16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst litlar skýringar hafi verið gefnar hér í hv. d. á nauðsyn þessa máls, og er það kannske að vonum, því að það leit svo út, að n., sem flytur þetta mál, hefði láðst að tilnefna frsm., því að sá hv. þdm., sem formaður n. tjáði mér að væri frsm. n., vildi ekki við það kannast og sagðist ekki til þess vita, að honum hefði verið falin framsaga málsins.

Ég skal játa, að það er svo stutt síðan þessu frv. var útbýtt hér, að ég hef ekki enn kynnt mér það neitt rækilega, og mér fyrir mitt leyti hefði ekki veitt af frekari skýringum. Að vísu er hér allýtarleg grg. með frv., en hana hef ég ekki enn þá haft tækifæri til að lesa.

Ég vildi því mælast til þess að fá nú þegar við þessa umr. skýringar á því, greinilegri en komið hafa, því að þær mega heita engar, hvaða nauðsyn það er að setja þau lagaákvæði, sem hér er farið fram á að setja. Að vísu skil ég ástæður þær, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) færði hér fram, mæta vel, að ef á að setja þessi lagaákvæði, þá þarf að gera það nú fljótt, ef það á að öðlast gildi, áður en sýslunefndarfundir eru almennt haldnir.

Ég ætla ekki að segja frekar að sinni. Ég vildi gjarnan óska eftir nánari skýringum á frv. Mér virðist við fljótan yfirlestur, að hér eigi að raska töluvert því hlutfalli, sem verið hefur undanfarið á milli sýslna, og vil því gjarnan þegar á þessu stigi málsins fá skýringar á því, hvaða nauðsyn ber til þess.