20.01.1959
Neðri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

83. mál, húsnæði fyrir félagsstarfssemi

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv., að sá háttur, sem hér er á hafður og hefur í einstökum tilfellum áður verið á hafður, er mjög óviðkunnanlegur, að það þurfi að leita til Alþingis um sérstaka löggjöf í hverju tilfelli, ef húsnæði, sem áður hefur verið notað til íbúðar, á að notast til annarra þarfa, og þá oftast nær og í öllum tilfellum, sem við höfum dæmi um, hefur hér verið um ákveðin félagasamtök að ræða og væntanlega afnot þeirra af eigin húsnæði.

Það er ekki sama, hvernig Alþ. hagar störfum sínum og hvernig með löggjafarvaldið er farið, og ég held, að með engu móti verði réttlættur þessi háttur, ef menn athuga það nánar. Það eru sett um það lög árið 1956, bráðabirgðalög um haustið, sem svo eru staðfest aftur, eins og venja er til, á þinginu, um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum. Og það er tekið fram í þessum lögum, að íbúðarhúsnæði, sem nánar er skilgreint í ., gr. l., megi aðeins nota til íbúðar. Í þessum lögum er svo viss undanþáguheimild í 3. gr., þar sem segir, að félmrh. sé heimilt að undanþiggja kaupstaði ákvæði laga þessara, ef fyrir liggur ósk hlutaðeigandi bæjarstjórnar um það og ekki er þar um að ræða skort á íbúðarhúsnæði. Þessi undanþáguheimild, sem hérna er, er næsta óeðlileg, að það sé í fyrsta lagi komið undir ósk hlutaðeigandi bæjarstjórnar, hvort félmrh. sé heimilt að veita undanþágur, og þá aðeins, ef ekki er um að ræða skort á íbúðarhúsnæði í viðkomandi kaupstöðum.

Í sjálfu sér má sjálfsagt oft um það deila, hvort skortur sé á íbúðarhúsnæði eða ekki. En ég fullyrði, að það hafi verið gert allt of mikið úr því hjá hv. síðasta ræðumanni, 7. þm. Reykv., að þessi löggjöf hafi haft einhver veruleg áhrif til þess, að íbúðarhúsnæði væri ekki misnotað, eins og hann vildi vera láta. Ég tók svo eftir, að hann talaði um, að íbúðir í hundraðatali hefðu þannig verið misnotaðar, og ég hygg, að það fái ekki staðizt, þegar það mál er nánar athugað. Og dæmin, sem við höfum nú fyrir okkur um undanþágurnar, eru sárafáar, tvær áður og þetta er víst sú þriðja, að ég hygg. Það kann hins vegar að vera, að það séu fleiri félagasamtök, sem vildu hafa notað sér að fá undanþágur, ef það væri auðveldara, en raun ber vitni. En sannleikurinn er sá, að það er ekkert refsivert við það, ef þessi félög hafa eignazt þetta húsnæði, að láta það standa ónotað. Það er bara, ef það er notað til þeirra félagsstarfsemi, að þá er þetta orðið refsivert og sektarákvæði stórkostleg fyrir notkunina. Og í ýmsum tilfellum er það svo, að þó að skortur sé á íbúðarhúsnæði, þá er kannske húsnæði, sem hægt er að nota til íbúðar, ekki fullnýtt, þó að það sé hins vegar ekki notað til ýmiss konar annarra þarfa og félagsstarfa, eins og hér er um að ræða.

Ég er því mjög sammála því, sem fram hefur komið, að það er bæði óeðlilegt efnislega séð og einnig formlega að hafa lög frá 1957, 18. febr.1957, um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum, þar sem beinlínis er bannað að nota þau nema til íbúðar, en svo fáum við einstakar lagasetningar, — nú held ég þá þriðju í röðinni, — þar sem vissar heimildir eru leyfðar fyrir félagasamtök til þess að nota eigið húsnæði, sem þau ætla að festa kaup á og áður hefur verið notað til íbúðar, til sinnar félagsstarfsemi. Í sjálfu sér væri þá hitt sýnu nær, að löggjöfinni um þetta fortakslausa bann gegn annarri notkun íbúðarhúsnæðis frá 1957 og upphaflega 1956 í bráðabirgðalögunum hefði verið breytt og felldar inn þessar heimildir í breytingar á löggjöfinni. En aðalatriðið held ég sé það að taka þetta mál til nýrrar meðferðar. Ég segi alveg eins og hv. 2. þm. Reykv.: ég hef ekkert að athuga við það, að þetta mál nái nú fram að ganga, og það er þannig, eftir því sem mér hefur verið tjáð, í pottinn búið, að það getur skipt nokkru máli fyrir þessi félagasamtök að fá málið fljótt afgreitt, og sjálfsagt yrði nokkru umfangsmeira að taka upp annan hátt í þessu máli. Mér finnst það geti bæði komið til greina, eins og vikið hefur verið að, að það séu almennar undanþáguheimildir fyrir framkvæmdavaldið í landinu, framkvæmdastjórnina, að ráðherrann, sem fer með félagsmál, veiti þessa undanþágu eða þá húsnæðismálastjórnin, sem eftir l. um íbúðarhúsnæði hefur með höndum yfirstjórn húsnæðismálanna í landinu, eins og þar er ákveðið.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð nú, en ég vildi ekki láta hjá líða að taka undir þá skoðun, sem hér hefur komið fram, að þetta mundi ekki verða síðasta undanþágubeiðni í þessu efni og það væri æskilegra og hentaði betur, að þetta mál yrði tekið til almennrar athugunar og komið í annað form en nú er.