16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um, að mér hafi verið falin þessi framsaga. Hins vegar get ég skýrt frá því, hvað gerðist í nefndinni.

Vegamálastjóri hefur beðið n. um að flytja þetta frv. um breyt. á sýsluvegasjóðslögunum. En ástæðan til þess, að nauðsyn er á að breyta þessum l., er sú, að með nýja fasteignamatinu raskast svo hlutföllin, sem skipt er eftir sýsluvegasjóðsfénu úr ríkissjóði eða framlagi ríkissjóðs til sýsluvegasjóðanna, að það er óviðunandi. Og samgmn. er sammála um, að það beri nauðsyn til þess að koma þar annarri skipan á. Hins vegar hefur n. ekki kynnt sér svo rækilega þetta frv., að hún geti mælt með því, eða hver einstakur nm. vilji mæla með samþykkt frv., eins , og það liggur fyrir. En n. taldi rétt að flytja það og láta það liggja fyrir hv. þm. til athugunar, en á milli umr. taki n. málið til ýtarlegrar meðferðar og geri grein fyrir sínum skoðunum á málinu fyrir 3. umr.

Þetta er allnauðsynlegt mál, og það verður ekki komizt hjá því að gera hér nokkra breytingu á lögunum á þessu þingi vegna þessa, sem ég sagði áðan, að hlutfallið hefur raskazt svo mikið, að það er ekki hægt að framkvæma lögin með góðu móti eins og þau eru nú, eftir að þetta nýja mat kom.

Ég vænti þess, að hv. þm. láti sér þessa skýringu nægja á þessu stigi, því að aðalatriðið var, að frv. kæmi fyrir sjónir hv. þdm., áður en frekar væri gert í málinu, en siðan mun n. taka það til ýtarlegrar meðferðar.