24.02.1959
Efri deild: 74. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (1472)

111. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ræða hv. 1. þm. N-M. gefur ekki tilefni til langrar ræðu af minni hálfu. En af því að þetta er 1. umr. og gott er, að sú nefnd, sem með málið fer, heyri athugasemdir og þá svör við þeim, ef þau eru til, vil ég segja nokkur orð.

Hv. 1. þm. N-M. er í aðalatriðum samþykkur frv., en í einstökum atriðum telur hann það varhugavert, og að sumu leyti er hann mótfallinn ákvæðum í frv.

Hann leggur mikla áherzlu á það, að ekki sé rétt að stofna nýjan banka, en í raun og veru sé verið að gera það með þessu frv., verði það lögleitt, og hann byggir aðallega andstöðu sína gegn frv. á því, að sveitarfélögin séu reynd að því gagnvart bjargráðasjóði að standa ekki fullkomlega í skilum. Nú er á það að líta, að þau lán, sem sveitarfélögin hafa fengið hingað til úr bjargráðasjóði, hafa verið svonefnd hallærislán eða lán til þess að afstýra hallæri, og þau lán eru í eðli sínu þannig, að það er ekki nema eðlilegt, að það geti komið fyrir, að í undandrætti lendi að greiða þau, þ.e.a.s., að sveitarfélögin láti sitja fyrir að greiða annað, sem meira kallar að, því að sjóðurinn er til þess stofnaður einmitt að veita stuðning þeim, sem stendur höllum fæti, og hrinda honum ekki, þó að vanefndir kunni að verða.

Nú er ætlazt til, að tekinn sé upp annar þáttur í starfsemi sjóðsins, þó að hinum fyrri verði haldið áfram og gera megi ráð fyrir að sagan endurtaki sig um viðskipti sveitarfélaganna að því er þann þátt snertir, og þessi nýi þáttur á að verða sá, að bjargráðasjóður veiti sveitarfélögunum lán, skyndilán til stutts tíma vegna rekstrar þeirra, og þá er líka skýrt fram tekið í frv., að þessi lán á að tryggja örugglega, og engin ástæða er til þess, að það sé hættulegra fyrir þennan sjóð, en yfirleitt aðrar lánsstofnanir í landinu, að hafa sveitarfélögin fyrir viðskiptamenn um slíka hluti.

Ég vil ekki orða þetta eins og hann segir, hv. 1. þm. N-M., að það eigi að stofna nýjan banka. Miklu frekar mætti tala um, að þarna væri komið upp sparifjárdeild við bjargráðasjóðinn af hálfu sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögunum er auðvelt oft og tíðum að tryggja þau lán, sem einmitt er þarna hugsað að þau fái, t.d. rekstrarlán, sem þau taka, meðan tekjur þeirra koma ekki inn, og geta tryggt með tekjunum. Í öðru lagi liggur þeim oft geysilega á að fá lán til framkvæmda, sem ríkið annars greiðir, en greiðir ekki jafnhratt og útgjöldin falla á. Þar á ég við t.d. hafnarframkvæmdir, skólabyggingar og þess háttar.

Ég held þess vegna, að hv. 1. þm. N-M. líti of dökkum augum á viðskipti sveitarfélaganna og taki ekki nægilegt tillit til þess, hve þeim er mikil þörf á að fá bætta aðstöðu til þess að fá bráðabirgðalán.

Þá minntist hv. þm. á, að iðgjöldin af hálfu sveitarfélaganna hefðu jafnan verið greidd úr sveitarsjóðum, og vill, að það verði skýrt tekið fram í hinum nýju lögum, að svo eigi að vera áfram. Í þessu er ég honum sammála, og ég geng út frá því, að þeir, sem hafa samið þetta frv., hafi líka ætlazt til þess, enda er það ákaflega eðlilegt, að þetta sé ekki innheimt beint frá aðilum, vegna þess að margir þeir aðilar, sem þó er miðað við, eru engir gjaldendur.

Þá minntist hv. þm. á það, að engin lagaheimild hefði verið fyrir því að taka bjargráðasjóðinn út úr félmrn. og fela rekstur hans sérstökum forstjóra. Ég er ekki mjög kunnugur þessum málum, en í sögu sjóðsins, sem ég vitnaði í í fyrri ræðu minni og er skráð í tímaritinu Sveitarstjórnarmál, segir: „Hinn 2. nóv. 1951 var bjargráðasjóði sett reglugerð samkv. heimild í lögum sjóðsins, og 8. febr. 1952 gerði stjórn sjóðsins till. til ráðh. um Að skilja sjóðinn frá félmrn. og setja honum sérstakan forstjóra. Með bréfi félmrh., dags. 29. febr. 1952, var skipaður forstjóri bjargráðasjóðs frá 1. ágúst 1952 að telja. Breytingin kom þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. febr. 1953.“

Það er þá samkv. reglugerð, sem sett hefur verið í samræmi við l. eða heimildir í l. til að setja reglugerð, sem þessi breyt. hefur verið gerð á rekstri sjóðsins. Kostnaðurinn við rekstur sjóðsins er náttúrlega hærri, en hann áður var, og skal ég ekkert um það dæma, hvort hann gæti minni verið. En það er eðlilegt, að hann hafi vaxið með stækkuðu starfssviði sjóðsins og meiri rekstri hans, sem hefur orðið síðan. Sem sé, þegar þessi breyt. var gerð, þá mun sjóðurinn hafa verið rúmlega 4 millj., nú er hann orðinn fullar 20 millj., eins og kom fram í þeim tölum, sem ég las upp úr reikningum hans áðan.

Þá minntist hv. 1. þm. N-M. á, að mjög hæpið væri að veita lán eða styrki vegna atburða, sem hægt er að vátryggja fyrir, og gerði ráð fyrir því, að í frv. væru ákvæði, sem gengju út frá því, að slík lán væru veitt. En einmitt í frv. er víkkað starfssvið sjóðsins að því er þetta snertir. En ákvæðið, sem þetta felst í, í frv., er nú að vissu leyti þröngt, og þó að það sé ekki tekið þar fram, að ekki komi til greina þeir atburðir, sem hægt er að vátryggja fyrir, þá er tekið fram, að það skuli ekki verða veitt lán úr bjargráðasjóði eða styrkur, ef tjónið fæst bætt á annan hátt. Liðurinn í gr. hljóðar sem sé þannig:

„Heimilt er að veita styrk úr sjóðnum til einstaklinga og sveitarfélaga, sem verða fyrir tjóni af náttúruvöldum, ef tjónið fæst eigi bætt að neinu leyti á annan veg.“ Ég held þess vegna, að þarna sé ekki í raun og veru lengra gengið, en hv. þm. telur að megi eiga sér stað.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Það gefst tækifæri til að tala um einstök atriði, þegar málið verður til 2. umr. hér í deildinni.