03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1410)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er það eitt að veita heimild til að skipa próflausa kennara við barnaskóla, ef þeir hafa starfað tíu ár eða lengur og skólanefnd, námsstjóri og fræðslumálastjóri mæla með þeirri skipan. Menntmn. hefur athugað frv. og sent það til umsagnar fræðslumálastjóra, Sambandi ísl. barnakennara og skólastjóra kennaraskólans. Svör þessara aðila eru öll á einn veg. Þeir mæla allir gegn samþykkt frv. Þá hafa menntmn. borizt erindi ýmissa stéttarfélaga barnakennara víðs vegar af landinu, og mæla þeir eindregið gegn frv. Þá barst n. erindi kennarafélags Kennaraskólans, sem einnig mælir gegn frv., en skólastjóri kennaraskólans vísar til þeirrar álitsgerðar í umsögn sinni og lýsir sig sammála henni í öllum aðalatriðum.

Till. menntmn. um afgreiðslu þessa máls liggur nú fyrir á þskj. 290, þar sem lagt er til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá.

Ég vil drepa á örfá helztu atriði þessa máls, en ég ræði þau að sjálfsögðu út frá mínu sjónarmiði og þeirri reynslu, sem ég hef á þessum málum. Þar með er ekki sagt, að allir nm. séu mér sammála í einstökum atriðum, þótt n. sé einhuga um afgreiðslu frv.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er, eins og ég sagði, að skapa meira atvinnuöryggi fyrir þá barnakennara í landinu, sem ráðið hafa sig til kennslustarfa og hafa gegnt þeim störfum í tíu ár eða lengur, en njóta ekki kennararéttinda, vegna þess að þeir hafa ekki aflað sér kennaramenntunar. Samkv. frv. er stefnt að þessu með því að heimila að skipa þessa menn sem fasta kennara, ef námsstjóri, skólanefnd og fræðslumálastjóri mæla með því.

Nú eru yfir hundrað réttindalausir menn starfandi sem barnakennarar. Þeir búa við sams konar starfsskilyrði og aðrir kennarar. Þeir hafa sömu störf, sama starfstíma, sömu lífeyrissjóðsréttindi og sömu laun eftir 3 fyrstu árin. Ég ætla, að það muni vera óvenjulegt innan annarra stétta, að menn, sem ráðnir eru til bráðabirgða og ekki hafa sérmenntun í starfinu, eigi slíku jafnrétti að fagna. Hitt er aftur á móti rétt, að þeir eru ekki öruggir um að halda starfinu til frambúðar, komi einhver og sæki um starfið, sem stundað hefur kennaranám og lokið kennaraprófi. En þá ber á það að líta, hversu miklar líkur eru til þess, að þessum réttindalausu kennurum verði sagt upp störfum af þessum ástæðum á næstu árum. Séu litlar horfur á, að svo verði gert, þá sýnist þessu frv. ekki liggja mikið á, hvað sem um það má segja að öðru leyti. Við höfum um þetta nokkra vitneskju, því að það er vitað mál, að þessum próflausu kennurum hefur fjölgað á þremur síðustu árunum úr 82 í 109, eða um 27.

Meðan þeim fer svo fjölgandi, veit ég ekkí, hvað ætti að koma forstöðumönnum skólamálanna til að segja þessum mönnum upp störfum, ef þeir reynast vel í kennslustarfi sinu. Þótt svo væri, að einhver maður með kennaraprófi sækti um stöðu, þar sem fyrir er réttindalaus kennari, þá er nóg til af öðrum kennarastöðum lausum handa þeim manni, er þannig þyrfti að víkja úr sæti. Og ég verð að segja, að það væri varla hægt að kalla þetta harkalega meðferð, þótt kennari væri þannig fluttur til á milli skólahéraða. En mér er ekki einu sinni kunnugt um, að til þess hafi komið, enda hefur kennaraskorturinn farið sívaxandi, eins og ég nefndi áðan. Réttindalausir kennarar hafa því aldrei verið fastari í sessi, en þeir eru nú. Um þessa hlið málsins segir fræðslumálastjórinn í umsögn sinni til n., með leyfi hæstv. forseta:

„Sá háttur hefur verið hafður á í farskólahverfum um alllangt skeið, að farkennarastöður hafa ekki verið auglýstar, þótt eigi hafi þar verið um mann með kennarapróf að ræða, ef kennarinn hefur reynzt vel og viljað gegna stöðunni áfram. Er kennarinn þá settur um óákveðinn tíma. Það gengur næst veitingu fyrir stöðunni. Eigi minnist ég þess, að farkennari, sem gegnt hefur slíkri stöðu í tíu ár eða lengur, hafi þurft að láta af starfi sökum þess, að völ hafi verið á manni með kennaraprófi, enda eru stöður, þar sem réttindalaus kennari er settur, þar til öðruvísi verður ákveðið, ekki auglýstar lausar til umsóknar, nema kennarinn segi stöðunni lausri eða skólanefnd óski þess, að staðan verði auglýst.“

Þá benda flm. á það í grg. frv., að kennara gagnfræðaskólanna megi skipa sem fastakennara eftir tveggja ára starf, þótt ekki hafi þeir lokið lögákveðnu námi. Benda flm. á, að þarna sé vægara í sakirnar farið, þar sem tveggja ára starfstími á að nægja, en þeir ætlist hins vegar til, að tíu ára starf þurfi til þess, að skipa megi barnakennarana. Í svörum þeim, er n. hafa borizt, er sýnt fram á það, að þetta lagaákvæði um gagnfræðaskólakennarana er sett sem neyðarúrræði. Með fræðslulögunum frá 1946 er gagnfræðaskólakennslan í landinu aukin stórkostlega. Hins vegar er þá engin sérstök menntastofnun, sem undirbýr kennara fyrir gagnfræðaskóla. Það hlaut því að líða langur tími frá setningu fræðslulaganna, þar til nægilega margir kennarar með tilskilinni háskólamenntun væru til taks til að fullnægja gagnfræðaskólunum. Til þess að brúa þetta bil er þessi tveggja ára undanþága auðvitað sett í lögin. Hér er því um undantekningu að ræða, sem ekki má hafa til fyrirmyndar um barnakennarana, því að þeir hafa haft sína menntastofnun í meira, en hálfa öld, og er því ekki hér um hliðstæður að ræða.

Kennarar þeir, sem sent hafa n. erindi um þetta frv., benda flestir á það, að ef frv. verði samþykkt, dragi það úr aðsókn nemenda að kennaraskólanum, það verði auðveldara og kostnaðarminna að stunda kennslu í tíu ár, en að stunda nám og ljúka prófi frá kennaraskólanum. Til inntöku í kennaraskólann þarf nú venjulega eins til tveggja ára undirbúningsnám, eftir að lokið er skyldunámi unglinga. Síðan tekur kennaraskólinn fjögur ár. Til þess að ljúka kennaranámi og prófi þarf því venjulegast 5–6 ár.

Nú vil ég ekki gera ráð fyrir því, að menn fari að gera sér einhverja tíu ára áætlun um það að hljóta réttindi sem kennarar án náms, þó að þetta frv. yrði samþykkt. En hinu neita ég ekki, að maður, sem stundað hefur kennslu í 3–5 ár réttindalaus, hugsi sig um, hvor leiðin verði heppilegri fyrir hann, að hefja kennaranám eða stunda kennsluna áfram og sleppa náminu. Það er óneitanlega fjárhagslega hagkvæmara fyrir mann að halda atvinnunni áfram, en að sleppa henni og halda út á dýra námsbraut. Frá þessu sjónarmiði gæti frv., ef að lögum yrði, haft áhrif á aðsókn að kennaraskólanum.

Í grg. segja flm. m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Kennaramenntun, staðfest með prófi að loknu námi, er vitanlega mikilsverð og æskileg. En kennarahæfni eftir tíu ára reynslu í starfi, staðfest af skólanefnd, námsstjóra og fræðslumálastjóra, vegur líka mikið. Hver vill telja minna öryggi í henni fyrir nemendurna?“

Þarna taka flm. til samanburðar annars vegar mann með kennaramenntun, hins vegar mann með kennarahæfni. Svo spyrja þeir: Hver vill telja minna öryggi í henni, kennarahæfninni, fyrir nemendurna? Ekki veit ég, hvort á að skilja þetta svo, að maðurinn með kennaramenntunina hafi enga kennarahæfni. Vilji menn gera samanburð á þessum tvenns konar kennurum, svo að um hliðstæður geti orðið að ræða, þá er það annars vegar maður með kennaramenntun og reynslu í kennslu, hins vegar maður með sams konar reynslu, en ekki kennaramenntun. Þá fyrst má spyrja: Hvor þeirra er betri fyrir nemendurna?

Ég ætla, að svarið verði ekki nema á einn veg. Að menntunin og eigin reynsla til samans verði þjóðinni notadrýgst. Á þessu er skólakerfi okkar byggt. Kennsla er fræðsla fyrst og fremst, fræðsla um reynslu annarra, reynslu, sem oftast er fengin með dýrum fórnum og á áratugum og öldum. Það er enginn einstaklingur fær um að afla sér slíkrar reynslu af eigin rammleik. Þar verður fræðsla, menntunin, að koma til. Reynsla einstaklings getur því ekki komið í staðinn fyrir menntunina. En hún er ómetanlega mikils virði, til þess að menntunin komi að sem mestum notum. Það er á þessari skoðun, sem ég ætla að afstaða nefndarmanna til þessa frv. sé byggð og að afgreiðsla málsins verði eins og nefndin leggur til.

Fræðslumálastjóri drepur á það í umsögn sinni um frv., að komið geti til greina tvær leiðir til að auðvelda próflausum kennurum að stunda kennaranám og ljúka prófi. Önnur leiðin er sú að stunda eins árs nám í kennaraskóla og ljúka síðan prófi, eins og gert hefur verið tvisvar áður. Hin leiðin er sú að taka kennaranámið í áföngum. Mælir Samband ísl. barnakennara með síðari leiðinni.

Nú er starfandi stjórnskipuð nefnd til þess að endurskoða skólalöggjöf landsins. Það er því fyllilega eðlilegt, að sú nefnd athugi efni þessa frv., m.a. þær tvær leiðir, sem fræðslumálastjóri drepur á í umsögn sinni, til þess að auðvelda starfandi kennurum, sem ekki njóta kennararéttinda, kennaranám. Að þessu víkur menntmn, í till. sinni um afgreiðslu málsins með rökstuddri dagskrá, en n. ætlast jafnframt til þess, að menntun barnakennara verði ekki rýrð. Kennaraskortur hefur sagt til sín viðar, en á Íslandi. Þetta er vandamál, sem margar þjóðir hafa við að stríða. Ef menn athuga umsögn eða álitsgerð kennarafélags kennaraskólans um þetta mál, þá munu þeir sjá, hvaða ráð hefur verið bent á í þessu efni á ráðstefnu alþjóðasambands kennara, sem haldin var 1957. Það er ekki þetta, að skipa kennarana sem fastakennara eftir 10 ár. Nei, það er allt annað, og er mjög fróðlegt að kynnast þeim ábendingum, sem þar hafa komið fram, og bera það saman við þær aðstæður, sem eru hjá okkur.

Ég vænti þess, að hv. deild geti fallizt á að samþykkja þá rökstuddu dagskrá, er nefndin flytur á þskj. 290.