29.04.1959
Neðri deild: 119. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (1508)

167. mál, orlof

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrst sá maður það í sambandi við brtt. á fjárlögum, að hæstv. ríkisstj. mundi hafa í huga að ráðast á orlofslögin og koma þeim fyrir kattarnef. Það mun þó fljótlega hafa orðið viðurkennt, að þau vinnubrögð ein nægðu ekki, það væri ekki hægt að breyta almennum lögum með breytingu á fjárlögum, og hefur nú frv. til l. um breyt. á orlofslögunum séð dagsins ljós og kemur nú hér til 1. umr., eftir að búið var að samþ. breytingu við fjárlög, sparnað, sem nemur hálfri milljón, í sambandi við væntanlega afgreiðslu þessa máls, svo að hálfgerð afturfótafæðing er nú auðsýnilega á þessu enn þá, og hefur legið mikið á að koma þessari sparnaðartill. fram, sem þó er vitanlega ólögleg, nema því aðeins að Alþ. fallist á að breyta lögunum.

Í raun og veru er enginn sparnaður hugsanlegur í sambandi við þetta á árinu 1959. Sú fyrirhyggja hefur auðvitað verið á höfð hjá þeirri stofnun, sem átti að afhenda verkafólki orlofsmerki, að láta prenta þau, sennilega fyrir byrjun þessa árs, og útlagður kostnaður tilheyrandi árinu 1959 er þegar sennilega borgaður úr kassa, og þann pening verður áreiðanlega erfitt að spara á þessu ári, og hefði því mátt sjá, að það var mesta fjarstæða að bera fram sparnaðartill. í sambandi við þetta við afgreiðslu fjárlaganna 1959.

Nú sé ég það og heyri hæstv. ráðh. lýsa því, að í þessu frv. felist sú hreyting ein, að mönnum verður sett í sjálfsvald, hvort þeir taka orlofsfé sitt í orlofsmerkjum eða peningum. Það þýðir auðvitað, að ríkið verður að vera við því búið, að menn noti sinn rétt til þess að taka orlofsmerkin, og þá verður ríkisstofnunin, sem þetta annast, að prenta merkin. Hún verður að vera við því búin og hafa merkin til og verður því að leggja í þann kostnað, sem með öðru orðinu er svo lagt til að spara. Ég sé því ekki annað, þegar þetta er svona í heimildarformi, einstaklingarnir eiga að geta ráðið því sjálfir, hvort þeir taka orlofsféð sitt í merkjum eða fá það útborgað í peningum, heldur en ríkisstofnun verði einmitt að vera við því búin að snara því út í merkjum og láta prenta orlofsmerkin eftir sem áður. Og þá sé ég ekki, að nokkur sparnaður sé hugsanlegur í sambandi við þetta, hvorki á þessu ári né framvegis. Hitt getur svo verið, og það veit ég, að þessi lagabreyting, ef hún nær fram að ganga, eyðileggur orlofslögin. Það mun verða svo, að atvinnurekendum, sem hafa á undanförnum árum sótt fast á um það að sniðganga orlofslögin og brjóta þau, er nú heimilað að sleppa við að greiða út orlofsféð í merkjum. Þetta verður eyðslueyrir fólks eftir hendinni, það fær þetta borgað ásamt sínu kaupi, og þar með er verið að taka af fólki félagslega réttarbót, sem verkalýðsstéttin hefur lagt mjög mikið upp úr.

Ég hefði haldið, að þegar kunnugt var, að atvinnurekendur ástunduðu það nokkuð sumir hverjir að brjóta orlofslögin, borga út orlofsfé ásamt launum eða svíkjast kannske alveg um að borga það og forðast að gera það með merkjum, þá hefði þurft heldur að reisa rammari skorður í löggjöfinni við því, að þetta væri hægt, svo að réttur verkamannanna væri tryggður til þess að fá sitt orlofsfé greitt út sérstaklega og merkjakerfið notað, eins og upphaflega var til ætlast, til þess að þetta væri geymslufé og ekki til þess gripið, fyrr en viðkomandi verkamaður ætlaði að fara í sitt orlof.

Ég hef aðgætt, að þegar orlofslöggjöfin var flutt, var hún flutt af núv. hæstv. fjmrh., Guðmundi Í. Guðmundssyni. Hann fer um það allmörgum orðum í framsöguræðu, að þetta mál hafi verið mjög vel undirbúið, það hafi verið kannað, hvernig þessu væri fyrir komið í nágrannalöndum okkar, og það kerfi, sem þeir hefðu fengið reynslu fyrir að bezt gæfist til þess að tryggja, að vinnandi fólk taki sér orlof, taki sér hvíld frá störfum, sem væri, eins og hann sagði, í senn hagsbót fyrir hið vinnandi fólk og fyrir atvinnurekendurna, atvinnureksturinn, einmitt að fólk taki sér hvíld á hverju ári, — þetta væri gert á sama hátt eins og nágrannar okkar, Norðurlöndin, hefðu gert þetta og málið hefði síðan verið rætt við ýmsa aðila hér, verkalýðssamtökin alveg sérstaklega, og þing verkalýðssamtakanna hefði lýst yfir sterku fylgi sínu við málið og atvinnurekendur hefðu gert það sömuleiðis.

Með leyfi hæstv. forseta, sagði Guðmundur Í. Guðmundsson, núv. hæstv. fjmrh., um málið á þessa leið í desembermánuði 1942, þegar lögin um orlof voru til umr., — hann skýrir frá því fyrst, að málið hafi hvað eftir annað verið tekið til umr. áður, en ekki fengið afgreiðslu, og segir síðan:

Umr. voru líka með þeim hætti á þinginu í sumar og fyrravetur, að ekki er ástæða fyrir mig til að fara um það sérstaklega mörgum orðum nú, vegna þess að frv. var yfirleitt mjög vel tekið þá af öllum, sem tóku til máls. Þar að auki vil ég geta þess, að þetta frv. hefur verið sérlega vel undirbúið áður, en það var lagt fyrir þingið. Frv. var samið af mþn., sem skipuð var samkv. ályktunum frá Alþ., og áttu þar sæti fulltrúar bæði frá atvinnurekendum og verkalýðssamtökunum, og vann n. nokkuð lengi að frv. og undirbjó það ýtarlega. Auk þess mun frv. vera sniðið eftir mjög ýtarlegri löggjöf, sem samin hefur verið um þetta efni á öðrum Norðurlöndum: Síðan heldur hann áfram:

„Það, sem helzt þótti á skorta í sumar, var, að almenningur hefði ekki haft tækifæri til að átta sig á málinu og ræða það og frv. hefði ekki sérstaklega verið borið undir verkalýðsfélögin. Á þessu hefur nú verið ráðin nokkur bót. Síðan sumarþingið stóð, hafa fram farið alþingiskosningar, og í sambandi við þær var málið rætt mjög ýtarlega meðal almennings, og a.m.k. þrír þingflokkar lýstu yfir á stefnuskrá sinni fyrir þessar kosningar, að þeir væru frv. fylgjandi. Þá vil ég einnig geta þess, að þing verkalýðsfélaganna, sem haldið var hér í bæ fyrir nokkrum dögum, tók þetta mál til meðferðar og athugaði það sérstaklega, og að þeirri athugun lokinni lýsti Alþýðusambandsþingið yfir, að það væri mjög fylgjandi þessu frv., og skoraði eindregið á Alþ. samþ. það hið bráðasta. Málið er því þegar orðið það vel undirbúið, að það er vel kunnugt hv. þdm., og það virðist ekki sérstök ástæða fyrir mig til þess að ræða það mjög ýtarlega almennt við þessa umr. Ég skal aðeins benda á, að frv. í heild er byggt á þeirri staðreynd; að það er talin þjóðhagsleg nauðsyn, að öllu vinnandi fólki séu tryggð ákveðin lágmarksréttindi til orlofs á hverju ári. Þetta þykir ekki aðeins nauðsynlegt vegna þeirra einstaklinga, sem orlofið fá, heldur einnig vegna atvinnurekendanna og þjóðfélagsins, að því er heilsuvernd snertir. Þess vegna gerir frv. ekki aðeins ráð fyrir, að vinnandi fólk hafi rétt til orlofs, heldur líka skyldu.“

Það urðu nokkrar umr. um málið, og yfirleitt tóku allir ræðumenn undir það, að málið væri, eins og frsm. sagði, vel undirbúið, það væri flutt í samráði við bæði atvinnurekendur og verkafólk, verkalýðssamtökin hefðu gert sínar ákveðnu samþykktir og áskoranir til Alþ. um að lögfesta frv., og ég sé, að m.a. hefur þáv. hv. þm. Barð. (GíslJ) tekið til máls og óskað eftir því, að hægt væri að tryggja, að sérstakar stéttir, sem ekki er minnzt á í frv., fengju einnig orlof. Hann vildi gera það víðtækara. Og að öðru leyti voru menn sáttir og sammála um það, að frv. væri gott mál og ætti að fá samþykki Alþ., það hefði verið mjög vel undirbúið af mþn., þrír flokkar gert það að sínu stefnuskrármáli, og þannig sigldi málið hraðbyri gegnum þingið og varð að lögum.

Nú vill einmitt svo til, að frsm., Guðmundur Í. Guðmundsson, er í ríkisstj. og þá er það, sem hann gerir ráðstafanir til þess að láta bera barnið sitt út. Það þekkist úr fornum sögum, en menn héldu það nú, að barnaútburður væri ekki í tízku lengur.

Það hefur komið í ljós af því, sem ég hef vitnað til framsöguræðu, að þetta mál hafði verið mjög vandlega borið undir verkalýðssamtökin, en nú, þegar á að afnema l., þá er ekki haft svo mikið við. Ríkisstj. Alþfl. þarf ekki að vera að bera svona mál undir verkalýðssamtökin. Það er hvað eftir öðru. Síðan það kvisaðist, að það væri komin fram till. í sambandi við fjárlögin um að ráðast á orlofslögin og eyðileggja þau, þá hefur orðið ókyrrð í verkalýðshreyfingunni einmitt út af þessu máli, og félög eru þegar farin að mótmæla þessari árás á orlofslöggjöfina. Verkalýðshreyfingin var nú einmitt að búa sig undir það að skapa betri aðstöðu, til þess að orlofslöggjöfin nyti sín. Verkalýðshreyfingin hafði á undanförnum árum lagt á það mikla áherzlu að geta komið upp orlofsheimilum, þar sem fólk gæti einmitt fengið aðstöðu til að vera í orlofi, með ódýrari hætti, en hægt hefur verið fram til þessa með því að dveljast í hótelum, opinberum hótelum og gististöðum. En þá — einmitt þá kemur Alþfl.-ríkisstj. hæstv. og segir: Við skulum eyðileggja löggjöfina, orlofslöggjöfina, — þetta óskabarn sitt fyrir nokkrum árum.

Ég var einmitt úti í Noregi núna fyrir nokkrum dögum og kynntist þá hinni stórmyndarlegu og merku stofnun norsku verkalýðssamtakanna, Norsk Folkeferie, þ.e.a.s. stofnuninni, sem verkalýðssamtökin norsku hafa komið upp til þess að framkvæma orlofslöggjöfina, stofnun, sem á marga bíla, er eigandi að einum 6 hótelum í Noregi, hefur komið upp orlofsheimilum, bæði hin einstöku fagsambönd og hin einstöku verkalýðsfélög, og er talið, að norsku verkalýðssamtökin eigi um 300 orlofsheimili smærri og stærri víðs vegar á landinu. Og allt þetta er gert til þess einmitt að tryggja sem allra bezt framgang orlofslöggjafarinnar, og þeir telja það einn þýðingarmesta þáttinn í hinni margþættu starfsemi verkalýðshreyfingarinnar, ekki aðeins að tryggja orlofsfé í viðbót við greidd vinnulaun, heldur einnig, að því sé haldið sérstöku og að fólk gripi til þess til orlofs- og sumardvalar og sumarferðalaga í fríum sínum.

Ég vil vænta þess, að þetta mál verði ekki afgreitt úr n., án þess að það verði sent verkalýðssamtökunum til umsagnar, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að verkalýðssamtökin munu mótmæla afnámi og skerðingu orlofslöggjafarinnar og telja, að það sé eingöngu verið að gera atvinnurekendum, sem hafa viljað sniðganga þessa löggjöf, hægara um vik með að blanda orlofsfénu saman við greidd vinnulaun með því að gera þessa breytingu á löggjöfinni, sem hér er lagt til. Ég leyfi mér því nú þegar að mótmæla þessu frv. og vil vænta þess, að n., sem fær það til meðferðar, taki þessu frv. með allri gát og afgreiði það ekki án þess að leita umsagnar verkalýðssamtakanna. Mér finnst það vera alveg skylt, því að þannig var af stað farið með þetta mál upphaflega, að þetta mál var borið undir verkalýðssamtökin og l. voru samþ., eins og frá þeim var gengið, að fengnum samþykktum og áskorunum Alþýðusambandsþings. Það er því öllum kunnugt, að þetta mál hefur verið hjartfólgið réttindamál verkalýðssamtakanna, og það telst til árásar á réttindi hins vinnandi fólks, ef þetta frv. verður samþ. og þar með rýrður sá réttur og gerður veikari, sem vinnandi fólki var tryggður með orlofslöggjöfinni upphaflega.