12.03.1959
Neðri deild: 92. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (1491)

127. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Yfirlæknirinn við Kleppsspítalann, dr. Helgi Tómasson, féll frá í ágústmánuði s.l., og losnaði þá yfirlæknisstaðan við spítalann. Í sama mánuði gerði landlæknir þá till. til heilbrmrn., að skipulagsbreyting yrði gerð á yfirlæknisstöðunni við Kleppsspítalann með þeim hætti, að stofnaður yrði kennarastóll við Háskóla Íslands í geðveikrafræðum og yfirlæknisembættið við Kleppsspítalann tengt þeim kennarastól með sama hætti og yfirlæknisembættið við landsspítalann.

Hinn 21. ágúst s.l. ritaði landlæknir læknadeild háskólans um þetta mál og spurðist fyrir um afstöðu læknadeildarinnar til þess. Er meginhluti þessa bréfs landlæknis til háskólans prentaður í aths. með því frv., sem hér liggur nú fyrir, og sé ég því ekki ástæðu til þess að endurtaka fyrir hv. dm. þau rök, sem landlæknir taldi liggja til þessarar skipulagsbreytingar, þar eð þeirra er getið í grg.

Læknadeild háskólans svaraði bréfi landlæknis 30. ágúst með svo hljóðandi bréfi, sem mig langar að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Læknadeildin hefur rætt ýtarlega bréf yðar, herra landlæknir, dags. 21. þ.m., um yfirlæknisstöðuna við geðveikrahælið á Kleppi. Deildin er sammála yður um það, að gera verður sérstaklega miklar kröfur til þess manns, sem skipaður verður í þá stöðu. Hún telur og háskólanum mikla nauðsyn á kennarastóli í geðsjúkdómum. Að vísu telur deildin eðlilegt, að stofnað yrði á undan prófessorsembætti í kvensjúkdómum og fæðingarfræði. En þar sem yfirlæknisstaðan á Kleppi er nú laus, þykir rétt að fara þess á leit, að stofnað verði prófessorsembætti í geðsjúkdómum, enda verði frestað að skipa yfirlækni á Kleppi, þangað til því máli hefur verið ráðið til lykta. Heitir deildin eindregnum stuðningi sínum til þess, að embætti þetta fáist lögfest.

Snorri Hallgrímsson, forseti læknadeildar.“ Landlæknir sneri sér einnig til Læknafélags

Íslands og spurðist fyrir um afstöðu þess til þessa máls. Læknafélagið svaraði með bréfi 18. sept. s.l., og það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Bréf yðar, dags. 11. sept. 1958, ásamt bréfi yðar til læknadeildar háskólans og svarbréfi læknadeildar háskólans, dags. 30. ágúst, viðvíkjandi því, að yfirlæknir við Kleppsspítala verði jafnframt prófessor í geðsjúkdómum við Háskóla Íslands. Læknafélag Íslands telur mjög æskilegt, að stofnað verði prófessorsembætti í geð- og taugasjúkdómum og gegni prófessorinn jafnframt yfirlæknisstörfum við Kleppsspítalann.“

Fyrrv. heilbrmrh. var hins vegar ekki reiðubúinn til þess að taka málið upp í þessu formi eða samkv. þessum till., og var embættið því auglýst laust til umsóknar frá 1. okt. s.l. með umsóknarfresti til 1. jan. s.l. Embættið var hins vegar ekki veitt að loknum umsóknarfresti, heldur fór fram endurathugun á málinu í heilbrmrn. eftir stjórnarskiptin, sem urðu fyrir áramót. Niðurstaða þeirrar athugunar varð sú, að heilbrmrn. ritaði menntmrn. svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem menntmrh. er kunnugt, varð staða yfirlæknis á Kleppi laus í ágústbyrjun s.l. við fráfall dr. Helga Tómassonar. Var yfirlæknisstaðan auglýst laus til umsóknar hinn 1. okt. s.l. með umsóknarfresti til 1. jan. s.l. Landlæknir hafði gert tillögu um, að athugaðir yrðu möguleikar á að fá gerða skipulagsbreytingu á yfirlæknisstöðunni, áður en henni yrði ráðstafað til frambúðar, á þann veg, að stofnað yrði við háskólann prófessorsembætti í geðveikrafræðum, en því fylgdi jafnframt yfirlæknisstaðan við Kleppsspítalann. Er um þetta efni vísað til upplýsinga í bréfi landlæknis til menntmrn., dags. 3. okt. s.l., ásamt þar tilvitnuðum bréfum. Þetta ráðuneyti hefur átt frekari viðræður um þetta málefni við landlækni og hefur nú fallizt á till. hans um, að meðferð þess verði beint inn á þá braut, er að ofan getur. Er þess því óskað, að menntmrn. taki við málefni þessu til frekari meðferðar á þeim grundvelli.“

Í framhaldi af þessu og í samræmi við gildandi lög um Háskóla Íslands lét menntmrn. semja frv. til breyt. á háskólalögunum í samræmi við þessar fyrirætlanir og sendi það Háskóla Íslands til umsagnar, og hafa komið endurtekin meðmæli frá læknadeild og háskólaráði með málinu í því formi, sem það er nú flutt hér í hv. Nd.

Fleiri orð tel ég óþarft að hafa um málið. Efni þess er mjög einfalt, að stofnað verði prófessorsembætti við læknadeildina í geð- og taugasjúkdómafræði og skuli sá, sem gegnir því embætti, jafnframt vera forstöðumaður geðveikrahælisins á Kleppi.

Kostnaðarauki af þessari skipulagsbreytingu er mjög smávægilegur, vegna þess að yfirlæknirinn á Kleppi hefur áður verið aukakennari í geð- og taugasjúkdómafræði. En hinn nýi prófessor, ef frv. nær fram að ganga, mundi hafa hálf önnur prófessorslaun, svo sem tíðkast um yfirlæknana við landsspítalann, sem jafnframt eru prófessorar. Upp í þau hálfu laun, sem hér er um að ræða, eða þann launaauka, sem prófessorinn mundi hafa umfram yfirlæknislaunin á Kleppi, kemur sú þóknun, sem hvort eð er hefði þurft að greiða yfirlækninum á Kleppi fyrir aukakennslu í þessum fræðum við háskólann, svo að kostnaðaraukinn er óverulegur.

Meðmæli með þessari skipulagsbreytingu eru þannig fyrir hendi frá heilbrmrn., frá landlækni, frá læknadeild háskólans og frá Læknafélagi Íslands, og ætti það að vera veruleg trygging fyrir því, að þessi skipulagsbreyting sé til bóta.

Ég leyfi mér síðan að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.