11.05.1959
Neðri deild: 124. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (1482)

164. mál, Siglufjarðarvegur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fjhn. hefur mjög skilmerkilega gert grein fyrir nauðsyn þeirrar vegaframkvæmdar, sem hér er um að ræða, og það er ekki ætlun mín að fara að gera það mál frekar að umtalsefni, því að um það getur naumast nokkur ágreiningur verið, að þetta sé mikilvægt hagsmunamál, ekki aðeins fyrir Siglufjörð, heldur marga aðra aðila. En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er sú, að þeirri áskorun hefur verið beint til okkar þm. Eyf., eftir að þetta mál kom hér fram, frá bæjarstj. Ólafsfjarðar, að leitað yrði eftir því að fá sams konar lántökuheimild til þess að ljúka svokölluðum Múlavegi. Það má um þann veg svipað segja og um Siglufjarðarveg eða Strákaveg, að með honum er ætlunin að tengja við þjóðvegakerfi byggðarlag, sem er veglaust mjög mikinn hluta ársins eða álíka langan tíma á ári hverju og Siglufjörður. Þessi kaupstaður er tengdur við akvegakerfið með svokölluðum Lágheiðarvegi, sem er ófær lengstan hluta ársins. Hins vegar er ljóst, að ef það tækist að leggja þennan Múlaveg fyrir Ólafsfjarðarmúla, þá mundi geta á þessu orðið veruleg breyting, og eigi síður er það atriði, sem veigamikið er í þessu sambandi, að með lagningu þessa vegar mundu batna mjög mikið samgöngur milli Ólafsfjarðar og raunar einnig Siglufjarðar og útsveita Skagafjarðar að austan við Eyjafjörð og Akureyri. Með lagningu þessa vegar mundi vegalengdin til Akureyrar frá þessum stöðum eða frá Ólafsfirði styttast um nærfellt 100 km, og gefur auga leið, hversu geysilega þýðingu slík stytting vegar hefði fyrir allar samgöngur milli þessara byggðarlaga. Þá mundi frá Siglufirði og Ólafsfirði verða samband um þennan veg við Akureyri og sveitirnar þar fyrir austan og með þeim árangri, eins og ég gat um, að í senn yrði þarna um auðveldari veg að fara, en þær vegasamgöngur eru, sem þessir staðir nú búa við, og enn fremur, að með þessu yrðu þessar samgöngur auðveldaðar mjög verulega vegna þeirrar geysimiklu styttingar vegarins, sem með þessu yrði. Það er því ljóst mál, að lagning Múlavegar er ekki síður, en lagning Siglufjarðarvegar ytri, mikið hagsmunamál fyrir öll þessi byggðarlög, sem þarna eiga hlut að máli, og því ekki óeðlilegt að líta á þennan veg sem nokkurs konar systurveg Strákavegar og greiða fyrir honum með nokkuð svipuðum hætti.

Ég skal játa, að það er nokkuð sérstætt með Siglufjarðarveg ytri, að það þarf að gera þar jarðgöng, og að þeim framkvæmdum verður að vera hægt að vinna með samfelldu átaki. Hins vegar er þess að gæta, að þar er einnig um að ræða mun dýrari vegaframkvæmd, þannig að í sambandi við Múlaveg væri hægt að leysa þann vanda með miklu lægri fjárhæð, en hér er um að ræða. Það var gerð áætlun um það fyrir einum þremur árum, hvað Múlavegur mundi kosta, og var þá áætlað, að hann mundi kosta um 3.5–4 millj. kr. Sú áætlun hefur vitanlega hækkað allmikið. En þess ber þó einnig að gæta, að síðan hún var gerð, hefur allmiklu fé verið varið til þessa vegar, og það ætti því að mega gera ráð fyrir því, að með t.d. 3.5–4 millj. kr. ætti að vera hægt að ljúka þessum vegi.

Ástæðan til þess, að ég stend hér upp í sambandi við afgreiðslu þessa máls, er sú, að ég vildi mega koma því á framfæri við hæstv. ríkisstj., að um leið og hún athugar þetta mál, sem hér er til meðferðar og lagt er til að til hennar sé formlega vísað, þá íhugi hún einnig í samráði við bæjarstj. Ólafsfjarðar og væntanlega þá einnig sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, hvort ekki mundi tiltækilegt að veita sams konar fyrirgreiðslu til þess að ljúka Múlavegi. Það er að sjálfsögðu ekki hægt formlega að afgreiða málið hér með, eins og sakir standa, og taka afstöðu til þeirrar málaleitunar minnar hér í þinginu með því að vísa henni til ríkisstj., eins og gert er með þessu frv. En ég vil engu að síður mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. sé ljúft að íhuga þessi tilmæli bæjarstj. Ólafsfjarðar um leið og athuga, hvort niðurstaðan mundi ekki verða sú, að skynsamlegt væri einnig fyrir þau byggðarlög, sem vikið er að í þessu frv., að það vandamál yrði leyst samtímis þessu vandamáli, sem hér er um að ræða og eins og ég sagði í upphafi máls míns er tvímælalaust mjög mikilvægt að hrundið verði í framkvæmd.