27.11.1958
Efri deild: 27. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

52. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er eitt af þeim frv., sem árlega eru borin fram til framlengingar á lögum, sem látin eru gilda eitt ár í senn. Stafar þessi löggjöf, sem hér um ræðir, frá árinu 1948 og hefur verið framlengd ár frá ári síðan. Nefndin hefur athugað frv. og borið það saman við þau lög, sem nú gilda og er frv. samhljóða þeim nema hvað ártalið snertir. Það er vitað mál og þarf ekki orðum að því að eyða, að það er sízt minni ástæða til að framlengja þessi lög nú, heldur en verið hefur undanfarin ár, enda er það svo, að öll nefndin mælir með samþykkt frv., en tveir nefndarmenn, hv. þm. Vestm. og hv. þm. N-Ísf., sem mætti í nefndinni í stað hv. 6. þm. Reykv., sem er erlendis, áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frekari framsögu, en vil þó aðeins láta í ljós, sem ég hef gert fyrr, þegar þessi framlengingarlög hafa verið á dagskrá, að ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til þess, eins og komið er, að þessi lög, framlengingarlög yfirleitt, séu framlengd ár eftir ár. Það er alveg sýnt, að frá þeim tekjustofnum, sem í þessum framlengingarlögum eru, verður ekki horfið, nema einhver stór breyting verði að öðru leyti, — og því þá ekki að breyta lögunum til frambúðar í samræmi við það? Að vísu hefur Alþingi enn sem komið er ekki átt svo annríkt nú, að ég sé nokkuð að telja eftir því að setja þessi bráðabirgðalög eða framlengja þessi lög, því að það hefur gefizt góður tími til þess. En myndarlegra fyndist mér hitt, úr því sem komið er og ég vildi gjarnan, að hæstv. fjmrh., sem hér er staddur, léti í ljós álit sitt um það, hvers vegna yfirleitt þetta er gert, að framlengja þetta frá ári til árs, en breyta ekki lögunum í þess stað til frambúðar.