30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1517)

167. mál, orlof

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. (BG) vildi halda því fram, að orlofskerfið hefði reynzt mjög gallað. Ég vil spyrja þennan hv. þm. að því, hvenær hafi verið sett lög á Íslandi, sem allir menn hafa verið sammála um. Ég held, að það yrði mjög erfitt að finna þau lög, sem allir íbúar landsins gætu samþykkt og hefðu ekkert út á að setja. Ef það á að nota það sem rök á móti orlofslögunum, að einhverjir af þeim, sem þeirra eiga að njóta, séu á móti þeim, þá finnst mér, að skörin sé nú farin að færast upp í bekkinn. Í þessu sambandi má benda á, að við höfum nú hér í landi yfirvöld og þessi lög eins og önnur lög heyra beint undir þeirra verksvið. Það er náttúrlega fyrst og fremst þeirra að sjá til þess, að þessi lög séu haldin eins og önnur.

Þá segir sami hv. þm., að stór hluti launþega hafi ekki tekið orlofsmerki. Það má vel vera, að það séu allmikil brögð að því. En jafnvel þótt svo væri, þá mælir það ekki á móti lögunum sem slíkum.

Ég tók það fram áðan í minni fyrri ræðu, að ég teldi, að orlofslögin hefðu verið vel séð og þau ættu miklu fylgi að fagna í meðal launastéttanna í landinu og það væri stór hluti af meðlimum verkalýðshreyfingarinnar, sem hefði notað sér lögin og óskaði frekar eftir því að fá merki, heldur en láta borga sér þetta út vikulega og þannig gera þetta fé, sem átti að vera öryggi fyrir sumarfríi, að daglegum eyðslueyri og þar með eyðileggja orlofslögin að mestu. En fyrst hv. 5. landsk. telur, að svo mikið sé við lögin að athuga og þess vegna sé þetta frv. fram komið og nauðsynlegt, eins og hann orðaði það, sé að gera róttækar breytingar á lögunum, hvernig stóð þá á því, að það var ekki farið í það að gera breytingar til bóta? Af hverju lagði hæstv. ríkisstj. ekki fram frv. um breytingar, sem voru í samræmi við anda orlofslaganna, en ekki frv. um að eyðileggja lögin? Þetta frv. er beinlínis til þess gert að eyðileggja lögin í þeirri mynd, sem þau eru núna.

Ég tel sjálfsagt, að það beri að fresta afgreiðslu þessa frv., þar til fyrir liggur m.a. álit verkalýðshreyfingarinnar, og að henni gefist tóm til þess að koma þá með sínar till. til úrbóta. Ég er alveg viss um, að það er fjöldi af verkamönnum, sem hefur ýmislegt að athuga við löggjöfina og mundi koma með sínar till. til ábendingar um það, sem betur mætti fara. En til þess vinnst ekki tími nú. Málinu er skellt hér fram í endalok þingsins og skellt fram þannig, að það er ekki einu sinni, að stjórn heildarsamtakanna sé að spurð, og frv. ekki fyrir hana lagt til umsagnar, hvað þá heldur meir, að það sé hægt að ræða um þetta mál við svo að segja nokkurt verkalýðsfélag á landinu og leita álits þess um það. Það er alveg útilokað. Til þess er enginn tími. Ég held, að hve oft sem hv. 5. landsk. mótmælir því, að þetta frv. sé árás á sumarfrí verkafólks og þá um leið árás á verkafólkið almennt, þá er það nú samt staðreynd, að með frv. er gerð mjög ákveðin tilraun til þess að eyðileggja sumarfrí verkafólks. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki komizt.

Með framkomnu frv. er verið að eyðileggja merkilegt atriði í félagsmálalöggjöf okkar og stefnir að því að eyðileggja sumarfrí verkafólks, algerlega í mótsögn við það, sem flestar þjóðir heims gera nú. Ég vil bara benda á, þó að reyndar hv. 7. þm. Reykv. hafi tekið það fram áðan, að á Norðurlöndum t.d. verða allir launþegar að taka sumarfrí og núv. orlofslöggjöf er að mestu leyti sniðin eftir danskri löggjöf. Ég veit ekki til þess, að Danir hafi gert neinar breytingar á þessum lögum hjá sér, a.m.k. ekki í líkingu við það, sem hér er farið fram á.

Ég held, að hv. þm. Alþfl. mættu taka sér til fyrirmyndar flokksbræður sína á Norðurlöndum í þessu máli. Ég held það þætti saga til næsta bæjar, ef Alþýðuflokksmenn á Norðurlöndum flyttu frv. á svipuðum eða líkum grundvelli og það frv., sem hér liggur fyrir. Hv. 7. þm. Reykv. lýsti því svo vel, að ég þarf ekki að fara frekar inn á það, en ég vil bara bæta því við, að slíkir þm. mundu ábyggilega ekki vera hátt skrifaðir hjá verkalýð viðkomandi landa, svo mikið þekki ég til a.m.k. verkalýðshreyfingarinnar í Noregi. Og ég fullyrði, ef slíkt frv. sem þetta væri lagt fram í norska stórþinginu, að sá, sem það gerði, þyrfti ekki að halda, að hann yrði kosinn á stórþingið við næstu kosningar á eftir. En hér leyfir hæstv. ríkisstj. Alþfl. sér að flytja frv. til laga um að eyðileggja orlofslögin að meira eða minna leyti og þar með útiloka verkafólk frá því að taka sumarfrí. Hér er allmikill munur á, enda mun nú Alþfl. hér vera alveg sérstakt fyrirbæri, sem ekki þekkist neins staðar annars staðar.

Hæstv. forsrh. talar um það mikla umstang, sem því fylgir að taka orlofsmerki fyrir verkafólk. Það er alveg undravert að heyra þessi ummæli. Veit ekki hæstv. forsrh., að hver einasti verkamaður getur lagt sína orlofsbók inn hjá viðkomandi atvinnurekanda, sem svo límir merkin inn í orlofsbókina, algerlega án þess að hinn komi nálægt því? Nei, allt skraf um mikla fyrirhöfn í sambandi við þetta mál er bara hreint slúður út í loftið og hæfir ekki hæstv. forsrh.

Að lokum þetta: Ég vil enn á ný endurtaka það, að ég álít í alla staði óforsvaranlegt að afgreiða þetta mál, án þess að leitað sé umsagnar stjórnar heildarsamtaka verkalýðshreyfingarinnar, og ef ekki vinnst tími til þess, á málið ekki að fara í gegn hér á Alþingi.