06.11.1958
Neðri deild: 16. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1368)

9. mál, biskupskosning

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Mig hefur undrað það frá upphafl, af hve miklu kappi þetta mál hefur verið sótt. Heyri ég það bezt nú á þeim röksemdum, sem 1. flm. frv. hefur hér um hönd. Hann byrjaði á því að tala um meðmæli þeirra, sem hafði verið leitað álits hjá um þetta frv., og beindi þá fyrst til kirkjuþings, hvað kirkjuþing hefði sagt um þetta mál, og segir, að það hafi samþykkt það einum rómi. Ég veit nú ekki, hvað hann á við með því. Það er víst ekki átt við það, að það séu þá allir, en vitað er, að það voru æðimargir, sem sátu þar hjá, og alls ekki allt kirkjuþing, sem mælti með því.

Hins vegar ætla ég að gera það honum til þægðar og þeim, sem að þessum málum standa og koma við það, að fara ekki að rekja, hvernig ummælum og undirskriftum hefur verið safnað. En á það hefur verið lagt ekki svo lítið kapp. Ef ég rekti þá sögu alla, sem mér er mjög vel kunnugt um, þá held ég, að það sé engum til skemmtunar og ekki flutningsmönnum heldur.

Það er alveg rétt hjá honum, að ég skrifaði ekki undir þetta, þrátt fyrir það þótt það væru sendir til mín þrívegis menn til að telja mig á að skrifa undir það, vegna þess að ég taldi það kirkjunni ekki heppilegt, þrátt fyrir það að ég hafi mestu mætur á núv. biskupi og störfum hans og tel mig vin hans. Ég tel þetta tvennt algerlega óskyld mál. Og við gætum verið algerlega ósamþykkir þar, þó að við séum vinir og höfum álit hvor á öðrum á sinn hátt.

Þess vegna fráskil ég það alveg, að það sé nokkur ádeila á hann, síður en svo, heldur eingöngu út frá því sjónarmiði, sem ég álít, að hljóti að gilda um kirkjuna, að ef það er betra fyrir aðrar stofnanir í landinu, hversu lítilmótlegar sem eru, að það séu þar að starfi tiltölulega ungir menn og ekki fram yfir 70 ára aldur, þá hlýtur það að vera í þessu vandasama og erfiða starfi, sem það óneitanlega er, hvernig sem annars er reynt að vinda sér frá því. Og þetta sjónarmið álít ég að okkur sé skylt að hafa. En hvað röksemdafærslurnar eru hæpnar, sem fram eru bornar, það sýnir ljósast, hvers eðlis þetta mál er. Það er meira að segja gripið til þess að hafa tölur ekki réttar, eins og að það hafi verið 9 af hverjum 10, sem hafi skrifað undir. Það er ekki rétt. Hvers vegna ekki að hafa það alveg rétt, þar sem tölur liggja fyrir? Það munu vera á milli 90 og 100, ég held 98, sem hafa skrifað undir, og þó er a.m.k. einn og líklega tveir, sem ekki hafa atkvæðisrétt. Atkv. greiða núna í prófkjörinu 116, svo að það eru um 20, sem ekki hafa skrifað undir, og mér skilst, að það séu ekki níu af hverjum tíu, sem hafi skrifað undir. Þetta er óþarfi fyrir þá, sem telja sig flytja gott og öruggt mál, að vera að dylja sem allra mest og grípa til ósanninda að lokum, hvað fyrir liggi í málunum. (Gripið fram í.) Nei, nei, ég bara tek þetta sem dæmi. Ég skal taka fleiri dæmi, t.d. eins og ég sagði áður, að kirkjuþing hefði einum rómi gert þetta, það er ekki heldur rétt. Það voru margir þar, sem sátu hjá. Ég skal taka fleira. Að prestarnir hafi álitið, að l. giltu og þetta væri almennt, alveg eins og í hliðstæðum málum um kosningar presta, það er heldur ekki rétt, því að prestarnir láta fara fram undir yfirstjórn núv. biskups prófkjör, þegar Jón Helgason er orðinn sjötugur, og skilja þeir þá vitanlega, að það gilda ekki sömu lögin um þetta. Þá fóru engar áskoranir fram. Og hvers vegna hefði Jón Helgason ekki átt að vita um það, ef hann gæti fengið að sitja til 75 ára aldurs, ef hann persónulega óskaði eftir eða ef prestarnir gengjust fyrir því? Þetta ber allt að einum brunni. Prestunum var þetta vel ljóst alltaf. Þeir, sem ekki skrifuðu undir, sögðu hinum frá því, að þetta mundi ekki vera hægt samkvæmt lögum. En einþykknin er bara svo mikil um að sækja þetta mál svo fast, sem mér er algerlega óskiljanlegt, bókstaflega óskiljanlegt.

Það væri hægt að taka fleira til. Að vera að líkja saman í málflutningi almennum kosningum eins og forseta Íslands, sem öll þjóðin kýs, eða hv. alþm., sem eru kosnir af öllum kjósendum í sínu kjördæmi, — að vera að líkja því saman við það, að þar geta 60 menn af 90 eða svo, — en ætli það hafi ekki atkvæðisrétt í landinu í íslenzku þjóðkirkjunni svona 120 þúsundir, 97% af allri þjóðinni, og það er talið, að atkvæðisbærir í kirkjumálum séu þeir, sem gjalda orðið til kirkju, sem er við 16 ára aldur, — og að segja, að við, rúmir 60 menn, sem getum kosið biskup, að það sé almenn kosning og þetta sé hliðstætt hinu, þetta eru slíkar rangfærslur, að það er ómögulegt, að nokkur heilvita maður geti látið sér þetta um munn fara, án þess að það sé eitthvað, sem honum finnist hann hafa litið af rökum almennt fyrir. Sannleikurinn er sá. Það er eitthvað fátæklegt af rökunum, og ég vil segja það, að það er sannarlega ekki af vinskap við kirkjuna verið að reyna að koma því inn hjá fólkinu meir og meir, að við prestarnir séum kirkjan. Ég vil segja það, að það sé eitt hið óþarfasta, sem gert er fyrir íslenzka kristni og íslenzka kirkju hér á landi. Við erum aðeins þjónar kirkjunnar, hver á sínum stað, og starfsmenn hennar, en við erum ekki kirkjan og eigum ekki að ráðast á kirkjuna. Og sannarlega voru það mistök hjá okkur, er við settum kirkjuþing og það var skipað hér, að það voru ekki fleiri leikmenn settir inn til að starfa í kirkjuþingi, og sýnir það jafnvel starfsemi þess fyrsta árið. Það hefði verið þörf á því, að það hefði verið fleira af leikmönnum, sem hefðu þar komið frá kirkjunnar hendi.

Þá er það, að prestastéttin hafi sagt hug sinn um þetta mál, með því að sumir skrifa undir og biðja um, að biskup sé látinn starfa „enn um sinn“. Hvers konar rök eru þetta? Það hafa margir, sem skrifuðu undir, komið til mín og sagt mér hug sinn síðan og sagt, að þeim hafi aldrei dottið í hug, að það leiddi til þessa fargans. Þetta er vitanlegt, að svona er um þjóðina alla. — Nei, þegar um gott mál er að ræða, þarf ekki að grípa til slíkra ráða sem hér er um að ræða og hér hafa komið fram.

Það má vel vera, að einhverjum finnist það og einhverjir greiði atkvæði þá út frá öðrum röksemdafærslum, en hvað kirkjunni sé hollast upp á framtíðina, það skal ég ekkert um segja. En frá mínu sjónarmiði, með eingöngu hagsmuni kirkjunnar fyrir augum og sæmd Alþingis um afgreiðslu þessa máls, mun ég eindregið fylgja dagskránni og vildi óska, að það gerðu sem flestir að losa okkur þannig við þetta mál. að við ættum ekki að hafa það lengur yfir höfði okkar. Og ég er sannfærður um það, að kristin kirkja í landinu sættir sig mjög vel við það, að biskup hennar sæti sömu lögum og aðrir embættismenn, Og hún óttast ekki um sig þannig í starfi, að það verði ekki enn þá heill með henni um að velja sér nýjan biskup, þó að annar fari frá, sem hefur verið óneitanlega nýtur maður og góður. Það kemur maður manns í stað, eins og þar segir, og mun svo jafnan halda áfram að verða, hvar sem við setjum aldurstakmarkið. Og einhvern tíma verðum við að velja á ný. Það hefur heill og gifta fylgt kirkjunni yfirleitt hingað til um að velja sér yfirmann, og það mun gera það áfram, ef ekkí er farið að blanda í það óviðkomandi sjónarmiðum.