03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (1413)

68. mál, fræðsla barna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós þakklæti mitt til hv. menntmn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli og afstöðu hennar í því. Það hefði verið mjög alvarlegt spor í ranga átt, ef þetta frv. hefði verið samþykkt hér í þessari hv. deild.

Nú um þessar mundir er verið að vinna að því af opinberri hálfu að bæta kennaramenntunina og auka hana. Það hefði því verið spor í öfuga átt við þá stefnu, ef Alþingi hefði nú lögfest full embættisréttindi til handa kennurum, sem ekki hafa lokið prófi, og ég fagna því, að sú stefna virðist ekki eiga fylgi a.m.k. í hv. menntmn. þessarar deildar.

Að öðru leyti var það eitt atriði fyrst og fremst, sem ég vildi láta getið við þessa umr. Ég vil ekki láta því ómótmælt, að illa eða með ósanngirni sé búið að þeim kennurum, sem starfað hafa réttindalausir. Það væri of ósanngjarnt og óeðlilegt að gera það, vegna þess að í flestum eða öllum tilfellum hafa þessir kennarar innt af hendi þjónustu við þjóðfélagið, sem torvelt eða ekki hefði verið hægt að inna af hendi með öðrum hætti. En nú er það svo, að starfandi kennarar, þótt réttindalausir séu, njóta fullra kennaralauna eftir þriggja ára starf, og þeir eiga einnig frjálsan aðgang, óskoraðan aðgang að lífeyrissjóði barnakennara, svo að, að því er snertir kaup og kjör og réttindi eru hinir starfandi barnakennarar, þótt próflausir séu, alveg jafnréttháir þeim kennurum, sem lokið hafa tilskildum prófum. Þetta mun varla eiga sér hliðstæðu í öðrum starfsstéttum, en þessa skipun tel ég hins vegar vera eðlilega og réttláta með tilliti til þjónustu kennaranna og teldi rangt að breyta þessari skipan. Ég tel sömuleiðis eðlilegt, að þessum kennurum verði gert sem léttast, án þess þó að slaka á nokkrum prófkröfum, að afla sér fullkominna réttinda.

Þá vil ég enn fremur láta það koma skýrt fram, að mér er ekki kunnugt um neitt dæmi þess, að fræðslumálastjórnin hafi beitt slíka kennara, sem lengi hafa gegnt starfi, ranglæti, þ.e. látið þá standa upp fyrir réttindakennara með þeim hætti, að fullkomlega ósanngjarnt eða óeðlilegt mætti teljast.

Það mæla viss sanngirnisrök með því, að hafi kennari um mjög langan tíma innt af hendi þá þjónustu að stunda barnakennslu, þá skuli tillit tekið til hans, jafnvel þó að um starf sæki maður með fullum réttindum. Um nokkur slík tilvik hefur verið að ræða, síðan ég fór að fjalla um þessi mál, og hefur þá jafnan í góðu samkomulagi við fræðslumálastjóra og skólanefndir verið reynt að finna sanngjarna lausn á málinu. Mér er ekki kunnugt um nein slík dæmi, að menn hafi verið látnir víkja úr starfi með óeðlilegum eða ósanngjörnum hætti, ef þeir hafa átt langan og góðan starfsferil að baki. Hitt er svo annað mál, að ekki er hægt að viðurkenna í lögum almenna skyldu til fráviks frá þeim kröfum, sem gerðar eru almennt um menntun kennara. Ég tel nægilega vel að þeim búið í lögum og framkvæmd á þann hátt, að þeir njóti þeirra kjara og þeirra réttinda, sem þeir njóta, og með tilvísun til þeirrar framkvæmdar, sem verið hefur á þessum málum um langt skeið, hygg ég, að þessi hópur hinna starfandi kennara þurfi ekki að kvarta yfir rangsleitni eða ósanngjarnri meðferð af hálfu fræðslumálastjórnarinnar.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu.