16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. 1. þm. N-M. (PZ), að þessu máli verði hraðað sem mest og það gangi í gegn á þessu þingi. Sannleikurinn er sá, að það er bráðnauðsynlegt að fá þessa löggjöf. Það er augljóst mál, að þegar fasteignamatinu er breytt, þá fer allt féð, sem ríkissjóður veitir, í þær sýslur, sem bezta hafa aðstöðu og þar af leiðandi hafa langhæst fasteignamat. Hinar, sem fjær liggja, verða út undan. Mér er kunnugt um það, að vegamálastjóri er búinn að leggja mikla vinnu í þetta mál og reyna að leysa það á sem hagkvæmastan hátt. Ég efast stórlega um, þótt hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) telji, að hér séu vafasöm ákvæði í 3. málsgr. 1. gr., að það sé hægt að finna neina leið betri. Það er misskilningur, að það eigi að leggjast í hendur eins manns. Hann á að fara eftir ákveðnum reglum, og ég efast ekki um það, að vegamálastjóra er trúandi til þess. Ef hv. þm. getur bent á einhverja heppilegri leið, þá er það vel þegið. En ég vil undirstrika það, að þetta mál gangi í gegn sem allra fyrst og megi ekki stranda hér á Alþingi.

Ég vil aðeins með nokkrum orðum vekja undrun mína á því, að menn voru hér fyrr við umr. að deila um, hvort frv. væri löglega flutt inn í deildina. Ég veit ekki, hvort er hægt að gera það meira löglega, en gert hefur verið. Þetta mál er tekið fyrir af sameinuðum samgöngumálanefndum Alþingis, og þar er samgmn. Ed. falið að flytja það. Hún tekur að sér að gera það. Ég sé ekki, að þetta sé neitt brot á þingsköpum eða neinum reglum, að slík aðferð sé viðhöfð. Og hvað ræðu hv. frsm. snertir, sem mundi það ekki, að hann var frsm., þá tel ég það ekkert vítavert af honum, þó að hann hafi ekki á reiðum höndum neina ýtarlega ræðu um þetta mál, vegna þess að ég hygg, að það hafi ekkert frv. verið lagt hér fram, sem betur er gerð grein fyrir, en þetta frv., ef menn nenna að lesa það og kynna sér það, sem þar er lagt til málanna.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja.