20.01.1959
Neðri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

83. mál, húsnæði fyrir félagsstarfssemi

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Forstöðumenn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og forstöðumenn nokkurra annarra stéttarfélaga í Reykjavík hafa farið þess á leit við hv. þm. Snæf. og mig, að við flyttum þetta frv. Efni frv. er það, að styrktarsjóðum Farmanna- og fiskimannasambandsins, Vélstjórafélags Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar, Mótorvélstjórafélags Íslands, Félags íslenzkra loftskeytamanna, Skipstjórafélags Íslands, Stýrimannafélags Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis, Reykjavík, Félags bryta, Kvenfélagsins Keðjunnar og Kvenfélagsins Hrannar verði heimilað að taka húseignina Bárugötu 11 í Reykjavík til afnota fyrir félagsstarfsemi sína. Þannig stendur á, að þessi félagasamtök hafa húsnæði, mörg þeirra, svo og sjómannablaðið Víkingur, víðs vegar um bæinn, en telja það vera sér óhagstætt og að ýmsu leyti ófullnægjandi, einkanlega vegna þess, að mörg þessara félagasamtaka hafa sameiginlega launaða starfskrafta og kemur því miklu betur, að félagsstarfsemi þeirra geti farið fram undir sama þaki. Nú eiga þessi félagasamtök kost á að kaupa íbúðarhúsið Bárugötu 11 í Reykjavík, sem er einbýlishús, sem Kornelíus heitinn Sigmundsson byggingameistari átti, og auk þess hyggjast þau nota kjallarahæð hússins fyrir húsvarðaríbúð og innrétta efstu hæð hússins, sem fram til þessa hefur verið óinnréttuð, en hafa síðan aðalstarfsemi sína á tveimur efri hæðum hússins. Þarna er því um að ræða, að húsnæði, sem þessi félög hafa notað víðs vegar um bæinn, losnar, en til þessara nota fyrir þessi mörgu stéttarfélög er tekin ein íbúð, eitt íbúðarhús, sem var byggt upphaflega sem einbýlishús. Ein fjölskylduíbúð verður þó í húsinu, sem sé íbúð húsvarðar.

Við teljum, fim., að þó að vissulega verði að gæta varúðar um það að taka íbúðarhúsnæði hér í Reykjavík til annarra nota, meðan skortur er á íbúðarhúsnæði, þá sé þó hér svo brýn nauðsyn fyrir hendi, að því er snertir þessi félög, að það beri að líta á þessa nauðsyn og veita þeim heimild til að búa um sig fyrir starf þessara félaga í nefndu húsi og heimila þeim þannig notarétt af því til annars en íbúðar, að öðru leyti en því, sem ég hef þegar sagt um íbúð húsvarðar, sem þarna verður. Þetta hús þykir samtökunum líka hentugt sér vegna þess, að það liggur nærri höfninni, en Farmanna- og fiskimannasambandið og félög, sem í því eru, eiga daglegt samstarf við skip og höfn, og að því leyti hentar húsnæðið þeim einnig vel.

Til þess má vitna, að Alþ. hefur áður í tveimur tilfellum veitt sams konar frávik frá gildandi lögum, og átti Vinnuveitendasamband Íslands hlut að máli í öðru tilfellinu og styrktarsjóðir Múrarafélags Reykjavíkur og Félags íslenzkra rafvirkja hlut að máli í hinu tilfellinu, og er hér mjög svipað ástatt, að fjölmenn og víðtæk félagasamtök fara fram á það að fá afnotarétt af húsum, sem byggð voru til íbúðarhúsnæðis, til sinnar starfsemi. Ég hygg, að flestir fallist á, að hér sé nokkuð rík nauðsyn að baki þessu frv. og svipað ástatt og í hinum tveimur tilfellunum, sem ég nefndi.

Ég legg til, að málinu verði að lokinni umr. visað til hv. heilbr.- og félmn.