23.02.1959
Neðri deild: 80. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (1487)

109. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Árið 1885 kom Björn Bjarnarson, sem síðar varð sýslumaður og alþingismaður Dalamanna, því til leiðar, að gefin voru hingað til lands 38 málverk. Voru 29 þeirra eftir danska málara, 6 eftir norska, 1 eftir Svía, 1 eftir Austurríkismann og 1 eftir Þjóðverja. Meðal gefenda var Kristján konungur níundi, en að öðru leyti voru listamennirnir sjálfir gefendur. Voru málverkin send landshöfðingja, en hann kom þeim fyrir hér í alþingishúsinu. Varð þessi gjöf vísir að þeirri stofnun, sem við nú nefnum listasafn ríkisins.

Tíu árum síðar barst Íslendingum önnur málverkagjöf, einnig frá útlöndum. Edvald J. Johnsen læknir ánafnaði safninu eftir sinn dag 29 myndir, og komu þær til landsins 1895. Ári síðar bættust enn í safnið 2 málverk, einnig útlend.

Ditlev Thomsen ræðismaður gaf safninu fyrstu myndina, sem það eignaðist eftir Íslending. Það var höggmyndin Útilegumaður eftir Einar Jónsson frá Galtafelli. Var það árið 1902, að Thomsen ræðismaður gaf þessa mynd.

Níu árum síðar eignaðist safnið fyrsta olíumálverkið eftir íslenzkan mann. Var það myndin Áning eftir Þórarin B. Þorláksson, og gáfu hana nokkrir menn í Reykjavik.

Hinn 16. sept. 1915 fólu forsetar Alþingis þjóðminjaverði umsjón, niðurskipun og skrásetningu allra málverka og listaverka þeirra, sem Alþingi átti eða landið. Var þetta gert samkv. tillögu þjóðminjavarðar til stjórnarráðsins. Kváðust alþingisforsetar ætlast til, að safn þetta yrði framvegis sérstök deild í þjóðminjasafni landsins og ekki yrði keypt neitt af listaverkum til þessa safns nema í samráði við þjóðminjavörð. Jafnframt veitti Alþingi fé til aðstoðar við umsjón með sýningu listasafnsins á næstu tveim árum.

24. jan. 1916 ákvað stjórnarráðið með bréfi, að listasafn Íslands, þ.e. málverkasafn landsins og önnur listaverk, sem landið á, skuli vera undir umsjón þjóðminjavarðar og vera ein deild þjóðminjasafnsins. Segir enn fremur í stjórnarráðsbréfinu, að öll listaverk, sem landið kunni síðar að eignast, skuli jafnóðum lögð til listasafnsins. Alþingi veitti síðan nokkurt fé til kaupa á listaverkum. Í ársbyrjun 1916 var 91 málverk í málverkasafninu, en 7 höggmyndir í höggmyndasafninu.

Ýmsar aðrar góðar gjafir en þær, sem ég hef nefnt, hafa borizt safninu. Guðjón Sigurðsson úrsmiður gaf því 1915, 5 íslenzk málverk og 2 erlend olíumálverk. Helgi prestur Sigurðsson á Melum hafði ánafnað því 43 myndir eftir sig sjálfan, 3 olíumálverk og mynd þá, er hann gerði af Jónasi Hallgrímssyni látnum, og barst safninu sú gjöf árið 1919. Árið 1947 gaf Christian Gierlöff rithöfundur í Osló safninu 15 svartlistarmyndir eftir Edvard Munch. Nokkrir menn í Reykjavík gáfu á sama ári 8 málverk eftir danska málarann Carl V. Meyer. Árið 1951 afhenti frú Kristín Andrésdóttir, ekkja Markúsar Ívarssonar forstjóra, og dætur hennar safninu 56 málverk að gjöf, öll eftir íslenzka listamenn. Sama ár gaf Magnús Grönvold yfirkennari í Osló 27 blýantsteikningar eftir bróður sinn, Bent Grönvold, og síðar sama ár gaf Ragnar Moltzau útgerðarstjóri í Osló safninu 51 svartlistarmynd eftir norska listamenn. Árið 1953 gaf L. Foght forstjóri í Kaupmannahöfn safninu 11 olíumálverk og 24 svartlistarmyndir, allar eftir danska listamenn. Félag vina þjóðminjasafnsins hefur einnig gefið safninu erlend listaverk. Síðast, en ekki sízt, er að geta stærstu og dýrmætustu gjafarinnar, sem safninu hefur borizt. Árið 1952 ákvað Ásgrímur Jónsson listmálari, að ríkissjóður skyldi eftir sinn dag eignast öll málverk sín og húseign sína við Bergstaðastræti í Reykjavík. Í gjafabréfinu kveður hann jafnframt svo á, að málverkin skuli varðveitt í húsi hans, þar til listasafn hafi verið byggt, þar sem myndunum sé tryggt svo mikið rúm, að gott yfirlit sé unnt að fá um safn hans.

Árið 1928 varð breyting á stöðu safnsins. Þá voru sett lög um menntamálaráð og menningarsjóð, og var í þeim ákveðið, að listasafnið skyldi vera undir stjórn menntamálaráðs og fé varið úr menningarsjóði til listaverkakaupa. Þessi lagasetning markar tímamót í sögu safnsins. Síðan, eða frá 1928 til 1957, að háðum árum meðtöldum, hefur verið varið úr menningarsjóði til kaupa á listaverkum 1.3 millj. kr. Það var hins vegar ekki fyrr en 1951, að listasafnið fékk til umráða eigið húsnæði, þannig að unnt væri að hafa listaverk til sýnis, en á því ári fékk það til sinna þarfa nokkurn hluta af þjóðminjasafnsbyggingunni. Áður höfðu málverkin verið dreifð um ýmsar opinberar byggingar og skóla, en nú hafa flest þeirra verið flutt í safnið. Síðan safnið var opnað almenningi, hefur aðsókn að því verið mikil, frá 6 til 9 þús. gestir á ári.

Þegar lögin um menningarsjóð og menntamálaráð voru endurskoðuð vorið 1957, þótti rétt að halda þeirri skipan, sem tekin hafði verið upp 1928, að listasafnið væri undir stjórn menntamálaráðs og fé varið úr menningarsjóði til listaverkakaupa, þar til sérstök lög verði sett um safnið. Hins vegar er listaverkasafnið nú þegar orðið svo mikil og merk stofnun, að fyllilega tímabært er orðið að setja um það sérstaka löggjöf. Þess vegna skipaði menntmrn, í ársbyrjun 1957 n. til þess að semja frv. til laga um listasafn, og áttu sæti í n. Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, sem var formaður hennar, Björn Th. Björnsson listfræðingur, Gunnlaugur Scheving listmálari, dr. Gunnlaugur Þórðarson stjórnarráðsfulltrúi og frú Selma Jónsdóttir, umsjónarmaður safnsins.

Frv. það, sem n. samdi og sendi rn., var síðan borið undir Bandalag íslenzkra listamanna, Félag íslenzkra myndlistarmanna, félagið Óháðir listamenn, Nýja myndlistarfélagið, þjóðminjavörð og menntamálaráð Íslands. Fylgja umsagnir allra þessara aðila frv. sem fskj., og fjölyrði ég því ekki um þær.

Þetta frv., sem hér er flutt, er í öllum aðalatriðum shlj. því frv., sem n. samdi og meiri hluti hennar stóð að. Þó hefur rn. að höfðu samráði við n. tekið til greina nokkrar ábendingar Félags íslenzkra myndlistarmanna, sem fjallaði um frv. fyrir hönd Bandalags íslenzkra listamanna, og nokkrar athugasemdir þjóðminjavarðar. Skal ég fara fáum orðum um helztu ákvæði frv.

Menntmrn. er ætlað að fara með yfirstjórn safnsins, en stjórn þess skal að öðru leyti vera í höndum safnráðs, sem skipað sé fimm mönnum, og forstöðumanns. Í frv. eru safninu tryggðar 500 þús. kr. á ári til listaverkakaupa af tekjum menningarsjóðs. Síðan 1950 hefur menntamálaráð varið rúmum 100 þús. kr. á ári að meðaltali og síðustu fjögur árin 150 þús. kr. til kaupa á listaverkum. En með hliðsjón af því, að tekjur menningarsjóðs voru nær fimmfaldaðar með hinni nýju löggjöf um menntamálaráð og menningarsjóð frá 1957, virðist ekki óeðlilegt að ákveða 500 þús. kr. sem lágmarksupphæð til listaverkakaupa á ári.

Í frv. eru ákvæði um verkefni safnsins, og skal hlutverk þess vera að afla svo fullkomins safns íslenzkrar myndlistar sem unnt er, varðveita það og sýna, að afla viðurkenndra erlendra listaverka, og skal verja í því skyni allt að 10% af því fé, sem safnið hefur fengið til listaverkakaupa, og annast fræðslustarfsemi um myndlist, láta gera kvikmyndir um verk hinna fremstu íslenzku myndlistarmanna, ævi þeirra og starfsháttu, að afla heimildar um íslenzka myndlist að fornu og nýju, efna til farandsýninga um landið og veita erlendum söfnum og öðrum opinberum aðilum upplýsingar um íslenzka myndlist.

Hlutverk safnráðs er að annast um kaup á listaverkum til safnsins, ákveða, hvort veita skuli viðtöku gjöfum, er kunna að bjóðast, taka ákvörðun um sérsýningar, er safnið kann að gangast fyrir, og önnur mál, er minnst tveir safnráðsmenn æskja að þar séu rædd. Hlutverk forstöðumanns er að annast stjórn safnsins að öðru leyti.

Þau ákvæði frv., sem mönnum fyrst og fremst sýndist nokkuð sitt hvað um við undirbúning frv. og raunar er eðlilegt að menn greini nokkuð á um, eru ákvæðin um skipun safnráðs, en safnráðinu er einmitt ætlað að annast kaup listaverka til safnsins. Ákvæði frv. um þetta efni eru þau, sem meiri hl. n., er undirbjó frv., gerði tillögur um. Öll var nefndin sammála um, að eðlilegt væri að hafa safnráð, það annaðist kaup listaverkanna og í því ráði ættu sæti fulltrúar frá listamönnum. Í frv. er gert ráð fyrir því, að fimm menn eigi sæti í safnráðinu. Forstöðumaður safnsins skal eiga þar sæti samkvæmt stöðu sinni og vera jafnframt formaður ráðsins. Þá eiga íslenzkir myndlistarmenn, sem eru eða hafa verið félagar í einhverju félagi myndlistarmanna, að kjósa úr sínum hópi þrjá menn í safnráðið til fjögurra ára í senn, tvo listmálara og einn myndhöggvara, og segir í frv., að æskilegt sé, að listmálararnir séu fulltrúar mismunandi listastefna. Fimmti maðurinn í safnráðinu skal tilnefndur af heimspekideild háskólans, þangað til kennsla í listsögu verður hafin í háskólanum, en þá skal kennarinn í þeirri grein eiga sæti í safnráðinu. Forstöðumaður safnsins er þó með sérstökum hætti gerður áhrifamestur í safnráðinu. Ef hann er andvígur ákvörðun, er hún ekki gild, nema því aðeins að allir hinir fjórir ráðsmennirnir greiði henni atkvæði. Hann hefur þannig neitunarvald gagnvart ákvörðun allra fjögurra samstarfsmanna sinna í ráðinu. Með þessu móti eru forstöðumanni safnsins tryggð meiri ítök um kaup listaverka til þess, en hinum ráðsmönnunum, en hann er hins vegar að sjálfsögðu ekki einráður. Um þetta atriði var nefndin, sem undirbjó frv., sammála. Hins vegar var ágreiningur í n. um hitt, hvernig velja skyldi fimmta fulltrúann í ráðið. Meiri hlutinn, Birgir Thorlacius, Björn Th. Björnsson og Selma Jónsdóttir, lagði til, að sú skipan yrði á höfð, sem frv. gerir ráð fyrir, að heimspekideild háskólans tilnefndi manninn, þangað til kennsla í listsögu yrði tekin upp, en þá tæki listsögukennarinn sæti í ráðinu. Minni hlutinn, þeir Gunnlaugur Scheving og dr. Gunnlaugur Þórðarson, lagði hins vegar til, að menntmrh. skipaði fimmta manninn í safnráðið eftir hverjar alþingiskosningar. Töldu þeir, að á þann hátt yrði áhugamönnum um myndlist bezt tryggður fulltrúi í safnráðinu og ráðuneytinu veitt beinni hlutdeild um stjórn safnsins. Undir þessa skoðun var tekið í umsögn félagsins Óháðir listamenn.

Mér er ljóst, að ákvæðin um skipun safnráðsins eru viðkvæmt og vandasamt mál, þar eð ávallt er hætt við skiptum skoðunum og jafnvel deilum um kaup listaverka til listasafns. Ég vil ekki halda því fram, að þessi ákvæði séu þau skynsamlegustu eða heppilegustu, sem hugsazt geti, og er reiðubúinn til þess að ræða og hugleiða aðrar hugmyndir og brtt., sem fram kunna að koma í nefnd þeirri, sem fær málið til meðferðar.

Í grg. frv. er því lýst, hver skipun er höfð á stjórn listasafna á hinum Norðurlöndunum. Í tveimur þeirra, þ. e. í Danmörku og Noregi, er um að ræða safnráð, sem skipuð eru með ekki ólíkum hætti og þeim, sem hér er gert ráð fyrir. Danska listasafninu er stjórnað af fjögurra manna safnráði. Safnstjórinn á þar sæti og auk þess þrír menn aðrir, einn skipaður af viðkomandi ráðuneyti, og hefur það löngum verið prófessorinn í listasögu við háskólann, og tveir aðrir, málari og myndhöggvari, kosnir af dönskum listamönnum. Norska listasafninu er stjórnað af níu manna safnráði, sem er sett saman af þrem þriggja manna hópum. Hinn fyrsti er skipaður þrem listamönnum, tveim málurum og einum myndhöggvara, úr stjórn félags norskra myndlistarmanna, annar hópurinn tveir málarar og einn myndhöggvari, er valinn meðal þeirra, sem eiga verk í safninu, og þriðji hópurinn er þannig skipaður, að þar er einn listfræðingur, skipaður af menntamálaráðuneytinu, einn fornfræðingur, einnig skipaður af menntamálaráðuneytinu, og hinn þriðji, sem kjörinn er af félaginu Vinir listasafnsins. Safninu í Stokkhólmi er stjórnað af aðalsafnstjóra og forstöðumönnum deilda safnsins, sem eru fjórar. Safnið í Finnlandi er ekki ríkissafn, heldur er tengt finnska listaháskólanum og stjórnað af honum. Skólaráð hans starfar sem safnráð fyrir það safn.

Af þessu má sjá, að yfirleitt er um að ræða sérstök ráð, sem hafa með höndum yfirstjórn safnanna, þ.e. kaup á listaverkum til þeirra, og bæði í Danmörku og Noregi eiga fulltrúar listamanna sæti í þessum safnráðum, svo sem hér er gert ráð fyrir.

Ef þetta frv. verður að lögum, verða þessar meginbreytingar varðandi safnið: 1) Safninu verða tryggðar 500 þús. kr. lágmarkstekjur til listaverkakaupa. 2) Sú breyting verður á stjórn safnsins, að í stað þess að menntamálaráð fari með yfirstjórn þess og annist kaup á listaverkum, komi safnráð, sem skipað sé sumpart fulltrúum hins opinbera og sumpart fulltrúum listamanna. 3) Skipaður verður forstöðumaður fyrir safnið, en þó ekki fyrr en fé yrði veitt í því skyni á fjárlögum.

Í frv. eru því miður ekki ákvæði, er tryggi framgang þess hagsmunamáls, sem nú er safninu brýnast, en það er bygging húss yfir safnið. Um það segir ekki annað í frv. en að reisa skuli sérstakt hús fyrir listasafnið, þegar nægilegt fé sé veitt til þess í fjárlögum eða á annan hátt. Það má þó ljóst vera, að þau húsakynni, sem safnið nú býr við, eru ekki til frambúðar. Íslenzk myndlist er orðin svo sterkur þáttur í íslenzku menningarlífi, að það getur ekki dregizt og má ekki dragast lengi úr þessu, að henni sé reist veglegt hús, þar sem þjóðin eigi þess kost að kynnast verkum myndlistarmanna sinna, lífs og liðinna.

Ég hef hugleitt það vandlega, með hverjum hætti líklegast væri, að hægt yrði að afla fjár til byggingar listasafns. Að gefnu tilefni tel ég rétt, að það komi fram hér, að það hefur verið skoðun mín, að eðlilegt væri, að nokkur hluti af hagnaði þeirra stórhappdrætta, sem hér eru rekin samkvæmt sérstöku leyfi í löggjöf frá Alþingi, gengi í sjóð, er síðar yrði varið til byggingar listasafns. Svo sem kunnugt er, hafa þrír aðilar eins konar sérleyfi frá Alþingi til rekstrar happdrætta, og mun hagnaðurinn af rekstri þeirra samtals á síðustu árum hafa numið 6–8 millj. kr. árlega. Einn þessara aðila, Háskóli Íslands, hefur frá upphafi greitt í ríkissjóð sem eins konar gjald fyrir happdrættisleyfið 1/5 hluta af hagnaði sínum, og hefur þessu fé verið varið til vísindastarfsemi. Hinir tveir aðilarnir, þ.e. Samband íslenzkra berklasjúklinga og Dvalarheimili aldraðra sjómanna, hafa hins vegar ekkert gjald greitt fyrir sín sérleyfi. Um það er enginn ágreiningur, að báðir hafa notað tekjurnar af happdrættum sínum í góðu skyni og leysa með því mjög brýn verkefni. Á hinn bóginn er á það að líta, að tekjurnar af þessum happdrættum öllum hafa reynzt mun meiri, en menn við stofnun þeirra munu hafa gert ráð fyrir. Er þess vegna ekki óeðlilegt, að mönnum detti í hug, að þessar happdrættistekjur geti staðið undir framkvæmd fleiri góðra mála, en þær gera nú. Allar tekjur af happdrætti háskólans renna í raun og veru til vísindastarfsemi, þar eð 4/5 ber að verja til þess að reisa byggingar fyrir háskólann og 1/5 er varið til rekstrar atvinnudeildarinnar, sem er rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna. Hinir tveir aðilarnir verja öllum sínum tekjum til mannúðarmála, en þær munu samtals nálægt því tvöfalt meiri, en tekjur háskólahappdrættisins. Virðist ekki óeðlilegt, að listir þjóðarinnar fengju einhverja hlutdeild í þessum happdrættishagnaði. Þetta mál var þegar rætt í fyrrverandi ríkisstj., og hefur, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, nokkuð verið rætt milli forustumanna flokkanna hér á hinu háa Alþingi. Um það hefur enn ekki orðið samkomulag milli þeirra. Ég vona, að þeim viðræðum verði haldið áfram og þess verði ekki langt að biða, að nægilega öflug samstaða náist um að tryggja, að því verkefni, sem ég tel nú brýnast í listamálum þjóðarinnar, sem sé byggingu húss yfir listasafn ríkisins, verði sinnt, ef ekki með þeim hætti, sem ég hef hér lauslega drepið á, þá með öðrum hætti.

Herra forseti. Ég leyfi mér síðan að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.