08.05.1959
Efri deild: 114. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson) [frh.]:

Herra forseti. Þegar fundartíma í fyrrakvöld lauk, var þar komið framsöguræðu minni, að ég hafði lokið að lesa úr grg. tillagna fjórðungsþinganna nokkra þætti, er glögglega sýndu, að því fer víðs fjarri, að hreyfing sú, er hv. 5. landsk. þm. (BG) í útvarpsumr. nefndi réttilega volduga hreyfingu, vildi taka upp hlutfallskosningar í stórum kjördæmum.

Þessi hreyfing vildi leggja til grundvallar kosningum einmenningskjördæmi. Hún leit með réttu svo á, að hlutfallskosningafyrirkomulag væri undirstaða sundrungar og smáflokkaþróunar, en einmenningskjördæmi í aðalatriðum hið gagnstæða. Hún vildi dreifa ríkisvaldinu og gera með því lýðræðið sterkara, koma upp fylkisþingum með valdi, er Alþingi léti þeim eftir í víssum málaflokkum, er gerðu landsbyggðina sjálfstæðari og sterkari. Ekkert var þar talað um að leggja niður sýslufélögin.

Og nú skal ég lesa upp aðalatriði sjálfra till., er sýna þetta. Þar segir:

„Landinu skal skipt í fylki:

1) Reykjavík og Hafnarfjörður með næsta nágrenni, Höfuðborgarfylki.

2) Vesturland: Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla, Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla, Dalasýsla og Húnavatnssýslur, Bæjarhreppur í Strandasýslu, Vesturfylki.

3) Vestfjarðakjálkinn allur, Vestfjarðafylki. 4) Norðurland: Skagafjarðarsýsla að og með Norður-Þingeyjarsýslu, Norðurfylki.

5) Austurland: Norður-Múlasýsla að og með Austur-Skaftafellssýslu, Austurfylki.

6) Suðurland: Vestur-Skaftafellssýsla að og með Kjósarsýslu, þar með Vestmannaeyjar, Suðurfylki.

Hvert fylki verði stjórnarfarsleg heild með allvíðtæku starfssviði og valdi í ýmsum sérmálum. Vald og starfssvið fylkjanna skal ákveðið með lögum.

Í hverju fylki skal árlega háð fylkisþing. Á þingi þessu skulu sitja 15 fulltrúar, sem kosnir verða í einmenningskjördæmum, er hafi sem jafnasta kjósendatölu. Fylkisþing geta þó sjálf ákveðið tölu þm. sinna hærri, eða allt að 30 þm., en jafnframt skal þá fjölga kjördæmum að sama skapi.“

Svo er annað, sem snertir Alþingi:

„Alþingi skiptist í tvær deildir, Ed. og Nd. Í Ed. skulu sitja 18 fulltrúar, þrír úr hverju fylki, kosnir á fylkisþingum hlutbundnum kosningum. Kjörgengir eru aðeins menn búsettir í fylkinu. Í Nd. skulu sitja 30 þm., kosnir í einmenningskjördæmum.

Kjördæmaskipun skal þannig háttað, að sem næst jafnmargir kjósendur verði í hverju kjördæmi, og skulu kjördæmin að öðru leyti ákveðin sem samfelldust, eftir því sem staðhættir leyfa. Sveitarfélagi má ekki skipta milli kjördæma, nema hvor eða hver hluti verði meginhluti kjördæmisins. Kjördæmaskipun skal endurskoðuð á tíu ára fresti og gerðar á henni þær breytingar, sem nauðsynlegar reynast, til þess að fylgt verði áðurgreindri meginreglu um jafna kjósendatölu í kjördæmum. Endurskoðun þessi skal gerð af þriggja manna nefnd.

Skal einn nm. tilnefndur af hæstarétti, annar af Alþingi og þriðji af forseta. Engu fylki má skipta í fleiri en 10 kjördæmi.“

Þetta eru meginatriði sjálfra till., sem hér geta skipt máli, og af þeim er sýnt, að í þær er ekki vitnandi fyrir þá, sem standa að frv. því, sem hér liggur fyrir, nema þá þeir vilji með þeim rífa sjálfa sig niður. Það er aðeins gert ráð fyrir því, að hlutfallskosningar geti átt sér stað innan fylkisþings, en þá er búið að kjósa með einmenningskjördæmafyrirkomulagi menn til fylkisþinganna, sem verða kjörmenn, og þá er búið að hefja kosningarnar í það hærra veldi, ef ég má komast þannig að orði, að hlutfallskosningar geta átt rétt á sér. Þær trufla ekki, og það er ekkert hætt við því, að megingallar þeirra, sem sé smáflokkaþróunin og það, hvað örðugt er að mynda meiri hl., verði þar gildandi.

Þessar till. voru fram settar af því, að þeir, sem að þeim stóðu, töldu, að valdið í þjóðfélagsmálunum væri að dragast um of saman og þá sérstaklega til höfuðborgarinnar. Þá var líka fjárhagsráð t.d. í algleymingi. Og þeir töldu, að þessu fylgdu hættulegar afleiðingar fyrir land og lýð, ekki aðeins dreifbýlið, heldur líka fyrir Reykjavík. Sú skipan, er till. hljóða um, átti að framkalla nokkurs konar miðflóttaafl gegn aðdráttarafli höfuðborgarinnar, sem talið var og er of mikið, miklu meira en hollt er, baeði fyrir landsbyggðina og höfuðborgina. Þær voru því alger gagnstæða við þetta frv., sem veikir landsbyggðina, veikir miðflóttaaflið, eykur aðdráttaraflið, losar um úti á landsbyggðinni, svo að aðdráttaraflið verður áhrifameira en ella, þar sem hinir beinu umboðsmenn eru teknir af hinum ákveðnu félagsheildum, því að hin nýju kjördæmi verða, eins og ég gerði rækilega grein fyrir í fyrri hluta ræðu minnar, ekki félagsheildir, síður en svo, heldur verða þau, þessi nýju kjördæmi, áflogasvið 5–6 fulltrúa af ýmsum flokkum.

Uppbótarþm., sem komið hafa inn í þingið fyrir hlutfall í kjördæmum úti um land, hafa stundum verið kallaðir draugar. Ekki veit ég, hverjir hafa gefið þeim þetta nafn. Mér hefur fundizt það vera á allra munni oft og einatt. Þeir hafa sjálfsagt fengið þetta nafn sem samheiti af því, að þeir hafa þótt skapa reimleika í kringum þá þingmenn, sem hafa hlotið beinar kosningar úti á landinu, ekki af því, að þeir væru í sjálfu sér draugar sem menn, heldur fyrir það, að skipulagið, sem kom þeim inn á þingið, knýr þá til þess í glímunni um fylgið að skapa þá reimleika, sem hafa valdið því, að þeir hafa fengið þetta samheiti. Og mér virðist einhlítt, að hin stóru, nýju kjördæmi verði reimleikasvæði í þessari merkingu og það enn þá magnaðri og áhrifameiri en hin smáu reimleikasvæði, sem eru nú undir því fyrirkomulagi, sem gildir.

Fyrir stuðningsmenn þessa frv. er því það að vitna í till. frá fjórðungsþingunum sama og kalla yfir frv. hreina og beina fordæmingu. Till: þessar voru, eins og ég gat um í fyrri hluta ræðu minnar og mönnum er náttúrlega kunnugt, samdar af Austfirðingum og Norðlendingum og samþykktar á fjórðungsþingunum þar. Seinna voru þær einnig samþykktar af fulltrúum frá Vestfirðingum og Sunnlendingum, sem mættu til umr. um þær á sameiginlegum fundi fjórðungasamtakanna. Þær eru því mjög sterk mótmæli gegn þessu frv. og stuðningur við stefnu og till. okkar framsóknarmanna.

Svo skal ég láta útrætt um þessar till. En þó vil ég geta þess að lokum, að fjórðungsþingin hafa elndregið mælt með því, að stjórnarskrármálið verði leyst á stjórnlagaþingi, sem hefði það verkefni eitt að ganga frá stjórnarskránni, og á síðasta ári endurtók fjórðungsþing Austfirðinga enn einu sinni yfirlýsingu um þetta, ef ég man rétt.

Till. okkar minnihlutamannanna í stjskrn. eru rökstuddar í nál. okkar á þskj. 474. Þar er sögð í stuttu máli saga stjórnarskrármálsins, frá því að það var í n. við undirbúning lýðveldisstofnunarinnar 1944. Þá var stjórnarskránni ekki breytt nema það, sem minnst var hægt, til þess að láta ekki deilur um hana trufla einingu þjóðarinnar við endurreisn lýðveldisins. Hins vegar var gerð á Alþingi um það hátíðleg yfirlýsing og heit að ljúka endurskoðuninni í heild sem fyrst, og til þess voru skipaðar milliþinganefndir, ein fram af annarri. Síðasta n. hefur enn ekki skilað áliti eða lokið störfum sínum. Hjá henni liggja óafgreiddar till. um heildarendurskoðunina, bæði till. um breyt. á stjórnarskránni í mörgum liðum, sem skýrðir hafa verið hér í umr., og till. um að stofna til sérstaklega kjörins stjórnlagaþings eða þjóðfundar, er hafi það verkefni eitt að framkvæma heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og setja lýðveldinu fullfrágengna stjórnarskrá til frambúðar. Sú till. ásamt grg., er henni fylgdi, er birt í heild í nál. Hjá n. bíða allar þessar till., að kalla má óræddar og algerlega óafgreiddar. Gerðabók n. er eins og bíll, sem hefur aðeins verið tekinn úr gír, en ekki úr gangi, og bíður þannig á stæði, og um n. get ég vel tekið undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að hún er eins og mær, sem sefur, en er ekki dáin. Hún hefur verið stungin svefnþorni, sem formaður gat kippt brott, ef hann hefði viljað, þegar áhugi þríflokkanna hófst. Og sjálfsagt er nú að mínu áliti fyrir hv. Alþingi að kippa svefnþorninu burt, svo að mærin vakni.

Við bendum á í nefndarálitinu, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er alls ekki borið fram í anda lýðveldisstofnunarinnar 1944, heldur af tækifærissinnuðum hernaðarsamtökum þriggja flokka. Það er aðeins um breyt. á einni grein stjskr., en hún er í 80 gr., og það er borið fram án alls samráðs við fjórða þingflokkinn, sem skipar þó nálega 1/3 þingsæta, og það er sett fram þjóðinni sjálfri að óvörum. Frv. felur í sér byltingu á grundvallarskipun kosninga í landinu. Gegn því hefur strax risið mjög sterk mótmælaalda meðal almennings úti um land, enda mundi það, ef að lögum yrði, raska ævafornum rétti héraða landsins.

Við lítum svo á, að endurskoðun þeirri á stjórnarskránni, sem frestað var 1944, sé skylt og sjálfsagt að ljúka allri í einu. Stjórnarskránni á ekki að síbreyta. Hún er grundvallarlög lýðveldis okkar, og þegar þeim lögum verður breytt, á að ganga þannig frá þeim, að ætla megi, að þau geti verið óhreyfð til frambúðar. Enn fremur teljum við fyrstu skyldur við hið unga íslenzka lýðveldi að hvika ekki frá þeirri stefnu, sem mörkuð var í upphafi undir áhrifum hinna stóru stunda, þegar lýðveldið var stofnað, að hafa þau vinnubrögð við frágang stjórnarskrárinnar að láta mþn. allra stjórnmálaflokkanna fjalla um málið og fullreyna, hvort ekki fæst samstaða allra flokkanna um heilbrigða og giftusamlega afgreiðslu þess. Þess vegna teljum við sjálfsagt, að frv. á þskj. 368 verði vísað til stjskrn., sem skipuð var samkv. þál. 24. maí 1947 og ekki hefur enn lokið störfum eða skilað áliti.

Aðaltill. okkar er hin rökst. dagskrá, svo hljóðandi — með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að stjórnarskrárnefndin, sem skipuð var samkv. þál. 24. maí 1947, taki stjórnarskrármálið í heild til endurskoðunar á árinu 1959 með það fyrir augum, að till. hennar verði lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en, í ársbyrjun 1960, og athugi sérstaklega till. þær, sem fram hafa komið um, að málið verði afgreitt á sérstöku stjórnlagaþingi (þjóðfundi), tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með samþykkt þessarar dagskrártill. væri málinu beint inn á þá braut, sem ætlazt var til við lýðveldisstofnunina, að n. ynni nauðsynlegan undirbúning að heildarfrágangi stjórnarskrárinnar, gerði það, sem unnt væri, til að draga lærdóma af reynslu annarra lýðræðisþjóða á seinustu árum og skapa einingu allra flokka um málið. Gert er ráð fyrir, að n. ljúki störfum á þessu ári, svo að ekki þarf að setja fyrir sig tafir af þessu fyrir málið. Um leið tökum við fram, að n. skuli athuga sérstaklega till. um stjórnlagaþing. Að okkar áliti væri það virðulegasta afgreiðsla málsins að setja hinu unga íslenzka lýðveldi nýja stjórnarskrá á sérstaklega kjörnu stjórnlagaþingi og hefja það þannig yfir dægurþrasið og flokkabaráttuna um önnur mál.

Frv., sem við erum hér að ræða um, er ljót sönnun þess, að Alþ. hafi ekki þroska til að hefja sig yfir flokkshyggjur í þessu máli, sem ætti að vera heilagt mál og var heilagt mál 1944; þess vegna var það sem minnst höndum farið þá. Samkv. frv. hefur það verið gert að kaupskaparmáli milli þriggja flokka, og þeir líta svo á, að því er virðist, að þjóðin geti ekki riftað þeim kaupskaparsamningi, sem þeir hafa gert, þó að það verði lagt fyrir hana í næstu kosningum. Þjóðviljinn sagði um þetta 25. apríl: „Þegar hafa fengizt úrslit í kjördæmamálinu. Þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir hafa náð samkomulagi um lausn þess, og það er algerlega óhugsandi, að úrslit kosninga geti nokkru breytt þar um.“ Í þessum orðum er sjúkdómur einræðisbakteríunnar, sem borizt hefur, — ja, líklega með austanáttinni, — og eftir ræðum og blöðum hinna flokkanna, sem að frv. standa, virðist hún hafa sýkt þá líka, eða þá nazismabakteríur, sem leggja má að jöfnu hinum. Þessi valdstjórnarhugsunarháttur þríflokkanna sýnir, að ef málið ætti að fá lýðræðislegan undirbúning og afgreiðslu, þarf að vísa því til milliþinganefndar og helzt af öllu til stjórnlagaþings.

Ef nú hv. Ed. þrátt fyrir þetta, samþykkir ekki hina rökst. dagskrá okkar, þá leggjum við fram varatillögur á þskj. 474. Þessar brtt. gera ráð fyrir fjölgun kjördæmakosinna þm. í þéttbýlinu. Fjölgunin er við það miðuð, að hlutur þéttbýlisins sé aukinn í samræmi við fólksfjölgun, sem þar hefur orðið á síðustu árum. Við höfum ekki reiknað það dæmi nákvæmlega, en okkur virðist, að hlutur þéttbýlisins sé aukinn álíka með brtt. okkar og verða mundi, ef frv. það, sem fyrir liggur, yrði samþ., og mér hefur virzt á ræðum, sem hér hafa verið fluttar, t.d. ræðu, sem hv. þm. N-Ísf. flutti við 1. umr., að hann liti svo á, að þetta væri svo, hlutur þéttbýlisins gerður álíka mikill.

Við berum þessa till. fram til samkomulags, svo sem auðsætt er, þar sem meginstefna Framsfl. hefur verið og er einmenningskjördæmi. Okkur virðist augljóst, að ef till. okkar verða samþ., náist í höfuðatriðum sams konar réttlæti þéttbýlinu til handa og flokkarnir þrír telja takmark sitt að ná með frv. sínu. Munurinn á þessum leiðum, þ.e. stefnu frv. og stefnunni samkv. brtt. okkar, er þá orðinn í aðalatriðum sá, að samkv. frv. eru öll núverandi kjördæmi nema eitt, þ.e. Reykjavík, lögð niður, en samkv. leið okkar er réttlætinu náð án þess að leggja kjördæmin niður og stofna til hlutfallskosninga í stórum kjördæmum, en það teljum við háskalega byltingu.

Okkur virðist því auðsætt, að ef þm. greiða atkv. gegn brtt. okkar, hafi þeir meiri áhuga á því að leggja niður kjördæmin, en að ná réttlætinu fyrir þéttbýlið, og fer þá allt þetta mál að verða allmikið öðruvísi og tilgangur þess allt annar en túlkað hefur verið opinberlega, nefnilega kaupskapur, sem miðast við að lama landsbyggðina og verða mundi þjóðarógæfa, líka ógæfa þéttbýlisins. Sá kaupskapur er augljóslega aðalatriðið, ef þessum till. okkar er hafnað.

Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) flutti ágæta ræðu á útvarpskveldi í vetur, sem helguð var Einari Benediktssyni skáldi. Þar gerði ræðumaðurinn að umtalsefni m.a. það, sem Einar Benediktsson hafði sem spámaður, því að skáldin eru spámenn, sagt um meginhættur þjóðarinnar, er bæri að forðast. Ræðumaður tók þetta orðrétt upp eftir hinu spámannlega skáldi úr blaðagrein, sem skáldið hafði skrifað 1914: „Hið fyrsta og versta er auðn landsins. Við þá lífshættu býr þjóðin nú. Næst þar á eftir er önnur stór hætta, þ.e. samflutningur fólksins að einstökum stöðum í landinu.“ — Þegar ræðumaðurinn hafði tekið þetta upp eftir skáldinu, bætti hann við frá sér: „Þetta mundi nú kölluð hættan á því, að jafnvægi í byggð landsins raskaðist. Ekki spratt þó skilningurinn á þeirri hættu af því, að Einar gerði sér ekki grein fyrir þýðingu vaxtar Reykjavíkur fyrir velfarnað þjóðarinnar, því að ekkert skáld hefur betur kveðið um þá nauðsyn, svo sem er hann segir: Af bóndans auð hún auðgast, verður stærri og auðgar hann, þau hafa sama mið.“

Andstaða okkar, sem erum á móti frv., er byggð á því, að það felur einmitt í sér bæði þá fyrstu og verstu hættu og þá stórhættu, hættu landeyðingar og fólksflutninga, sem Einar Benediktsson talaði um og Bjarni Benediktsson virðist vera honum sammála um í ræðu sinni frá í vetur, — hættu, sem er sameiginleg hætta fyrir landsbyggðina og þéttbýlið, því að bæði þéttbýlið og strjálbýlið auðga hvort annað og hafa sama mið.

Dagskráin og varatillögurnar eru sömu till. sem framsóknarmenn báru fram í hv. Nd. og voru felldar þar af fylgjendum frv. Mér finnst ástæða til þess fyrir hv. Ed. að haga sér á annan hátt og fallast á aðra hvora till. okkar og þá helzt á dagskrártill. og sýna með því, að hún heiti með réttu efri deild.