13.05.1959
Neðri deild: 127. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

92. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið í ræðu hv. frsm. sjútvn., þm. N-Þ., voru allir þeir nm., sem viðstaddir voru á þeim fundi sjútvn., þar sem afgreiðsla þessa máls fór fram, meðmæltir því, að frv. yrði samþykkt og einnig yrði þar við bætt einni brtt., sem fram hafði komið við það frv. Hún er um það, að ríkið greiði framvegis helming af kostnaði við þær hafnarframkvæmdir, sem áaalað er að nema muni allt að 1 millj. og 600 þús. kr., í staðinn fyrir að sú regla gilti einungis að því hámarki, að ríkið greiðir, svo sem nú standa lög til, helming þeirra hafnarmannvirkja, sem áætlaður kostnaður við er ekki yfir 800 þús. kr.

Nefndin er öll sammála um það, með tilliti til þess, að þetta hámarksákvæði er frá árinu 1946 og vitamálastjóri hefur bent á og ekki verið vefengt, að slíkar framkvæmdir, sem þá var um að ræða og áætlaðar mundu þá hafa verið á 800 þús. kr., muni vart verða framkvæmdar nú fyrir minna, en tvöfalt það verð.

Tveir þeirra nm., sem að afgreiðslunni stóðu, töldu, að ekki bæri að taka aðrar breytingar inn í þetta frv. en hér um ræðir. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, eins og fram kemur í sérstakri bókun frá mér í nál., að vert sé einnig að gera á frv. þær breytingar, sem felast í frv. til laga um sama efni á þskj. 323 og á brtt. við það á þskj. 440.

Þessar breytingar eru í fyrsta lagi, að þar sem segir í lögunum, að framlagsskyldar af ríkisins hálfu sem hafnarmannvirki skuli vera verbúðir í viðleguhöfnum, þá er nú lagt til, að hér verði um að ræða allar verbúðir, sem reistar kunna að verða með samþykki hafnarmálastjórnarinnar á vegum viðkomandi hafna. Mér er kunnugt um, að það er ekki vandalaust fyrir yfirvöld hafnarmálanna að greina þar á milli, hvar á að telja viðleguhafnir og hvar ekki, enda getur hver maður séð, að það fer engin hafnarstjórn að leggja út í það að byggja verbúðir bara fyrir heimafólk. Það væri óskynsamlegt frá fjárhagssjónarmiði viðkomandi sveitarstjórnar, bæjarstjórnar eða hreppsnefndar, og þar af leiðandi tel ég, að sjálfsagt sé að gera þetta ákvæði almennt.

Enn fremur er í því frv. lagt til, að viðkomandi hafnarnefndum eða hafnarstjórnum sé leyft að leggja vörugjald á þær vörur, sem um hafnir fara, einnig í þeim tilfellum, að viðkomandi hreppsfélag hefur ekki sjálft lokið bryggjugerð, en svo er því háttað, að það er ekki heimilt samkvæmt lögum nú. Hins vegar virðist það engu breyta um verðlag á vörum, því að vörurnar eru yfirleitt seldar á sama verði á þeim stöðum, þar sem slíkt hafnargjald er ekki tekið, og rennur þess vegna til annarra aðila. Nú stendur einmitt svo á, máske á fleiri stöðum en einum, að viðkomandi hreppsnefnd ráðgerir að hefja bryggjusmíði og þarf mjög á tekjum til þess að halda, og verður að teljast, að breyting, sem færi í þessa átt, væri viðkomandi byggðarlagi farsælli, en að halda óbreyttum háttum þeim, sem nú eru.

Enn fremur tel ég eðlilegt, að tekið sé inn í frv. og gert að lögum það ákvæði, sem felst í brtt. á þskj. 440. Hún er um það, að auk annarra hafnarmannvirkja, sem þá hafa verið talin, verði sjómannastofur einnig framlagsskyldar af ríkisins hálfu sem hafnarmannvirki. Um þær gegnir í rauninni alveg sama máli og um verbúðir, að það er engin hætta á því, að hafnarnefndir eða hafnarstjórnir héraðanna fari að koma upp slíkum byggingum, nema því aðeins að brýn þörf sé fyrir þær. Með því að viðurkenna sem framlagsskylt eins og önnur mannvirki tilheyrandi hafnargerðum t.d. dráttarbrautir og krana er í rauninni viðurkennt, að teljast eigi til hafnargerða flestir þeir hlutir eða allir, sem til þess mega verða að hlynna að og þjóna skipaflotanum, þannig að hann geti fengið sínar viðgerðir, hann geti fengið sínar afgreiðslur, eins og eðlilegt má teljast. Á sama hátt hefur þetta ákvæði verið látið ná til fólksins, sem við hafnir vinnur, með því að viðurkenna verbúðir sem framlagsskyldar á sama hátt og hafnargerðirnar sjálfar. Hluti af því hlutverki er að sjálfsögðu það, að sjómannastofur geti undir þetta fallið, því að eðlilegur samkomusalur með þar til heyrandi lesstofum og möguleikum til veitinga, eðlilegrar veitingastarfsemi, er auðvitað alveg sama eðlis og verbúðirnar sjálfar. Hvort tveggja þjónar því hlutverki að hlynna að því fólki, sem við hafnirnar vinnur og ekki á heimili á þeim stað, sem um er að reeða.

Ég tel þess vegna sjálfsagt, að öll þessi atriði séu tekin inn í hafnarlög, og hef ég ekki getað á það fallizt, sem aðrir nefndarmenn, þeir sem í afgreiðslunni tóku þátt, hafa þó viljað halda fram, að endurskoðun hafnarlaganna eigi endilega að koma í veg fyrir slík ákvæði og þar eigi að leggja til hliðar það mat, hvort um sé að ræða eðlilegar, sanngjarnar og réttlátar breytingar, eða hitt, hvort það elgi bara að bíða. Ég sé ekki, að þetta séu neitt stórkostlegri breytingar á hafnarlögunum, sem hér hafa verið lagðar til, heldur en hinar, sem nefndin í heild eða sá hluti hennar, sem var viðstaddur afgreiðsluna, mælir með, og ég get ekki heldur fallizt á það þrátt fyrir það, sem rétt er og fram kom í ræðu hv. frsm., að vitamálastjóri hefur mælt með þeim einum breytingum á hafnarlögunum, sem nefndin í heild leggur til að samþykktar verði, en gegn hinum. Ég get ekki fallizt á, að það eigi að vera hlutverk eins ákveðins embættismanns, en ekki Alþingis sjálfs, að úrskurða um það, hvað eðlilegt og sanngjarnt er í þessum efnum. Það brýtur í rauninni alveg í bága við eðli slíks embættis, að svo sé farið að, því að það er Alþingi, sem á að ákveða, hvað gera skal í þessum efnum, en viðkomandi embættismaður á að sjá um framkvæmd á því.

Ég læt svo útrætt um þetta. Með tilliti til þess, að hér er mjög liðið á tíma og Alþingi hefur mjög nauman tíma til að afgreiða málið, þá mun ég ekki orðlengja frekar um þetta, en tel, að það eigi að samþykkja allar þær breytingar á hafnarlögum, sem hér hafa verið fluttar tillögur um, því að þær eru eðlilegar og sanngjarnar.