16.04.1959
Neðri deild: 109. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1495)

148. mál, úthlutun listamannalauna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. S.l. 10 ár hefur úthlutun listamannalauna oft og mikið verið rædd hér á hinu háa Alþingi. Hafa mörg frv. verið flutt um breytta skipan á þeim málum. Ég flutti þingmannafrv. um þetta efni á árunum 1948, 1949, 1950 og 1951. Árið 1949 flutti Magnús Kjartansson einnig frv. um sama efni og aftur 1950. Ári síðar, eða 1951, tóku þeir þetta frv. aftur upp, endurfluttu það óbreytt, Jónas Árnason og Ásmundur Sigurðsson. Og loks flutti Gunnar Thoroddsen frv. til laga um listamannalaun á þinginu 1955–56 og aftur á síðasta þingi.

Skömmu eftir að ég tók við forstöðu menntmrn., eða haustið 1956, skipaði ég nefnd til þess að gera tillögur um, hvernig veiting listamannalauna verði felld í fastara form og betur að skapi þeirra, er launanna njóta, en verið hefði undanfarið. Formaður í nefndinni var Helgi Sæmundsson ritstjóri, en í henni áttu sæti auk hans 7 rithöfundar og listamenn, þ.e.a.s. þeir Guðmundur G. Hagalin rithöfundur, Gunnlaugur Scheving listmálari, tónskáldin Jón Leifs og Páll Ísólfsson, Snorri Hjartarson skáld, Þorsteinn Hannesson óperusöngvari og Ævar R. Kvaran leikari, þ.e. menn úr öllum helztu listgreinum. Og svo enn fremur prófessorinn í nútímabókmenntum við háskólann, dr. Steingrímur J. Þorsteinsson.

Nefndin skilaði tillögum sinum til ráðuneytisins í janúar 1957. Ráðuneytið athugaði þær rækilega og ræddi þær bæði við listamenn og fleiri aðila. Í ljós kom, að ekki náðist samstaða í samtökum listamanna um tillögur nefndarinnar, og varð því sú raunin á, að ráðuneytið endurskoðaði tillögur nefndarinnar og samdi sjálft frv. um málið, og það er það frv., sem nú er hér flutt.

Ég skal í fáeinum orðum gera grein fyrir, í hvaða meginatriðum úthlutun listamannalauna yrði frábrugðin því, sem nú á sér stað, ef þetta frv. næði fram að ganga. Er þess þá fyrst að geta, að þetta frv. gerir ráð fyrir fækkun úthlutunarflokkanna frá því, sem verið hefur. Gert er ráð fyrir því í frv., að 10 listamenn skuli hafa föst heiðurslaun, 35 þús. kr. á ári, og skulu þeir skipa listráð og vera hinu opinbera til ráðuneytis um listmál. Að öðru leyti skulu flokkar listamannalanna vera aðeins þrír, 20 þús. kr., 12 þús. kr. og 6 þús. kr., og ákvæði um, að ekki færri en 20 listamenn skuli njóta 20 þús. kr. launanna.

Eitt af því, sem úthlutun listamannalauna undanfarin ár hefur verið gagnrýnd hvað mest fyrir, er, að launin hafi skipzt í of marga og of smáa staði, og mundi verða nokkur breyting hér á, ef þetta frv. yrði samþykkt, án þess þó að úthlutunarnefnd væri skyld til þess að koma á slíkri breytingu. Eitt meginatriðið í tillögum nefndarinnar, sem ég nefndi í upphafi, var að lögskipa beinlínis mjög verulega fækkun á þeim, sem listamannalauna njóta, en þá tillögu hef ég ekki treyst mér að bera fram eða taka undir.

Þá er annað nýmæli í þessu frv. og í fullu samræmi við tillögur nefndarinnar, að komið sé á fót listráði, 10 manna, sem njóta skuli fastra heiðurslauna ævilangt. Gert er ráð fyrir því, að í fyrsta sinn sé kosið til listráðsins þannig, að menntmrh., háskólaráð, menntamálaráð og stjórn Bandalags íslenzkra listamanna velji svonefnt kjörráð, sem kjósa skuli til listráðsins, og þegar sæti losna í listráðinu, skal það sæti skipað með sama hætti. Það tíðkast mjög með erlendum menningarþjóðum, að til séu slík listráð eða akademíur, skipaðar fremstu mönnum á sviði lista og vísinda, sem þá gjarnan hafa sérstöku hlutverki að gegna. Hér er hins vegar ekki gert ráð fyrir öðru hlutverki listráðs en því, að það skuli vera hinu opinbera til ráðuneytis um listmál, auk þess sem því er ætluð nokkur hlutdeild í úthlutun listamannalauna.

Þá er það þriðja nýmælið í þessu frv., að gert er ráð fyrir því, að listamannalaunum sé ekki úthlutað af þingkjörinni nefnd, svo sem verið hefur undanfarið og sætt hefur mjög mikilli gagnrýni, bæði listamanna og annarra almennra borgara, heldur sé listamannalaunum úthlutað af 5 manna nefnd, sem skipuð sé til þriggja ára í senn, þannig að menntmrh. skipi formann nefndarinnar, en hina fjóra eftir tilnefningu þessara aðila: heimspekideildar Háskóla Íslands, menntamálaráðs, listráðs og fulltrúaráðs Bandalags íslenzkra listamanna. Þessar tillögur um skipun nefndarinnar eru í samræmi við einróma álit nefndarinnar, sem ég gat um í upphafi.

Þá er og það nýmæli í þessu frv., að gert er ráð fyrir því, að listamannalaun breytist í hlutfalli við þær breytingar, sem verða á kaupgjaldsvísitölu, frá því er lög um þetta efni yrðu samþykkt.

Þá hygg ég mig hafa gert grein fyrir aðalnýmælunum, sem í frv. felast, aðalbreytingunum, sem samþykkt þess mund hafa í för með sér á þeirri skipan, sem nú gildir, og skal ég í fáeinum orðum gera grein fyrir því, hvaða munur er á þessu frv. og þeim tillögum, sem nefndin frá 1956 varð sammála um að gera til menntmrn.

Í fyrsta lagi er munurinn fólginn í því, að í þessu frv. eru hendur úthlutunanefndar ekki bundnar um það, hversu mörgum hún úthlutar listamannalaunum, en hin stjórnskipaða nefnd hafði gert ráð fyrir kerfi, sem búast mátti við að beinlínis ylli því, að þeim, sem listamannalauna njóta, fækkaði úr rúmlega 100 niður í um það bil 60. Það var sérstaklega þessi fækkun þeirra, sem listamannalauna njóta, sem olli gagnrýni af hálfu ýmissa aðila, og hefur því þeim ákvæðum, sem að því miðuðu, verið breytt í þessu frv. Einnig hafði nefndin gert ráð fyrir því, að meðlimir listráðs yrðu 12, en hér í frv. er gert ráð fyrir, að þeir verði 10.

Það er smávægileg breyting, að í frv. nefndarinnar var menntmrh. ætlað að eiga sæti í kjörstjórn kjörráðs og listráðs, en því hefur verið breytt þannig, að það sé ráðuneytisstjóri menntmrn., sem það sæti skipi.

Þá hafði nefndin gert ráð fyrir því, að listamannalaun skyldu vera skattfrjáls. Í þetta frv. er það ákvæði ekki tekið upp, þar sem talið var óeðlilegt af sérfróðum mönnum að breyta ákvæðum skattalaga í frv. um úthlutun listamannalauna, slík ákvæði eigi heima í skattalögunum sjálfum. Hins vegar var tekið í þetta frv. ákvæði um breytingu listamannalauna samkvæmt kaupgjaldsvísitölu, sem ekki var í frv. stjórnskipuðu nefndarinnar.

Hef ég þá gert grein fyrir því, í hverju munur tillagna nefndarinnar og þessa frv. er fólginn. Með frv. er prentað sem fyrra fylgiskjal nál. hinnar stjórnskipuðu nefndar í heild, bæði frv. hennar og grg. öll. Enn fremur er prentað sem annað fylgiskjal bréf frá Bandalagi íslenzkra listamanna, dags. 22. okt. 1958, en menntmrn. hafði sent bandalaginu þetta frv. til umsagnar, og í umsögn sinni lýsir stjórn Bandalags íslenzkra listamanna því yfir, að hún sé frv. samþykk í öllum meginatriðum, en gerir þó tillögu um, að heildarfjárhæðin til listamannalauna sé hækkuð, og leggur áherzlu á, að í framtíðinni verði listamannalaun skattfrjáls. En um aðalatriði málsins, skipulag úthlutunarinnar, er stjórn Bandalags íslenzkra listamanna samþykk frv. og mælir með því.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.