16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Björgvin Jónsson:

Herra forseti. Ég get upplýst 1. þm. Eyf. (BSt) um það, að þetta mál er flutt af samgmn. Ed. og afgr. á allan hátt þar á þinglegan hátt. Það virðist hafa orðið, sennilega við boðun dagskrár í dag, einhver misskilningur, þannig að frsm. málsins virðist ekki hafa gert sér grein fyrir, að það kæmi hér á dagskrá, eða þá í öðru lagi talið, að grg. frv., sem er mjög ýtarleg og henni fylgja mjög margar ýtarlegar töflur, væri það ýtarleg, að þm. almennt gætu gert sér grein fyrir eðli frv. eftir henni.

Ég vil eindregið mælast til þess, að frv. verði afgr. til 2. umr. nú á þessum fundi. Páll Zóphóníasson: Herra forseti. Mér finnst, að það gæti í þessu dálítils misskilnings. Við skulum minnast þess, að þegar lög voru sett um fasteignamat, um breytingar á því seinast, þá voru þau sett til þess að reyna að koma einhverju samræmi í mat á jörðum og reyndar húsum líka, sem höfðu breytzt eða raskazt frá því, sem var 1942, fyrir aðstæður í þjóðfélaginu, sem það opinbera að nokkru leyti a.m.k. hefur átt aðild að. Þó var það nú svo, að þegar þessi lög voru sett, urðu ýmis ljón á veginum.

Fyrsta ljónið var Sjálfstfl., og eiginlega var hann ljónið, sem lagði tvær hindranir í veg fyrir það, að hægt væri að koma fasteignamatinu í sæmilegt horf, annars vegar með því að afsegja að vera með frv., ef hækkað væri í Reykjavík meira en fimmfalt, þó að vitað væri, að Reykjavíkursöluverð á íbúðum og lóðum hefði hækkað ákaflega miklu meira eða 12–15–falt. Þar af leiddi svo aftur, að það var ómögulegt að hækka landið, til þess að það væri í samræmi við Reykjavík. Það varð þess vegna að reyna að vera álíka mikið neðan við um allt land eins og manni fannst maður verða að vera með Reykjavík, þegar miðað var við söluverð, og ekki mátti hækka þar meira en fimmfalt. Þess vegna er það, að fasteignamatsverðið á jörðum og húsum núna um landið þvert og endilangt er ekki í samræmi við verðgildi jarðanna við kaup og sölu. Hitt voru gjöld af fasteignum, sem ekki máttu hækka, þó að matið hækkaði, en það var krafa Sjálfstfl. líka.

Nú var það áður svo og er enn, að þær sýslur, sem höfðu sett sér sýsluvegasamþykktir, greiddu í sýsluvegasjóð visst gjald af fasteignamati jarða og húsa í sýslunni og fengu á móti visst framlag frá ríkissjóði og hækkandi eftir framlagi sínu. Þegar svo matið er orðið breytt og á að fara að innheimta fasteignagjaldið eftir þessu nýja mati, þá kemur það þannig út, ef ekkert er að gert og lögunum er ekki breytt, að sýslur, sem ekkert hafa að gera orðið með sitt sýsluvegafé, af því að þær hafa sama sem enga sýsluvegi, og ein þeirra hefur enga sýsluvegi, ekki einn einasta spotta, ríkið er búið að taka þá alla, — þær fá gjald í sjóðinn, sem þær ekki beint þurfa, meðan aðrar, sem hafa verið lækkaðar, eru illa vegaðar enn þá, með mikla sýsluvegi og þurfa mikið fé í þá, fá sama og ekki neitt. Til þess að reyna að ráða bót á þessu er það, sem vegamálastjóri semur þetta frv. og leggur það fyrir þm. til flutnings.

Ég vil ráða bót á þessu, og ég vil þess vegna leggja áherzlu á það, sem ég sagði áðan, að þetta frv. komist sem allra fyrst í gegnum þingið, og alltaf áður en því verður slitið.

Þess vegna ítreka ég það, sem ég sagði áðan, að n. vindi sér að því að reyna að lesa frv. rækilega í gegn og vita, hvort hún finnur aðra heppilegri leið en nefnd er í síðustu mgr. 1. gr. til þess að reyna að minnka það misræmi milli veganna og vegaþarfanna í hinum ýmsu sýslum og þess fjár, sem þær koma til með að fá eftir þeim reglum, sem nú gilda. Það getur vel verið, að þeir geti fundið einhverja heppilegri leið, en að leggja það eins mikið á vald vegamálastjóra og gert er í 1. gr. Ég er ekkert viss um það, en það þarf að grandskoðast, og það þarf að ákveða um það, þannig að það komi ekki fram það hróplega misrétti, sem kemur til með að verða, ef sýsluvegalögunum, sem nú gilda, er ekki breytt.