27.02.1959
Efri deild: 76. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1399)

43. mál, póstlög

Frsm. meiri hl. (Björgvin Jónsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur haft frv. þetta til athugunar. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj.

Frv. sama efnis og þetta var flutt á síðasta þingi. Þá var leitað umsagnar ýmissa aðila um málið. Póst- og símamálastjóri ritaði eftirfarandi bréf til nefndarinnar, dags. 27. nóv. 1957, með leyfi hæstv. forseta:

„Póst- og símamálastjórnin hefur meðtekið bréf hv. samgmn., dags. 14. nóv. þ. á., þar sem beiðzt er álits um frv. til l. um breyt. á póstlögum, nr. 31 1940.

Sá er munur á þeim eyðublöðum, sem hér er um að ræða, og venjulegum bréfum, ábyrgðarbréfum og peningabréfum, að nefnd eyðublöð eru póstplögg, sem eru gefin út aðeins vegna póstþjónustunnar sjálfrar og sem eign póststofnananna og eiga að vera í höndum þeirrar póststofnunar, sem gefur eyðublaðið út, og endursendast henni.

Í alþjóðareglugerðum, sem fylgja alþjóðapóstsamningum, eru ákveðin form fyrir slík eyðublöð (gerð MP 1 fyrir ávísanablöð, gerð R 3 eða R 4 fyrir póstkröfuávísun, gerð CP 2 og CP 3 fyrir fylgibréf böggla). Þessi eyðublöð hafa tvo höfuðreiti, annan fyrir afklipping, sem viðtakandi á að halda eftir, en hinn fyrir sjálfa ávísunina ásamt kvittun, frímerkjum og ástimplun sendipósthússins, og á póststofnun að halda þeim hluta eftir og geyma hann a.m.k. í eitt ár vegna endurskoðunar og rannsóknar vegna kæra eða umkvörtunar. Hér á landi er þessi geymslutími þrjú ár.“

Síðan getur póst- og símamálastjóri um reglurnar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en þær eru mjög á sama veg og hér. Síðan segir svo:

„Þessar reglur hafa gilt svo lengi sem til þekkist, a.m.k. frá 1872, og á alþjóðapóstráðstefnu hafði fyrir löngu komið fram ályktun um, að þetta atriði ætti heima í löggjöf hinna einstöku ríkja, enda eru um það ákvæði í nágrannalöndunum svipað og hér í 17. gr. póstlaganna, og mun vera svo í öllum ríkjum alþjóðapóstsambandsins.

Þegar hinum ákveðna geymslutíma er lokið, eru hin notuðu frímerki klippt af eyðublöðunum og seld, og á Norðurlöndum er andvirðinu varið í sérstöku augnamiði, ýmist til kostnaðar við póstminjasafn, til námsstyrkja til póstmanna eða því um líks. Hér fer það í póstmannasjóð, til ferðastyrkja til áhugasamra póstmanna, sem með námi og kynnisferðum hafa hug á að fullkomna sig í póststörfum.

Með tilliti til ofannefndra ákvæða alþjóðasamninga, sbr. og reglur í öðrum löndum, nauðsynjar á geymslu eyðublaða, endurskoðun og síðari rannsóknar vegna kæra og því um líks, leggur póst- og símamálastjórnin eindregið á móti því, að umrætt frv. verði samþykkt.“

Félag póstmanna skrifaði n. einnig og leggur eindregið á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga, og visar þar til þeirra höfuðraka, sem fram komu í bréfi frá póst- og símamálastjóra.

Meiri hl. samgmn. telur sér ekki fært að fengnum þessum upplýsingum að leggja til, að frv. þetta verði samþykkt. Hér er hins vegar um að ræða mjög athyglisvert mál. Það orkar ekki tvímælis, að skemmtilegra væri a.m.k., ef hægt væri að afhenda umrædd frímerki til viðtakenda. Þess vegna leggur n. ekki til, að frv. verði fellt, heldur að því verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar til nánari athugunar.