22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (1848)

5. mál, efling landhelgisgæslunnar

Flm. ( Sigurðar Bjarnason):

Herra forseti. Á þessu ári eru liðin 45 ár, síðan baráttan fyrir íslenzkri landhelgisgæzlu var fyrir alvöru hafin. Þingi og þjóð var þá orðið Ijóst, að ekki yrði til frambúðar við það unað, að Danir færu með þann þátt íslenzkrar réttarvörzlu, sem fólginn var í gæzlu landhelginnar. Rányrkja grunnmiðanna stefndi lífshagsmunum landsmanna í geigvænlega hættu.

Árið 1913 flutti þáverandi þm. Ísafjarðar, sr. Sigurður Stefánsson í Vigur, frv. um stofnun Landhelgissjóðs Íslands. Var aðalatriði þess það, að af sektarfé fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi skyldi stofna sjóð, er nefnist Landhelgissjóður Íslands. Skyldu hlutar sektarfjárins og jafnhár hluti af nettóandvirði afla og veiðarfæra landhelgisbrjótanna renna í þennan sjóð. Enn fremur skyldi ríkissjóður leggja sjóðnum til nokkurt framlag á ári. Landhelgissjóðnum skyldi varið til eflingar landhelgisvörzlu Íslands fyrir ólöglegum veiðum.

Frv. þetta fékk mjög góðar undirtektir á Alþingi og var samþ. nær óbreytt í báðum þingdeildum og afgr. sem lög á þessu sama þingl. Má segja, að með því hafi grundvöllur verið lagður að þeirri mikilvægu breytingu, að Íslendingar tækju landhelgisgæzluna í eigin hendur. Með þeirri ráðstöfun á sektarfé, sem hin nýju lög gerðu ráð fyrir, var fenginn tekjustofn, sem skapaði möguleika á skipakaupum Íslendinga til landhelgisgæzlunnar.

Áður en ég rek nokkuð þróun hinnar íslenzku landhelgisgæzlu, vildi ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér stuttan kafla úr ræðu flm. fyrrgreinds frv. við 1. umr. í hv. Ed. 1913. Með þeim ummælum er varpað nokkru ljósi yfir aðstæðurnar í þessum málum fyrir tæplega hálfri öld, þegar þjóðin var að hefja baráttu sína gegn rányrkjunni og fyrir vernd íslenzkra fiskimiða. Undirtektir Alþingis undir frv. um stofnun landhelgissjóðs bera einnig glöggt vitni um þá framsýni, sem mótaði afstöðu þingsins í þessu stórmáli — Flm. frv. komst m.a. að orði á þessa leið:

„Það eru veiðispell botnvörpunganna í landhelgi, sem hér eru aðalatriðið. Vegna þeirra er hin mesta nauðsyn á, að grunnmiðin séu vernduð sem allra bezt. Þess eru óteljandi dæmi, að botnvörpungar hafi með lögbrotum sínum gerspillt veiði landsmanna á landhelgissvæðinu. Þótt ágætur afli hafi verið á grunnmiðum, hefur hann horfið með öllu, þegar botnvörpungar komu þangað. Þetta stafar eigi svo mjög af því, að fiskurinn fælist botnvörpungana, heldur hinu, að þeir sópa botninn á fáum dögum, svo að enginn fiskur er þar eftir. Ég veit, að margir greindir, gamlir fiskimenn vestra halda þessu fram. Það er eðlilegt, að fólki sárni að sjá öllum aflanum gerspillt á 3–4 dögum á þeim einu sviðum, sem bátar geta sótt fisk á. Þetta gerir landhelgisveiðum ómetanlegt tjón.

Ég hygg því, að allir verði samdóma um nauðsyn landhelgisvarna. Bátaútgerðinni ríður ákaflega mikið á henni.

Til þessa höfum vér ekki þótt svo efnum búnir, að vér gætum tekið landhelgisvarnir vorar að oss. Danir hafa, sem kunnugt er, haft þær á hendi og notið hlunninda frá oss í staðinn. Þeir mega veiða hér í landhelginni sem landsins eigin börn, og þeir hafa auk þess fengið nokkurt fé fyrir. En þessi vörn þeirra hefur alla tíð verið ófullkomin og ófullnægjandi, og hún verður það æ, því meir sem botnvörpuútvegurinn vex. Ég hef enga trú á því, að Danir vilji leggja fram meira fé til þessara varna, en þeir hafa gert til þessa. En þá liggur fyrir sú spurning, hvort vér eigum enn árum saman að horfa upp á það, að grunnmiðum vorum sé spillt, án þess að hefjast handa til þess að létta af landinu slíkum ófögnuði. Mér finnst þingið ekki geta lengur hlýtt allsendis aðgerðarlaust á hinar sáru kvartanir þjóðarinnar eða sjómannastéttarinnar um veiðispellin í landhelgi, vegna ónógra landhelgisvarna. Það hefur oft verið sagt, að það mætti koma þessum vörnum við á ódýrari hátt, en Dönum hefur tekizt. En löggjafarvaldið hefur aldrei gert neitt verulegt í þessu efni né hafizt handa til að taka að sér varnirnar. Af þessum ástæðum, sem nú eru taldar, hef ég leyft mér að bera frv. þetta fram fyrir hina hv. deild. Hér er nú að vísu ekki farið fram á, að þingið hefjist handa til svo skjótra framkvæmda í þessu máli sem æskilegast hefði verið, heldur aðeins að vér nú þegar gerum ráðstafanir til þess að geta innan skamms búið oss undir að hafa hönd í bagga með landhelgisvörninni. Og mér þótti þá liggja beinast við að nota það fé, er landssjóður fær sem sektarfé fyrir brot gegn lögum um botnvörpuveiðar í landhelgi. Það má, ef til vill segja, að það sé ekki mikið fé, sem fæst með frv. þessu, þótt að lögum verði. En ég vona, að eigi líði á mjög löngu, áður en vér getum tekið til starfa. Þetta sektarfé hefur verið æði mikið sum árin. Ég hef fengið skýrslu frá stjórnarráðinu um þessar sektir. Síðan um aldamótin hafa þær numið 322.237 kr. Það er auðsætt, að ef fé þessu hefði frá byrjun verið ráðstafað eins og fram á er farið í frv. þessu, þá hefðum vér nú getað tekið allverulegan þátt í landhelgisvörninni.

Það er ákveðið með lögum 10. nóv. 1901, að 1/3 hluti landhelgissektanna gangi í Fiskveiðasjóð Íslands. Þessu er ekki breytt í frv. mínu, heldur er ætlazt til, að afgangurinn, 2/3, renni í Landhelgissjóð Íslands.

Alþingi getur sjálft ráðið því, hvenær sjóður þessi tekur til starfa. En ég tel engan vafa á, að landið geti tekið þátt í strandgæzlu eftir 5–6 ár, ef sektirnar verða svipaðar og að undanförnu. Mér hefur verið sagt af mönnum, sem kynnt hafa sér þetta mál, að það mætti betur verja landið, en nú er gert með tveimur skipum með botnvörpungsstærð. Þótt kostnaðurinn við þetta kunni að þykja mikill, þá er hins vegar svo mikið í húfi, að mönnum má ekki vaxa þetta of mjög í augum, og það er með öllu óviðunandi að horfa fram á ókomna tímann, ef ekki er gert eitthvað til að kippa þessu í lag.“

Þetta voru ummæli þm. Ísaf., sr. Sigurðar í Vigur, á Alþingi árið 1913. Hann lýkur máli sínu með því að benda á, að þótt kostnaðurinn við íslenzka landhelgisgæzlu kunni að þykja mikill, þá sé hins vegar svo mikið í húfi, að með öllu sé óverjandi að hefjast ekki handa um framkvæmdir í málinu.

Það sannaðist fljótlega, að stofnun landhelgissjóðsins var hið mesta gæfuspor. Tekjur sjóðsins reyndust alldrjúgar, meðan Íslendingar höfðu engan eða litinn kostnað af gæzlunni, og þjóðin eignaðist fyrstu varðskip sín fyrir fé úr landhelgissjóði.

Með sambandslögunum árið 1918 var svo ákveðið, að Danir skyldu annast landhelgisgæzluna við Ísland, þangað til Íslendingar kysu að taka hana í eigin hendur.

Árið 1920 kaupir Björgunarfélag Vestmannaeyja gufuskipið Þór til gæzlustarfa í þágu vélbátaflotans við Vestmannaeyjar. Nokkru eftir að Þór var kominn í eigu Vestmanneyinga, var tekið að nota hann jafnframt við landhelgisgæzlu og naut útgerð hans þá nokkurs styrks úr ríkissjóði. Var skipið vopnað með einni fallbyssu árið 1924. Árið 1926 keypti ríkisstj. Þór og gerði hann síðan út sem varðskip. Þór var þannig fyrsta íslenzka varðskipið við Ísland. Var það skip 205 brúttósmálestir að stærð og ganghraði þess 8–81/2 sjómíla á klst. Þór strandaði í árslok 1928 og eyðilagðist. En fyrsta skipið, sem ríkisstj. Íslands lét smíða til landhelgisgæzlu, var varðskipið Óðinn. Var hann 512 brúttósmálestir að stærð og gekk 13 mílur á klst. Hann var vopnaður tveimur litlum fallbyssum. Skömmu síðar var hafin smíði á varðskipinu Ægi, sem var tæplega 500 smálestir og gekk einnig 13 sjómílur á klst. Ægir kom til Íslands um mitt ár 1929 og er enn í notkun við landhelgisgæzluna. Eftir að gamli Þór strandaði, var annað skip með sama nafni keypt í hans stað, og var það notað við landhelgisgæzluna um nokkurra ára skeið, en bæði annar Þór og gamli Óðinn voru seldir.

Danir tóku þátt í landhelgisgæzlu við Íslandsstrendur allt fram til ársins 1939, er síðari heimsstyrjöldin hófst. Þá kölluðu þeir varðskip sitt heim.

Í dag á íslenzka landhelgisgæzlan á að skipa sex skipum og bátum, en Þór, sem er 700 tonn á stærð og gengur 18 sjómílur, stærst þeirra og fullkomnast. Þá er Ægir, sem er 500 tonn að stærð og gengur 13 sjómílur. Ægir er, eins og áður er sagt, byggður árið 1929 og Þór árið 1951. Enn fremur hefur landhelgisgæzlan á að skipa varðbátunum Sæbjörgu, sem er 100 tonn að stærð, Óðni, 100 tonn, Maríu Júlíu, 130 tonn, og Albert, sem er um 200 tonn að stærð og er nýjasta varðskipið, byggt árið 1957. Loks hefur landhelgisgæzlan tekið vitaskipið Hermóð á leigu til landhelgisgæzlu, en það er byggt árið 1947 og er um 200 tonn að stærð. Ganghraði þessara varðbáta er yfirleitt frá 9 til 131/2 sjómíla. Er Albert sá varðbáturinn, sem bezt gengur.

Þegar landgrunnslögin höfðu verið sett árið 1948 og stefnan mörkuð í baráttunni fyrir verndun fiskimiðanna á landgrunninu umhverfis Ísland, var þáverandi ríkisstj. ljóst, að gera þyrfti raunhæfar ráðstafanir til þess að efla landhelgisgæzluna. Var þá gerður samningur um smíði varðskipsins Þórs. Var gert ráð fyrir því, að hann yrði gangbetri en öll þau skip, sem landhelgisgæzlan hafði áður átt. Bar og til þess brýna nauðsyn, þar sem ganghraði togara hafði aukizt verulega á undanförnum árum. Þór kom til landsins árið 1951, eins og fyrr segir.

Þegar flóum og fjörðum hafði verið lokað og fiskveiðitakmörkin færð út í 4 sjómílur árið 1952, þótti augljóst, að skipakostur landhelgisgæzlunnar væri ekki nægilega mikill þrátt fyrir byggingu Þórs. Árið 1956 flutti því þáverandi dómsmrh., hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, till. um það á Alþingi, að nýtt varðskip skyldi byggt. Var sú till. samþykkt hinn 28. marz þ. á. og ríkisstj, veitt þar með heimild til þess að hefja undirbúning að smíði nýs varðskips. Í till. var jafnframt heimilað að verja fé úr landhelgissjóði til byrjunarframkvæmda við smíði skipsins. Þessi heimild hefur því miður ekki enn þá verið notuð, og ekki hefur verið hafizt handa um byggingu nýs skips. Er það mjög illa farið. Fyrrverandi dómsmrh. hafði einnig forustu um það, að flugvél var keypt í þágu landhelgisgæzlunnar. Var hún tekin í notkun árið 1955, og er það mál allra, sem gerst þekkja þessi mál, að mjög mikið gagn hafi orðið af henni við gæzluna. Það var fyrst árið 1952, eftir að hin nýja friðunarreglugerð hafði tekið gildi, sem notkun flugvéla hófst að ráði við landhelgisgæzluna. Voru þá fyrst í stað notaðar leiguflugvélar við gæzluna, en síðan hefur fluggæzlan verið skipulögð betur og er nú þýðingarmikill þáttur í landhelgisgæzlunni.

Nú, þegar fiskveiðitakmörkin hafa á ný verið færð út, að þessu sinni út í 12 sjómílur, má öllum vera ljóst, að ekki er minni þörf á eflingu landhelgisgæzlunnar, heldur en þegar flóum og fjörðum var lokað og fiskveiðitakmörkin færð út í 4 sjómílur árið 1952. En því miður verður það að játast, að í þessum efnum stendur þjóðin nú mjög vanbúin. Íslendingar eiga nú aðeins 2–3 skip af þeirri stærð og með þeim ganghraða að geta talizt sæmilega fær um að annast landhelgisgæzluna. Við erum því ekki miklu betur á vegi staddir nú en fyrir 20–30 árum, þegar við höfðum á að skipa tveimur sæmilega ganggóðum 500 smálesta varðskipum.

Að sjálfsögðu ber ekki að vanmeta þátt litlu varðbátanna í landhelgisgæzlu og við björgunarstörf. Þeir hafa oft gert mikið gagn og sjómenn þeirra og stjórnendur komið fram af röskleika og þrótti. En allt bendir til þess, að breyttar aðstæður krefjist stærri og ganghraðari skipa. Engum kemur auðvitað til hugar, að skip hinnar íslenzku landhelgisgæzlu séu byggð til þess að heyja stríð og standa í vopnuðum átökum við herskip stórvelda. Landhelgisgæzla okkar er fyrst og fremst í því fólgin að verja fiskveiðitakmörkin og grunnmiðin fyrir ágengni togveiðiskipa. Um skeið hafa íslenzk varðskip að vísu staðið frammi fyrir kaldrifjuðu ofbeldi eins stærsta herskipaflota heimsins. Þau hafa verið hindruð í því að framkvæma löggæzlu á miðunum umhverfis landið. Smáþjóð eins og Íslendingar getur ekki miðað réttarvörzluna á fiskimiðum sínum við vopnuð átök við erlend herskip. En lífshagsmunir þjóðarinnar krefjast þess, að landhelgisgæzla hennar sé við venjulegar aðstæður fær um að verja fiskveiðitakmörkin og halda uppi lögákveðinni réttarvörzlu við strendur landsins. Sú réttarvarzla er snar þáttur í baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði sínu.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir til umr. og flutt er af 10 þm. Sjálfstfl., er lagt til, að ríkisstj. láti nú þegar hefjast handa um byggingu nýrra og fullkominna varðskipa, enn fremur að leigja þegar í stað hentug skip til eftirlits og verndar fiskiskipaflota Íslendinga við strendur landsins og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bægja þeirri hættu frá íslenzkum sjómönnum og skipum þeirra, sem átökin um fiskveiðitakmörkin hafa í för með sér. Skal ríkisstj. heimilað að verja fé úr landhelgissjóði og ríkissjóði til framkvæmdar þessum ráðstöfunum.

Það er skoðun flm. þessarar till., að óhjákvæmilegt sé að framkvæma þær ráðstafanir, sem till. gerir ráð fyrir. Alþingi hefur þegar fyrir tveimur árum lýst yfir þeirri skoðun sinni, að þörf muni vera á byggingu nýs varðskips. Allt bendir til þess, að ekki verði komizt hjá því að byggja tvö ný skip af svipaðri stærð og með álíka eða meiri ganghraða en Þór. Verkefni landhelgisgæzlunnar hafa stóraukizt með útfærslu fiskveiðitakmarkanna, og eftirlit hennar með bátaflotanum hlýtur einnig mjög að aukast með fjölgun báta og skipa. Gera má ráð fyrir, að nýtt varðskip, um 700 smálestir að stærð, búið fullkomnum tækjum, muni ekki kosta undir 25 millj. kr., miðað við núverandi verðlag. Er því hér um mjög veruleg fjárútlát að ræða. En í þeirri örlagaríku baráttu, sem þjóðin nú heyr fyrir rétti sínum til verndar fiskimiðunum umhverfis landið, má engra framkvæmanlegra úrræða láta ófreistað, til þess að unnt reynist að tryggja þennan rétt og halda uppi réttarvörzlu á íslenzkum yfirráðasvæðum. Í þessu sambandi kemur vel til athugunar að afla landhelgissjóði nýrra og aukinna tekna með sérstökum leiðum og létta þannig, ef unnt er, byrðar sjálfs ríkissjóðsins og útgjöld hans af landhelgisgæzlunni. Á s.l. ári mun nettókostnaður af landhelgisgæzlunni hafa numið um 16 millj. kr. Tekjur landhelgisgæzlunnar af sektarfé, björgunarlaunum og ýmiss konar aðstoðarstörfum, ásamt fiskirannsóknum, munu þá samtals hafa numið um 3.5 millj. kr. óhætt er að fullyrða, að þjóðin muni vilja leggja á sig eitthvert erfiði og fjárútlát til þess að efla landhelgisgæzluna. Á þarfir hennar hefur jafnan verið litið af skilningi og velvild af alþjóð. Til þess ber vissulega meiri nauðsyn nú, en nokkru sinni fyrr.

Þá er það og ljóst, að mikil og uggvænleg hætta vofir yfir vélbátaflota Íslendinga og veiðarfærum hans, þegar hann hefur haustog vetrarvertíð. Sú hætta stafar fyrst og fremst af hinum brezku togurum, sem mörgum er stjórnað af mönnum, sem bera óvildarhug í brjósti gegn Íslendingum fyrir ráðstafanir þeirra til verndar íslenzku fiskimiðunum. Á undanförnum áratugum hefur ágangur erlendra togara oft valdið íslenzkum bátasjómönnum verulegu tjóni. Veiðarfærum hefur verið spillt, og íslenzkir vélbátar hafa jafnvel verið sigldir niður, Íslenzkir sjómenn hafa farizt af völdum slíkra árekskra og stórkostlegt eignatjón orðið. Er þess skemmst að minnast, að á s.l. vori lá við borð, að brezkur togari sigldi niður lítinn vélbát út af Ísafjarðardjúpi. Það er því auðsætt, að sérstakar ráðstafanir verður að gera til þess nú, þegar skip landhelgisgæzlunnar eru önnum kafin við sjálf gæzlustörfin gagnvart erlendum landhelgisbrjótum, að vernda bátaflotann og veiðarfæri hans. Þess vegna leggjum við flm. þessarar þáltill. til, að leigð verði þegar í stað hentug skip til eftirlits og verndar fiskiskipaflotanum. Auðsætt er, að á vetrarvertíð verða slík eftirlitsskip með bátum að vera á öllum aðalveiðisvæðunum við strendur landsins.

Þá kemur það og til athugunar að auka fluggæzluna, bæði í þágu landhelgisgæzlunnar og vegna eftirlits með vélbátaflotanum. Margvíslegar aðrar ráðstafanir er einnig hægt að gera til þess að bægja yfirvofandi hættu frá sjómönnum vélbátaflotans og veiðarfærum þeirra. Sérstaka áherzlu ber að leggja á bætt talstöðvasamband og aukna árvekni í notkun talstöðva, bæði um borð í bátunum og í verstöðvum þeirra. Auðsætt er einnig, að þörf er fyllstu varfærni og aðgæzlu af hálfu allra skipstjórnarmanna bátaflotans gagnvart brezkum togurum. Loks má á það benda, að nauðsynlegt kann að reynast, að vátryggingarfélög hækki greiðslu sína til fiskibátanna fyrir gagnkvæmar björgunarráðstafanir. Undanfarin ár hafa þeir aðeins fengið smágreiðslur fyrir slíka aðstoð, og hafa þær ekki verið í neinu samræmi við útlagðan kostnað við björgunarstörfin.

Það er skoðun flm. þessarar till., að það uggvænlega ástand, sem nú ríkir á íslenzkum fiskimiðum og skapazt hefur með ofbeldisaðgerðum Breta, hljóti að vera þjóðinni hvatning til þess að standa sem bezt saman um landhelgisgæzlu sína og láta einskis ófreistað í því efni að tryggja sem bezt og raunhæfast eftirlit með íslenzka bátaflotanum og veiðarfærum hans, sem mikil og geigvænleg hætta vofir yfir.

Efling landhelgisgæzlunnar hefur allt frá upphafi verið þjóðinni hjartfólgið mál, mikið hagsmuna- og metnaðarmál. Við megum ekki, þrátt fyrir það að íslenzk réttarvarzla við strendur landsins hefur að verulegu leyti verið brotin niður með ofbeldi um nær tveggja mánaða skeið, láta undan fallast að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að geta haldið uppi landhelgisgæzlu með fullum árangri við venjulegar aðstæður. Eins og íslenzka þjóðin stendur öll sameinuð í baráttunni gegn rányrkjunni, eins verða nú þing og stjórn að hefjast handa um skjótar ráðstafanir til eflingar íslenzkri réttarvörzlu og lífsnauðsynlegu eftirliti með fiskiskipaflotanum.

Flm. þessarar till. vænta því, að hún fái góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu á Alþingi. Í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar getur Alþingi ekki skipzt í andstæða flokka. Í því skiptir aðeins eitt meginmáli, að standa trúan vörð um heill og hagsmuni alþjóðar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.