09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. hafði margar aths. að gera við þá ræðu, sem ég flutti hér í gær um þetta mál, og veit ég ekki, hvort ég muni gera öllum þeim aths. skil. En þó get ég ekki stillt mig um að taka a.m.k. eitthvað af þeim atriðum til meðferðar, sem hann gerði hér að umtalsefni.

Hv. þm. sagði, að Framsfl. hefði ekki svikið neitt í sambandi við það loforð, sem hann gaf í stjórnarsáttmálanum um það, að kjördæmaskipunin yrði endurskoðuð, og þetta rökstuddi hann með því, að svo hefði verið frá þessu gengið, að þetta ætti að gerast á kjörtímabilinu, en nú hafi kjörtímabilinu aldrei verið lokið og þess vegna væri þarna ekki um nein svik að ræða. Þessi röksemd er byggð á algerlega röngum forsendum, því að í stjórnarsáttmálanum segir, að kjördæmaskipunina skuli endurskoða á starfstíma stjórnarinnar, og ég held, að þegar þetta er betur athugað, geti engum blandazt hugur um, að hver sá, sem hlaut það hlutskipti að semja við Framsfl., mundi einmitt hafa orðað þetta svona, vegna þess að Framsfl. er þekktur að því að sitja ekki í samsteypustjórn út heilt kjörtímabil. Það hefur verið reynslan að undanförnu, að hann hefur oftast nær rofið stjórnarsamstarf, þegar eitt ár var eftir af kjörtímabilinu, sennilega til þess að geta haft þessa afsökun fyrir þeim vanefndum, sem hjá honum hafa orðið á þeim loforðum, sem hann hefur gefið, þegar stjórn var mynduð og um hana samið. Ég held þess vegna, að það, sem ég sagði um þetta, standi algerlega óhaggað.

Ég vísa sömuleiðis til föðurhúsanna fullyrðingum hv. þm. um það, að starf þeirrar n., sem skipuð var af stjórnarflokkunum, hafi strandað á því, að fulltrúar Alþb. hafi neitað að mæta á fundunum, og ég þykist fullviss um það, að hann geti ekki fengið þessa fullyrðingu sína staðfesta af neinum af sínum flokksbræðrum. (KK: Ég neita að hafa sagt það, haft undanbrögð við að mæta. ) Já, n. mun e.t.v. hafa verið kölluð saman tvisvar eða þrisvar sinnum, og einmitt var hún kölluð saman, þegar leit út fyrir, að stjórnin mundi rofna. T.d. í maí í fyrra, þegar allir töldu stjórnina af, þá rauk hæstv. þáv. forsrh. (HermJ) til og kallaði n. saman til fyrsta fundar, þegar sýnilegt var, að stjórnin var að gliðna, og einmitt til þess að geta síðar skotið sér á bak við það, að ekki hafi verið vanrækt það loforð, sem í stjórnarsáttmálanum var gefið varðandi þetta.

Þá er ekki furða, þó að ýmislegt fleira fari á milli mála, þegar á þennan hátt er staðið að röksemdafærslu, enda var það svo, að í flestum atriðum var farið með enn meiri ósannindi en varðandi þetta. T.d. taldi hv. þm., að það væri hin mesta ósvinna að halda því fram, að Samband ísl. samvinnufélaga undir forustu framsóknarmanna hefði á nokkurn hátt stutt að því, að útflutningsverzlunin færi fram hér í gegnum Reykjavík, þetta væru hreinustu ósannindi, heldur hefði þvert á móti verið unnið að því að koma upp skipakosti, sem flytti vörurnar beint til og frá landsmönnum, hvar sem þeir væru búsettir í landinu. Það vill nú svo til, að ég hef nokkurn kunnugleika úr mínu byggðarlagi á þessari jafnvægisstefnu hv. framsóknarmanna og man, að á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina hafði Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri lagt drög að því að koma sér upp farskipaflota, hafði eignazt tvö skip, gerði þau út um árabil og átti í stríðslokin gilda nýbyggingarsjóði til þess að halda þessari starfsemi áfram og auka þennan skipakost. En þá gerist það, að þáverandi framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga tók við framkvæmdastjórn í Sambandi ísl. samvinnufélaga, og eitt af fyrstu verkum hans í því starfi var að beita sér fyrir því, að þessi skipaútgerð frá Akureyri yrði lögð niður og flutt hingað til Reykjavíkur. Og með ofurvaldi sínu í Sambandi ísl. samvinnufélaga tókst framsóknarmönnum að eyðileggja þennan blómlega atvinnuveg, sem Akureyringar og Eyfirðingar höfðu komið sér upp með eigin fjármagni.

Skip Sambands ísl. samvinnufélaga eru merkt stöðum úti á landi. Á þessum stöðum sjást skipin aldrei, ekki svo að árum skiptir, og ég veit ekki betur en a.m.k. eitt af þeim bæjarfélögum, sem hafa fengið þann heiður, að skipin hafi verið talin þeim til heimilis, standi nú í málaferlum við Samband ísl. samvinnufélaga um lítilfjörlegt útsvar, sem þessari útgerð var ætlað að greiða í þessu byggðarlagi.

Hv. þm. gerði sér tíðrætt um afgreiðslu á málefnum Akureyrar nú nýverið í fjvn. og á Alþ. og taldi, að það sýndi sig varðandi mig og hv. þm. Ak., að samvinna mundi ekki verða mikil milli þm. mismunandi flokka, þó að kjörnir væru í sama kjördæmi. Ég ætla ekki að fara út í neitt mat á því, að hvaða gagni samstaða okkar hv. þm. Ak. hefur orðið fyrir málefni kaupstaðarins. Það er annarra, en mín að dæma það. En hitt veit ég, að í þau 3 ár sem við höfum báðir setið hér á þingi, höfum við flutt hvert einasta mál, sem hefur varðað Akureyri, saman hér á Alþ., þangað til nú, að sú breyt. varð á, að hv. þm. Ak. varð ráðherra, og þá er það af ofur eðlilegum ástæðum, að hann hefur ekki verið flm. með mér að þeim till., sem ég hef flutt um málefni Akureyrar síðan. Ég er líka þeirrar skoðunar, að þó að það gerðist í einu eða tveimur tilfellum, að hæstv. ráðh., þm. Ak., greiddi atkv. gegn mínum till., þá var það ekki vegna þess, að hann væri mér ekki sammála um það, að hlutur Akureyrar hefði verið of rýr, og ég er sannfærður um, að ef hann hefði átt sæti í fjvn. eins og áður, þá hefði þessu verið á annan og betri veg farið. Ég þykist líka geta fullyrt, að afgreiðsla fjvn. á málefnum Akureyrar hafi alls ekki verið með vilja hæstv. ráðh., sem kemur einmitt fram í því, að á milli 2. og 3. umr. beitti hann sér fyrir því við fjvn., að nokkrar leiðréttingar yrðu gerðar í samræmi við mínar till. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt með neinum rétti að halda því fram, að við höfum spillt hvor fyrir öðrum varðandi málefni Akureyrar, heldur þveröfugt.

Hv. þm. S-Þ. sagði, að það hefði verið síður en svo, að Framsfl. hefði fallið frá því, að stjórnlagaþing ætti að afgreiða kjördæmamálið, enda þótt um endurskoðun á kjördæmaskipun hefði verið samið í sambandi við myndun vinstri stjórnarinnar. Ja, mér er nú bara spurn: Hvernig átti að tryggja það, að samkomulag milli flokkanna, milli þeirra flokka, sem stóðu að vinstri stjórninni, gæti haldizt og væri meira en orðin tóm, ef síðar átti að láta allt aðra stofnun en þessir flokkar höfðu tökin á afgreiða málið? Ég held þess vegna, að það verði ekki hrakið, að ef framsóknarmenn töldu skilyrðislaust, að stjórnlagaþing ætti að afgreiða kjördæmaskipunina, gátu þeir ekki samið um það, að málið yrði leyst af vinstri stjórninni og af Alþingi.

Hv. þm. S-Þ. hélt áfram að berja höfðinu við steininn um það, að framsóknarmenn æsktu engra forréttinda, og taldi, að það væri síður en svo, að það væri verið að skapa Framsfl. forréttindi, þó að Akureyri t.d. kysi tvo menn hlutfallskosningu og síðan héldist kjördæmaskipunin óbreytt á Norðurlandi. Það væri hið fullkomnasta lýðræði. Það hefðu allir jafna möguleika í þessu efni. Eftir því eru það ekki nein forréttindi að geta fengið fjóra þingmenn af 6 út á 3700 atkv., meðan öðrum flokkum er gert að fá tvo eða þrjá þm. út á helmingi fleiri atkv. Það eru ekki forréttindi? (KK: Það eru engin lög um það, hvað atkv. eru mörg hjá hverjum flokki.) Nei, það verður erfitt bæði fyrir hv. þm. S-Þ. og aðra framsóknarmenn að halda því fram, að það sé ekki einmitt flokkshagsmunaleg togstreita, sem ræður þeirra gerðum í þessu og þeirra till. öllum. Eins og ég benti á í ræðu minni hér í gær, höfðu þeir gert till. sínar svo vísdómslega úr garði, að samkv. fenginni reynslu hefðu þeir fengið 50%a af hinum nýju þingmönnum, enda þótt atkvæðamagn þeirra væri ekki meira en 25–26% af atkvæðum allra kjósenda í landinu.

Hv. þm. gerði það að gamanmálum að hafa hér yfir fornan kveðskap um það, að vinátta með illum vinum brynni eldi heitari í fimm daga, en þá væri vináttan úti. Ég held, að það hafi verið öllum ljóst af minni ræðu hér í gær, að samstaða okkar Alþb.-manna og sjálfstæðismanna í kjördæmamálinu stafar ekki af neinni vináttu. Þvert á móti. Afstaða okkar markast í fyrsta lagi af því, að hér er um mannréttindamál að ræða, og í öðru lagi og kannske ekkert síður af því, að hér er um hagsmuni verkalýðsstéttarinnar í landinu að tefla, að með hinni nýju kjördæmabreytingu sé skapaður betri grundvöllur, en áður, til þess að berjast fyrir málum hennar, teljum, að þetta mál sé, jafnframt því að vera mannréttindamál, hið mesta hagsmunamál fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu. Ég ætla ekki að spá neinu um það, hvort þessi breyting verði til þess að sameina verkalýðsflokkana eða hvort illspár framsóknarmanna um það, að vinstri menn í landinu klofni í fleiri flokka en áður, rætast. Það treysti ég mér ekki til að fullyrða um. En ég veit, að þessi skipan, sem nú er verið að ganga frá og allir vita að verður ofan á, skapar grundvöll til sameiningar verkalýðshreyfingarinnar.