19.12.1958
Efri deild: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (1408)

68. mál, fræðsla barna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er ekki til að andmæla þessu frv., það er síður en svo, því að ég er með því, en mig langar til að biðja nefndina, menntmn., sem fær frv. þetta til meðferðar, að athuga eitt atriði í sambandi við þetta. Ég er ekki alveg viss um, hvernig því er fyrir komið núna, og ég held, að það muni kannske þurfa að breyta því, um leið og þetta frv. er samþykkt hér. Ég hygg, að þeir menn, sem ekki eru skipaðir í stöður, heldur aðeins settir, borgi yfirleitt ekki í lífeyrissjóð og skapi sér ekki rétt til eftirlauna. Þess vegna hygg ég, að þessi 101 maður, sem nú stundar barnakennslu, en hefur ekkert próf og hefur ekki verið skipaður, heldur settur frá ári til árs, þeir muni ekki eiga nú rétt á neinum eftirlaunum. Þegar þeir nú koma undir þessa lagabreytingu, sem ég geri ráð fyrir að verði að lögum, og verða skipaðir, þá fá þeir réttindin. Um leið er dregið af þeirra launum í lífeyrissjóðinn, en þeir fá aftur rétt til eftirlauna, þegar þeir hætta. Nú hefur það verið svo, að það hefur verið dálítið á reiki, að menn hafi getað keypt sér það, sem kallað er eftirlaunaréttur, fyrir ár, sem þeir hafa verið búnir að vera settir og ekki tekið af þeim, nema viðkomandi atvinnurekandi hafi viljað greiða á móti. Nú eru þessir menn flestallir orðnir dálítið við aldur, eru búnir að vera 10 ár eða meira barnakennarar og ekki víst, að þeir starfi mjög lengi, svo að eftirlaun, sem þeir kæmu til með að fá frá þeim degi, þó að þeir þá byrjuðu að greiða í sjóðinn, mundu aldrei verða há. Þess vegna er spurning, hvort á ekki, um leið og þessi lög eru sett, að breyta hínum lögunum og gefa ríkissjóði heimild til að greiða á móti aftur í tímann, t.d. fimm ár eða einhvern ákveðinn tíma, ef kennararnir vildu greiða í hann sjálfir fyrir einhvern tíma af árunum, sem þeir voru settir, til þess að geta fengið meiri eftirlaunarétt, þegar þeir hætta.

Það er þetta atriði, sem mig langar til að biðja nefndina að athuga, þ.e. á hvern hátt er réttast og bezt að koma því fyrir, að þessir menn fái sama rétt og kennari, sem hefur verið skipaður, þegar þeir hætta, hvort ekki er hægt að láta hann ná eitthvað aftur fyrir sig, svo að eftirlaun þeirra verði hærri. Þetta langar mig til að biðja nefndina að athuga og hvernig er hægast að koma þessu fyrir í sambandi við það að samþykkja þessi lög, ef menn annars vilja skapa þeim rétt til eftirlauna, sem þeir hafi gagn af.