08.12.1958
Efri deild: 32. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

55. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. tók fram við 1. umr. þessa máls, er hér einungis um smálagfæringu að ræða á þeim lögum, sem sett voru á s.l. vori um útflutningssjóð, eða nánast til þess að leiðrétta þar smávegis mistök, er orðið höfðu á og hann lofaði við þær umræður að leiðrétt skyldu. En niður hafði fallið, að samsvarandi hækkun kæmi á slysadagpeninga og dánarbætur eins og á aðrar bætur, er undir Tryggingastofnun ríkisins heyrðu. Fjhn. hefur yfirfarið þetta frv. og rætt það á einum fundi sínum og orðið, eins og á þskj. 115 segir, sammála um að mæla með samþykkt frv.

Ég held, að það sé óþarft að fara um þetta frekari orðum. Breyt. er ákaflega lítil í sjálfu sér og — eins og hæstv. ráðh. sagði — einungis til þess að efna loforð, er gefin voru við setningu l. á s.l. vori.