30.04.1959
Neðri deild: 120. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1518)

167. mál, orlof

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal játa, að mér hitnar í hamsi, þegar ég sé, að fram koma frv. á Alþ. um að rifa niður þá löggjöf, sem verkalýður landsins hefur háð langa og stranga baráttu fyrir, fyrst á stéttarlegum grundveili og síðan fengið viðurkennt með löggjöf. Ég játa, að mér stendur ekki á sama. Mér stæði ekki á sama, ef hér kæmu fram frumvörp um afnám verkamannabústaðalaganna, og væri þó hæglega hægt að fullyrða, að sú löggjöf sé gölluð, hún sé ekki fullkomin. Það er hennar stóri galli, að nú er heimtað svo hátt framlag af hinu fátækasta fólki, sem skortir húsnæði, að það megnar ekki að leggja þetta framlag fram og getur þannig ekki orðið aðnjótandi blessunar verkamannabústaðalaganna. Gallar eru á löggjöfinni, en mér þætti samt sárt, ef Alþfl. kæmi með frv. til l. um að afnema þau lög. Og eins er með orlofslöggjöfina. Hvað er verið að rifa niður? Hvað er satt í því, sem 7. þm. Reykv. segir, að það sé verið að rifa gat á löggjöfina um orlof? segir hæstv. forsrh., alveg eins og hann viti ekki neitt. Eitthvað verða menn nú að vita, a.m.k. sem forsætisráðherrar. Upphafsorð þessa frv. eru: „Orðin „skylt skal að greiða orlofsfé í merkjum“ skulu falla niður.“ Þetta er gatið, sem verið er að rifa í löggjöfina. Núna er skylt að greiða orlofsféð í merkjum. Þessi orð skulu falla niður úr gildandi löggjöf. Það skal vera heimilað atvinnurekendunum, sem þeir hafa sótt allfast á um, að borga féð í peningum. Þar með er verið að eyðileggja orlofslögin. Það er bara verið að setja mönnum það í sjálfsvald, hvort þeir vilji taka orlofsfé sitt í peningum eða merkjum. Það var ástæða í upphafi til þess að tryggja, að þetta væri greitt, ekki i peningum, heldur í merkjum, og sú ástæða er enn fyrir hendi.

Þá kemur röksemdin, sem réttlætir þessa breyt. Hún er þessi: Ráð verkafólks peningalega voru minni, þegar l. voru sett, heldur en þau eru nú. — Við skulum vona, að svo sé. Þá segi ég: Einmitt meðan ráð verkafólks voru peningalega minni, þá var tilfinnanlegra fyrir þá fátækustu að taka til hliðar 4% og geyma til sinnar orlofsdvalar, þá var það erfitt. Ef það er rétt, að menn hafi nú meiri peningaleg ráð, þá reynist auðveldara fyrir fólk, það getur betur þolað að taka til hliðar 6% og verja því til þess að tryggja sér orlofs- og hvíldardvöl. Það er minni ástæða til þess nú, en áður að heimila fólki að taka þetta í peningum. Ég kemst að þveröfugri niðurstöðu við hæstv. ríkisstj., sem flytur þetta mál og ber þessa röksemd fyrir. Ef fólk er betur statt peningalega nú, þá getur það betur þolað að leggja til hliðar 6% til þess að geta veitt sér þann menningarlega lúxus að tryggja sér hvíld að sumrinu.

Og af hverju á að neyða verkamenn, spyr hæstv. forsrh., til þess að taka það í merkjum, en ekki peningum? Ég spyr: Hverjum er hættast við að lúta því að vild atvinnurekandans að taka orlofsféð sitt í peningum? Þeim, sem er fátækastur, þeim, sem kannske býr við verst húsakynnin og þyrfti þannig mest á því að halda, til þess að heilsa hans og fólks hans brotni ekki niður, að geta einmitt tryggt sér hvíldardvöl að sumrinu. Og svo er ýtt að þeim: Taktu það heldur í peningum. Og svo á þetta fólk að geta samt haldið því til hliðar til að tryggja sér hvíldardvöl. Ég segi, að fólk, sem hugsar og talar svona eins og hæstv. forsrh. gerir, virðist ekki skilja snefil af því félagslega gildi, því félagslega og menningarlega gildi, sem það að tryggja fátæku verkafólki orlof — hvíldardvöl — hefur. Það er einmitt þetta fólk, fátækasta fólkið, sem þarf fyrst og fremst á því að halda, að því sé tryggð orlofs- og hvíldardvöl. Og það er hjálp til þess einmitt að knýja atvinnurekendur til þess að skila þessu ekki í peningagreiðslu ásamt vinnulaunum í hvert sinn, heldur einmitt í merkjum. Það er verið að hjálpa fátækasta fólkinu til að taka þennan eyri til hliðar, svo að það geti tekið sér hvíldardvöl.

Ég gerði einmitt grein fyrir því hér í gær eða fyrradag, — ég hygg, að hæstv. forsrh. hafi þá ekki verið við, — ég las þá einmitt upp úr framsöguræðu Guðmundar Í. Guðmundssonar, núv. hæstv. fjmrh., og dró þannig enga fjöður yfir það, að Alþfl. flutti þetta mál inn í þingið og barðist fyrir því sem sínu máli, sem þýðingarmiklu máli. En einmitt þess vegna er ég enn meira undrandi í dag, þegar það er einmitt Alþfl. með Guðmund Í. Guðmundsson sem ráðh., sem flytur frv. um að skerða löggjöfina, eiginlega að eyðileggja hana. — Hæstv. forsrh. var að spyrja hér um, hver væri umskiptingur. Ég segi: Alþfl. barðist fyrir málinu, Alþfl. taldi þetta gott mál, taldi þetta öryggismál verkalýðsins, nú leggur hann til, að sú löggjöf sé skert, leggur lítið upp úr löggjöfinni, segir, að það megi engan þvinga, það verði að opna smugur fyrir atvinnurekendurna, — ég segi, að sá flokkur, sem hagar sér svona gagnvart málinu, hann er umskiptingurinn.