13.05.1959
Neðri deild: 127. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

92. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 204, er komið frá hv. Ed, og hefur hlotið þar samþykki. Við þetta frv. var á milli umr. borin fram brtt. á þskj. 334, varðandi hækkun á þeim hluta stofnkostnaðar, sem helmingur ríkisframlags er greiddur út á.

Þá er þess að geta, að í deildinni hefur komið fram frv. á þskj. 323, sem er eins og frv. á þskj. 204 um breyt. á lögum um hafnargerðir og lendingarbætur, en fjallar um önnur atriðl. Og legið hefur fyrir brtt. við það frv., sem ég ætla að hafi verið á þskj. 440.

Sjútvn. hefur sent bæði þessi frv. til umsagnar vitamálastjóra og enn fremur þær brtt., sem fram hafa komið við þau. Vitamálastjóri hafði að vísu látið sjútvn. Ed. í té umsögn um frv. á þskj. 204, og hefur sjútvn. þessarar hv. d. fengið afrit af þeirri umsögn.

Umsagnir vitamálastjóra eru prentaðar í nál. á þskj. 524, en niðurstaða þeirra er sú, að vitamálastjóri mælir með samþykkt frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 204, og samþykkt brtt., sem fyrir hefur legið á þskj. 334. Hins vegar hefur vitamálastjóri mælt gegn þeim breyt., sem felast í frv. á þskj. 323, og sömuleiðis lýst sig mótfallinn brtt. á þskj. 440.

N. hefur rætt þetta mál á nokkrum fundum. Þar hefur það verið upplýst, m.a. frá vitamálastjóra, að lögin um hafnargerðir og lendingarbætur eru í endurskoðun milli þinga, samkvæmt ráðstöfun síðasta Alþingis og þeirri endurskoðun er ekki lokið, en gera má ráð fyrir, að henni verði lokið, áður en langt líður. Þetta er m.a. ástæðan til þess, að vitamálastjóri hefur mælt gegn sumum þeim till., sem hér liggja fyrir. Það gildir a.m.k. um hina till., að hann vill láta þetta bíða eftir því, að endurskoðuninni ljúki. Hins vegar hefur hann, eins og ég sagði, mælt með frv., sem kom frá Ed., með einni brtt. Þessa brtt. telur hann vera aðeins leiðréttingu í sambandi við breyt. á verðlagi á síðustu þrettán árum og eftir atvikum eðlilegt að mæla með frv. frá Ed., en það frv. er um það, að kostnaður við hafnsögubáta skuli teljast til stofnkostnaðar.

Þegar sjútvn. kom saman til fundar til þess að afgreiða þetta mál, voru ekki nema þrír nm. mættir. Þessir þrír nm. ákváðu þó eigi að síður að afgreiða málið, enda þótt e.t.v. megi telja vafasamt, að það geti gengið fram svo siðla þings. Þessir þrír nm. ákváðu að afgreiða málið, og er till. um afgreiðslu þess í nál. á þskj. 524.

Það er till. meiri hl. n., að samþykkt verði frv. á þskj. 204, að viðbættri brtt. þeirri, sem ég nefndi áðan á þskj. 334, og hefur n. tekið þá brtt. inn í till. sína á þskj. 524. Það er þessi afgreiðsla, sem vitamálastjóri hefur mælt með. Hins vegar er nefndin, eða a.m.k. meiri hluti hennar, sem þátt tók í afgreiðslu, á móti því, að aðrar breytingar verði gerðar á frv. en þessar, sem vitamálastjóri mælir með, og það er með sérstöku tilliti til þeirrar endurskoðunar á hafnarlögunum, sem stendur yfir. Ef fleiri breytingar verða samþykktar, mun nefndin eða meiri hl. hennar ekki telja sér fært að mæla með frv., því að hún telur óeðlilegt, að gerðar séu miklar breytingar á hafnarlögunum, þegar svo stendur á, að endurskoðun stendur yfir og skammt undan að henni ljúki.

Meðmæli nefndarinnar eru sem sagt með þeim fyrirvara, að ekki verði aðrar brtt. samþykktar en þessar, sem vitamálastjóri hefur mælt með og fram koma í frv. sjálfu og í nál. Þó lét einn nm. þess getið, að hann staði ekki að þessum fyrirvara á meðmælunum og mundi bera fram brtt. Það hefur hann gert. Hann hefur borið þær fram á þskj. 523, og þessar brtt. eru að efni til samhljóða frv. á þskj. 323 og brtt. á þskj. 440.

Niðurstaðan er þá þessi hjá nefndinni eða meiri hl., sem þátt tók í afgreiðslu, að með tilliti til þess, að endurskoðun hafnarlaganna stendur yfir, sé rétt að gera sem minnstar breytingar á lögunum, meðan sú endurskoðun stendur yfir. Nm. geta þó eftir atvikum mælt með því, byggt á meðmælum vitamálastjórans, að frv. sé samþykkt með þessari brtt., sem vitamálastjórinn hefur mælt með.