“ Er það ekki einmitt hamingjan, sem hv. 6. þm. Reykv. talaði um áðan í hlutfallskosningunum, stærðfræðilega gallalaus? Og þó er hún vitanlega ekki gallalaus. En þetta er ekki allt, sem haft var eftir rithöfundinum. „Ef þér látið yður ekki skiljast þetta,“ — að við séum sem sé að færa yður stærðfræðilega gallalausa hamingju, ef þér látið yður ekki segjast þetta, — „þá er skylda vor að neyða yður til að gerast hamingjusamir.“ Er það ekki þetta, sem þríflokkarnir eru að gera? Þeir ætla að neyða þjóðina til þess að taka á móti kjördæmabreytingunni, neyða hana til að gerast hamingjusama á þann hátt, sem þeim þykir henta.

Ég sé, að hv. 6. þm. Reykv., sem var sérstaklega ætlað að hlusta á þetta, hefur vikið úr sæti. Skyldi hann ekki vera væntanlegur rétt strax? Má ég ekki, herra forseti, bíða? Það væri undarlegt, ef honum þætti illt að hlusta á Tómas.

Ég var að vitna í orð, sem Tómas Guðmundsson tók upp úr sögu eftir Samjatin í ræðu sinni, og skal endurtaka þau, af því að hv. 6. þm. Reykv. þurfti að ganga út í síma og þetta finnst mér snerta hann alveg sérstaklega, af því að hér er um það að ræða, að verið er að rifja upp ræðu, sem flutt var á Varðarfagnaði. og líka af því, að ræðan var flutt af listamanni, en listir kann hv. 6. þm. Reykv. að meta. Hin tilvitnuðu orð, sem Tómas Guðmundsson tók upp úr sögunni eftir rússneska höfundinn, voru þessi: „Við erum komnir til að færa yður hina fullkomnu hamingju, sem er stærðfræðilega gallalaus,“ — eins og hlutfallskosningar, að dómi hv. 6. þm. Reykv. Og svo bætir skáldið rússneska við: „Ef þér látið yður ekki skiljast þetta, þá er skylda vor að neyða yður til að gerast hamingjusamir.“ Það er einmitt þetta, sem gæti verið „mottó“ yfir frv. þríflokkanna. Þetta gæti verið „mottó“ yfir því. Það skal fram, hvort sem mönnum þykir betur eða verr. Það skal gert að lögum, þótt fyrir liggi 55 erindi frá félagasamtökum, sveitarstjórnum og sýslunefndum, sem óska þess, að þetta verði ekki gert að lögum.

Tómas Guðmundsson lagði áherzlu á það, að hverjum manni væri það höfuðskylda að standa vörð um persónulegt frelsi gegn hvaða ofríki sem er.

Morgunblaðið dáðist að þessari ræðu, og hún hefur án efa átt það skilið. Ég dáðist að því, sem ég sá af henni í Morgunblaðinu. En hvers vegna læra áheyrendurnir, sem fá skáldið til að tala, ekki af þessari ræðu hans? Hvers vegna halda þeir jafnhiklaust áfram með þetta frv., sem miðar að því að efla ríkisvaldið, en draga úr valdi, sem einstaklingarnir hafa haft? Hvers vegna ætla þeir þrátt fyrir áminningar skáldsins að svipta einstaklingana í núverandi kjördæmum úti um land þeim persónulega rétti að hafa fyrir sig og sína félagsheild sinn sérstaka fulltrúa á Alþingi? Eru þeir svo rammvilltir í þoku sinnar sjálfbirgingar að sjá ekki, hvert fljótið fellur, sem skáldið leiddi þá að? Eða skeyta þeir því ekki, þótt þeir styðji það, sem skáldið kallaði „mannkynsfjandsamlega þróun“, svo að ég noti orð hans? Ég vil ekki halda það. Það er þokan, sem hlýtur að gera þetta.

Í þessu frv. er lagt til, að lokið verði við að bylta grundvelli þingræðis hér á landi og nýr grundvöllur lagður. Síðan Alþingi var endurreist, hefur það verið aðalregla, a.m.k. lengst af, að þingið hefur verið skipað fulltrúum, sem kosnir voru persónulegri kosningu sem trúnaðarmenn héraða eða kjördæma. Löggjöf og myndun ríkisstj. var þar með falin mönnum, sem meiri hl. eða a.m.k. stærsti hluti almennings í héraði treysti persónulega til að vinna að héraðsmálum og landsmálum. Þm. hafa að vísu í seinni tíð oftast boðið sig fram á vegum stjórnmálaflokka, en hver maður þó staðið fyllilega ábyrgur gagnvart kjósendum sínum.

Ef þetta frv. verður að lögum, er hin persónulega kosning að verulegu leyti úr sögunni. Þá munu menn fyrst og fremst kjósa flokka, en ekki menn. Ábyrgð hinna einstöku þingfulltrúa fer þverrandi og færist yfir á stjórnmálaflokkana að vonum. Flokkar, en ekki menn, verða ábyrgir fyrir löggjöf og landsstjórn. Sú ábyrgð verður ópersónuleg. Hér er um mikinn mun að ræða. Hér er einmitt um það efni að ræða, sem Tómas Guðmundsson gerði að umtalsefni.

Hér kemur líka til greina, að ríkissjóður er að verða meira og meira jöfnunarsjóður. Með honum og útflutningssjóði eru af Alþingi jafnaðar tekjur milli landsfólksins. Eru því persónuleg kynni þm. af högum og lífsafkomu umbjóðendanna nauðsynlegri nú, en þau voru nokkru sinni áður.

Kjördæmin eru nú 28 talsins. Ef þetta frv. verður að lögum, verða 27 af þessum 28 kjördæmum lögð niður, en í þess stað stofnuð 7 stór kjördæmi með hlutfallskosningu. Þm. verða 60 í stað allt að 52 nú. Þm. er þannig fjölgað um 8. 12 verða kosnir í Reykjavík, tvö kjördæmi kjósa 6 þm. hvort, og 5 kjósa 5 þm. Uppbótarsæti 11 eins og nú, en sú breyting á, að þeim skal öllum úthlutað, hvort sem með þarf til jöfnunar eða ekki. Verðbólgan gerir sínar kröfur þarna líka.

Þetta fyrirhugaða afnám hinna gömlu kjördæma sætir að vonum mikilli mótspyrnu í landinu, eins og raun hefur borið vitni um nú í vetur. Ég nefndi áðan 55 erindi, sem komið hafa til mótmæla og að stendur fjöldi fólks og forustumenn í málefnum sveita og héraða. Það er satt að segja engin furða, þó að þessi mótmæli komi fram, þegar þetta mál er skoðað á sögulegum grundvelli, og mótspyrnuhreyfingin gegn afnámi kjördæmanna hefur farið sívaxandi og mun enn fara vaxandi.

Þegar Alþingi var endurreist árið 1843, var landinu skipt í 20 einmenningskjördæmi, þ.e. 19 sýslukjördæmi og Reykjavík. Ekkert þessara kjördæma hefur misst rétt sinn til þingmanns. En sex af sýslunum eru nú tvímenningskjördæmi, og þrem sýslum hefur verið skipt í tvímenningskjördæmi hverri, bætt við fimm kaupstaðakjördæmum, en Reykjavíkurþm. fjölgað úr einum í átta. Grundvöllur kjördæmaskipunarinnar, sýslurnar og fjölmennustu kaupstaðirnir, er því óbreyttur enn eftir 115 ár, en að verulegu leyti byggður á þjóðskipulaginu forna. En kaupstaðir hafa fengið kjördæmaréttindi smátt og smátt: Akureyri, Ísafjörður og Seyðisfjörður 1903, Hafnarfjörður 1928 og Siglufjörður 1942.

Það er rangt, sem einhvers staðar hefur verið sagt, að bænaskrár til hins fyrsta Alþingis 1845 hafi sýnt, að Íslendingar hafi í öndverðu verið óánægðir með kjördæmaskipunina. Þessar bænaskrár voru aðallega um rýmkun kosningarréttar, en auk þess var farið fram á, að nokkur kjördæmi fengju tvo fulltrúa, eins og síðar varð. Kjördæmaskipunina sjálfa töldu menn eðlilega, og til skamms tíma hafa forustumenn í þjóðmálum verið ósparir á að lýsa yfir því, að engin ástæða væri til að hrófla við hinum sögulega þróuðu kjördæmum, enda vitað hug almennings í kjördæmunum í þessu máli. Yfirlýsingar forustumanna í þessum efnum hafa hvað eftir annað að undanförnu verið lesnar hér, og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þær, en minni á þær. Sjálfir hafa þeir sumir hlýtt á sín eigin orð upplesin. Skylt er þó að geta þess, að sumir hafa reynt að nota sem rök fyrir afnámi kjördæmanna, að snemma á þessari öld, eða árið 1905, var á Alþ., í ráðherratíð Hannesar Hafsteins, flutt stjórnarfrv. um að taka upp hlutfallskosningar í stórum kjördæmum. Í Hannes Hafstein hefur líka geysilega mikið verið vitnað í umr. þessa máls. En einnig hafði verið vitnað í Jónas Jónsson, og ég hafði tækifæri til þess hér í fyrradag af sérstökum ástæðum að segja frá því, að þegar þetta var á hann borið á framboðsfundi í Þingeyjarsýslu fyrir alllöngu, þá viðurkenndi hann, að það væri rétt, að honum hefði litizt vel á hlutfallskosningar, en hins vegar lýsti hann því hreinlega yfir, að reynslan af hlutfallskosningunum, sem komið hefði fram síðan, hefði sannfært sig um, að það væri ekki heppilegt kosningafyrirkomulag. Og ekki þætti mér ólíklegt, að Hannes Hafstein mundi segja það sama, ef hann væri ofan moldar, og þess vegna finnst mér í raun og veru ekki vel gert af þeim, sem berjast fyrir þessu máli, að vera stöðugt að hafa eftir hinum látnu mönnum, sem voru uppi, þegar þetta kosningafyrirkomulag var rétt að byrja, hafa það eftir þeim sem sönnun í málinu, að þeir hafi aðhyllzt nýmælið.

Ýmsir mætir menn, fleiri en Hannes Hafstein, voru þá hlynntir þessu. Hlutfallskosningar voru þá lítt þekkt fyrirbæri og höfðu að sögn verið teknar þá alveg nýlega upp í Belgíu og í Finnlandi, sem þá laut Rússakeisara, eins og ég gat um áðan. Kostir þessa fyrirkomulags þóttu ýmsum stærðfræðilega álitlegir. Það stærra er hamingja. En gallarnir voru ekki komnir í ljós og ekki von, að menn sæju þá fyrir. Málinu var frestað 1905, en á Alþ. 1907 var það fellt. Kjósendurnir tóku í taumana á milli þinga. Fyrir Alþ. 1907 lágu 30 þingmálafundargerðir um þetta mál, og á flestum fundum reyndust menn andvígir afnámi kjördæmanna. Þetta dugði. Andstæðingar frv. hófu þá gagnsókn í málinu og gerðu tillögur um að skipta landinu öllu í einmenningskjördæmi, en sú till. náði ekki heldur fram að ganga. Og þannig fór um þessi mál 1907.

Þrátt fyrir það, að hv. 6. þm. Reykv. gerði dálítið að umtalsefni stjórnmál í Frakklandi, og ég ætla ekki að leggja út í að hrekja það líð fyrir líð, þá er það víst, að dæmi Frakka, barátta þeirra og stríð vegna flokkamergðar, sem leiddi af þeirra kosningafyrirkomulagi, sem var í meginatriðum hlutfallskosningar, hún er dæmi, sem hræðir. Og Írar, sem eru þjóð, sem hugsar vel sín mál, þeir eru komnir að því að vilja hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Og einmitt þá, þegar tímarnir hafa þannig breytzt, þá er það fjarstæða, að Íslendingar fari að ana að óþörfu út í fenið, sem aðrir eru að reyna að brjótast upp úr eða telja sig illa setta niðri í. Hin sögulega þróuðu kjördæmi eiga sögulegan og hefðbundinn rétt til að eiga hvert um sig sérstakan fulltrúa á Alþingi Íslendinga, eins og hin sjálfstæðu samfélög héraðanna á þjóðveldisöld. Slíkur réttur er viss tegund af takmörkuðu sjálfstæði innan ríkisheildarinnar og styrkir hana. Takmarkað sjálfstæði ríkishluta er algengt fyrirbrigði í veröldinni og hornsteinar lýðvelda.

Í útvarpsumr., sem fóru fram við 1. umr. þessa máls í Nd., gerði hv. 5. landsk. þm. (BG) að umræðuefni hina svonefndu fjórðungsþingahreyfingu eða fylkjaskipunarhreyfingu, sem var sterkust austanlands og norðan, og hv. 6. þm. Reykv. talaði áðan um, að fjórðungsþingin hefðu viljað rýra vald sýslufélaganna, og minntist dálítið að öðru leyti á þessa hreyfingu. Og af því að ég var talsvert ákveðinn þátttakandi í þessari hreyfingu, vil ég taka þessi mál ofur lítið til athugunar, sérstaklega þó vegna þess, sem hv. 5. landsk. þm. sagði, því að ef hann hefði haft rétt að mæla, var það allverulegt innlegg fyrir þá, sem flytja þetta frv. En þm. sagði orðrétt: „Þessi hreyfing vildi stofnsetja úti á landsbyggðinni stærri, sterkari og sjálfstæðari félagsheildir. Hún vildi endurreisa byggðasjálfstæðið og leggja sýslurnar niður. Búnaðarsamband Austurlands samþykkti 1949, að þessar till. fælu í sér leið til þess að endurheimta hið horfna vald héraðanna. Blöð eins og Dagur á Akureyri — og Tíminn studdu hreyfinguna. Þessi volduga hreyfing vildi stærri, sterkari, sjálfstæðari heildir og taldi, að á þann hátt einan gæti landsbyggðin vegið á móti hinu vaxandi þéttbýli. Þessir menn vildu kjósa aðra deild Alþ. í einmenningskjördæmum, en töldu vel hugsanlegt að hafa fimmtungana fyrir kjördæmi. Nú vil ég spyrja alla þá menn, sem aðhylltust þessa hreyfingu, hvort þeir telji ekki enn, að jafnvægi í byggð landsins, jafnvægi milli dreifbýlis og Reykjavíkur, verði bezt tryggt með stærri, sterkari, sjálfstæðari félagsheildum.

Ég vil spyrja alla þá, sem mál mitt heyra úti um landið, hvort bezta leiðin til að skapa jafnvægi héraðanna móti Suðvesturlandi sé að búta þau í smærri og smærri, veikari og veikari heildir. Er ekki hin leiðin vænlegri, sem fjórðungssambönd Austurlands og Norðurlands, Þingvallafundir og blaðið Gerpir bentu á, að skapa stærri heildir, eins og kjördæmin, sem nú á að lögfesta? Á Reykjavík ein að hafa rétt til að vera stór í þessu landi?“

Þetta hef ég tekið upp úr ræðu hans, hv. 5. landsk. þm., í Alþýðublaðinu. Ég gat ekki tekið þátt í umr. í Nd. og verð því að minnast á þetta hér, ef ég á annað borð léti það ekki sem vind um eyru þjóta. En það finnst mér ekki rétt að gera, þar sem ég var mikið við þessi mál riðinn og þekki þau betur en hv. þm., því að hann er alveg ruglaður í ríminu, eða virðist ekki vita, hvað hann er að segja. Allt er hey í harðindum hjá þessum blessuðum mönnum, þegar þeir fara að vitna í fylkjasamtökin og telja, að þau hafi viljað það sama og þeir nú bera fram eða svipað.

Og þá er fyrst á það að líta, sem ég sagði áðan, að hin hugsuðu kjördæmi eru engar félagsheildir, alls engar félagsheildir. Það sýndi ég glögglega fram á, en á því grundvallast ályktun hv. 5. landsk. þm.

Ég hef hér í fórum mínum tillögur fjórðungsþinganna og finnst ástæða til þess að leiða þær fram sem vitni um það, að ég fer ekki með staðlausa stafi, þegar ég segi, að hinn hv. þm. hafi verið algerlega ruglaður í ríminu og misnoti staðreyndir til framdráttar sínum málstað.

Fjórðungsþing þessi, sem aðallega stóðu fyrir því að semja þessar till., voru fjórðungsþing Austfirðinga og fjórðungsþing Norðlendinga. Fjórðungsþing Austfirðinga gerði frumdrög að till., við í fjórðungsþingi Norðlendinga fjölluðum svo um þær og gerðum á þeim breytingar, sem við sendum austur og Austfirðingarnir féllust á, og síðan var fjórum mönnum falið að ganga frá till. og grg. um þær. Og þessir fjórir menn voru Hjálmar Vilhjálmsson sýslumaður á Seyðisfirði, nú ráðuneytisstjóri hjá félagsmálaráðuneytinu, Erlendur Björnsson bæjarstjóri á Seyðisfirði, nú bæjarfógeti þar, Jónas G. Rafnar lögfræðingur á Akureyri og Karl Kristjánsson, þá oddviti á Húsavík.

Þar segir um ágalla núgildandi stjórnarskrár: „Þegar ákveðin verða meginatriði stjórnarskrár lýðveldisins, verður að hafa hliðsjón af þeim ágöllum á stjórnskipun ríkisins, sem afdrifaríkastir hafa orðið á líðnum árum. Gallar þessir eru aðallega þrenns konar: Í fyrsta lagi of mikill samdráttur ríkisvaldsins á einum stað. Í öðru lagi sérstakir erfiðleikar í sambandi við myndun ríkisstjórna, hinar þrálátu stjórnarkreppur. Í þriðja lagi óeðlileg flokkaskipun.“ Þetta þrennt er talið upp sem höfuðágallar.

Þessar tillögur voru frágengnar árið 1949, en þær komu fram og félagssamtök þessi störfuðu að þeim á þeim árum, sem nýsköpunarstjórnin fyrst og fremst mótaði og landsbyggðin taldi að hefði þrengt kosti sína.

„Almennt mun viðurkennt, að stjórnarfar síðustu ára hefur stefnt um of að samdrætti alls opinbers valds á einum stað, í höfuðstað ríkisins, Reykjavík. Að sama skapi hafa aðrar byggðir landsins orðið útundan og háðar höfuðborginni í fjárhagslegu, atvinnulegu og menningarlegu tilliti. Hefur þróun þessi leitt til þess, að ofsalegur vöxtur hefur hlaupið í Reykjavík og fólki hefur fjölgað mjög í borginni og nágrenni hennar, um leið og því hefur fækkað annars staðar. Atvinna hefur þorrið og afkomu allri hnignað víðast hvar annars staðar á landinu, svo að til beinnar auðnar horfir á ýmsum stöðum, sem annars mega teljast byggilegir. Í kjölfar þessarar þróunar kemur glötun mikilla verðmæta á hinum hnignandi stöðum, röskun þjóðfélagslegs jafnvægis, samfara því að hætta skapast á einhæfingu atvinnuhátta, sem leiðir til þess, að almenn afkoma þjóðarinnar verður um of háð einstökum atvinnugreinum.

Meginorsakanna til þess, að þingræði í núverandi formi þess hefur reynzt þjóðinni svo illa sem raun ber vitni, er fyrst og fremst að leita í flokkaskipun þeirri, sem ríkir. Flokkaskipunin þróast og mótast á grundvelli þess kosningafyrirkomulags, sem gildir. Undir þessu skipulagi hafa þróazt í landinu 4 stjórnmálaflokkar. Enginn flokkur hefur fengið hreinan meiri hl. á Alþingi, og fullvíst má telja, að enginn hljóti slíkan meiri hl. í framtiðinni. Stjórnarmyndun í ríkinu er þess vegna háð því, að samstarf geti tekizt með tveim eða fleiri stjórnmálaflokkum um myndun ríkisstj. Reynslan hefur sýnt, að langur tími eyðist til þess að ná slíku samstarfi og enn lengri tími fer til þess að ná samkomulagi um stjórnarframkvæmdir, ef ævistundir stjórnarinnar hrökkva þá til þess.

Fyrst og fremst er áríðandi að dreifa ríkisvaldinu eins mikið og fært er, án þess að nauðsynlegur styrkleiki ríkisheildarinnar bíði tjón af þeim sökum. Til þess að ná því marki eru tvær leiðir gagnlegar: önnur að auka völd héraðanna og hin að auka völd forsetans. Hið fyrra miðar einkum að dreifingu ríkisvaldsins, en hið síðara treystir ríkisheildina bæði út á við og inn á við. Þar næst er brýn nauðsyn að endurbæta kosningafyrirkomulagið, sérstaklega með það fyrir augum, að flokkaskipun verði gleggri og eðlilegri en verið hefur.“

Svo er talað um, að til þess að ná þessu markmiði er gert ráð fyrir, að landinu verði skipt í sex fylki, sem verði stjórnarfarslegar heildir með allvíðtæku starfssviði og valdi í ýmsum sérmálum. Hvergi er þó talað um það að leggja sýslurnar niður, og frekar er gert ráð fyrir því, að Alþingi veiti fylkjunum vald og rétt og jafnframt fylkisþingunum, heldur en hitt að upphefja á nokkurn hátt völd heimahéraðanna.

„Tvær leiðir eru til þess að veita fylkjunum völd og auka þannig völd héraðanna. Önnur er sú að ákveða í stjórnarskránni með upptalningu þau málefni, er lögð skuli til fylkjanna. Hin er sú að tryggja með stjórnskipuninni sjálfri, að hagsmunir fylkjanna megi sín jafnan mikils hjá löggjafarvaldinu, Alþingi, t.d. með því að veita fylkjunum eða réttara sagt fylkjaþingunum rétt til að skipa þingmenn annarrar þingdeildarinnar. Síðarnefnda leiðin, að tryggja fylkjunum sem slíkum mikla íhlutun á Alþingi með því að láta fylkin skipa aðra þingdeild þess, nær tilganginum með þeim hætti, að löggjöf, sem miðar að auknum héraðavöldum, á jafnan að mæta þeim áhuga og skilningi hjá löggjafarvaldi, sem nauðsynlegt er, til þess að aukning á valdi héraðanna verði annað en nafnið tómt.“

Og enn stendur þar:

„Kjördæmakosningar án hlutfalls má hugsa sér bæði með einmenningskjördæmum og í kjördæmum, sem kjósa eigi fleiri þingmenn. Hið síðarnefnda leiðir til þess, að kjördæmin yrðu stór og kynni kjósenda af frambjóðendum ekki eins mikil og í einmenningskjördæmum, sem yrðu fámennari og minni. Val kjósenda milli hinna ýmsu frambjóðenda yrði því betur grundvallað í einmenningskjördæmunum. Á það er líka að líta, að þingmenn mundu að jafnaði þekkja betur hag og störf fólksins í smærri, fámennari kjördæmum og ættu þar af leiðandi að reynast betri fulltrúar umbjóðenda sinna. Einmenningskjördæmin hafa alla þá kosti, sem aðrar kjördæmakosningar án hlutfalls hafa, en tryggja betur val æfðari þingmanna en fleirskipuð kjördæmi mundu gera. Sá er höfuðkostur einmenningskjördæma, að þau tryggja hinum óbreytta kjósanda betri aðstöðu, en honum hlotnast, þegar flokksstjórnir ráða mestu um framboð, eins og ætíð verður við hlutfallskosningar. Sambandið milli frambjóðanda og kjósanda verður milliliðalaust. Í annan stað miða þær að sameiningu skyldra sjónarmiða og efla á þann veg einingu fólksins í þjóðfélagsmálum. Þeir, sem hafa lík sjónarmið, þótt eitthvað kunni að bera á milli, eru neyddir til að þoka sér saman og eiga samstarf, en hafa oftast litlar vonir um að koma manni á þing hver í sínu lagi. Einmenningskjördæmin miða þannig að því, að fjöldi stjórnmálaflokka verður ekki úr hófi fram og stefnur þeirra verða glöggt afmarkaðar hver gagnvart annarri. Auðveldar þetta málefnalegt mat kjósendanna á stefnum flokkanna. Líkur verða til þess, að hreinn meiri hluti geti skapazt, sem þannig fær aðstöðu til að ráða óháður. Stjórnmálaleg ábyrgð verður þá raunveruleg. Flokkur, sem hlýtur meirihlutaaðstöðu og mistekst hlutverk sitt, á raunverulega á hættu að verða settur hjá við næstu kosningar. Hins vegar vaxa sigurvonir hans, fari honum forusta stjórnmálanna vel og giftusamlega úr hendi. Miðar þetta að því, að hver kjósandi lærir að fara með atkvæði sitt, einnig hann verður ábyrgur, enda á hann mest á hættu, ef honum mistekst um val flokka eða stefnu.“

Hvað finnst mönnum nú um þetta, sem ég er búinn að lesa? Er þetta innlegg fyrir þá, sem standa að frv. því, sem fyrir liggur? [Frh.]