24.11.1958
Neðri deild: 27. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1379)

9. mál, biskupskosning

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal taka fram, að n. hefur ekki haldið fund um þessar brtt., svo að það, sem ég segi um það, er einungis frá mér, en ég tala ekki sem frsm. n. að því leyti.

Það er rétt, sem hv. þm. N-Þ., frsm. minni hl. (GíslG), segir, að þessar breyt. hagga ekki verulega efni frv., og ég mundi e.t.v. nokkuð miða mína afstöðu til þeirra eftir því, hvort þær mundu geta leitt til þess, að hann og skoðanabræður hans gætu fallizt á frv., ef þær yrðu samþykktar, a.m.k. tvær þeirra. Og það þarf þó e.t.v. nokkru nánari athugunar við.

En ég vil benda hæstv. forseta á það, hvort 1. brtt., a-liður undir 1. og 2. liður fá staðizt. Þar er um að ræða að breyta allt öðrum l., en eru hér til 3. umr., og ég hygg a.m.k., að sú skoðun hafi komið fram, að þvílíkar brtt. mundu ekki fá staðizt vegna fyrirmæla stjórnarskrárinnar um þrjár umr. um hvert mál. Nú er mér það ljóst, að hér er eingöngu um formsatriði að ræða, og það er nokkurt álitamál, hvorum l. á að breyta í þessu tilfelli. Og ég legg ekkert kapp á þetta að öðru leyti, en því er varðar fordæmi og að það, sem nú er gert, sé í samræmi við þá venju, sem um þetta hefur verið, og skýt málinu að þessu leyti algerlega til forseta, en vildi biðja hann um að athuga þá hlið málsins.

Eins og ég sagði, þá er það áhorfsmál, hvorum l. eigi að breyta, l. um biskupskosningu eða l. um aldurshámark embættismanna. Ég hef vakið athygli á því áður, að það er í samræmi við þær undantekningar sumar, sem gilda, að breyta sérlögunum, en ekki almennu l., og hef ég sérstaklega vitnað til ákvæðanna um dómara, sem eru í l. um hið almenna réttarfar eða meðferð einkamála í landinu, en ekki í l. um aldurshámark embættismanna almennt, þannig að það er til ákveðið fordæmi, sem haft var í huga, þegar þetta frv. var samið. Ég játa þó, að hér er um fullkomið áhorfsmál að ræða. En okkur, sem sömdum frv., sýndist eðlilegra að hafa þennan hátt á, og efnislega get ég ekki séð að þetta hafi þýðingu, en sú formsmótbára kemur til viðbótar, sem ég hreyfði áðan og beindi til hæstv. forseta.

Varðandi b-lið 1. gr. má segja, að það sé e.t.v. aðalefnisbreyt., að eftir því mundi það sennilega vera algerlega á valdi kirkjumálastjórnarinnar, þ.e.a.s. kirkjumálaráðherra, hvort heimildin yrði notuð eða ekki. Og er ég þó ekki alveg viss um það og þætti vænt um, ef hv. flm. brtt. vildi segja ögn nánar, hvað fyrir honum vakir í því. Ef þar er einungis um orðalagsbreyt. að ræða, má segja, að hún skipti ekki máli, en ég hygg þó, að ætlunin hljóti að vera sú, að leggja þetta í vald ráðh. Ég er, eins og ég segi, reiðubúinn til þess að taka þá efnisbreyt. til athugunar, ef það er það, sem fyrir hv. flm. vakir, ef það gæti orðið til þess að sætta alla menn við þetta frv. En ef svo er ekki, þá sé ég a.m.k. á þessu stigi málsins ekki ástæðu til þess að samþykkja hana.

Varðandi breyt. í c-lið, þá skal ég játa, að þar er um fullkomið áhorfsmál að ræða. Mér er það ljóst, að ýmsir telja, að orðalag það, sem hér er stungið upp á, sé betra en það, sem er í frv. Ég hef talið, að það stæðist a.m.k., sem í frv. segir, og skal þá játa það, að það getur verið meinloka úr mér, vegna þess að ég hafi dottið niður á það orðalag, þegar frv. var samið, og sjái ekki mína eigin villu. En ég er fyllilega til viðtals um það, ef svo má segja, að breyta þessu, ef mönnum þykir það réttara.