02.12.1958
Efri deild: 29. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (1463)

61. mál, skipulagslög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er samið af nefnd, sem fyrrv. félmrh. skipaði í októbermánuði 1955. Þau lög, sem í gildi eru um skipulag kauptúna og sjávarþorpa, voru sett árið 1921. Frv. er í ýmsum atriðum fyllra, en þau lög, sem nú gilda, sem ekki hafa ákvæði um ýmis atriði, sem komið hafa í ljós, eftir að þau lög voru sett og svo ýmsar þjóðfélagsbreytingar, sem gera fyllri ákvæði æskileg og nauðsynleg.

Hér verður ekki gerð grein fyrir öllum þeim nýmælum, sem lagt er til með frv. þessu að verði lögtekin, en aðeins getið nokkurra þeirra helztu.

Það er gert ráð fyrir nokkurri breytingu á skipun skipulagsnefndarinnar. Í núv. lögum er ákveðið, að í skipulagsnefnd ríkisins skuli sitja húsameistari ríkisins, vegamálastjóri og vitamálastjóri. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að auk skipulagsstjórans skuli Alþingi kjósa fjóra menn í skipulagsnefnd til sex ára í senn. Er Alþingi þá að sjálfsögðu frjálst að kjósa hvern sem er hinna framantalinna embættismanna í skipulagsnefndina eða aðra, sem það teldi hæfa til starfsins.

Það er rétt að vekja athygli á því, að skipulagsskyldan er í núgildandi lögum bundin við þau kauptún, sem hafa 200 íbúa eða fleiri, en í frv. er takmark þetta fært niður í 100 íbúa. Það er gert út frá því sjónarmiði, að því fyrr sem lögð séu drög að skipulagi hvers byggðarlags, því meiri árangurs geti síðar orðið að vænta af skipulagningunni og komizt hjá ýmiss konar óþægindum, sem af því leiðir, ef hafizt er of seint handa um skipulagningu svæðis, sem á að fara að byggja.

Samkvæmt 2. gr. núgildandi laga ber sveitarstjórnum að annast mælingar og kortagerð, en í frv. er lagt til, að skipulagsstjóra verði falið að sjá um allar nauðsynlegar mælingar. Þó er þeim sveitarstjórnum, sem þess óska, heimilt að annast mælingarnar, enda kosti þær þá mælingarnar sjálfar, sbr. 11. gr. frv. Það hefur sýnt sig, að það er erfitt fyrir flest sveitarfélög að annast þessar mælingar sjálf, og því hefur reyndin orðið sú, að teiknistofa skipulagsins hefur að mestu leyti annazt þessi störf allt frá byrjun.

Nýmæli er í 4. kafla frv. um gerð skipulagsuppdrátta, þ. á m. um bifreiðastæði, sem telja má eðlilega afleiðingu af þeirri miklu notkun bifreiða, sem orðin er og stöðugt fer vaxandi. En einmitt þetta atriði, að fyrir því hefur ekki verið séð skv. skipulagslögum, hefur valdið mjög miklum vandkvæðum í ýmsum bæjum landsins vegna bifreiðafjölgunarinnar.

Ákvæði 17. gr. um nýtingarhlutfall, þ.e.a.s. hlutfallið milli samanlagðra gólfflata byggingar og lóðarstærðar eða hlutfallið milli heildarrúmmáls byggingar og lóðarstærðar, er algert nýmæli í íslenzkum lögum, en slíkum ákvæðum er nú beitt víðast hvar í Evrópu við skipulagningu bæja og þykir hafa gefið góða raun.

Ákvæðin um starfssvið skipulagsstjórans í 30. gr. frv. eru nýmæli í lögum. En ákvæði þau, sem hér er lagt til að verði lögfest, eru í samræmi við þær reglur, sem fylgt hefur verið í framkvæmdinni undanfarin ár.

Í 7. kafla frv. eru ákvæði um endurbyggingu eldri hverfa. Hér er um nýmæli að ræða, og er tilgangurinn sá að gera auðveldara um að skipuleggja endurbyggingu gamalla bæjarhverfa. Helztu erfiðleikarnir stafa oftast nær af því, að lóðirnar eru yfirleitt svo litlar, að engin ein þeirra er nægilega stór til þess að byggja á henni einni saman stórhýsi, enda þótt eðlilegt sé talið, að stórhýsi séu byggð á viðkomandi byggingarreit. Það þarf því mjög náið samstarf lóðaeigenda að koma til, til þess að leysa þennan vanda, svo að unnt sé að byggja skynsamlega á reitnum. Aðallega hefur kafli þessi þýðingu í hinum eldri kaupstöðum og alveg sérstaklega í Reykjavík. Það þykir hafa sýnt sig víða erlendis, þar sem reynslan er fengin af endurbyggingu eldri bæjarhluta, þar sem byggja hefur þurft upp á nýtízkulegan hátt, að nauðsynleg hefur verið ný lagasetning, svipuð ákvæðum þessa kafla, til þess að unnt hafi verið að vænta viðunandi árangurs. Í þessa átt hnígur einmitt ákvæði 27. gr. núgildandi l., en ákvæðinu hefur aldrei verið beitt.

Í 8. kaflanum eru ákvæði um forkaupsrétt á fasteignum, sem eru nýmæli í skipulagslögum, en hliðstæð ákvæði er þó að finna í l. nr. 22 frá 23. júní 1932, um forgangsrétt kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum, fasteignum og lóðum, sem að sjó liggja eða nálægt sjó, svo og í l. nr. 40 frá 5. apríl 1940, um forkaupsrétt á ýmsum lóðum og fasteignum, sem sveitarstjórn telur nauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að eignast vegna framtíðarskipulags staðarins. Hliðstæð ákvæði eru sums staðar erlendis og hafa gefizt vel.

Ákvæði eru í 43. gr. frv. þess efnis, að sveitarstjórn skuli vera heimilt, að fengnu samþykki ráðh., að taka eignarnámi allt það ónotað byggingarland, sem skipulagsnefnd ríkisins telur nauðsynlegt vegna eðlilegrar stækkunar viðkomandi staðar. Þetta er nýmæli, sem miðar að því að auðvelda hinum skipulagsskyldu stöðum að eignast sitt ónotaða byggingarhæfa land og geta þannig haft mun meiri hönd í bagga með þróun byggðarinnar en ella, þegar byggingarhæfa landið er í einkaeign ýmissa aðila. Allmargir bæir hér á landi eiga sitt byggingarland að meira eða minna leyti, og hefur það yfirleitt þótt gefast vel. Erlendis, t.d. á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu viða, er þetta mun sjaldgæfara, að mér er tjáð, en þykir þó mjög til fyrirmyndar, þar sem því er til að dreifa, að bæir eða borgir hafi getað gerzt aðaleigendur að því landi, sem þeim er ætlað að byggjast á. Í Noregi voru sett lög mjög hliðstæð þessu árið 1946 og voru síðan gerð nokkru viðtækari árið eftir 1947, og hafa gefizt vel. Einnig er að finna hliðstæð ákvæði í finnskum lögum, eftir því sem skipulagsstjóri upplýsir.

Nýmæli eru í 48. gr. um skyldur lóðareiganda til þess að láta af hendi endurgjaldslaust til sveitarsjóðs land undir nauðsynlegar götur, leikvelli og önnur svæði til almenningsnota. Þessi skylda er takmörkuð við það, að ef meira en einn fjórði hluti landsins er ætlaður undir götur og óbyggð svæði til almennra þarfa, þá skal sveitarsjóður bæta það, sem yfir fer þennan brothluta eignarinnar, eftir mati. Í Danmörku og fleiri löndum Vestur-Evrópu verða eigendur að landi, sem þéttbýli er reist á, sjálfir að kosta gerð gatna, vatnsveitu, skólpveitu, og jafna þeir þá venjulega kostnaði þessum niður á lóðakaupendur, um leið og lóðir eru seldar, eða þá að lóðakaupendurnir mynda sjálfir með sér félag og gera nauðsynlegar götur og veitur. Það verður að teljast eðlilegt, svo sem aðstæður eru hér á landi, að sveitarfélögin hafi forgöngu um nauðsynlega gerð gatna og vatns- og skólpveitna, enda hefur það verið aðalreglan í bæjarfélögum hér á landi fram að þessu.

Ákvæði gr. um það, að fimmtungur lóðarverðs skuli renna í sveitarsjóð, er að nokkru leyti í samræmi við þær reglur, sem settar voru í Reykjavík árið 1919. Þó er hér aðeins um heimild að ræða.

50. gr. frv. er shlj. 4. málsgr. 14. gr. núgildandi laga, en gr. hljóðar svo:

„Til þess að standa straum af kostnaði ríkissjóðs við stjórn skipulagsmála, mannahald, skrifstofukostnað, ferðalög og fleira skal greiða í ríkissjóð 3% af brunamati hverrar nýbyggingar, sem reist er á þeim stöðum, sem skipulagsskyldir eru. Félmrn. setur með reglugerð nánari ákvæði um gjald þetta og hvernig það skuli innheimt.“

Tveir nm., þeir Gunnar Ólafsson og Einar Pétursson, hafa gert þann fyrirvara við þessa gr., að á þeim stöðum, þar sem sveitarstjórn sér sjálf um mælingar og gerð skipulagsuppdrátta, skuli skipulagsgjaldið greiðast í sveitarsjóð.

Heimild er í 51. gr. fyrir sveitarstjórn til þess að gera samþykkt um stofnun sérstaks skipulagssjóðs fyrir sveitarfélagið. Einstaka sveitarfélög, m.a. Rvík, hafa komið sér upp vísi að slíkum sjóði, og er nauðsyn hans alveg tvímælalaus. Með þeirri þróun, sem átt hefur sér stað hin síðari ár, er mun brýnni þörf fyrir fjársterkan sjóð til þess að koma nauðsynlegum skipulagsbreyt. í framkvæmd, heldur en áður hefur verið. Það er því nauðsynlegt að sjá slíkum sjóði fyrir nægjanlegu fjármagni, svo að hann geti gegnt hlutverki sínu.

Erfitt er að áætla hreinar tekjur sjóðsins skv. 53. gr., en hins vegar liggur sá tekjustofn, sem 52. gr. veitir heimild til að nota, nokkurn veginn ljóst fyrir. Vegna hinna stöðugu verðhækkana lóða á hinum síðari árum verður sífellt erfiðara um vik að koma nokkrum verulegum skipulagsbreyt. í framkvæmd í hinum eldri bæjarhlutum. Verðhækkun lóða má að vissu leyti rekja til ýmissa framkvæmda sveitarfélagsins sjálfs, og er því ekki hægt að telja ósanngjarnt, að nokkru af þessari óverðskulduðu verðhækkun sé skilað aftur í sjóð almennings, þ.e.a.s. skipulagssjóðinn.

Ákvæði 11. kafla frv. um lóðaskrá eru nýmæli í íslenzkum lögum. Hins vegar mun Ísland vera eina landið í Evrópu, — það er einnig skv. upplýsingum skipulagsstjóra, — sem ekki hefur fullkomna skrá yfir lóðir og lendur, og leiðir það að sjálfsögðu til margvíslegra óþæginda. Gert er ráð fyrir því, að skrá þessi verði með töluvert einfaldara sniði, en tíðkast víða í öðrum löndum, en samt ætti hún að geta orðið til mjög mikilla bóta frá því, sem nú er.

Með þessu, sem ég nú hef sagt, hef ég gert grein fyrir meginnýmælum frv., en veit, að það eru mörg minni háttar nýmæli auk þessa í frv., og tel, að það komi ekki að sök, þó að ekki sé fylgt úr hlaði þessu frv. með ýtarlegri ræðu. Ég veit, að n. verður að grandskoða þetta mál og leita ráða hjá skipulagsfróðum mönnum um afgreiðslu þess. En ég læt hér staðar numið að sinni um að gera grein fyrir málinu.

En þar sem hér er um að ræða frv., sem snertir einn meginþátt sveitarstjórnarmála, um grundvallaratriði þeirra mála, legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.