07.11.1958
Neðri deild: 17. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1371)

9. mál, biskupskosning

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það, sem ég nú vildi segja, varðar aðeins meðferð málsins, og vænti ég, að hæstv. forseti taki það ekki til frádráttar ræðutíma mínum við þessar umr., ef einhverjar skyldu verða umræður að þessu sinni.

Það, sem ég vildi minnast á nú, er það, að ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr., taki málið út af dagskrá að þessu sinni. Ástæðan til þess, að ég ber fram þessa ósk, er sú, að ég hef í athugun að flytja brtt. við frv., eins og það nú liggur fyrir. Við 2. umr. var felld rökst. dagskrá, sem ég þá hafði flutt sem minni hl. þeirrar n., sem um málið hafði fjallað. Þá var ekki tilefni til þess fyrir mig að flytja brtt. Ég vil leyfa mér að benda á það, að þeir nm., sem skipa meiri hl. allshn. í þessu máli, hafa allir áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja þeim, er fram koma. Og einn nm. í meiri hl. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara. Það eru því allmiklar líkur til þess, að hv. nm. vilji taka til athugunar að gera breyt. á frv., og frá hv. frsm. meiri hl. kom fram við 2. umr., að hann teldi vel koma til mála að gera breyt. á einhverjum atriðum. Nú er það svo, að þær brtt., sem mér hefur komið í hug að flytja, a.m.k. ein slík till., er þess eðlis, að það þarf að fara fram í sambandi við hana nokkur lögfræðileg athugun, sem ég hef ekki getað komið við að láta fara fram í dag, en þarf hins vegar ekki að taka langan tíma. Með tilliti til þessa vildi ég leyfa mér að fara þess á leit við hæstv, forseta, að málið verði tekið út af dagskrá að þessu sinni og umr. frestað.