22.04.1959
Efri deild: 106. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég greindi frá því við 1. umr. þessa máls, að vegamálastjóri hefur samið þetta frv. Hann ræddi þetta mál við samvinnunefnd samgöngumála og lagði áherzlu á, að það næði fram að ganga á þessu þingi. Hann gerir ýtarlega grein fyrir því í grg. frv., að núverandi fasteignamat í landinu sé gersamlega ónothæfur grundvöllur fyrir skiptingu ríkisframlags til sýsluvegasjóða.

Samkvæmt gildandi lögum geta sýslufélög lagt á vegaskatt til sýsluvegasjóðanna eftir fasteignamati í sýslunni. Hámark þessa vegaskatts má vera sem svarar 12% af fasteignamati lands og lóða og 6% af fasteignamati húsa. Þessari reglu er ekki breytt með þessu frv. Sýslunefndir höfðu heimild til þess að leggja allt að 70% álag á þennan vegaskatt, en sú heimild féll úr gildi við síðustu áramót. Ríkisframlagið til sýsluvegasjóðanna fer eftir því, hversu háan vegaskatt sýslufélögin innheimta heima fyrir. Sem dæmi má nefna, að ef þau innheimta aðeins sem svarar 2% af landverði og 1% af húsaverði, þá er ekkert ríkisframlag á móti því. Siðan kemur til ríkisframlag eftir því, hve hátt gjald sýslufélögin innheimta, og hámarkið er það, eins og ég drap á áðan, að leggi sýslufélag 12% á fasteignamat lands og 6% á fasteignamat húsa, fær sýslusjóður þrefalt framlag á móti því, sem er umfram næsta stig þar á undan, en það er mesta framlagið.

Fram til síðustu áramóta var vegaskattur til sýsluvegasjóða innheimtur samkvæmt gamla fasteignamatinu, og ríkisframlagið var því að sjálfsögðu í samræmi við það. En frá síðustu áramótum er nýja fasteignamatið orðið mælikvarðinn í þessum efnum.

Verði lögunum um sýsluvegasjóðina ekki breytt nú, þá gerist tvennt fyrst og fremst: Heildarupphæð ríkisframlagsins hækkar mikið vegna hækkunar á fasteignamatinu í landinu, því að heildarupphæð ríkisframlagsins er aðeins háð framlögum sýslufélaganna. Í öðru lagi: skipting ríkisframlagsins til sýsluvegasjóðanna gerbreytist, vegna þess að hækkun fasteignamatsins er svo mismikil í héruðunum, og sú skipting yrði þá ekki í neinu samræmi við þarfir sýsluvegasjóðanna.

Ef frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 375, verður samþ., þá eru afnumdar þessar reglur, sem ég nefndi, um ríkisframlagið, að það fari eftir fasteignamati viðkomandi sýslufélaga. Í staðinn fyrir það koma ákvæði 1. gr. frv., sem eru þau, að vegamálastjóri skal skipta ríkisframlaginu eftir lengd sýsluveganna, eftir ástandi þeirra og eftir því, hversu há sýsluvegagjöld eru innheimt í hverju sýslufélagi.

Annað atriði, sem breytist með samþykkt þessa frv., er það, að framlag ríkissjóðs skal ekki vera lægra, en sem nemur 6% af fasteignamati lands og lóða og 3% af fasteignamati húsa, og það skal ekki verða hærra, en tvöföld sú upphæð, sem innheimt er af sýslufélögum.

Í gildandi lögum er bæði lágmark og hámark ríkisframlagsins bundið því, hversu há sýsluvegagjöld eru innheimt í héruðunum. Hámark upphæðarinnar úr ríkissjóði til sýsluvegasjóðanna er því ekki bundið nú. Þótt ríkisframlagið megi ekki fara niður fyrir 6% og 3% af fasteignamati, eins og ég sagði áðan, þá helzt áfram heimild sýslufélaganna til að innheimta sýsluvegagjöld allt að 12% og 6% fasteignamatsins, alveg eins og áður var. En ef sýslufélag notfærir sér þá heimild t.d. að innheimta sýsluvegagjald, sem svarar 12% fasteignamats, þá er ekki þar með sagt, að ríkisframlagið verði tvöföld sú upphæð, öðru nær. Það er af því, að samkvæmt frv. á heildarupphæð ríkisframlagsins að vera bundin ákvæði fjárlaga.

Í fjárlagafrv. því, sem verið var að samþ. til 3. umr. í gær, er fjárveiting til sýsluvegasjóðanna 3.3 millj., og er það óbreytt frá því, sem var í frv., eins og það var lagt fyrir þingið, og á því að hækka það frá því, sem það var á fjárl. síðasta árs, um 550 þús. Þetta mun vera með tilliti til hins hækkaða fasteignamats.

Sérákvæði hafa verið í fjárl. um framlög til þeirra sýslufélaga, sem hafa ekki sýsluvegasjóði, því að þar hefur gilt önnur regla um ríkisframlagið. Þar leggur ríkið krónu á móti krónu. En þar sem sýsluvegasjóðir eru, þar fer ríkisframlagið eftir þeim reglum, sem ég nefndi áðan. Á s.l. ári voru fjögur sýslufélög í landinu, er ekki höfðu sýsluvegasjóðl. Nú hafa öll þessi sýslufélög tilkynnt vegamálastjórninni, að þau muni stofna sýsluvegasjóði á þessu ári.

Í 2. gr. frv. er ráðh. veitt heimild til þess að neita um staðfestingu á sýsluvegasjóðssamþykkt, ef hún hefur í för með sér óeðlilega lengingu sýsluvegakerfisins. Þetta er vegna þess, að nýja reglu á að taka upp um úthlutun ríkisframlagsins til sýsluvegasjóðanna, þ.e. að reglan á að vera sú, að vegamálastjóri skiptir ríkisframlaginu eftir lengd sýsluveganna, ástandi þeirra og eftir framlaginu heiman úr héruðunum.

Ef ekki væri settur þessi varnagli í 2. gr. frv. um vald ráðh. til að hafa nokkurn hemil á lengd sýsluveganna, þá væri hægt fyrir sýslunefndir að hafa veruleg áhrif á það, hve mikinn hluta af ríkisframlaginu sýslurnar fengju, með því að lengja sýsluvegina, þar sem það er ein aðalreglan, sem skipting ríkisframlagsins á að fara eftir, hvað þeir eru langir.

Við 1. umr. þessa máls kom fram ágreiningur um málið frá tveimur hv. þm. þessarar deildar, hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ). Tjáðu þeir samgmn., að þeir mundu flytja brtt. við frv. Þessa brtt. hafa þeir nú flutt. Vegamálastjóri hefur athugað þessa brtt. og breytti henni nokkuð, og í því formi er hún flutt. Flm. féllust á sjónarmið vegamálastjórans og tóku því það ráð að flytja till. í því formi, sem vegamálastjóri gat fallizt á.

Nú hefur svo óheppilega viljað til, að annar flm. þessarar brtt., hv. 1. þm. Eyf., er búinn að vera veikur, síðan málið var til 1. umr. Ég beitti mér fyrir því á fundi þessarar hv. d. í gær, að þetta mál yrði tekið út af dagskrá, þrátt fyrir hörð mótmæli þeirra hv. þm. hér í d., sem eru mér alveg sammála um þá nauðsyn, að þetta mál gangi fram. En ástæðan var sú, að ég vildi prófa, hvort ekki væri unnt að ná fullu samkomulagi flm. brtt. og nefndarinnar um málið. Það var að vísu erfitt að prófa þetta, vegna þess að hv. annar flm. var veikur og er það enn, en þó hef ég fengið þau skilaboð frá honum, að hann sætti sig við brtt., enda er hann flm. að henni. En efni brtt. á þskj.423 er það, að reglan um skiptingu ríkisfjárins, sem nefnd er í 1. gr. frv., þ.e. lengd sýsluveganna, ástand þeirra og framlög héraðanna, skuli þó takmarkast af því, eins og segir í brtt., að framlag til sýslu skal aldrei vera lægra, en hún leggur til sýsluvegasjóðs, og þetta breytir allmiklu. Þannig var till. upphaflega úr garði gerð, en vegamálastjóri fékk þá viðbót við hana, að þetta skuli vera miðað við 6% af fasteignamatsverði lands og lóða og 3% af fasteignamatsverði húsa, þ.e.a.s. sýslufélag getur ekki aukið eigið framlag úr hófl fram til þess að soga til sín þeim mun meira af ríkisframlaginu. Sýslufélag getur að sjálfsögðu lagt fram sem svarar 6 og 3% af fasteignamatinu og fengið ríkisframlag samkvæmt því, en ef sýslufélag ætlar að auka þetta og fara t.d. upp í 12% af fasteignamatinu, þá er samkv. brtt., eins og hún er flutt, ríkissjóði ekki skylt að leggja jafnmikið fram á móti því.

Í dag hélt samgmn. fund um þetta mál. Þar voru að vísu tveir hv. nm. fjarstaddir, hv. 4. landsk. (FRV) og hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ). Nefndarmenn urðu sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeirri brtt., sem hér liggur fyrir. Um þetta er fullt samkomulag þeirra nm., sem mættu á þessum fundi.

Ég hygg, að hv. flm. brtt., hv. 1. þm. Eyf. og hv. 2. þm. Árn., séu í raun og veru sammála okkur um þetta, þegar þessi brtt. er komin til. Þau skilaboð fékk ég frá hv. 1. þm. Eyf. í gærkvöld, að hann sætti sig við þessa lausn, og ég ætla, að hv. 2. þm. Árn. geri það í raun og veru líka. En þó er hann ekki ánægður, það skal ég viðurkenna. Það er ekki heldur eðlilegt, að hann sé það út af fyrir sig, því að hans sýslufélag hlýtur að lækka í framlagi frá ríkinu, miðað við það, sem áður var. En það er ekki auðvelt mál að leysa þennan vanda svo, að allir verði ánægðir.

Það stendur nokkuð sérstaklega á um það sýslufélag, sem hv. 2. þm. Árn. er fulltrúi fyrir. Þetta sýslufélag hefur fengið mjög ríflegan hluta af ríkisframlaginu, af því að fasteignamat í þessu sýslufélagi hefur verið allhátt, þ.e.a.s. þar hafa komið til mjög miklar fjárfestingar og framkvæmdir og það frá öðrum héruðum, eins og t.d. Sogsvirkjunin, sem hefur veruleg áhrif á það, hver hlutur þessa héraðs er úr ríkisframlaginu og þá jafnframt framlag sýslunnar sjálfrar. Þetta hérað fékk á árinu í fyrra tæp 22% af ríkisframlaginu, en lengd sýsluveganna í þessu héraði var rúm 11% af lengd sýsluveganna í landinu. Ef hins vegar ætti að láta lögin gilda óbreytt, með því að sjálfsögðu að nýja fasteignamatið yrði skattgrundvöllurinn, því að það verður það, þá mundi þetta misræmi aukast enn að miklum mun. Mér hefur virzt, að hv. 2. þm. Árn. hafi fullan skilning á því, að hér þurfi nokkru um að breyta.

Hitt er þó öllu þyngra á metunum, að önnur sýslufélög í landinu og það langsamlega flest þeirra fá ofurlítið bættan hlut með þessari lagabreytingu. Get ég nefnt sem dæmi, að eitt sýslufélag, sem er með 9% af sýsluvegunum í landinu, fékk 1948 aðeins um 4% af ríkisframlaginu. Hér virðist vera farinn mjög sanngjarn millivegur í þessu máli með því að samþykkja brtt. á þskj. 423, og þótt svo verði, þá eru þau sýslufélög, sem fengu drýgstan hlut af ríkisframlaginu áður, með drýgstan hlut enn. Að vísu lækka þau, en ekki tiltölulega mikið. Og hitt skeður auðvitað um leið, að önnur sýslufélög í landinu hækka við þetta.

Ég hef fengið töflu yfir það frá vegamálastjóra, hvernig ríkisframlagið mundi skiptast, ef þetta frv. yrði samþykkt með brtt., en þá þarf hann að vísu að geta í eyðurnar um það, hver muni verða sýsluframlögin, því að það veit hann ekki fyrir. Sú skýrsla ber það ótvírætt með sér, að hér verður mikilsverð leiðrétting gerð fyrir flest sýslufélögin í landinu, þau sem hafa átt erfiðast í þessum efnum. Það er að vísu ekki að öllu leyti gert á kostnað hinna, sem mest höfðu framlögin áður, heldur er fjárframlagið aukið, eins og ég sagði áðan, um hér um bil 21%, en það er líka gert á kostnað þeirra, en þau eru mjög fá, og það er ekki tilfinnanleg lækkun, sem þau ættu að verða fyrir.

Eins og ég drap á áðan, beitti ég mér fyrir því í gær, að þessu máli yrði frestað þá, svo að séð yrði til fulls, hvort fullt samkomulag yrði um málið, því að það greiðir fyrir framgangi málsins í síðari d., að svo geti orðið. Ég vil beina því til hæstv. forseta nú, hvort hann sjái sér ekki fært að setja nýjan fund hér í d. í dag að loknum þessum fundi og taka þetta mál á dagskrá til 3. umr. og freista þess, að afbrigði fáist samþykkt fyrir því. Það er í samræmi við það, að ég vil ekki hindra málið, vildi það ekki í gær og vil það ekki heldur í dag, heldur vil ég beita mér fyrir því, að því sé hraðað, af því að það er svo aðkallandi, að málið nái að komast í gegnum þingið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar að þessu sinni, en vænti þess fastlega, að hv. dm. sjái, að hér er nauðsynjamál á ferðinni annars vegar og að hins vegar hefur n. leitazt við að sætta alla aðila á lausn málsins.