30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1513)

167. mál, orlof

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu og við Alþfl.-þingmenn sammála hverju einasta orði, sem Alþýðubandalagsmenn hafa sagt um þörfina fyrir, að þjóðfélagið tryggi verkamönnum orlof, verkamönnum og öðrum þeim, sem ekki hafa föst laun allt árið, og forsagan talar sínu máli um það, hvort sem við deilum meira eða minna um það hér, hverjum hafi verið að þakka, að þessi lög komust á, og hverjum ekki. Út í það mun ég ekki fara.

En það, sem mér finnst fyrst og fremst ástæða til að ræða í sambandi við málið nú, er, hvernig framkvæmd þessara laga og þessarar fögru hugsjónar hefur tekizt, og væri raunar meiri ástæða til að kynna sér það málefnalega, en flytja hér stór orð um svik og annað slíkt og árásir á verkalýðinn, eins og t.d. síðasti ræðumaður gerði.

Það er skemmst frá að segja, að í reyndinni hefur orlofsmerkjakerfið reynzt vera mjög gallað, og má bezt marka gallana á þessu kerfi af þeirri staðreynd, að samkvæmt upplýsingum, sem mér hafa verið gefnar, voru launagreiðslur á s.l. ári, sem eru orlofsskyldar, rúmlega 1.800 millj. í landinu, en orlofsmerki voru ekki tekin fyrir meira en 296 millj. kr. M.ö.o.: fimm af hverjum sex vinnandi mönnum í landinu, sem eiga samkvæmt landslögum að taka 6% af sínu kaupi í orlofsmerkjum, hafa annaðhvort með eigin samþykki eða látið það viðgangast af sínum atvinnurekendum, að lögin hafa verið brotin. Fimm of hverjum sex hafa ekki fylgt þessum lögum. Þetta virðist mér vera svo alvarleg staðreynd, að það sé ómögulegt annað, en taka málið í heild til nokkuð gagngerðrar íhugunar af þessu tilefni. Og mér finnst mjög eðlilegt, að Alþýðuflokksmenn vilji gera það og jafnvel að menn eins og hæstv. fjmrh., sem var einn af þeim, sem sömdu þessi lög, hafi opin augun fyrir þessum hlutum, fylgist með framkvæmdinni og bendi á, á einn hátt eða annan, að þetta mál verði að athuga.

Nú hefur þetta mál komið upp í sambandi við afgreiðslu fjárl., og skal ég verða fyrstur manna til að viðurkenna, að það kunni ekki að vera heppilegasta leiðin til þess að vekja málið, en það skyggir þó ekki á þessa höfuðstaðreynd.

Ég hef t.d. kynnt mér í einu verkalýðsfélagi, þar sem ég er nokkuð kunnugur mönnum, hvernig framkvæmd þessara ákvæða um orlofsmerkin hefur þar verið, og starfsmaður þess verkalýðsfélags sagði mér mjög skjótlega sínar farir ekki sléttar í þeim efnum. Þetta félag er á félagssvæði, þar sem allmikil útgerð er og mikill fjöldi af aðkomusjómönnum og verkamönnum kemur á vissum tímum árs. Og sagan er sú, sem sögð er af framkvæmdinni, að þessum mönnum hættir við að gleyma sínum bókum heima eða hafa týnt þeim og að útgerðarmennirnir gjarnan vilja segja: Ja, við gerum orlofið upp í vertíðarlok eða í lok tryggingartímabils. — Og þeir nota gleymsku eða vanrækslu mannanna, sem koma úr fjarlægum héruðum, að hafa ekki sínar bækur, sem tylliástæðu til þess að gera ekki upp orlofið fyrr, en seinna. Svo er það algeng saga, er mér tjáð, að það gengur treglega að fá fullt uppgjör eftir vertíð. Menn verða að fara í aðra vinnu annars staðar, og orlofið vill hreinlega falla milli skips og bryggju, m.ö.o.: atvinnurekendur bókstaflega reyna að hafa það af verkamönnunum. Þetta verkalýðsfélag hefur hvað eftir annað, eftir að starfsmenn þess komu auga á þetta vandamál, orðið að ganga á milli útgerðarmannanna og bókstaflega krefjast þess að sjá reikningsuppgjörið við hvern einasta mann til þess að tryggja það, að þeir fengju sitt orlof, og þá eru ýmsar ástæður gefnar: maðurinn er farinn, hann skildi ekki eftir heimilisfang o.s.frv., o.s.frv.

Þá hygg ég, að það séu töluvert mikil brögð að því, að þeir menn, sem þó hafa tekið merkin og fengið þau, hafi ýmist týnt þeim eða ekki skilað þeim og fengið sitt fé, og væri fróðlegt, ef hægt væri að fá nákvæmar skýrslur um þá hluti.

Allt gefur þetta til kynna, að hér sé um að ræða kerfi, sem sé ófullnægjandi og nái ekki þeim tilgangi, sem var á bak við þessi lög upprunalega og vissulega er enn þá fullur vilji Alþfl., ekki síður, en þeirra manna, sem hafa andmælt þessari breytingu hér. Ég er því ekki viss um það, þó að atvinnurekendur hafi eitthvert erfiði af þessu, nema sumir þeirra vilji alveg eins, að þetta kerfi verði áfram, ekki sízt þegar þeir gefa fjöldamargir, eins og mér er tjáð, notað þetta kerfi sem skálkaskjól til að fresta greiðslum og liggja þannig með fé.

Hins vegar er augljóst, að eitthvað verður að gera í sambandi við þetta mál og að þær forsendur, sem eiginlega öll andmæli, a.m.k. tveggja síðustu ræðumanna, byggjast á, eru ekki réttar. Hv. 2, þm. S-M. (LJós) sagði, að undanbrögð undan lögunum væru ekki meiri en svo, að enn þá héldist sú höfuðtrygging, að flestir verkamenn notuðu merkin og fengju þar af leiðandi fé til síns orlofs.

Þessar tölur, sem ég hef hér nefnt og eru eftir áreiðanlegum heimildum, sanna, að þetta er á misskilningi byggt, eins og ég veit, að hann hefði gert sér ljóst, ef hann hefði haft aðstöðu til eða reynt að afla sér þessara upplýsinga.

Það er því augljóst, að við verðum á einn eða annan hátt að finna betra kerfi, til að ná þessu takmarki. Við verðum að finna leið, sem veitir betri árangur en þann, að aðeins einn af hverjum sex mönnum, sem þessi lög áttu að ná til, skuli í raun og veru nota merkjakerfið. Það er alveg óhjákvæmilegt. Og ég skil ekki í öðru, en alþýðusamtökin og verkalýðsfélögin muni taka fullan þátt í því að leita að slíkum leiðum og reyna að koma þessum lögum í það form, að þau nái tilgangi sínum.

Ég geri ráð fyrir því, að núv. ríkisstj. mundi ekki hugsa mikið eða sjá eftir 1/2 millj. kr., ef það fengist fyrir féð, sem á samkvæmt bókstafnum að fást fyrir það, og ég mundi persónulega styðja meiri upphæð en það, ef við gætum tryggt framgang þess, sem orlofslögin áttu að tryggja, ef við gætum tryggt, að eitthvað töluvert meira en 1/6 af þeim hópi manna í landinu, sem lögin eiga að ná til, fengi merki eða annað, sem í stað þeirra gæti komið.

Ég vil svo benda mjög á það, að ekki er verið að afnema merkjakerfið og eftir sem áður muni menn eða hópar manna geta valið um. Og þegar menn hafa í huga þessa staðreynd, að eins og nú er í framkvæmdinni, þá eru lögin brotin varðandi fimm af hverjum sex mönnum, þá er það ekkert fráleitt atriði að gera hvort tveggja í senn : að ná þessum litla sparnaði, þar sem féð ekki náði sínum tilgangi, og vekja um leið athygli á því, sem í raun og veru er stórmál, sem sagt, að það verði að finna aðrar leiðir.

Í raun og veru er þó þessi hluti orlofsmála verkalýðsins ekki nema ein hlið á þeim málum, eins og forseti Alþýðusambandsins benti á hér í ræðu, þegar hann skýrði frá því, sem hann hafði séð af skipulagi þessara hluta úti í Noregi. Og mér er kunnugt um það, að fyrir atbeina ráðh. hefur ferðaskrifstofan nú undanfarna mánuði unnið að því að reyna að skipuleggja orlofsferðir töluvert ódýrari, en hingað til hefur verið kostur á, með tilliti til þess að gefa almenningi í landinu kost á ferðum, sem vinnandi fólk ræður við af sínum tekjum, og er það ekki þýðingarlítið atriði í þessu sambandi.

Ég vil sem sagt mótmæla algerlega öllum fullyrðingum um, að þetta sé árás á sumarfrí verkafólks. Það er verið að draga hér fram mikilsvert hagsmunamál fyrir verkalýðinn, þar sem brýn þörf er alvarlegra breytinga, og ég vil skora á hvern þann, sem hefur áhuga á þessu máli, að leita í huga sínum og sjá, hvort ekki verður fundið betra kerfi, og að við gerum það að aðalatriði málsins að finna það kerfi, sem dugir, en ekki að ráðast hver á annan með stóryrðum út af því, þó að þessi litla breyting sé gerð, þegar þessi höfuðstaðreynd blasir við, að það er ekki nema 1/6 af því fólki, sem þessi lög eiga að ná til, sem raunverulega nýtur þeirra, eins og þau eru framkvæmd í dag.