29.04.1959
Efri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (1474)

111. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) gerðumst flm. að því frv., sem hér liggur fyrir, vegna beiðni stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Að öðru leyti eigum við ekki sérstakan hlut að máli.

Hv. heilbr.- og félmn, athugaði frv. og sendi það þremur aðilum til umsagnar, Fiskifélagi Íslands, sem ekki hefur svarað, og stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem lagði frv. fyrir búnaðarþing, er stóð yfir um það leyti, sem frv. barst stjórninni. Búnaðarþingið lét n. fjalla um málið, og n. komst að þeirri niðurstöðu, að frv. fæli í sér svo gagngerða breyt. á stjórn og starfsháttum sjóðsins, að ekki sé hægt að mæla með samþykkt þess, nema á því verði gerðar allmiklar breyt. Stjórn Búnaðarfélagsins sendi heilbr.- og félmn. frv. aftur með þessari umsögn og gerði hana að sinni umsögn.

Þá sendum við stjórn bjargráðasjóðs, svo sem sjálfsagt var, frv., og stjórnin svaraði á þessa leið:

„Stjórnin gefur ekki mælt með samþykkt þessa frv., en vill þó beina því til ríkisstj., að hún hlutist til um endurskoðun núgildandi laga um Bjargráðasjóð Íslands. Stjórnin álítur rétt, að við þá endurskoðun verði ekki stefnt að grundvallarbreytingu á starfsháttum sjóðsins.“

Frv. er búið að vera alllengi á leiðinni, síðan það kom til n., aðallega vegna þess, að umsagnir drógust og beðið var eftir þeirri umsögn, sem enn hefur ekki komið. Það er því orðið svo áliðið þings, að svo stór lagabálkur sem þessi, sem sýnt er að veldur ágreiningi, hefur engin skilyrði til þess að verða afgr. á Alþingi ]þessu héðan af, og þess vegna varð það niðurstaða í heilbr.- og félmn. að fara að ráðum stjórnar sjóðsins, en hún er auðvitað aðili í þessu máli, sem vert er að taka mikið tillit til, og leggja það til, eins og hér er gert í nál., að frv. verði vísað til ríkisstj. með áskorun um, að hún láti endurskoða lög bjargráðasjóðsins og þá um leið athuga frv., en d. taki ekki að öðru leyti afstöðu til málsins nú.

Við flm., sem vorum að gera stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga greiða með því að flytja frv., getum, eins og komið er, vel fellt okkur við þessa niðurstöðu og mælum sem nm. með henni. Öll heilbr.- og félmn. stendur að þessari till. um, að frv. verði vísað til ríkisstj.