29.04.1959
Neðri deild: 119. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (1507)

167. mál, orlof

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Breyting sú, sem ráðgerð er í frv. þessu á orlofslögunum, er í því fólgin, að ætlazt er til, að launþegum, sem ekki eru í föstu starfi, verði í sjálfsvald sett, hvort þeir fá orlofsfé sitt greitt í orlofsmerkjum eða peningum.

Í núgildandi lögum eru, svo sem kunnugt er, fyrirmæli um það, að launamenn, sem ekki eru fastráðnir, skuli fá orlofsfé sitt greitt með orlofsmerkjum, og er óheimilt að greiða það með öðru móti og þeim óheimilt að taka við orlofsfé með öðru móti. Þetta ákvæði var á sínum tíma sett til þess að tryggja það, að orlofsfé yrði ekki að eyðslueyri, áður en til þess þyrfti að taka. Á þeim tíma, sem lögin voru sett, og þá sérstaklega á þeim tíma, sem frv. til laga um orlof var samið, en það var samið í mþn. einum tveim árum áður, en lögin voru sett, voru tekjur verkamanna og sjómanna ekki ríflegri en það, að hætta var talin á, að orlofsfé mundi eyðast jafnóðum, ef það væri greitt í peningum, og ekkert fé yrði til, þegar menn fengju orlof.

Síðan hafa kjör launamanna yfirleitt batnað mikið, en jafnframt hefur þróunin orðið sú, að notkun orlofsmerkja og orlofsbóka hefur stöðugt farið minnkandi. Hefur það hvort tveggja ráðið, að launamenn hafa ekki kært sig um orlofsmerki, þau hafa stundum viljað týnast og fara forgörðum, þegar gleymzt hefur að hafa orlofsbókina tiltæka, og kaupgreiðendur hafa orðið guðsfegnir að þurfa ekki að hafa fyrirhöfn og óþægindi af talningu merkjanna og festingu þeirra í bækur. Þannig hafa lögin verið sniðgengin í vaxandi mæli um orlofsmerkjakerfið, og því nær ómögulegt hefur verið að koma í veg fyrir það, þótt ef til vill kynni að vera hægt að herða nokkuð á framkvæmd l. með mjög kostnaðarsömu eftirlitskerfi.

En þar sem tímarnir eru nú mjög breyttir frá því, er þetta kerfi var upp tekið, þykir ekki ástæða til að viðhalda því lengur umfram það, sem launamenn vilja sjálfir. Þessu kerfi fylgir bæði talsverður kostnaður og fyrirhöfn, sem falla mundi niður að verulegu leyti, ef frv. þetta yrði að lögum. En það skal greinilega undirstrikað, að hver sá launamaður, sem óskar að safna orlofsfé sínu í orlofsmerkjum, á skilyrðislausan rétt til þess eftir sem áður.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.