07.11.1958
Neðri deild: 17. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1373)

9. mál, biskupskosning

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, vil ég taka það fram, að mér var þetta ljóst, sem hann sagði, að tveir eða þrír hv. dm. munu verða fjarverandi nú um nokkra daga. Mér finnst sjálfsagt, að tillit sé tekið til þess og að málið verði ekki tekið til atkvgr. fyrr, en þeir koma heim aftur, ef ske kynni, að það hefði áhrif á úrslit máls. Finnst mér mjög sanngjarnt að óska þess.

En í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á það, að nú mun vera svipað ástatt í hv. Ed. Nokkrir þm. þeirrar hv. d. munu einnig verða fjarverandi nú um nokkra daga og kannske vikutíma, og ef á að taka tillit til fjarvistar manna, þá þýðir það, að málinu yrði þá frestað í Ed., þegar það kæmi þangað, þó að það færi þangað í dag eða á morgun, þangað til þessir menn kæmu heim aftur, þannig að ég sé í raun og veru ekki, að það skipti neinu verulegu máli, þó að umr. sé frestað nú, og ef það væri gert, þá væri eðlilegt, að biðin yrði þá hér í hv. Nd., þannig að málið yrði ekki endanlega afgreitt fyrr en hv. þm. þessarar d. koma heim aftur og færi þá til Ed. Mér virtist það einmitt koma glögglega fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. áðan, að það skipti ekki máli fyrir endanlega afgreiðslu málsins, þó að umr. yrði frestað nú, því að eins og hann telur ekki rétt að afgreiða það, á meðan þingmenn í Nd. séu fjarverandi, þá er auðvitað heldur ekki rétt að afgreiða það í Ed., þegar hv. þm. Ed. eru fjarverandi, þannig að ég geri ráð fyrir, að við getum orðið alveg sammála um þetta. Og þar sem hv. meiri hl. n. virðist skv. nál. hafa nokkurn áhuga á brtt., þá geri ég ráð fyrir, að meiri hl. hljóti að fallast á þessa ósk, sem ég nú ber fram.