14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

135. mál, ítala

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eftir að hafa lesið þetta frv. yfir, sýnist mér, að þarna sé ekki um neinar veigamiklar breytingar að ræða á gildandi lögum. Það er helzt þetta atriði, að það er gert ráð fyrir því hér, að bæjarfélög verði tekin hér inn í lögin, og getur vitanlega verið ástæða til þess að gera þá breytingu. Annars sýnist mér, að þarna sé um litlar breytingar að ræða.

Það eru hér þó örfá atriði, sem ég vildi minnast á.

Í 2. gr. frv. segir, „að ef hreppsnefnd berst krafa frá 1/4 búenda innan sveitarfélags eða afmarkaðs sveitarhluta um, að ítölumat verði framkvæmt á jörðum í sveitinni eða sveitarhlutanum eða á afréttarlöndum innan hreppsins, skuli boða til fundar um málið“. Hér stendur í frumvarpsgreininni „á afréttarlöndum innan hreppsins“, en í l. er talað um afréttarlönd hreppsins, og ég hefði haldið, að það væri ekki ástæða til að gera breytingu á þessu. Það er kunnugt, að mörg sveitarfélög eiga afréttarlönd eða ráða yfir afréttarlöndum, sem eru utan hreppsfélagsins, og mér sýnist, að það geti vel komið til álita, að það sé ástæða til að ákveða ítölu í þau lönd. Þess vegna vildi ég biðja hv. n. að athuga, hvort þetta „innan“ á ekki að falla þarna burt, að það verði bara rætt um afréttarlönd hreppsins, eins og er í l. En séu einhverjar sérstakar ástæður fyrir þessari breyt., þá þætti mér gott að fá að vita, hverjar þær eru.

Næst er það viðkomandi 4. gr. frv. Hún er, held ég, alveg samhljóða fyrri mgr. 4. gr. í l., eins og þau nú eru. En í l. er önnur mgr., sem hér hefur verið felld niður, og hún er um það, að sýslunefnd sé heimilt að ákveða ítölu í lönd hreppsfélags, þótt ekki hafi fengizt meirihlutasamþykki fyrir því á fundi í hreppsfélaginu, ef sýslunefndin telur það nauðsynlegt til verndar afréttarlöndum eða einstökum jörðum innan hreppsins eða í nágrannasveitum fyrir of miklum ágangi búpenings.

Það er þannig í l. nú og gert ráð fyrir, að svo verði enn, samkv. frv., að það séu sýslunefndir, sem geri samþykktir um ítölu. Og ég er í nokkrum vafa um, að það sé ástæða til að fella niður þessa heimild úr l., sem sýslunefnd hefur nú til að gera samþykkt um ítölu í lönd hreppsfélags, þó að ekki hafi fengizt meirihlutasamþykki fyrir því meðal ábúenda í hreppnum, ef sýslunefnd telur, að þess sé brýn þörf, eins og segir í gr. nú, til verndar afréttarlöndum eða einstökum jörðum innan hreppsins eða í nágrannasveitum fyrir of miklum ágangi búpenings. Ég vildi einnig biðja hv. n. að athuga þetta, hvort er ástæða til eða það er rétt að fella niður þessa heimild. Þetta er aðeins heimild fyrir sýslunefndir.

Þá er hér í þriðja lagi ákvæði í 8. gr., fyrri mgr. 8. gr. Þar er talað um skiptingu milli jarða í sveitarfélagi eða upprekstrarfélagi, þegar ítala hefur verið ákveðin, og segir þar m.a., að við þessa skiptingu, — en þar á að miða við eða gert ráð fyrir að verði miðað við landverð jarðanna, — og segir síðan: „Nota skal elzta fasteignamat, sem við verður komið, en jafnframt tekið tillit til þeirra breytinga, sem kunnugt er að orðið hafa á beitarþoli lands, eftir að fasteignamatið var gert.“ Mér er ekki ljóst, hvers vegna á að miða við elzta fasteignamat, sem finnanlegt er, við þessa skiptingu. Ég vildi biðja n. einnig að athuga þetta og vildi fá skýringar á því, ef talið er, að þetta eigi að vera svo.

Það er aðeins leiðrétting hér í 12. gr. frv. Þar er talað um, þegar ítala er gerð í lönd tveggja eða fleiri hreppa, og þá skiptist kostnaðurinn milli þeirra eftir meðaltalstölu fjallskilaskylds penings í hreppnum s.l. fimm ár. Þetta ætti að vera „hreppunum“, geri ég ráð fyrir. Það er aðeins, ef n. vildi athuga að leiðrétta það orðalag.

Í grg., sem frv. fylgir, segir um 2. gr., að þar sé sú ein efnisbreyting, að ábúendur einir, hvort sem leiguliðar eru eða bændur á eignarjörð, eru atkvæðisbærir um, hvort ítölumat skuli gert. En í gildandi lögum hafa jarðareigendur þennan rétt, þótt ekki séu bændur í hreppnum. Þarna er ekki rétt frá greint í grg., og lítur út fyrir, að þeir, sem sömdu frv. eða grg., hafi ekki veitt því eftirtekt, að það var gerð smábreyting á l. 1945 og þá var numin burt þessi aðild jarðareigenda að málinu, svo að þetta er ekki rétt. En það skiptir vitanlega ekki máli; þetta er aðeins í grg.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég hef komið auga á, sem ástæða væri til að gera hér athugasemdir við. Eins og frsm. gat um upphaflega, er í 6. gr. ákvæði um, að það skuli ekki aðeins ákveða tölu sauðfjár og hrossa, þegar metin er ítala í land og hvernig það skuli lagt í elningar, heldur skuli einnig kýr teknar með, sem mun ekki vera í l. núna, og ég sé, að það er gert ráð fyrir því, að tvær mjólkurkýr jafngildi einu hrossi eða geldneyti, sem er veturgamalt eða eldra. Þetta er e.t.v. miðað við ákveðinn stað á landi hér, þar sem eru geldneyti að sögn allmörg, sem er sennilega beitt að vetrinum, en annars hefði ég haldið, að yfirleitt væri ekki ástæða til að gera ráð fyrir því, að mjólkurkýr notuðu minna land en geldneyti, þar sem þeim er ekki beitt lengri tíma, en mjólkurkúm. En þetta er fráleitt mikilsvert atriði og ekki ástæða til að gera athugasemd út af því.