12.05.1959
Efri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (1459)

33. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv., sem flutt var í hv. Nd. og afgr. þaðan til Ed., mælir svo fyrir í 1. gr., að undanþága, sams konar og sú, sem talin er á undan, skuli gilda um upptöku talaðs máls eða tónlistar á segulband eða á annan vélrænan hátt, ef upptakan er aðeins ætluð til heimilisnotkunar. Efni þess er m.ö.o. það, að upptaka talaðs máls eða tónlistar á segulbönd eða á annan vélrænan hátt skuli endurgjaldslaus, ef upptakan er aðeins til heimilisnotkunar.

Þetta mál, sem hér er hreyft við í frv., hefur um allmörg ár og einkum þó hin síðustu verið mikið vandamál, sem ýmsar aðrar þjóðir hafa glímt við og sumum þeirra ekki tekizt að leysa enn. Vandinn er sem sagt þessi, að sameina eðlilega notkun segulbandstækja fyrir almenning til heimilisnota annars vegar og hins vegar hæfilegt og sanngjarnt endurgjald til höfunda og listflytjenda. Í sambandi við þetta mál hafa Alþingi borizt álitsgerðir, aðallega mótmæli frá ýmsum samtökum, m.a. hefur Bandalag íslenzkra listamanna sent Alþingi harðorð mótmæli gegn þessu frv. Þá hafa borizt hér mótmæli auk Bandalags íslenzkra listamanna frá Rithöfundasambandi Íslands, Tónskáldafélagi Íslands, Félagi ísl. hljómlistarmanna, Félagi ísl. einsöngvara, Félagi ísl. leikara, Félagi ísl. tónlistarmanna, Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands og íslenzkum hljómplötuframleiðendum.

Vegna þess, að hér er vikið að mjög viðkvæmu máli, sem snertir einnig rétt erlendra höfunda, og m.a. vegna þátttöku Íslendinga í alþjóðasambandi höfunda og í Bernarsambandinu, hefur verið leitað álits þessara aðila um málið. Í áliti alþjóðasambands höfunda kemur í ljós töluvert önnur skoðun á þessu máli, en í grg. flm. fyrir frv.

Flm. segja, með leyfi hæstv. forseta, í grg.: „Það er sjálfsagt, að tónskáld og aðrir eigendur hugverka fái sanngjarna greiðslu fyrir notkun verka sinna, en krafa um greiðslu fyrir flutning eða upptöku hugverka á að takmarkast af því, að þetta sé gert í hagnaðarskyni.“`

Flm. frv. virðast því byggja á þeirri skoðun, að ef upptakan er eingöngu til einkanota eða heimilisnota, en ekki í hagnaðarskyni, þá eigi hún að vera frjáls og endurgjaldslaus. Alveg gagnstæð skoðun kemur fram í bréfi alþjóðasambands höfunda um þetta efni, sem ég vildi aðeins með örfáum orðum rekja hér vegna þess, hvað málið er merkilegt og erfitt viðfangs. Þar segir svo, að eftirgerð eða „reproduktion“ verka til einkanota, eins og það var skilið áður fyrr, olli höfundum ekki nema tiltölulega litlu tjóni.

En þegar farið er að færa sér í nyt nýjar uppfinningar, t.d. í vélrænum efnum, og nú síðast upptöku verka á segulbönd og þræði, þá er það þess eðlis, þó að til einkanota sé, að það veldur höfundum miklu fjárhagstjóni, því að það dregur úr sölu á eintökum af verkum þeirra, bókum, nótum, plötum o.s.frv.

Í þessu sambandi má einnig geta þess, að við umr. í menntmn. þessarar hv. d., en málið var rætt á nokkrum fundum og fengnir þar til viðræðna fulltrúar frá Bandalagi ísl. listamanna og fulltrúi hljómplötuframleiðenda, þá kom það m.a. fram, að á flestum hljómplötum er strengilegt bann við afritun eða eftirgerð hljómplatnanna, sem sagt áskilinn mjög strangur einkaréttur af framleiðandans og höfundarins hendi.

Varðandi Bernarsambandið, sem við erum meðlimir í, þá hefur borizt einnig ýtarleg umsögn þess um málið, sem endaði á þessum orðum: „Það er augljóst, að Ísland sem aðili í Bernarsambandinu getur ekki sett löglegan fyrirvara um heimild til segulbandsupptöku, þar sem slíkur fyrirvari var ekki settur um leið og Ísland gekk í Bernarsambandið: Erlendir dómar hafa og staðfest þetta.

Mér þykir rétt að skýra frá þessum álitum, og án þess að ég vilji leggja á það dóm, þá er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því, að af mörgum aðilum er það talið mjög hæpið, að slíkt lagafyrirmæli eins og þetta fengi staðizt, m.a. vegna þátttöku okkar í þessu alþjóðasambandi, Bernarsambandinu.

Nú er það óneitanlega svo, að skilningur manna hefur mjög aukizt á hinum síðari árum fyrir því, að höfundar og listflytjendur eigi kröfu á sanngjarnri þóknun fyrir verk sín, og ég ætla, að bæði hér á landi og viðast annars staðar hafi þessi skilningur mjög glæðzt á undanförnum árum. Því er ekki að neita, að í augum höfunda og listflytjenda grúfir nú yfir veruleg hætta með hinni stórauknu notkun almennings á segulbandstækjum og öðrum tækjum til vélrænnar upptöku. Þannig var skýrt svo frá í menntmn., að t.d. í Bandaríkjunum hefði dregið stórkostlega úr sölu á hljómplötum hin síðari ár, eftir að segulbönd gerðust almenn. Vandinn í þessu máli er því að sameina þetta hvort tveggja sem bezt, að skapa almenningi eðlileg not þessara tækja eins og segulbanda, en hins vegar að sjá til þess, að höfundar og túlkendur fái sanngjarna þóknun fyrir sín hugverk.

Eftir að menntmn. þessarar hv. d. hafði haldið nokkra fundi um málið og rætt það ýtarlega, varð hún sammála um þá afgreiðslu, sem greinir í nál. á þskj. Það lá fyrir í umr. í n., að Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, sem gert hafði, eins og kunnugt er, ráðstafanir til innheimtu víss gjalds af segulbandstækjum sem endurgjalds fyrir það að taka vernduð hugverk upp á segulband, var fúst til þess, ef þetta frv. yrði ekki samþykkt, heldur sett í athugun, að falla frá innheimtu slíkra gjalda, meðan á þessari athugun stæði. Bréf sambandsins er birt sem fskj. með nál., þar sem það staðfestir, að félagið muni ekki innheimta gjald af segulbandstækjum, meðan athugun sérfróðra manna fer fram á máli því, sem hér um ræðir, enda verði þeirri athugun hraðað eftir föngum og ný löggjöf ekki sett um efni þetta, fyrr en niðurstöður slíkra athugama liggja fyrir. Með vísun til þessa leggur menntmn. einróma til, að málið sé nú afgreitt með svofelldri dagskrá, að „í trausti þess, að ríkisstjórnin láti rannsaka til hlítar, hvernig bezt sé að haga löggjöf um rétt til upptöku talaðs máls og tónlistar á segulband eða á annan vélrænan hátt, og leggi niðurstöður sínar fyrir næsta reglulegt þing, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.”