02.02.1959
Efri deild: 62. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

92. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. nr. 29 frá 23. apríl 1946, um hafnargerðir og lendingarbætur, er flutt hér samkvæmt tilmælum bæjarstj. Vestmannaeyja.

Eins og kunnugt er, hefur síðustu áratugina mjög verið unnið að því að bæta hafnarskilyrði við Vestmannaeyjar og til þess verið varið miklu af opinberu fé, almannafé, fyrir utan það, sem Vestmanneyingar hafa sjálfir á sig lagt í því efni. Árangurinn af þessu áratuga starfi er orðinn mjög góður að mínu áliti og flestra, er til þekkja. Það hefur fallið í minn hlut að vera málsvari eyjanna í þessu máli, frá því að ég kom fyrst á þing, árið 1924, og var þó málinu af stað hrundið áður á hv. Alþingi af fyrirrennara mínum í því þingsæti, í þingmannssæti Vestmannaeyja.

Minnist ég þess með þakklæti, hversu hið háa Alþingi hefur jafnan drengilega stutt að þeim framkvæmdum, sem þarna hafa verið hafðar með höndum, enda var nauðsynin mikil, og ég held, að árangurinn sé orðinn mjög góður nú. Höfnin er komin í það horf, að hin stærstu skip, sem hér annast fólks- og vöruflutninga, hafa þar greiðan aðgang að í öllu sæmilegu veðri, og fiskiskipafloti eyjanna sjálfra er traustlega og vel geymdur innan hafnarkvíanna, svo að óvíða mun það betur vera. Og ekki aðeins kemur þetta að gagni fyrir báta Vestmannaeyja sjálfra, heldur er nú orðið svo á ári hverju, að fleiri og fleiri skip frá héruðum víðs vegar af landi hér leita til Vestmannaeyja um aflatímann og athafna sig þar með góðum árangri. Kemur því þessi hafnargerð að víssu leyti alþjóð að notum á þann hátt líka.

Eins og kunnugt er, eru í þeim lögum, sem hér er farið fram á breytingar á, talin upp í 1. málsgr. 1. gr. laganna þau mannvirki, sem má hafa með höndum við byggingu hafna og við lendingarbætur, og teljast náttúrlega til þeirra hafnargarðar og bryggjur, dýpkanir, uppfyllingar, dráttarbrautir, þurrkvíar o.fl., svo sem kranar og innsiglingarmerki, sem er allt mjög nauðsynlegt, að sé vel fyrir hendi á slíkum stöðum. Þá er það ekki síður nauðsynlegt, að hafnsaga sé góð og að þeir, sem hafa hana með hendi, hafi ráð á góðum farkostum til að annast starfa sinn. Er þetta ekki hvað sízt orðið mjög aðkallandi í Vestmannaeyjum, jafnmikill fjöldi skipa sem þangað sækir, sem kemur beint af hafi og verður að taka lóðs oft og tíðum fyrir opnu hafi.

Nú hefur bæjarstjórn hug á því að bæta farkost hafnsögumanna og vill hafa leyfi til að verja nokkru af því fé, sem til hafnargerðarinnar sjálfrar er veitt, í þessu skyni, eins og það er heimilt nú samkvæmt lögunum að nota þetta fé til uppfyllingar, dráttarbrauta, þurrkvía og lendingarmerkja, innsiglingarmerkja o.s.frv. En í þeirri upptalningu, sem í 1. gr. laganna er, er hvergi minnzt á hafnsögumannsbáta. Fyrir því hef ég eftir beiðni bæjarstjórnar flutt þetta frv. um, að í þessa upptalningu um aðgerðir, sem miða að því að koma hafnarframkvæmdum fyrir á forsvaranlegan hátt, megi líka taka hafnarbáta eða kostnað við að koma þeim upp, og fyrir því er þetta frv. flutt.

Það er óþarfi fyrir mig að hafa mörg orð um nauðsyn þessa máls. Hún liggur í augum uppi, jafnvel þótt menn séu ekki á staðnum, aukin heldur fyrir þá, sem þessa höfn sækja á stórskipum, sem þurfa að taka hafnsögumann utan hafnar, og tel ég víst, að hv. alþm. muni sjá eins og ég fram á þá nauðsyn, sem vakir fyrir bæjarstj. kaupstaðarins í þessu efni.

Vil ég mælast til þess að, að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til frekari athugunar og væntanlega til samþykkis.