21.04.1959
Neðri deild: 113. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1501)

150. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Fram hefur verið lagt frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, þar sem gert er ráð fyrir stofnun nýs embættis saksóknara ríkisins. Eðlilegt er, að sá embættismaður, ef embættið yrði stofnað, hefði einnig með höndum ákvarðanir um skilorðsbundna frestun ákæru og atriði, sem snerta skilorðsdóma, verði einnig lögð honum í hendur. Í frv. því, sem hér er á dagskrá, um breyt. á l. nr. 22 1955, um breyt. á almennum hegningarlögum frá 1940, er lagt til, að svo verði gert. Þetta frv. er þannig eins konar fylgifrv. með frv. um saksóknara ríkisins, þ.e. frv. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, og er eðlilegt og æskilegt, að afgreiðsla þeirra fylgist að.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.