03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (1414)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég get verið fáorður, því að það er ekki svo mjög mörgu að svara úr ræðu hv. þm. S-Þ. Hann byrjaði að vísu allhart og var ekki laus við að vera þungorður í minn garð, en hann endaði með þeirri dásemd, að hann þakkaði nefndinni fyrir afgreiðsluna og sagðist mundu greiða atkvæði með dagskránni. (KK: Jafnvel.) Og ég kalla, að þetta bæri nokkurn vott um það, að nefndin hafi unnið vel. Ég held, að það sé ekki annað hægt að segja.

En ég kvaddi mér aðallega hljóðs núna vegna þess, sem hann sagði, að ég hefði snúið út úr fyrir sér, og það átti að vera það, að ég las eina mgr. úr nál., þar sem bornir eru saman menn, annars vegar með kennaramenntun, hins vegar með kennarahæfni, og svo les hann þessa grein upp aftur, og ég hef ekkert við það að athuga. En mér er gersamlega óskiljanlegt, á hvern hátt ég hef snúið út úr. Ég held, að hann sé þeirrar skoðunar, að þetta séu hliðstæður, maður, sem hefur starfað og fengið skipun fyrir embættinu þannig, og hinn, sem hefur stundað kennaranám, lokið prófi og fengið líka skipum fyrir embættinu. En ég segi: Maðurinn, sem hefur stundað kennaranám, hlýtur að hafa kennarahæfni líka, það getur ekki annað verið. Þess vegna verður maður að taka það með í reikninginn báðum megin. Kennarahæfnin hlýtur að geta verið báðum megin. Það er bara menntunin, sem er ekki nema öðrum megin, — og það var þetta, sem ég skildi ekki og skil ekki enn. En ég var ekki að snúa út úr neinu. Ég hygg, að hv. þm. S-Þ. líti svo á, að þessir menn séu alveg jafnfærir og á allan hátt jafnvel að því komnir að vera skipaðir kennarar við barnaskóla á Íslandi, sá, sem hefur stundað kennsluna í 10 ár, og hinn, sem hefur stundað kennaranám og síðan kennslu, því að auðvitað fær hann sína æfingu alveg eins, sem hefur stundað námið og lokið prófi. Þarna er ég á annarri skoðun. Ég álít manninn með kennaramenntunina hafa nokkuð fram yfir hinn, alveg ótvírætt.

Hann taldi það vera kalda skýringu hjá mér, að það væri ekki mikið um það að sakast, þó að kennari þyrfti að standa upp úr starfi, ef réttindamaður kæmi og sækti um stöðuna og fengi svo starf annars staðar. Þetta kallaði hann kalda skýringu — eða réttara sagt kaldar kveðjur, hefur hann átt við. Læt ég það nú vera, hvað þetta eru kaldar kveðjur, að gefa manni kost á að fá stöðu annars staðar, sams konar stöðu og hann hafði og með sömu launum, þegar fylgja þarf gildandi lögum um það, að maður með kennaramenntun eigi forgangsrétt að stöðunni. Einhvern tíma hafa nú menn í þessu þjóðfélagi fengið kaldari kveðjur en þetta. Eða hvað ætli þeir segi í öðrum stéttum, ef réttindalaus maður hefur verið í starfi og svo koma réttindamennirnir? Þeir segja honum að fara og eru ekki að vísa honum á annað starf. Ég held, að þetta sé ekki eins kalt og hv. þm. vill vera láta. En ég tók hitt jafnframt fram, sem hann sleppti, að ég veit ekki um neitt dæmi, að þetta hafi komið fyrir, heldur gerði ég ráð fyrir, að þetta gæti komið fyrir.

En við skulum þá líta á annað í þessu sambandi. Ef þetta frv. er samþykkt, þá njóta þessir próflausu kennarar, sem nú eru, eftir að búið er að skipa þá fastakennara, fullra réttinda til að sækja um hvaða kennarastöðu í landinu sem er. Við skulum hugsa okkur, að það yrði einhver samkeppni um kennarastöðu, t.d. við kaupstaðarskóla, og þar sæktu líka þessir, sem fengið hefðu réttindi sín á þennan hátt. Ætli einhverjum manninum, sem hefur stundað langt nám og kostað miklu til, þættu það ekki kaldar kveðjur, ef hinn fengi svo stöðuna, sem hann hafði sótt um og hann hafði búið sig undir að gegna, en hinn hefði fengið réttindi sín á þennan hátt, sem frv. gerir ráð fyrir? Ætli það mætti ekki líka skoðast sem kaldar kveðjur?

Hv. þm. sagði, að n. hefði fengið miklar leiðbeiningar frá kennarastéttinni. Rétt er það. Það hafa komið mörg erindi til n. út af þessu máli. En kom það ekki líka 1955, þegar hann flutti málið þá? Kennarastéttin hefur alla tíð verið andvíg því, að þessi háttur yrði á hafður, og því staðið gegn því nú eins og 1955. En þótt kasta megi steinum að kennurunum út af því að hafa sent þessi erindi, sem ég skal ekki gera, — ég get vel skilið þá, ég var einu sinni í þessari stétt manna og skal ekkert finna að því, þótt þeir hafi sent hingað mótmæli, — er þá ástæða til þess að saka skólastjóra kennaraskólans um nokkra hlutdrægni í áliti sínu? Hv. þm. gerði það ekki. Það er ekki svo að skilja. En hvað segir hann, þessi hlutlausi og reyndi skólamaður? Talar hann ekki um það í sinni umsögn, að frv. þetta yrði kennaraskólanum og kennaramenntuninni í landinu til óþurftar? Ekki eru þetta barnakennarar.

Þá gat hv. þm. þess að lokum, að hann mundi jafnvel geta greitt atkv. með hinni rökst. dagskrá, af því að það er gert ráð fyrir áframhaldandi athugun á þessu. Og það er alveg rétt, menntmn. vill, að þessi hlið málanna sé athuguð. En hann sleppti seinni hluta dagskrártill., ég veit ekki, hvort á að skilja það svo, að hann sé óánægður með hann, — þar sem segir: „Í trausti þess, að sú athugun fari fram og að hún verði framkvæmd með fullri hliðsjón af þeirri nauðsyn, að þjóðin hafi jafnan á að skipa vel menntaðri stétt barnakennara.“ Ég vona fastlega, að hv. þm. sé ekki andvígur þessum seinni hluta till. um rökst. dagskrá, þó að hann sleppti honum áðan, því að svo vel þekki ég hann, að hann er ekki á móti menntun í landinu. Hitt get ég ósköp vel skilið, að hann hefur þekkt og þekkir sjálfsagt kennara og kannske marga kennara, sem reynzt hafa vel án þess að hafa farið í kennaraskólann og lokið prófi. Ég þekki slíka menn líka. En þrátt fyrir það tel ég ekki rétt að opna þarna, eins og gert er ráð fyrir í frv., og vona ég, að hv. þm. að lokum greiði nú atkv. með hinni rökst. dagskrá, eins og hún er í heilu lagi.