09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekkert málþóf að hefja. Ég þarf þess ekki heldur. Hv. 8. landsk. þm. viðurkenndi ýmist beint eða óbeint flest af því, sem ég hélt fram í ræðu minni og snerti ræðu hans frá í gær. Hann viðurkenndi mistök á samvinnu milli þingmannanna frá Akureyri, en vonaðist bara til, að slíkt kæmi ekki fyrir aftur. Og það er gott að lifa í voninni, en stundum rætast ekki vonirnar.

Hann hélt því fram, að í samningi þeim, sem vinstri flokkarnir gerðu, þegar hin svonefnda vinstri stjórn var mynduð, um kjördæmamálið, hefði staðið, að átt hefði að endurskoða stjórnarskrána á starfstíma stjórnarinnar. Þetta er vafalaust rétt, að það hafi verið þannig orðað. En hitt er jafnvíst, að þegar þessi stjórn var mynduð, þá gerði hún auðvitað ráð fyrir því að sitja að völdum kjörtímabilið. Og annað kemur einnig til sögunnar, sem sannar það, að ég hafði rétt fyrir mér, og það er það að, að því er stjórnarskrármálið snertir, þá gerðu flokkarnir með sér sérsamning, og í þeim sérsamningi er tekið fram, að enginn flokkanna þriggja megi afgreiða málið á kjörtímabilinu með stjórnarandstöðunni gegn samstarfsflokkum sínum. Þetta var sérsamningur, og þar er miðað við kjörtímabilið. Og ég bið menn að taka eftir því, af því að stundum hættir mönnum til að snúa út úr, að þessi samningur var við það miðaður, að flokkarnir hefðu samstöðu í þessu máli út kjörtímabilið, og sú samstaða mætti vitanlega vera með stjórnarandstöðunni, ef það væri ekki gegn þeim flokkum, sem samninginn gerðu. Eðlilegast var vitanlega að afgreiða málið með samstarfi allra flokka. En þessir flokkar, sem tóku á sig sameiginlega að stjórna landinu, ákváðu það, að á kjörtímabilinu skyldu þeir ekki rjúfa þá samvinnu með því að afgreiða málið með stjórnarandstöðunni gegn einhverjum hinna flokkanna.

Ég þarf ekki að segja meira. Það liggur sjálfsagt ljóst fyrir öllum, sem hér eru, hvernig þessi samningur var haldinn. Ég fullyrði þrátt fyrir það, sem hv. 8. landsk. sagði, að Framsfl. rauf ekki þennan samning. Hann beitti sér fyrir því, að nefnd var skipuð, og sú nefnd, þó að hún ynni lítið, þá hafði hún tíma fyrir sér til kjörtímabilsloka, og enn fremur: það var síður en svo, að rekið væri eftir störfum hennar af samstarfsflokkum Framsóknar, sem þeir þó höfðu vitanlega í hendi sinni að gera.

Hv. 8. landsk. þm. sagði, að það væri ekki af neinni vináttu við Sjálfstfl., að Alþb. hefði gengið í lið með honum í kjördæmamálinu. Ja, af ræðu hans varð ekki annað séð í gær, en að sá friður, sem Edda talar um, væri fullkomlega á ferðinni, sem ég líka vitnaði til. Og ekki efast ég um það, að Sjálfstfl. hefur talið sér það vinargreiða, þegar Alþb. sló til og gekk í félag um afgreiðslu kjödæmamálsins. Það hefur hann talið vinargreiða. Og síðan minnist ég ekki heldur að hafa heyrt hann kalla Alþýðubandalagið kommúnista, sem hann gerði iðulega áður. Hann nefnir það Alþýðubandalag með þeirri hlýju, að það er alls ekki ástæðulaust að hugsa sér, að eins og sakir standa sé mjög gott þarna á milli.