16.04.1959
Efri deild: 102. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er gott, að hæstv. forseti er þá orðinn ásáttur um, að málið er löglega lagt fyrir.

Ég gat þess í upphafi, að vegamálastjórinn hefði lagt málið fyrir samvn. samgöngumála og það hefði verið samkomulag í þeirri n., að samgmn. Ed. flytti málið. (BSt: Það kemur fyrst nú.) Það hélt ég, að ég hefði sagt skýrt í fyrstu ræðu minni. En þetta er allt í lagi, fyrst hæstv. forseti fellst nú á, að það sé löglega flutt.

Hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) sagði, að hann teldi jafnvel ekki nauðsyn á að hraða málinu gegnum þetta þing. Ekki ætla ég að fara að della um þetta. En ég vil þó benda á það, að ef ekki á að afgreiða málið á þessu þingi, þá væri betra, að fjvn. fengi einhverja vitneskju um það, því að þá þarf að hækka fjárlögin sem nemur þeirri hækkun, er hið nýja fasteignamat skapar, og það er þó nokkur upphæð. Eins og stendur í grg. þessa frv., þá mundi sú upphæð hækka hér um bil um helming, ef ekki er breytt lögunum. Ég veit ekki, hvort það er alveg skaðlaust að láta málið bíða.

Hv. 2. þm. Árn. drap á það líka, að sýslufélögin hefðu fengið framlag frá ríkissjóði í réttu hlutfalli við það, sem þau legðu á sig sjálf. Þetta er að vísu rétt. En það fer ekki alltaf saman við þörfina á fjárframlögum til sýsluveganna. Og löggjöf um upptöku nýrra þjóðvega í hverju héraði hefur ekki heldur farið eftir þessu, svo að það sannar ekki, hver þörfin er fyrir nýja sýsluvegi, hvað sýslufélögin leggja á sig sjálf. Fasteignamatið sjálft er svo gerólíkt eða hækkun þess svo gerólík í hinum einstöku sýslufélögum, eins og segir í þessari grg., að í einni sýslunni hefur fasteignamatið hækkað um 48%, en í annarri um 409%, enda segir vegamálastjórinn í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Af því, sem að framan greinir,“ þ.e.a.s. hann er búinn að gera grein fyrir þessu ósamræmi, „og við athugun á þeim upplýsingum, sem sýndar eru á fskj. I-IV, virðist mér ljóst, að hið nýja fasteignamat sé með öllu ónothæfur grundvöllur fyrir skiptingu á ríkisframlagi til sýsluveganna eftir gildandi lögum.“

Ég held, að það fari varla á milli mála, að það sé full nauðsyn á því að afgreiða málið á þessu þingi. Hitt þarf ekki að efast um, að nm. samgmn. eru allir á einu máli um það að taka þetta mál til ýtarlegrar athugunar og að ástæðan til þess, að það er ekki búið að því, er sú ein, að koma frv. fyrir augu hv. þm. í tæka tíð, jafnsnemma og nm. sjálfir geta farið að athuga það að nokkru ráði. Og mér þykir hart, ef það á að fara að deila á n. fyrir það, að hún er að hraða máli í hendur hv. þm., til þess að þeir geti athugað það samhliða.