14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

135. mál, ítala

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af aths. hv. þm. V-Húnv. skal ég með ánægju verða við því að athuga nánar þau atriði, sem hann minntist á. En út af þriðja atriðinu, sem er að miða við elzta fasteignamatið, þá byggist það á því, að við þá tilraun, sem gerð var að koma á ítölumati núna s.l. sumar, þá sýndi það sig, að á sumum landlitlum jörðum höfðu verið gerðar svo miklar jarðabætur, t.d. svo mikil framræsla og aðrar slíkar aðgerðir, sem hafa hleypt fasteignamatinu svo gífurlega fram, að það er ekki lengur í neinu samræmi við það beitiland, sem jörðin hefur. Þeir, sem við ítölumatið fengust, töldu, að hlutfallinu væri svo raskað með þessu nýja fasteignamati, að það yrði ekki hægt að leggja það til grundvallar, þegar ætti að fara að meta, hvaða rétt jörð ætti til ítölu búpenings í beitiland. Aftur á móti mundi matið, sem löggilt er 1861, vera miklu nær hæfi, ef bætt væri við því, sem hér er gert ráð fyrir, og þess vegna var það, að bæði þeir, sem sömdu frv., og líka sú nefnd í búnaðarþingi, sem athugaði þetta sérstaklega, töldu, að eins og málið horfði við, væri tæplega gerlegt að leggja annað mat til grundvallar. Og landbn. Nd. taldi, að eftir atvikum yrði sennilega við þetta að sitja vegna þessarar röskunar, sem ég gat um áðan.

Að öðru leyti skal ég fúslega verða við því, að við athugum þetta nánar, og ég vil lýsa því yfir, a.m.k. fyrir minn part, að ég er mjög þakklátur fyrir, ef einhverjir dm. rækju augun í eitthvað, sem mætti betur fara, því að þessi löggjöf er talsvert mikið vandamál, ef hún á að koma að fullum notum.