27.11.1958
Sameinað þing: 12. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (1845)

58. mál, uppbætur á laun starfsmanna ríkisins

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um þá till., sem hér er til umr., og orðið sammála um að mæla með því, að hún verði samþykkt.

Það er alkunna, að á s.l. sumri og hausti hafa farið fram almennar breyt. á launakjörum hinna ýmsu stéttarfélaga í landinu. Ef hægt væri að tala um, að þar ríkti einhver meginregla í, hversu mikil sú kaupbreyting hefur orðið, þá má telja, að aðalreglan sé sú, að hjá almennum verkamönnum og verkakonum hafi orðið 9-91/2 % kauphækkun, en hjá hærra launuðu stéttunum, iðnaðarmönnum og þeim, sem sambærilegt kaup hafa við þá, hafi yfirleitt orðið um að ræða 6% launahækkun. Þáltill., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að í fjórum lægstu launaflokkum skv. launalögum, í 12., 13., 14. og 15. launaflokki, fari fram launahækkun, sem nemur 9%, en launalög eru við það miðuð, að laun í 12. flokki séu sambærileg við almennt verkamannakaup, í þeim flokkum, þar sem hærri eru launaskalar, þ.e.a.s. 1.-11. flokki að báðum meðtöldum, er gert ráð fyrir, að launahækkunin verði 6%. Hefur fjvn. fallizt á, að hér sé ekki um óeðlilega hækkun að ræða hjá ríkisstarfsmönnum, miðað við það, sem skeð hefur almennt varðandi laun annarra stétta.

Þá hefur n. aflað sér upplýsinga um það, að stjórn Sambands starfsmanna ríkis og bæja hefur fjallað um þessa till. og þær breyt. á launakjörum starfsmanna, sem hún gerir ráð fyrir, og hefur stjórnin fyrir sitt leyti fallizt á það, að hér sé um viðunandi launabreyt. að ræða hjá þeim starfsmönnum, sem hlut eiga hér að máli.

Það hefur verið venja á undanförnum árum, að elli- og örorkulaun og yfirleitt bætur að mestu eða öllu leyti skv. l. um almannatryggingar væru látnar fylgjast með almennum kaupbreytingum í landinu og oftast nær á þann veg, að a.m.k. elli- og örorkulaunin væru látin haldast í hendur við þær launabreyt., sem yrðu hjá lægst launuðu stéttunum, og því hefur það þótt nokkru máli skipta í sambandi við þetta mál, að það væri um leið tryggt, að hér yrði ekki gamla fólkið og það fólk, sem nýtur örorkulífeyris, skilið eftir og slitið úr samhengi við bæði hin almennu launakjör, sem stéttarfélög landsins semja um, og þau launakjör, sem ákveðin eru í launalögum. Því hefur n. aflað sér upplýsinga um það, fengið fullvissu um það, að ríkisstj. er í þann veginn að leggja hér fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á elli- og örorkulífeyri og barnalífeyri og þeim lífeyrisgreiðslum almannatrygginganna, sem bundnar eru við þessa þætti, þannig að þessi laun verða væntanlega hækkuð líka og frá sama tíma, 1. sept., eins og laun opinberra starfsmanna verða hækkuð skv. þeirri till., sem hér liggur fyrir. Það hefur hins vegar ekki þótt hlýða að afgreiða elli- og örorkulaunin með þáltill., þar sem ríkissjóður er ekki einn aðili um þær greiðslur, heldur eiga þar hlut að máli einnig bæjar- og sveitarfélög og sömuleiðis hinir tryggðu sjálfir með iðgjöldum sínum, og þykir því þurfa við lagabreyt. til þess að koma þeim málum í kring, og því verður þetta hér ekki alveg samferða. En ég hygg, að það muni engu breyta um framkvæmdina, að nálægt næstu mánaðamótum muni hvort tveggja þetta koma til framkvæmda, þannig að launabætur verði í desembermánuði greiddar fyrir síðasta þriðjung ársins, þ.e.a.s. frá 1. september.